Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frumkristnir menn og Móselögin

Frumkristnir menn og Móselögin

Frumkristnir menn og Móselögin

„Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom.“ — GALATABRÉFIÐ 3:24.

1, 2. Hvernig var það Ísraelsmönnum til góðs að fylgja Móselögunum í hvívetna?

JEHÓVA setti Ísraelsmönnum lög árið 1513 f.o.t. Hann sagði þjóðinni að hann myndi blessa hana og hún myndi njóta gæfu og gengis ef hún hlýddi rödd hans. — 2. Mósebók 19:5, 6.

2 Lagasáttmálinn er oft nefndur Móselögin eða einfaldlega „lögmálið“ og hann var ‚heilagur, réttlátur og góður.‘ (Rómverjabréfið 7:12) Hann ýtti undir dyggðir eins og góðvild, heiðarleika, siðsemi og náungakærleika. (2. Mósebók 23:4, 5; 3. Mósebók 19:14; 5. Mósebók 15:13-15; 22:10, 22) Lögmálið hvatti Gyðinga til að elska hver annan. (3. Mósebók 19:18) Og þeir áttu hvorki að blandast heiðnum mönnum sem höfðu ekki gengist undir lögmálið né mægjast við þá. (5. Mósebók 7:3, 4) Móselögin voru sem ‚veggur‘ milli Gyðinga og heiðinna manna og sáu til þess að þjóð Guðs smitaðast ekki af heiðnum hugsunarhætti og hátterni. — Efesusbréfið 2:14, 15; Jóhannes 18:28.

3. Hvaða áhrif hafði lögmálið fyrst enginn gat haldið það fullkomlega?

3 En samviskusamasti Gyðingur gat ekki haldið lögmál Guðs fullkomlega. Ætlaðist Jehóva til of mikils af þeim? Nei, ein af ástæðunum fyrir því að hann gaf þeim lögmálið var að sýna fram á afbrot mannanna. (Galatabréfið 3:19) Lögmálið vakti einlæga Gyðinga til vitundar um að þá bráðvantaði lausnara. Trúir Gyðingar fögnuðu komu hans því að nú blasti við að þeir gætu losnað undan bölvun syndar og dauða. — Jóhannes 1:29.

4. Í hvaða skilningi var lögmálið ‚tyftari þangað til Kristur kom‘?

4 Móselögunum var ætlað tímabundið hlutverk. Í bréfi til trúsystkina sinna kallaði Páll postuli það ‚tyftara þangað til Kristur kæmi.‘ (Galatabréfið 3:24) Það sem hér er kallað tyftari var forðum daga notað um mann sem fylgdi börnum í skóla og heim aftur. Hann var yfirleitt ekki kennari heldur leiddi börnin einfaldlega til kennarans. Móselögunum var sömuleiðis ætlað að leiða guðhrædda Gyðinga til Jesú Krists. Jesús lofaði að vera með fylgjendum sínum „alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:20) Eftir að kristni söfnuðurinn var stofnaður var því ekki framar þörf fyrir ‚tyftarann‘ eða lögmálið. (Rómverjabréfið 10:4; Galatabréfið 3:25) En sumir kristnir menn af hópi Gyðinga voru seinir til að meðtaka þennan mikilvæga sannleika. Þar af leiðandi héldu þeir lögmálið áfram að vissu marki, jafnvel eftir að Jesús var upprisinn. En aðrir leiðréttu sig og gáfu okkur þar með gott fordæmi. Við skulum kynna okkur það nánar.

Nýr skilningur kristinnar kenningar

5. Hvað var Pétri fyrirskipað í sýn og af hverju varð hann steini lostinn?

5 Pétur postuli sá merkilega sýn árið 36. Í sýninni heyrði hann rödd af himni skipa sér að slátra og borða fugla og dýr sem voru óhrein samkvæmt lögmálinu. Pétur var steini lostinn! Hann hafði aldrei lagt sér til munns „neitt vanheilagt né óhreint.“ En röddin sagði honum: „Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!“ (Postulasagan 10:9-15) Pétur leiðrétti sig í stað þess að ríghalda í lögmálið. Og það var undarfari merkilegrar uppgötvunar varðandi fyrirætlun Guðs.

