Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Verið stöðug í orði mínu‘

‚Verið stöðug í orði mínu‘

‚Verið stöðug í orði mínu‘

„Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir.“ — JÓHANNES 8:31.

1. (a) Hvað skildi Jesús eftir sig á jörðinni þegar hann sneri aftur til himna? (b) Hvaða spurningar ætlum við að skoða betur?

ÞEGAR Jesús Kristur, stofnandi kristninnar, sneri aftur til himna lét hann ekki eftir sig á jörðinni bækur, minnisvarða eða auðlegð. Hann lét eftir sig lærisveina og ákveðnar kröfur sem lærisveinar hans verða að uppfylla. Í Jóhannesarguðspjalli finnum við þrjár mikilvægar kröfur sem Jesús sagði að fólk yrði að uppfylla ef það ætlaði að fylgja honum. Hverjar eru þessar kröfur? Hvað getum við gert til að uppfylla þær? Og hvernig getum við gengið úr skugga um að við séum sjálf hæf til að vera lærisveinar Krists? *

2. Hvað verða þeir að gera sem vilja vera lærisveinar Jesú eins og fram kemur í Jóhannesarguðspjalli?

2 Um sex mánuðum fyrir dauða sinn fór Jesús upp til Jerúsalem og prédikaði fyrir mannfjöldanum sem hafði safnast þar saman til að halda hina vikulöngu laufskálahátíð. Árangurinn var sá að þegar hátíðin var hálfnuð „tóku margir [af alþýðu manna] að trúa á hann.“ Jesús hélt áfram að prédika og á síðasta degi hátíðarinnar ‚fóru margir fleiri að trúa á hann.‘ (Jóhannes 7:10, 14, 31, 37; 8:30) Við þetta tækifæri beindi Jesús athyglinni að þeim sem tekið höfðu trú og lagði fram mjög mikilvæga kröfu sem þeir yrðu að uppfylla til að verða lærisveinar hans. Jóhannes postuli skráði þessa kröfu niður: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir.“ — Jóhannes 8:31.

3. Hvaða eiginleika þurfa menn að hafa til að vera „stöðugir í orði [Jesú]“?

3 Með þessum orðum var Jesús ekki að gefa til kynna að hina nýju fylgjendur hans skorti trú heldur að þeir gætu orðið sannir lærisveinar hans ef þeir væru stöðugir í orði hans eða sýndu þolgæði. Þeir höfðu tekið við orði hans en núna þurftu þeir að vera stöðugir í því. (Jóhannes 4:34; Hebreabréfið 3:14) Jesús taldi þolgæði svo mikilvægt fyrir fylgjendur sína að í síðasta samtali sínu við postulana, sem skráð er í Jóhannesarguðspjalli, sagði hann tvisvar við einn þeirra: „Haltu áfram að fylgja mér.“ (Jóhannes 21:19, 22, NW) Margir frumkristnir menn gerðu það. (2. Jóhannesarbréf 4) Hvað gerði þeim kleift að vera þolgóðir?

4. Hvað gerði frumkristnum mönnum kleift að vera þolgóðir?

4 Jóhannes postuli, sem var trúfastur lærisveinn Krists í um sjö áratugi, benti á eitt mikilvægt atriði. Hann hrósaði trúföstum kristnum mönnum og sagði: „Þér eruð styrkir og Guðs orð er stöðugt í yður og þér hafið sigrað hinn vonda.“ Þessir lærisveinar Krists voru þolgóðir eða stöðugir í orði Guðs, af því að orð Guðs var stöðugt í þeim. Þeim var innilega annt um orð Guðs. (1. Jóhannesarbréf 2:14, 24) Við verðum einnig að ganga úr skugga um að orð Guðs sé stöðugt í okkur ef við ætlum að vera ‚staðföst allt til enda.‘ (Matteus 24:13) Hvernig getum við gert það? Jesús sagði dæmisögu sem veitir okkur svarið við því.

‚Að heyra orðið‘

5. (a) Hvaða fjórar mismunandi tegundir jarðvegs talar Jesús um í dæmisögu sinni? (b) Hvað tákna sæðið og jarðvegurinn í dæmisögu Jesú?

