Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Berið elsku hvert til annars‘

‚Berið elsku hvert til annars‘

‚Berið elsku hvert til annars‘

„Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — JÓHANNES 13:35.

1. Hvaða eiginleika lagði Jesús áherslu á skömmu fyrir dauða sinn?

„BÖRNIN mín.“ (Jóhannes 13:33) Jesús ávarpaði postulana með þessum blíðlegu orðum kvöldið áður en hann dó. Í guðspjöllunum kemur hvergi fram að hann hafi áður notað þetta hlýlega orðalag um lærisveinana. En á þessu sérstaka kvöldi vildi hann nota þetta fallega ávarp til að sýna hve honum þótti innilega vænt um fylgjendur sína. Reyndar minntist Jesús um 30 sinnum á kærleika þetta sama kvöld. Af hverju lagði hann svona mikla áherslu á þennan eiginleika?

2. Hvers vegna er svona mikilvægt að kristnir menn sýni kærleika?

2 Jesús útskýrði hvers vegna kærleikur er svona mikilvægur. „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar,“ sagði hann, „ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35; 15:12, 17) Að vera fylgjandi Krists helst í hendur við það að sýna bróðurkærleika. Sannkristnir menn auðkenna sig ekki með einkennandi klæðaburði eða óvenjulegum siðum, heldur með hlýjum og ástúðlegum kærleika sem þeir bera hver til annars. Í námsgreininni á undan var minnst á þrjár meginkröfur sem gerðar eru til lærisveina Krists. Önnur krafan er að hafa þennan afburðakærleika. Hvað getur hjálpað okkur að uppfylla þessa kröfu?

„Að taka enn meiri framförum“

3. Hvaða áminningu gaf Páll postuli í sambandi við kærleika?

3 Þessi einstaki kærleikur var augljós meðal fylgjenda Krists á fyrstu öldinni og hann er það einnig núna meðal sannra lærisveina Krists. Páll postuli sagði kristnum mönnum á fyrstu öld: „Ekki hafið þér þess þörf, að ég skrifi yður um bróðurkærleikann, því Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan. Það gjörið þér einnig öllum bræðrum.“ En samt bætti Páll við: ‚Takið enn meiri framförum.‘ (1. Þessaloníkubréf 3:12; 4:9, 10) Við þurfum líka að taka áminningu Páls til okkar og reyna að „taka enn meiri framförum“ í að sýna hvert öðru kærleika.

4. Að hverjum ættum við að huga sérstaklega samkvæmt orðum Jesú og Páls?

4 Í sama innblásna bréfi hvatti Páll trúsystkini sín til að ‚hughreysta ístöðulitla‘ og ‚taka að sér þá, sem óstyrkir eru.‘ (1. Þessaloníkubréf 5:14) Við annað tækifæri minnti hann kristna menn á að ‚hinum styrku sé skylt að bera veikleika hinna óstyrku.‘ (Rómverjabréfið 15:1) Jesús hvatti fólk líka til að hjálpa hinum óstyrku. Eftir að hann hafði sagt fyrir að Pétur myndi yfirgefa sig kvöldið sem hann yrði handtekinn sagði hann honum: „Styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við.“ Af hverju? Af því að þeir hefðu þá líka yfirgefið Jesú og þyrftu á hjálp að halda. (Lúkas 22:32; Jóhannes 21:15-17) Af þessu sjáum við að orð Guðs hvetur okkur til að sýna þeim kærleika sem eru andlega veikburða og hafa kannski fjarlægst kristna söfnuðinn. (Hebreabréfið 12:12) Hvers vegna ættum við að gera það? Tvær lýsandi dæmisögur, sem Jesús sagði, gefa okkur svarið við því.

Týndur sauður og týnd drakma

5, 6. (a) Hvaða tvær stuttu dæmisögur sagði Jesús? (b) Hvað segja þessar dæmisögur okkur um Jehóva?

5 Jesús sagði tvær stuttar dæmisögur til að kenna áheyrendum sínum hvaða viðhorf Jehóva hefði til þeirra sem hafa fjarlægst söfnuðinn. Fyrri sagan fjallaði um hirði. Jesús sagði: „Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann? Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ‚Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.‘ Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.“ — Lúkas 15:4-7.

6 Seinni dæmisagan fjallaði um konu. Jesús sagði: „Kona, sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún . . . ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega, uns hún finnur hana? Og er hún hefur fundið hana, kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: ‚Samgleðjist mér, því að ég hef fundið drökmuna, sem ég týndi.‘ Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun.“ — Lúkas 15:8-10.