6, 7. Hvers vegna gat Pétur ályktað að hann mætti prédika fyrir mönnum af þjóðunum og hvað ályktaði hann líklega í framhaldi af því?

6 Það atvikaðist sem hér segir. Þrír menn komu þangað sem Pétur dvaldist og báðu hann að heimsækja guðhræddan mann sem Kornelíus hét. Hann var ekki Gyðingur og var óumskorinn. Pétur bauð mönnunum inn í húsið og lét þá gista. Hann hafði áttað sig á þýðingu sýnarinnar og fór með þeim næsta dag til Kornelíusar. Þar vitnaði hann fyrir heimilisfólkinu um Jesú Krist og sagði síðan: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ Bæði Kornelíus, ættingjar hans og nánir vinir tóku trú á Jesú og ‚heilagur andi komi yfir alla þá er orðið heyrðu.‘ Pétur sá að þar var hönd Jehóva að verki og „bauð, að þeir skyldu skírðir verða í nafni Jesú Krists.“ — Postulasagan 10:17-48.

7 Af hverju gat Pétur ályktað að fólk af þjóðunum, sem hafði ekki verið undir Móselögunum, gæti nú fylgt Jesú Kristi? Af því að hann var glöggur á trúarleg atriði. Fyrst Guð hafði sýnt velþóknun sína á óumskornu fólki af þjóðunum með því að úthella anda sínum yfir það var Pétri ljóst að það gæti látið skírast. Og Pétur gerði sér greinilega ljóst að Guð setti það ekki sem skilyrði að kristnir menn af þjóðunum héldu Móselögin til að fá að skírast. Hefðir þú verið fús til að leiðrétta viðhorf þín eins og Pétur gerði, ef þú hefðir verið uppi á þeim tíma?

Sumir fylgdu ‚tyftaranum‘ áfram

8. Hverju héldu sumir í söfnuðinum í Jerúsalem fram um umskurnina og hvers vegna?

8 Pétur hélt til Jerúsalem eftir að hann fór frá Kornelíusi. Söfnuðurinn þar hafði frétt að óumskornir heiðnir menn hefðu „tekið við orði Guðs,“ og margir lærisveinar af hópi Gyðinga voru ókyrrir vegna þess. (Postulasagan 11:1-3) „Umskurnarmennirnir“ viðurkenndu að vísu að heiðingjar gætu gerst fylgjendur Jesú en fullyrtu að þeir yrðu að halda lögmálið til að hljóta hjálpræði. Aftur á móti virðist umskurnin ekki hafa verið deiluefni á heiðnum svæðum þar sem fátt var um kristna menn af hópi Gyðinga. Þessi tvö sjónarmið tókust á í ein 13 ár. (1. Korintubréf 1:10) Þetta hlýtur að hafa verið nokkur prófraun fyrir þessa frumkristnu menn, einkum menn af heiðnum uppruna sem bjuggu á Gyðingasvæðum.

9. Af hverju var áríðandi að útkljá umskurnardeiluna?

9 Deilan náði loks hámarki árið 49 þegar kristnir menn frá Jerúsalem komu til Antíokkíu í Sýrlandi þar sem Páll var að prédika. Þeir fóru að kenna að heiðnir menn, sem tekið höfðu kristna trú, yrðu að umskerast að hætti lögmálsins. Eins og við var að búast varð mikil misklíð og þræta milli þeirra og Páls og Barnabasar. Ef deilan yrði ekki útkljáð hlaut að koma til þess að sumir úr hópi kristinna manna, annaðhvort af gyðinglegum eða heiðnum uppruna, hneyksluðust. Það varð því að ráði að Páll og nokkrir aðrir færu til Jerúsalem til að biðja hið stjórnandi ráð safnaðarins að útkljá málið í eitt skipti fyrir öll. — Postulasagan 15:1, 2, 24.