5 Jesús sagði dæmisögu um sáðmann sem sáir sæði. Hún er skráð í Matteusar-, Markúsar- og Lúkasarguðspjalli. (Matteus 13:1-9, 18-23; Markús 4:1-9, 14-20; Lúkas 8:4-8, 11-15) Þegar við lesum þessar frásögur sjáum við að aðalinntak dæmisögunnar er að sams konar sæði fellur í mismunandi jarðveg með ólíkum árangri. Fyrsti jarðvegurinn er harður, annar er grunnur og sá þriðji þakinn þyrnum. Fjórði jarðvegurinn er hins vegar ‚góður,‘ ólíkt hinum þremur. Sjálfur bendir Jesús á að sæðið sé boðskapurinn um ríkið, sem er að finna í orði Guðs, og að jarðvegurinn sé fólk með mismunandi hjartalag. Fólkið, sem hinn mismunandi jarðvegur táknar, hefur ýmislegt sameiginlegt en þeir sem góði jarðvegurinn táknar hafa hins vegar persónueiginleika sem greinir þá frá hinum.

6. (a) Að hvaða leyti er fjórði jarðvegurinn í dæmisögu Jesú ólíkur hinum þremur og hvað þýðir það? (b) Hvað er nauðsynlegt ef við ætlum að sýna þolgæði sem lærisveinar Krists?

6 Í frásögunni í Lúkasi 8:12-15 kemur fram að í öll fjögur skiptin ‚heyrir fólkið orðið.‘ En þeir sem hafa ‚göfugt og gott hjarta‘ gera meira en að „heyra orðið.“ Þeir ‚geyma það og bera ávöxt með stöðuglyndi.‘ Góða jörðin er mjúk og djúp og þar getur sæðið fest rætur, spírað og borið ávöxt. (Lúkas 8:8) Það er eins með þá sem hafa gott hjarta, þeir skilja orð Guðs, kunna að meta það og tileinka sér það. (Rómverjabréfið 10:10; 2. Tímóteusarbréf 2:7) Orð Guðs er stöðugt í þeim. Þess vegna bera þeir ávöxt með stöðuglyndi. Það er því nauðsynlegt að láta sér innilega annt um orð Guðs ef við ætlum að sýna þolgæði sem lærisveinar Krists. (1. Tímóteusarbréf 4:15) En hvernig getum við fengið slíkar mætur á orði Guðs?

Hjartalag og hugleiðing

7. Hvað er oft sett í samband við gott hjarta?

7 Taktu eftir því hvað Biblían setur oft í samband við gott hjarta. „Hjarta hins réttláta íhugar, hverju svara skuli.“ (Orðskviðirnir 15:28) „Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn.“ (Sálmur 19:15) „Ígrundun hjarta míns er hyggindi.“ — Sálmur 49:4.

8. (a) Hvað eigum við að forðast þegar við lesum í Biblíunni og um hvað eigum við að leggja okkur fram? (b) Hvaða blessun hljótum við ef við hugleiðum orð Guðs í bænarhug? (Takið með rammagreinina ‚Staðföst í sannleikanum.‘)

8 Við verðum líka, eins og þessir biblíuritarar, að hugleiða orð Guðs og verk með þakklæti og í bænarhug. Þegar við lesum Biblíuna eða biblíutengd rit ættum við ekki að hegða okkur eins og ferðamenn sem flýta sér frá einum stað til annars, taka myndir af öllu en gleyma að njóta fegurðarinnar. Þegar við nemum Biblíuna ættum við öllu heldur að gefa okkur tíma til að stoppa og njóta útsýnisins, ef svo má að orði komast. * Orð Guðs snertir hjarta okkar þegar við hugleiðum í ró og næði það sem við lesum. Það hreyfir við tilfinningum okkar og mótar hugsunina. Það fær okkur líka til að tjá Guði innstu hugsanir okkar í bæn. Þannig styrkjum við sambandið við Jehóva og kærleikur okkar til hans fær okkur til að halda áfram að fylgja Jesú, jafnvel við erfiðar aðstæður. (Matteus 10:22) Það er greinilega mjög mikilvægt að hugleiða það sem Guð segir ef við ætlum að vera staðföst allt til enda. — Lúkas 21:19.