7. Hvað tvennt getum við lært af dæmisögunum um týnda sauðinn og týndu drökmuna?

7 Hvað getum við lært af þessum stuttu dæmisögum? Þær sýna okkur (1) hvaða viðhorf við ættum að hafa til þeirra sem eru orðnir óstyrkir í trúnni og (2) hvað við ættum að gera til að hjálpa þeim. Við skulum skoða þetta tvennt.

Týnd en mikils metin

8. (a) Hver voru viðbrögð hirðisins og konunnar? (b) Hvað segja viðbrögðin okkur um skoðun þeirra á hinu týnda?

8 Í báðum dæmisögunum hafði eitthvað týnst, en taktu eftir viðbrögðum eigendanna. Hirðirinn sagði ekki: ‚Hvað er einn sauður þegar ég á 99 aðra? Ég kemst alveg af án hans.‘ Konan sagði ekki: ‚Hvaða máli skiptir þessi eina drakma? Ég er sátt við þær 9 sem ég á eftir.‘ Nei, hirðirinn leitaði að týnda sauðnum eins og hann væri eini sauðurinn sem hann ætti. Og konunni leið eins og þetta væri eina drakman hennar. Í báðum tilvikunum var hið týnda mjög verðmætt í huga eigandans. Hvað segir þetta okkur?

9. Hvað endurspegla áhyggjur hirðisins og konunnar?

9 Taktu eftir lokaorðum Jesú í báðum líkingunum: „Þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun“ og „þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun.“ Áhyggjur hirðisins og konunnar endurspegla því að nokkru leyti tilfinningar Jehóva og himneskra engla hans. Það sem hirðirinn og konan höfðu týnt var áfram mjög dýrmætt í augum þeirra. Að sama skapi eru þeir sem hafa fjarlægst og misst samband við söfnuðinn enn þá dýrmætir í augum Jehóva. (Jeremía 31:3) Þótt þetta fólk sé andlega veikburða er það ekki endilega uppreisnargjarnt og kannski heldur það enn þá kröfur Jehóva að einhverju leyti. (Sálmur 119:176; Postulasagan 15:29) Eins og hér áður fyrr er Jehóva seinn til að ‚útskúfa þeim frá augliti sínu.‘ — 2. Konungabók 13:23.

10, 11. (a) Hvernig ættum við að líta á þá sem hafa fjarlægst söfnuðinn? (b) Hvernig getum við sýnt að okkur er umhugað um þá, samkvæmt dæmisögunum tveimur sem Jesús sagði?

10 Okkur er innilega annt um hina óstyrku sem hafa fjarlægst kristna söfnuðinn, ekkert síður en Jehóva og Jesú. (Esekíel 34:16; Lúkas 19:10) Við lítum ekki svo á að andlega veikburða einstaklingi sé ekki viðbjargandi heldur lítum við á hann sem týndan sauð. Við hugsum ekki: ‚Af hverju að hafa áhyggjur af hinum óstyrka? Söfnuðinum gengur vel án hans.‘ Við ættum frekar að hafa sama viðhorf og Jehóva og líta svo á að þeir sem hafa fjarlægst söfnuðinn en vilja koma aftur séu afar dýrmætir.

11 En hvernig getum við sýnt að okkur er umhugað um þá? Dæmisögurnar tvær gefa til kynna að við getum gert það með því að (1) taka frumkvæðið, (2) vera nærgætin og (3) leggja okkur einlæglega fram. Við skulum skoða þetta hvert fyrir sig.

Taktu frumkvæðið

12. Hvað segja orðin „fer eftir þeim, sem týndur er“ um viðhorf hirðisins?

12 Í fyrri líkingunni segir Jesús að hirðirinn ‚fari eftir þeim sem týndur er.‘ Hann tekur frumkvæðið og leggur eitthvað á sig til að finna týnda sauðinn. Erfiðleikar, hættur og fjarlægðir halda ekki aftur af honum. Hirðirinn leitar þangað til „hann finnur hann.“ — Lúkas 15:4.

13. Hvað gerðu trúfastir menn forðum til að hjálpa hinum óstyrku og hvernig getum við líkt eftir fordæmi þeirra?

13 Eins verður sterkari aðilinn oft að taka frumkvæðið ef hann ætlar að ná til þess sem þarf á uppörvun að halda. Trúfastir menn forðum daga gerðu sér grein fyrir þessu. Þegar Jónatan, sonur Sáls konungs, tók eftir því að Davíð góðvinur hans þurfti á uppörvun að halda „tók [hann] sig upp og fór á fund Davíðs í Hóres og hughreysti hann í nafni Guðs.“ (1. Samúelsbók 23:15, 16) Öldum síðar, þegar Nehemía landstjóri tók eftir því að sumir Gyðinganna voru niðurdregnir, „reis [hann] upp“ og hvatti þá til að ‚minnast Jehóva.‘ (Nehemíabók 4:14) Við ættum líka að ‚rísa upp‘ eða taka frumkvæðið og styrkja þá sem eru óstyrkir. En hverjir í söfnuðinum ættu að gera þetta?

