Hvar geturðu fundið sönn trúarleg gildi?
Hvar geturðu fundið sönn trúarleg gildi?
„EF MAÐUR ætlar að vera í trúfélagi einfaldlega vegna fjölskylduhefðar hvers vegna þá ekki að velja keltnesku trúarbrögðin sem forfeður okkar stunduðu fyrir 2000 árum?“ spyr Rodolphe með nokkurri kaldhæðni. Það færist bros yfir andlit unga hlustandans við tilhugsunina.
„Sambandið við Guð er mér mjög mikilvægt,“ segir Rodolphe. „Ég er alfarið á móti þeirri hugmynd að það eigi að þröngva trúarsannfæringu upp á mig aðeins vegna þess að einhverjir úr fjölskyldunni stunduðu ákveðin trúarbrögð fyrir tugum eða jafnvel hundruðum ára.“ Rodolphe skoðaði þetta mikilvæga mál vandlega. Hann leit ekki aðeins á trúna sem einhvers konar arf.
Flestir halda sig við trúarbrögð fjölskyldunnar þó að það sé ekki eins sjálfsagt og áður. En er alltaf rétt að halda sig fast við trúarleg gildi foreldranna? Hvað segir Biblían?
Jósúa, eftirmaður Móse, benti Ísraelsmönnum á tvo kosti í lok 40 ára eyðimerkurgöngu þeirra: „Líki yður ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, hvort heldur guðum þeim, er feður yðar þjónuðu, þeir er bjuggu fyrir handan Fljótið, eða guðum Amoríta, hverra land þér nú byggið. En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.“ — Jósúabók 24:15.
Einn af þeim feðrum, sem Jósúa átti við, var Tara, faðir Abrahams. Hann bjó í borginni Úr sem lá á þeim tíma austur af Efratfljóti. Biblían segir fátt um Tara annað en að hann tilbað aðra guði. (Jósúabók 24:2) Abraham, sonur hans, var reiðubúinn að hlýða skipun Jehóva um að yfirgefa heimaborg sína, þó að honum væri ekki fullkunnugt um fyrirætlun Jehóva. Já, Abraham valdi önnur trúarbrögð en faðir hans. Fyrir vikið fékk hann þá umbun sem Guð hafði heitið honum og í mörgum trúarbrögðum er hann þekktur sem ,faðir allra þeirra sem trúa á Guð.‘ — Rómverjabréfið 4:11.
Biblían sýnir líka Rut, formóður Jesú Krists, í jákvæðu ljósi. Hún var móabítísk og átti ísraelskan eiginmann. Er hún varð ekkja stóð hún frammi fyrir tveim valkostum: að halda kyrru fyrir í heimalandi sínu eða að fara með tengdamóður sinni til Ísraels. Rut gerði sér grein fyrir því að tilbeiðslan á Jehóva hafði mun meira gildi en skurðgoðadýrkun foreldra hennar og sagði því við tengdamóður sína: „Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.“ — Rutarbók 1:16, 17.
Orðabókin Dictionnaire de la Bible fjallar um mikilvægi þessarar frásögu í helgiritasafni Biblíunnar. Hún segir að frásagan sýni „hvernig kona af
erlendum uppruna, borin og barnfædd meðal heiðinna manna, sem voru fjandsamlegir Ísraelsmönnum og hataðir af þeim, . . . verður formóðir hins heilaga Davíðs konungs vegna guðlegrar forsjár og vegna ástar sinnar á þjóð Jehóva og tilbeiðslu.“ Rut hikaði ekki við að velja önnur trúarbrögð en foreldrarnir og Guð umbunaði henni fyrir ákvörðun hennar.Frásögnin af frumkristna söfnuðinum tilgreinir af meiri nákvæmni ástæðurnar fyrir því að fylgjendur Jesú yfirgáfu trúarbrögð forfeðra sinna. Pétur flutti mjög sannfærandi ræðu þar sem hann hvatti áheyrendur sína til að ,láta frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð‘ með því að iðrast synda sinna og láta skírast í nafni Jesú Krists. (Postulasagan 2:37-41) Sál er eitt af eftirtektarverðustu dæmunum um þetta. Hann var Gyðingur og ofsótti kristna menn. Eitt sinn var hann á leið til Damaskus og sá þá Krist í sýn og eftir það gerðist hann kristinn og varð þekktur sem Páll postuli. — Postulasagan 9:1-9.