9. Hvernig getum við séð til þess að hjarta okkar haldi áfram að vera móttækilegt fyrir orði Guðs?

9 Dæmisaga Jesú minnir okkur einnig á að ýmislegt getur komið í veg fyrir að sæðið, orð Guðs, vaxi. Ef við ætlum að vera trúfastir lærisveinar verðum við þess vegna að (1) bera kennsl á þær hindranir sem slæmi jarðvegurinn í dæmisögunni táknaði og (2) reyna markvisst að eyða þeim eða forðast þær. Þannig getum við séð til þess að hjarta okkar haldi áfram að vera móttækilegt fyrir sæði Guðsríkis og haldi áfram að bera ávöxt.

„Hjá götunni“ — að vera upptekinn

10. Lýstu fyrsta jarðveginum í dæmisögu Jesú og útskýrðu hvað hann táknar.

10 Fyrsti jarðvegurinn, sem sæðið fellur í, er „hjá götunni“ þar sem sæðið er „fótum troðið.“ (Lúkas 8:5) Jarðvegur meðfram stíg, sem liggur í gegnum kornakur, er mjög niðurtroðinn því að margir ganga þar um. (Markús 2:23) Þeir sem leyfa erli og amstri umheimsins að taka of mikið af tíma sínum og kröftum gætu orðið of uppteknir til að rækta með sér innilegan kærleika til orðs Guðs. Þeir heyra það en hugleiða það ekki. Þess vegna tekur hjarta þeirra ekki við því. Áður en þeir ná að rækta með sér kærleika til orðs Guðs „kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir.“ (Lúkas 8:12) Er hægt að koma í veg fyrir þetta?

11. Hvernig getum við komið í veg fyrir að hjarta okkar verði eins og harður jarðvegur?

11 Það er hægt að gera ýmislegt til að koma í veg fyrir að hjartað verði eins og ófrjói jarðvegurinn við götuna. Það er hægt að mýkja troðna og harða jörð og gera hana frjósama með því að plægja hana og beina umferðinni í aðra átt. Hjartað getur einnig orðið eins og góð og frjósöm jörð ef við gefum okkur tíma til að nema og hugleiða orð Guðs. Lykillinn er að við verðum ekki of upptekin af hinum hversdagslegu hlutum lífsins. (Lúkas 12:13-15) Sjáðu öllu heldur til þess að þú hafir nægan tíma til að hugleiða ‚þá hluti sem máli skipta.‘ — Filippíbréfið 1:9-11.

„Á klöpp“ — að vera hræddur

12. Hver er raunveruleg ástæða þess að spíran í öðrum jarðveginum visnar?

12 Þegar sæðið fellur í næsta jarðveginn liggur það ekki bara á yfirborðinu eins og í fyrra skiptið heldur skýtur það rótum og tekur að spíra. En þegar sólin kemur upp visnar spíran í hitanum af sólinni. En taktu eftir því að hitinn er ekki ástæðan fyrir því að spíran visnar. Við vitum að plantan sem óx upp í góðu jörðinni var líka í sólinni en hún visnaði ekki — hún dafnaði vel. Hver er munurinn? Jesús segir okkur að spíran visni ‚því að hún hafði ekki djúpa jörð‘ og ‚engan raka.‘ (Matteus 13:5, 6; Lúkas 8:6) Undir efsta lagi moldarinnar var „klöpp“ sem kom í veg fyrir að sæðið festi nægilega djúpar rætur til að finna raka og stöðugleika. Spíran visnar af því að jarðvegurinn er grunnur.

13. Hverjir eru eins og grunnur jarðvegur og hver er raunverulega ástæðan fyrir viðbrögðum þeirra?

13 Þessi hluti dæmisögunnar táknar þá sem „taka orðinu með fögnuði“ og fylgja Jesú kostgæfilega „um stund.“ (Lúkas 8:13) En þegar þeir verða berskjalda fyrir eldheitri sólinni, eða ‚þrengingum og ofsóknum,‘ verða þeir svo hræddir að þeir missa gleðina og kraftinn og gefast upp á því að fylgja Kristi. (Matteus 13:21) En ofsóknirnar eru hins vegar ekki raunverulega ástæðan fyrir óttanum. Við vitum að milljónir kristinna lærisveina eru trúfastar þrátt fyrir ýmiss konar þrengingar. (2. Korintubréf 2:4; 7:5) Raunveruleg ástæða þess að sumir verða hræddir og falla frá er sú að hjarta þeirra er eins og klöpp og því geta þeir ekki hugleitt jákvæða og andlega hluti nægilega vel. Þar af leiðandi er kærleikurinn, sem þeir bera til Jehóva og orðs hans, of yfirborðskenndur og veikur til að standast andstöðu. Hvernig getum við komið í veg fyrir að þetta gerist?