Ágreiningur en síðan samstaða

10. Hvað ræddi hið stjórnandi ráð meðal annars áður en það tók ákvörðun um stöðu manna af þjóðunum?

10 Haldinn var fundur og sumir færðu rök með umskurninni en aðrir á móti. En tilfinningar réðu ekki ferðinni. Eftir miklar umræður lýstu postularnir Pétur og Páll þeim táknum sem Jehóva hafði unnið meðal hinna óumskornu. Þeir bentu á að Guð hefði úthellt heilögum anda yfir óumskorna menn af þjóðunum. Í reynd voru þeir að spyrja: ‚Getur kristni söfnuðurinn hafnað þeim sem Guð hefur tekið við?‘ Síðan las lærisveinninn Jakob ritningargrein sem sýndi öllum viðstöddum fram á vilja Jehóva í málinu. — Postulasagan 15:4-17.

11. Hvað hafði ekki áhrif á úrskurðinn í umskurnardeilunni og hvað sýnir að Jehóva blessaði úrskurðinn?

11 Augu allra hvíldu á hinu stjórnandi ráði. Myndi gyðinglegur uppruni ráðsöldunganna sveigja þá til fylgis við umskurnina? Nei, þessir trúu menn voru ákveðnir í að fylgja Ritningunni og handleiðslu heilags anda. Eftir að hafa hlýtt á öll rök, sem komu málinu við, var það einróma niðurstaða ráðsins að kristnir menn af heiðnum uppruna þyrftu ekki að láta umskerast og halda Móselögin. Bræðurnir fögnuðu þegar þeir fréttu af úrskurðinum og söfnuðirnir „urðu fjölmennari dag frá degi.“ Þessir kristnu menn fylgdu skýrri handleiðslu skipulags Jehóva og fengu greinagott, biblíulegt svar að launum. (Postulasagan 15:19-23, 28, 29; 16:1-5) En einni mikilvægri spurningu var ósvarað.

Hvað um kristna menn af gyðinglegum uppruna?

12. Hvaða spurningu var látið ósvarað?

12 Hið stjórnandi ráð hafði tekið það skýrt fram að kristnir menn af heiðnum uppruna þyrftu ekki að umskerast. En hvað um kristna menn af gyðinglegum uppruna? Það var ekki sérstaklega tekið fyrir í úrskurði ráðsins.

13. Hvers vegna var rangt að halda því fram að það væri nauðsynlegt að halda Móselögin til að hljóta hjálpræði?

13 Sumir kristnir Gyðingar, sem voru sérlega „vandlátir um lögmálið,“ héldu áfram að umskera börn sín og halda sumt í lögmálinu. (Postulasagan 21:20) Sumir gengu lengra og héldu því fast fram að kristnir Gyðingar yrðu að halda lögmálið til að hljóta hjálpræði. En þar skjátlaðist þeim hrapallega. Hvernig gat til dæmis nokkur kristinn maður fært dýr að fórn til að friðþægja fyrir syndir? Slíkar fórnir voru úreltar eftir fórn Krists. Hvað um það ákvæði lögmálsins að Gyðingar ættu að forðast nána umgengni við menn af þjóðunum? Það hefði verið býsna erfitt fyrir kostgæfinn kristinn trúboða að halda þessi ákvæði en fylgja samt því boði að kenna heiðnum mönnum allt sem Kristur hafði kennt. (Matteus 28:19, 20; Postulasagan 1:8; 10:28) * Ekkert bendir til þess að málið hafi verið skýrt nánar á einhverjum fundi hins stjórnandi ráðs. En söfnuðirnir voru ekki ráðalausir.

