Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað er að verða um trúarleg gildi?

Hvað er að verða um trúarleg gildi?

Hvað er að verða um trúarleg gildi?

„Fimmtán pör sækja [kaþólska] kvöldsamkomu til að fá hjónabandsfræðslu. Aðeins þrír af þessum þrjátíu segjast vera trúaðir.“ La Croix, kaþólskt dagblað gefið út í Frakklandi.

TRÚARLEG gildi eiga mjög undir högg að sækja. Á forsíðu alþjóðaútgáfu tímaritsins Newsweek, 12. júlí, 1999, var spurt: „Er Guð dáinn?“ Af umfjöllun tímaritsins að dæma virðist sú vera raunin í Vestur-Evrópu. Í október það ár var kirkjuþing kaþólsku kirkjunnar haldið í Róm. Franska dagblaðið Le Monde sagði í frétt af þessu þingi: „Kirkjunni reynist erfiðara en nokkru sinni fyrr að koma boðskap sínum á framfæri í menningarsamfélagi sem hefur ,ofnæmi‘ fyrir honum. . . . Kaþólskir menn á Ítalíu eru ekki lengur ein heild. . . . Í Þýskalandi hafa deilur um ráðgjafastöðvar um fóstureyðingar breikkað bilið milli páfans og lýðræðis sem sættir sig ekki lengur við að hlýða tilskipunum. Djarfa afstöðu [Hollands] til siðferðis og líknardrápa má, að mati sumra, rekja til þess hve skyndilega landið afkristnaðist.“

Staðan er mikið til sú sama annars staðar í heiminum. Árið 1999 varaði Georg Carey, erkibiskup af Kantaraborg, við að enska kirkjan væri „einni kynslóð frá útrýmingu.“ Franska dagblaðið Le Figaro sagði í grein sem bar heitið „Kristnin í Evrópu líður undir lok“: „Sömu þróun er hægt að sjá alls staðar. . . . Fólk dregur markvisst í efa siðferðileg og kenningarleg sjónarmið.“

Dvínandi áhugi á trúarlífi

Kirkjusókn er á hraðri niðurleið í Evrópu. Minna en 10 prósent kaþólskra í Frakklandi sækja messu á hverjum sunnudegi en ekki nema 3 til 4 prósent Parísarbúa sækja kirkju reglulega. Svipuð eða jafnvel minni kirkjusókn hefur verið í Bretlandi, Þýskalandi og á Norðurlöndum.

Kirkjuleg yfirvöld hafa miklar áhyggjur af því hve fáir sækjast eftir prestsembættinu. Á innan við öld hefur prestum í Frakklandi fækkað úr 14 á hverja 10.000 íbúa í 1 á hverja 10.000. Meðalaldur presta í Evrópu fer hækkandi og eklu hefur orðið vart í löndum eins og Írlandi og Belgíu. Á sama tíma fækkar börnum í trúfræðslutímum og það vekur alvarlegar efasemdir um það hvort kaþólska kirkjan sé fær um að tryggja endurnýjun sína.

Fólk virðist bera lítið traust til trúarbragðanna. Aðeins 6 prósent Frakka trúa að „sannleikann sé að finna í aðeins einum trúarbrögðum,“ samanborið við 15 prósent árið 1981 og 50 prósent árið 1952. Sinnuleysi í trúmálum fer vaxandi. Þeim sem segjast ekki hafa nein tengsl við trúarbrögð hefur fjölgað úr 26 prósentum árið 1980 í 42 prósent árið 2000. — Les valeurs des Français — Évolutions de 1980 à 2000 (Lífsgildi Frakka — þróunin frá 1980 til 2000).

Siðferðisgildi gerbreytast

Siðferðisgildi eiga líka undir högg að sækja. Eins og nefnt var hér á undan neita margir kirkjugestir að viðurkenna þær siðferðisreglur sem kirkjan þeirra hefur sett. Þeir eru ekki sammála þeirri hugsun að trúarleiðtogar hafi rétt til að setja þeim hegðunarreglur. Þeir hinir sömu sem lofa páfann fyrir afstöðu hans til mannréttinda neita að fylgja honum þegar orð hans snerta einkalíf þeirra. Til dæmis er afstöðu hans til getnaðarvarna víða hafnað, jafnvel af mörgum kaþólskum mönnum.

Þetta viðhorf nær til fólks á öllum stigum þjóðfélagsins, og gildir þá einu hvort það er trúað eða ekki. Margt er umborið sem Heilög ritning fordæmir. Fyrir tuttugu árum voru 45 prósent Frakka á móti samkynhneigð. Núna finnst 80 prósent þeirra hún vera í góðu lagi. Þó að flestir séu hlynntir tryggð í hjónabandi eru samt aðeins 36 prósent sem telja framhjáhald aldrei réttlætanlegt. — Rómverjabréfið 1:26, 27; 1. Korintubréf 6:9, 10; Hebreabréfið 13:4.

Trúarlegur hrærigrautur

Á Vesturlöndum hafa heimagerð trúarbrögð orðið sífellt algengari þar sem fólk áskilur sér þann rétt að ákveða sjálft hverju það trúir og hverju ekki. Sumar kenningar eru samþykktar en öðrum hafnað. Sumir kalla sig kristna en trúa samt á endurholdgun og aðrir hika ekki við að fylgja samtímis kenningum nokkurra trúfélaga. (Prédikarinn 9:5, 10; Esekíel 18:4, 20; Matteus 7:21; Efesusbréfið 4:5, 6) Bókin Les valeurs des Français sýnir greinilega fram á að margt trúað fólk er að fjarlægjast kirkjuna svo mikið að ekki verður úr bætt.

En þessi aukna einstaklingshyggja er ekki hættulaus. Trúarsagnfræðingurinn Jean Delumeau, sem á sæti í menntastofnuninni Institut de France, er á þeirri skoðun að það sé ómögulegt að búa til sín eigin trúarbrögð óháð öðru rótgrónu kerfi. „Trú getur ekki haldið velli ef hún á sér ekki rætur í ákveðnu trúfélagi sem stendur föstum fótum.“ Heilbrigð andleg gildi og trúariðkun verða að vera hluti af einni heild. Hvar er slíka heild að finna í þjóðfélagi sem er sótttekið af breytingum?

Á síðum Biblíunnar erum við minnt á að það er Guð sem ákveður hvað telst rétt hegðun og siðferði, þó svo að mennirnir verði sjálfir að ráða því hvort þeir fylgi því eða ekki. Milljónir manna um allan heim skilja að þessi bók, sem hefur lengi verið í hávegum höfð, er gagnleg á okkar dögum og að hún er ,lampi fóta þeirra og ljós á vegum þeirra.‘ (Sálmur 119:105) Hvernig komust þeir að þessari niðurstöðu? Fjallað verður um það í greininni á eftir.