14. Hvað verðum við að gera til að koma í veg fyrir að hjarta okkar verði eins og grunnur jarðvegur?

14 Við þurfum að ganga úr skugga um að engar hindranir séu í hjarta okkar sem líkja mætti við klöpp, eins og til dæmis rótgróin biturð, falin eigingirni eða aðrar slíkar tilfinningar. Ef hindranir sem þessar eru þegar til staðar getur krafturinn í orði Guðs fjarlægt þær. (Jeremía 23:29; Efesusbréfið 4:22; Hebreabréfið 4:12) Síðan getur ‚hið gróðursetta orð‘ fest rætur djúpt í hjarta okkar ef við hugleiðum það í bænarhug. (Jakobsbréfið 1:21) Þetta gefur okkur kraft til að takast á við erfiðleika og hugrekki til að vera trúföst þrátt fyrir prófraunir.

„Meðal þyrna“ — að hafa tvískipt hjarta

15. (a) Af hverju verðskuldar þriðji jarðvegurinn í dæmisögu Jesú sérstaka athygli okkar? (b) Hvað gerist að lokum í þriðja jarðveginum og hvers vegna?

15 Þriðji jarðvegurinn, sem er með þyrnunum, verðskuldar sérstaka athygli okkar því að hann er að vissu leyti líkur góða jarðveginum. Eins og í góðu jörðinni skýtur sæðið rótum og spírar. Þegar plönturnar í þessum tveimur mismunandi jarðvegum byrja að vaxa er ekki að sjá neinn mun. En með tímanum skapast ástand sem verður að lokum til þess að plantan kafnar. Jarðvegurinn verður þakinn þyrnum. Þegar unga plantan kemur upp úr moldinni þarf hún að keppa við ‚þyrnana sem spretta einnig.‘ Um tíma berjast báðar tegundirnar um næringu, ljós og rými en að lokum taka þyrnarnir yfir og ‚kæfa‘ plöntuna. — Lúkas 8:7.

16. (a) Hverjir líkjast jarðveginum með þyrnunum? (b) Hvað tákna þyrnarnir samkvæmt frásögunum í guðspjöllunum þremur? — Sjá neðanmáls.

16 Hverjir líkjast jarðveginum með þyrnunum? Jesús segir: „Það er féll meðal þyrna, merkir þá er heyra, en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt.“ (Lúkas 8:14) Sæði sáðmannsins og þyrnarnir vaxa í jarðveginum á sama tíma. Það er eins með suma sem reyna að taka bæði við orði Guðs og „nautnum lífsins“ á sama tíma. Sannleikanum í orði Guðs hefur verið sáð í hjarta þeirra en það er svo margt annað sem keppir um athyglina. Táknrænt hjarta þeirra er tvískipt. (Lúkas 9:57-62) Þetta kemur í veg fyrir að þeir gefi sér nægan tíma til að hugleiða orð Guðs vandlega og í bænarhug. Þeir tileinka sér ekki orð Guðs að fullu og þess vegna hafa þeir ekki hið innilega þakklæti sem þarf til að standa stöðugir. Smám saman fara veraldleg markmið að skyggja á andleg viðfangsefni og með tímanum „kafna“ þau alveg. * Þetta eru sorgleg málalok fyrir þá sem elska Jehóva ekki af heilum hug. — Matteus 6:24; 22:37.

17. Hvaða ákvarðanir verðum við að taka í lífinu ef við ætlum ekki að láta táknrænu þyrnana í dæmisögu Jesú kæfa okkur?

17 Ef við látum andleg mál ganga fyrir hinu efnislega getum við komið í veg fyrir að amstur og nautnir heimsins kæfi okkur. (Matteus 6:31-33; Lúkas 21:34-36) Við ættum aldrei að vanrækja biblíulestur og hugleiðingu. Við fáum meiri tíma til að hugleiða andleg mál vandlega og í bænarhug ef við einföldum líf okkar eins mikið og við getum. (1. Tímóteusarbréf 6:6-8) Þjónar Guðs sem hafa fylgt þessum ráðum — upprætt þyrnana úr jarðveginum til að gefa frjósamri plöntunni meiri næringu, ljós og rými — njóta blessunar Jehóva. Sandra, sem er 26 ára, segir: „Þegar ég hugleiði þá blessun sem ég nýt í sannleikanum geri ég mér grein fyrir því að heimurinn getur ekki boðið mér neitt sem er jafnmikils virði.“ — Sálmur 84:12.