14. Hvaða leiðbeiningar gaf Páll um lögmálið í innblásnu bréfi?

14 Að þessu sinni komu leiðbeiningar í innblásnum postulabréfum en ekki í bréfi frá hinu stjórnandi ráði. Páll skrifaði til dæmis kröftugt bréf til Gyðinga og manna af þjóðunum sem bjuggu í Róm. Þar útskýrði hann að sannur Gyðingur væri það ‚hið innra og umskurnin væri umskurn hjartans í anda.‘ (Rómverjabréfið 2:28, 29) Í bréfinu kom Páll með líkingu til að sýna fram á að kristnir menn væru ekki lengur undir lögmálinu. Hann benti á að kona gæti ekki verið gift tveim mönnum samtímis. En ef maður hennar dæi væri henni frjálst að giftast aftur. Hann heimfærði líkinguna þannig að smurðir kristnir menn gætu ekki verið samtímis undir Móselögunum og tilheyrt Kristi. Þeir voru „dánir lögmálinu“ til að þeir gætu verið sameinaðir Kristi. — Rómverjabréfið 7:1-5.

Seinir að ná áttum

15, 16. Hvers vegna áttu sumir kristnir Gyðingar erfitt með að skilja að þeir þyrftu ekki að halda lögmálið, og hvernig minnir það á nauðsyn þess að vera andlega vakandi?

15 Rökfærsla Páls varðandi lögmálið var óhrekjandi. Hvernig stóð þá á því að sumir kristnir Gyðingar skildu ekki að lögmálið var gengið úr gildi? Þá skorti meðal annars dómgreind um trúarleg efni. Þeir höfðu til dæmis ekki neytt fastrar andlegrar fæðu. (Hebreabréfið 5:11-14) Þeir sóttu safnaðarsamkomur óreglulega. (Hebreabréfið 10:23-25) Og kannski átti eðli lögmálsins einhvern þátt í því að þeir voru seinir að ná áttum. Lögmálið fjallaði um margt sem hægt var að sjá og finna fyrir og snerta, svo sem musterið og prestastéttina. Það var auðveldara fyrir mann, sem var ekki andlega hugsandi, að viðurkenna lögmálið en hinar dýpri kenningar kristninnar sem fjölluðu um ósýnilegan veruleika — 2. Korintubréf 4:18.

16 Önnur ástæða fyrir því að sumum, sem játuðu kristni, var mikið í mun að halda lögmálið kemur fram í bréfi Páls til Galata. Þar segir hann að þessir menn hafi viljað láta líta á sig sem virta fylgismenn viðurkenndrar trúar. Í stað þess að skera sig úr fjöldanum voru þeir tilbúnir til að fórna næstum hverju sem var til að falla inn í fjöldann. Þeim var annara um velþóknun manna en velþóknun Guðs. — Galatabréfið 6:12.

17. Hvenær varð fullkomlega ljóst hvernig líta bæri á fylgispekt við lögmálið?

17 Skynugir kristnir menn, sem lásu guðinnblásin rit Páls og annarra, komust að réttri niðurstöðu varðandi lögmálið. Það var þó ekki fyrr en árið 70 sem öllum kristnum Gyðingum var fyllilega ljóst hvernig líta bæri á Móselögin. Það gerðist þegar Guð leyfði að Jerúsalem, musterinu og öllum skrám um prestastéttina væri eytt. Nú gat enginn lengur haldið lögmálið að öllu leyti.

Lærdómur fyrir okkur

18, 19. (a) Hvaða sjónarmið verðum við að tileinka okkur og hver að forðast til að halda okkur andlega heilbrigðum? (b) Hvað má læra af dæmi Páls um að fylgja leiðbeiningum þeirra sem fara með forystuna? (Sjá rammagrein á bls. 20)

18 Þér er kannski spurn, eftir að hafa skoðað þessa löngu liðnu atburði: ‚Hvernig hefði ég brugðist við markvissri opinberun á vilja Guðs ef ég hefði verið uppi á þeim tíma? Hefði ég ríghaldið í hefðbundna afstöðu til lögmálsins eða hefði ég verið þolinmóður uns það skýrðist hver væri rétti skilningurinn? Og hefði ég stutt þennan skilning af heilum hug þegar hann kom í ljós?‘