14. Hverjir í kristna söfnuðinum ættu að aðstoða hina óstyrku?

14 Kristnir öldungar hafa einkum þá ábyrgð að ‚stæla hinar máttvana hendur, styrkja hin skjögrandi hné og segja hinum ístöðulausu: „Verið hughraustir, óttist eigi.“‘ (Jesaja 35:3, 4; 1. Pétursbréf 5:1, 2) En taktu samt eftir því að Páll hvetur ekki aðeins öldungana til þess að ‚hughreysta ístöðulitla‘ og ‚taka að sér þá sem óstyrkir eru,‘ heldur beinir hann orðum sínum til allra í „söfnuði Þessaloníkumanna.“ (1. Þessaloníkubréf 1:1; 5:14) Allir kristnir menn hafa því það verkefni að aðstoða þá sem eru óstyrkir. Þeir ættu að vera eins og hirðirinn í dæmisögunni og finna hjá sér hvöt til að ‚fara eftir þeim sem týndur er.‘ Þetta skilar auðvitað bestum árangri ef það er gert í samstarfi við öldungana. Gætir þú lagt þitt að mörkum til að aðstoða einhvern óstyrkan í söfnuðinum þínum?

Vertu nærgætinn

15. Hvers vegna tók hirðirinn sauðinn upp og lagði hann á herðar sér?

15 Hvað gerir hirðirinn þegar hann finnur loksins týnda sauðinn? „Hann [leggur] sauðinn á herðar sér.“ (Lúkas 15:5) Þetta litla atriði er mjög lýsandi og hjartnæmt. Sauðurinn var kannski búinn að ráfa um í marga daga og nætur á ókunnugu svæði þar sem hann var jafnvel berskjaldaður fyrir ljónum á veiðum. (Jobsbók 38:39, 40) Hann var eflaust máttfarinn þar sem hann hafði ekki fengið nægt fóður. Hann var einfaldlega of veikburða til að yfirstíga þær hindranir sem hann átti eftir að mæta á leiðinni til baka. Þess vegna beygir hirðirinn sig niður, lyftir sauðnum varlega upp og ber hann yfir hindranirnar alla leið aftur til hjarðarinnar. Hvernig getum við endurspeglað umhyggjuna sem þessi fjárhirðir sýnir?

16. Af hverju ættum við að sýna sömu blíðu og hirðirinn sýndi týnda sauðnum?

16 Sá sem hefur fjarlægst söfnuðinn gæti verið úrvinda í andlegum skilningi. Eins og týndi sauðurinn, hefur hann kannski ráfað stefnulaust um í óvinveittum heimi nútímans. Þegar hann nýtur ekki verndar hjarðarinnar, kristna safnaðarins, er hann berskjaldaðri en nokkru sinni áður fyrir árásum djöfulsins sem „gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.“ (1. Pétursbréf 5:8) Þar að auki er hann máttvana vegna þess að hann hefur ekki fengið andlega fæðu. Þess vegna er hann líklega of veikburða til að geta yfirstigið óstuddur þær hindranir sem hann á eftir að mæta á leiðinni aftur til safnaðarins. Við verðum því að beygja okkur niður og lyfta hinum óstöðuga varlega upp og bera hann til baka, ef svo má að orði komast. (Galatabréfið 6:2) Hvernig getum við gert það?

17. Hvernig getum við líkt eftir Páli postula þegar við heimsækjum þann sem er óstyrkur?

17 Páll postuli sagði: „Hver er sjúkur, án þess að ég sé sjúkur?“ (2. Korintubréf 11:29; 1. Korintubréf 9:22) Páll fann til með fólki, þar á meðal hinum óstyrku. Við viljum sýna hinum óstyrku sömu bróðurlegu umhyggjuna. Þegar við heimsækjum andlega veikburða kristin mann skulum við fullvissa hann um að hann sé verðmætur í augum Jehóva og að trúsystkini hans sakni hans sárlega. (1. Þessaloníkubréf 2:17) Látum hann vita að þau séu fús til að styðja hann og ‚vera honum í nauðum sem bróðir.‘ (Orðskviðirnir 17:17; Sálmur 34:19) Einlægt viðmót okkar gæti að lokum orðið honum til uppörvunar og smám saman gert honum kleift að snúa aftur til hjarðarinnar. Hvað ættum við þá að gera næst? Dæmisagan um konuna og týndu drökmuna bendir okkur á það.

Leggðu þig einlæglega fram

18. (a) Af hverju gaf konan í dæmisögunni ekki upp alla von? (b) Hvernig lagði konan sig fram og með hvaða árangri?