18. Hvernig getum við verið stöðug í orði Guðs og þolgóðir kristnir menn?

18 Það er því augljóst að hvort sem við erum ung eða aldin getum við öll verið stöðug í orði Guðs og þolgóðir lærisveinar Krists, svo framarlega sem orð Guðs er stöðugt í okkur. Við skulum því sjá til þess að jarðvegurinn í hjarta okkar verði aldrei harður, grunnur eða þakinn óæskilegum plöntum heldur að hann haldi áfram að vera mjúkur og djúpur. Þannig getum við tileinkað okkur orð Guðs að fullu og borið „ávöxt með stöðuglyndi.“ — Lúkas 8:15.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Í þessari námsgrein skoðum við fyrstu kröfuna. Rætt verður um hinar tvær í námsgreinunum á eftir.

^ gr. 8 Til að hugleiða í bænarhug það sem þú hefur lesið í Biblíunni gætir þú til dæmis spurt þig: ‚Lýsir þetta einum eða fleirum af eiginleikum Jehóva? Hvernig tengist þetta stefi Biblíunnar? Hvernig get ég heimfært þetta á líf mitt eða notað það til að hjálpa öðrum?‘

^ gr. 16 Samkvæmt frásögunum þremur í guðspjöllunum af dæmisögu Jesú kafnar sæðið undan amstri og nautnum heimsins, það er að segja ‚áhyggjum heimsins,‘ ‚táli auðæfanna,‘ ‚öðrum girndum‘ og „nautnum lífsins.“ — Markús 4:19; Matteus 13:22; Lúkas 8:14; Jeremía 4:3, 4.

Hvert er svarið?

• Hvers vegna verðum við að vera ‚stöðug í orði Jesú‘?

• Hvernig getum við séð til þess að orð Guðs sé stöðugt í hjarta okkar?

• Hvers konar fólk tákna hinar fjórar tegundir jarðvegar sem Jesús talaði um?

• Hvernig getur þú fundið tíma til að hugleiða orð Guðs?

[Spurningar]

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 22]

‚STAÐFÖST Í SANNLEIKANUM‘

MARGIR gamalreyndir lærisveinar Krists sanna ár eftir ár að þeir eru ‚staðfastir í sannleikanum.‘ (2. Pétursbréf 1:12) Hvað hjálpar þeim að standa stöðugir? Hér á eftir eru dæmi um það sem nokkrir þeirra segja.

„Við lok hvers dags les ég í Biblíunni og fer með bæn. Síðan hugleiði ég það sem ég las.“ — Jean, skírð 1939.

„Ég finn til öryggiskenndar og fæ kraft til að vera trúföst þegar ég hugsa um það að Jehóva, sem er svona göfugur, skuli elska okkur innilega.“ — Patricia, skírð 1946.

„Ég hef getað haldið áfram að þjóna Guði með því að hafa góðar biblíunámsvenjur og sökkva mér niður í ‚djúp Guðs.‘“ — 1. Korintubréf 2:10; Anna, skírð 1939.

„Ég les í Biblíunni og biblíutengdum ritum með það fyrir augum að rannsaka hjarta mitt og hvatir.“ — Zelda, skírð 1943.

„Bestu stundirnar mínar eru þegar ég fæ mér göngutúr og tala við Jehóva í bæn og læt hann vita hvernig mér líður í raun og veru.“ — Ralph, skírður 1947.

„Ég byrja daginn á því að fara yfir dagstextann og lesa í Biblíunni. Þá hef ég eitthvað nýtt að hugleiða yfir daginn.“ — Marie, skírð 1935.

„Mér finnst hressandi að fara vandlega yfir ákveðna biblíubók vers fyrir vers.“ — Daníel, skírður 1946.

Hvenær gefur þú þér tíma til að hugleiða orð Guðs og biðja? — Daníel 6:11; Markús 1:35; Postulasagan 10:9.