19 Við getum auðvitað ekki verið viss um hver viðbrögð okkar hefðu verið ef við hefðum verið uppi á þeim tíma. Hins vegar getum við spurt okkur: ‚Hvernig bregst ég við skýrari biblíuskilningi nú á tímum? (Matteus 24:45) Reyni ég að fara eftir biblíulegum leiðbeiningum sem gefnar eru, og þá ekki aðeins bókstafnum heldur einnig andanum að baki þeim? (1. Korintubréf 14:20) Bíð ég þolinmóður eftir Jehóva þegar svar við spurningu virðist lengi á leiðinni?‘ Það er mikilvægt að nota vel þá andlegu fæðu sem nú er í boði til að við ‚berumst ekki afleiðis.‘ (Hebreabréfið 2:1) Við skulum hlusta vel þegar Jehóva notar orð sitt, anda og jarðneskt skipulag til að leiðbeina. Ef við gerum það gefur Jehóva okkur eilíft líf og hamingju.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Þegar Pétur kom til Antíokkíu í Sýrlandi átti hann ánægjulegar samverustundir með trúsystkinum sínum af heiðnum uppruna. En síðan komu þangað kristnir Gyðingar frá Jerúsalem og þá ‚dró Pétur sig í hlé og tók sig út úr af ótta við þá sem héldu fram umskurninni.‘ Við getum rétt ímyndað okkur hve særðir bræðurnir af þjóðunum hljóta að hafa verið þegar hinn virti postuli neitaði að matast með þeim. — Galatabréfið 2:11-13.

Hvert er svarið?

• Í hvaða skilningi voru Móselögin eins og ‚tyftari þangað til Kristur kæmi‘?

• Skýrðu hvers vegna Pétur og „umskurnarmennirnir“ brugðust ólíkt við breyttum skilningi á sannleikanum.

• Hvað hefurðu lært um það hvernig Jehóva opinberar sannleikann nú á dögum?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 20]

Páll sýnir auðmýkt og hollustu

Páll kom til Jerúsalem árið 56 eftir árangursríka trúboðsferð. Þar beið hans prófraun. Söfnuðinum höfðu borist þær fregnir að hann hefði kennt að búið væri að víkja lögmálinu til hliðar. Öldungarnir óttuðust að Gyðingar, sem voru nýbúnir að taka kristna trú, myndu hneykslast á bersögli Páls um lögmálið og hugsanlega álykta að kristnir menn virtu ekki fyrirkomulag Jehóva. Í söfnuðinum voru fjórir kristnir Gyðingar sem heit hvíldi á, hugsanlega nasíreaheit. Þeir þurftu að fara í musterið til að fullnægja kröfum heitsins.

Öldungarnir báðu Pál að fara með fjórmenningunum í musterið og bera kostnaðinn af þeim. Páll hafði skrifaði að minnsta kosti tvö innblásin bréf þar sem hann rökstuddi það að menn þyrftu ekki að halda lögmálið til að hljóta hjálpræði. En hann tók tillit til samvisku annarra. Hann hafði skrifað: „Þeim, sem eru undir lögmálinu, hef ég verið eins og sá, sem er undir lögmálinu, . . . til þess að ávinna þá, sem eru undir lögmálinu.“ (1. Korintubréf 9:20-23) Páll gaf aldrei eftir þar sem mikilvægar meginreglur Ritningarinnar áttu í hlut en taldi sig hins vegar geta farið að tilmælum öldunganna. (Postulasagan 21:15-26) Það var ekki rangt af honum að gera það. Það var ekkert óbiblíulegt við það að gangast undir heit, og musterið hafði verið notað til hreinnar tilbeiðslu en ekki skurðgoðadýrkunar. Páll gerði því eins og mælst var til í þeim tilgangi að hneyksla engan. (1. Korintubréf 8:13) Eflaust hefur það kallað á nokkra auðmýkt af hans hálfu sem er honum til virðingarauka.

[Mynd á blaðsíðu 18, 19]

Um árabil gætti ólíkra skoðana á lögmálinu meðal kristinna manna.