18 Konan sem týnir drökmunni veit að það verður erfitt að finna hana aftur en ekki vonlaust. Ef hún hefði misst drökmuna á kjarrivöxnum bletti eða í djúpt gruggugt stöðuvatn hefði hún sennilega gefist upp og hugsað sem svo að ómögulegt væri að finna hana aftur. En þar sem hún veit að drakman hlýtur að vera einhvers staðar á heimilinu, innan seilingar, leggur hún sig alla fram og leitar vandlega. (Lúkas 15:8) Fyrst kveikir hún á lampa til að lýsa upp dimmt húsið. Síðan sópar hún gólfið í von um að heyra eitthvað klingja. Að lokum leitar hún í hverjum krók og kima þangað til ljósið í lampanum glampar á silfurpeningnum. Einbeitt viðleitni konunnar borgaði sig.

19. Hvað þarf að gera samkvæmt dæmisögunni um konuna og týndu drökmuna til að hjálpa óstyrkum?

19 Þessi þáttur dæmisögunnar minnir okkur á að við erum fær um að sinna þeirri biblíulegu skyldu okkar að hjálpa óstyrkum kristnum mönnum. En við gerum okkur líka grein fyrir því að það krefst áreynslu. Páll postuli sagði öldungunum í Efesus: „Með því að vinna þannig ber oss að annast óstyrka.“ (Postulasagan 20:35a) Hafðu hugfast að konan finnur drökmuna ekki með því að leita lauslega eða tilviljunarkennt á heimilinu. Nei, henni tekst ætlunarverk sitt af því að hún leitar kerfisbundið „uns hún finnur hana.“ Á sama hátt verður viðleitni okkar að vera einbeitt og stefnuföst þegar við reynum að styrkja þann sem er andlega veikburða. Hvað getum við gert?

20. Hvernig er hægt að aðstoða óstyrka?

20 Hvernig getum við hjálpað óstyrkum að byggja upp trú og þakklæti? Einkabiblíunám í viðeigandi kristnu riti gæti verið einmitt það sem þarf. Ef við aðstoðum einhvern óstyrkan við biblíunám gerir það okkur kleift að veita honum markvissa og dyggilega aðstoð. Sennilega er starfshirðirinn í bestu aðstöðunni til að ákveða hver gæti veitt þessa aðstoð. Hann gæti komið með tillögur um það hvaða efni mætti fara yfir og hvaða rit gæti verið gagnlegast. Konan í dæmisögunni notaði gagnleg verkfæri til að vinna ætlunarverk sitt. Eins höfum við verkfæri sem gera okkur kleift að aðstoða óstyrka og sinna þessari ábyrgð sem Guð hefur lagt okkur á herðar. Það getur verið mjög gagnlegt að fara yfir bókina Sameinuð í tilbeiðslu á hinum eina sanna Guði eða Draw Close to Jehovah (Nálægðu þig Jehóva). *

21. Hvernig njóta allir góðs af því þegar óstyrkum er veitt aðstoð?

21 Allir njóta góðs af því þegar óstyrkum er veitt aðstoð. Sá sem verið er að hjálpa nýtur þeirrar gleði að sameinast sönnum vinum sínum á ný. Við njótum þeirrar innilegu gleði sem fæst aðeins með því að gefa af sér. (Lúkas 15:6, 9; Postulasagan 20:35b) Söfnuðurinn í heild verður samheldnari þegar allir safnaðarmenn sýna einlægan áhuga hver á öðrum. Og umfram allt er þetta umhyggjusömum hirðum okkar, Jehóva og Jesú, til heiðurs því að löngun þeirra til að styðja hina veiku endurspeglast í þjónum þeirra á jörðinni. (Sálmur 72:12-14; Matteus 11:28-30; 1. Korintubréf 11:1; Efesusbréfið 5:1) Þetta eru svo sannarlega góðar ástæður sem við höfum til að halda áfram að ‚bera elsku hvert til annars.‘

[Neðanmáls]

^ gr. 20 Gefnar út af Vottum Jehóva.

Geturðu útskýrt?

• Af hverju er nauðsynlegt að hvert og eitt okkar sýni kærleika?

• Af hverju ættum við að sýna óstyrkum kærleika?

• Hvað getum við lært af dæmisögunum um týnda sauðinn og týndu drökmuna?

• Hvað getum við gert til að aðstoða óstyrka?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 24, 25]

Þegar við hjálpum óstyrkum tökum við frumkvæðið, erum nærgætin og leggjum okkur einlæglega fram.

[Mynd á blaðsíðu 24, 25]

Allir njóta góðs af því þegar óstyrkum er veitt aðstoð.