Þorri kristinna manna hafði ekki reynt neitt svona tilkomumikið. Þeir þurftu samt allir að yfirgefa annaðhvort gyðingdóminn eða tilbeiðslu á ýmsum heiðnum guðum. Þeir sem gerðust kristnir þekktu staðreyndir, oft eftir að hafa rætt vel og lengi um hlutverk Jesú sem Messías. (Postulasagan 8:26-40; 13:16-43; 17:22-34) Þessir frumkristnu menn sáu þörf á því að gera breytingar á lífi sínu eftir að hafa fengið rækilega kennslu. Boðið náði til allra manna, hvort sem þeir voru Gyðingar eða ekki, en boðskapurinn var alltaf sá sami. Það var nauðsynlegt að fylgja nýju tilbeiðsluformi til að þóknast Guði, kristninni.
Mikilvæg ákvörðun
Það hefur áreiðanlega krafist hugrekkis á fyrstu öldinni að fara á skjön við trúarlegar hefðir fjölskyldunnar — gyðingatrú, keisaradýrkun eða tilbeiðslu á heiðnum goðum — og ganga til liðs við söfnuð sem bæði Gyðingar og Rómverjar hæddust að. Ofsóknir fylgdu fljótlega í kjölfarið. Nú á dögum þarf svipað hugrekki til þess að standa gegn „þeirri ríkjandi tilhneigingu að fylgja gagnrýnislaust ráðandi siðum og venjum,“ eins og Hippolyte Simon, biskup í borginni Clermont-Ferrand, orðar það í bók sinni Vers une France païenne? (Er Frakkland að verða heiðið?). Það krefst hugrekkis að ganga til liðs við fámennan trúarsöfnuð sem stundum er gagnrýndur, Votta Jehóva.
Ungur maður, Paul að nafni, frá bænum Bastia á eynni Korsíku var alinn upp í kaþólskri trú. Stundum tók hann þátt í kirkjulegu starfi eins og því að selja kökur til að afla fjár fyrir góðgerðarfélag á vegum kaþólsku kirkjunnar. Hann langaði til að fá betri skilning á Biblíunni og féllst því á að ræða við votta Jehóva á reglulegum grundvelli. Hann gerði sér smám saman ljóst að hann gæti haft varanlegt gagn af því sem hann var að læra. Paul ákvað því að fara eftir þeim gildum sem er að finna í Biblíunni og gerðist vottur Jehóva. Foreldrar hans virtu afstöðu hans og það hefur ekki haft áhrif á náið samband hans við þá.
Amélie býr í suðurhluta Frakklands. Ætt hennar hefur haft tengsl við Votta Jehóva í fjórar kynslóðir. Hvers vegna ákvað hún að viðurkenna trúarleg gildi foreldra sinna? „Maður verður ekki vottur Jehóva af því að foreldrar manns og foreldrar þeirra eru eða voru vottar Jehóva,“ segir hún. „En einn góðan veðurdag segir maður við sjálfan sig: ,Þetta er mín trú þar sem þetta er sannfæring
mín.‘“ Amélie veit, líkt og margir aðrir ungir vottar Jehóva, að sterk trúarsannfæring hennar veitir henni tilgang í lífinu og varanlega hamingju.Hvers vegna að viðurkenna þau gildi sem Guð hefur sett?
Orðskviðirnir 6:20 hvetja þá sem langar til að þóknast Guði: „Varðveit þú, son minn, boðorð föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar.“ Þetta hvetur ungt fólk til að fylgja stöðlum Guðs með því að styrkja trúna og taka sína eigin afstöðu með honum í stað þess að hlýða í blindni. Páll postuli sagði lærisveinum sínum að „prófa allt,“ það er að segja að athuga hvort að það sem þeir lærðu væri í samræmi við orð Guðs og vilja hans og síðan að breyta í samræmi við það. — 1. Þessaloníkubréf 5:21.
Meira en sex milljónir votta Jehóva á öllum aldri hafa tekið slíka ákvörðun, hvort sem þeir ólust upp á kristnu heimili eða ekki. Þeir rannsökuðu Biblíuna vandlega og fengu þannig trúverðug svör við spurningum sínum um tilgang lífsins og skýran skilning á vilja Guðs með mannkynið. Er þeir öðluðust þessa þekkingu viðurkenndu þeir þau gildi sem Guð hefur sett og gerðu sitt besta til að gera vilja hans.
Hvort sem þú lest þetta tímarit að staðaldri eða ekki ættirðu að hugleiða þann möguleika að leyfa vottum Jehóva að hjálpa þér að fá betri skilning á Biblíunni og um leið á trúarlegum gildum hennar. Með því að gera það geturðu fundið þekkingu sem leiðir til eilífs lífs ef eftir henni er farið og þú getur ,fundið og séð að Jehóva er góður.‘ — Sálmur 34:9; Jóhannes 17:3.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Fjórir ættliðir votta Jehóva í Frakklandi.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Rut ákvað að þjóna Jehóva í stað þess að tilbiðja guði forfeðra sinna.