Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar — takið þið framförum í trúnni?

Unglingar — takið þið framförum í trúnni?

Unglingar — takið þið framförum í trúnni?

„ÉG SÓTTI kristnar samkomur en hafði ekki sérstaklega sterka löngun til að þjóna Jehóva,“ segir Hideo um unglingsárin. „Oft ímyndaði ég mér hvernig það væri að vera vinsæll meðal bekkjarfélaganna og rölta um bæinn með kærustu upp á arminn. Ég hafði engin sérstök markmið né langaði til að taka framförum í trúnni.“ Margir unglingar virðast láta reka á reiðanum eins og Hideo án þess að langa til að ná eftirsóknarverðum markmiðum eða taka framförum.

Ef þú ert ungur eða ung fyllistu líklega ákafa þegar þú stundar íþróttir eða sinnir áhugamálum þínum. En kannski finnurðu ekki fyrir sama ákafa í sambandi við andlegu málin. Geta andleg markmið verið spennandi? Veltu orðum sálmaritarans fyrir þér: „Vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran. . . . Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.“ (Sálmur 19:8, 9) Orð Guðs getur ,hýrgað augun‘ og fengið „hinn fávísa“ til að breyta viturlega. Já, þú getur haft mikla ánægju af andlegu málunum. En hvað þarf til að svo verði? Hvert er fyrst skrefið?

Finndu hjá þér löngun til að þjóna Guði

Þú þarft fyrst að finna hjá þér löngun til að þjóna Guði. Jósía Júdakonungur var enn ungur þegar lögmálsbók Jehóva fannst í musterinu. Hann lét lesa bókina fyrir sig og það sem hann heyrði snerti hann mjög og hafði þau áhrif að hann „afnam allar svívirðingar úr öllum héruðum Ísraelsmanna.“ (2. Kroníkubók 34:14-21, 33) Lestur í orði Guðs kom Jósía til að leggja sig fram um að efla sanna tilbeiðslu.

Þú getur líka glætt löngunina til að þjóna Jehóva með því að lesa Biblíuna og hugleiða það sem þú lest. Það var einmitt það sem kveikti löngun Hideos til að þjóna Guði. Hann fór að eiga mikinn félagsskap við sér eldri trúbróður. Þessi trúbróðir var brautryðjandi, það er að segja boðberi Jehóva í fullu starfi. Hann var iðinn biblíunemandi og kappkostaði að fara eftir ráðleggingum Biblíunnar í lífinu. Fordæmi hans var Hideo mikil hvatning svo að hann fór að líkja eftir honum og ræktaði með sér sterka löngun til að þjóna Guði og öðrum mönnum. Framför hans í trúnni gerði lífið tilgangsríkt.

Það er hvetjandi fyrir unglinga að lesa daglega í Biblíunni. Takahiro segir: „Ef ég áttaði mig á því eftir að ég var háttaður að ég átti eftir að lesa biblíulesturinn fyrir daginn fór ég á fætur til að lesa. Þannig fann ég fyrir handleiðslu Jehóva. Daglegur biblíulestur átti stóran þátt í því að ég tók framförum í trúnni. Ég var ákveðinn í að eiga meiri þátt í þjónustu Jehóva og gerðist reglulegur brautryðjandi stuttu eftir að hafa lokið framhaldsskóla og ég nýt þess mjög.“

Hvað annað en biblíulestur getur styrkt löngun þína til að þjóna Jehóva? Tomohiro lærði sannleika Biblíunnar af móður sinni. Hann segir: „Það var ekki fyrr en ég grannskoðaði bókina Life Does Have a Purpose þegar ég var 19 ára að ég varð djúpt snortinn af kærleika Jehóva og lausnarfórn Jesú. Þakklæti fyrir kærleika Jehóva vakti með mér löngun til að gera meira í þjónustu hans.“ (2. Korintubréf 5:14, 15) Ítarlegt einkanám í Biblíunni hvetur margt ungt fólk eins og Tomohiro til að taka framförum í trúnni.

En hvað ef þú hefur samt ekki ýkja sterka löngun til að þjóna Jehóva? Geturðu beðið einhvern um hjálp? Páll postuli skrifaði: „Guð . . . verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar.“ (Filippíbréfið 2:13) Ef þú biður Jehóva að hjálpa þér veitir hann þér fúslega heilagan anda sinn sem gerir þér ekki aðeins kleift „að framkvæma“ heldur einnig „að vilja.“ Það þýðir að heilagur andi Guðs styrkir löngun þína til að gera þitt besta í þjónustu Jehóva og hjálpar þér að taka framförum í trúnni. Umfram allt skaltu treysta á mátt Jehóva og styrkja hjarta þitt!

Settu þér markmið

Þegar þú hefur einsett þér að gera meira í þjónustu Jehóva þarftu að setja þér persónuleg markmið til þess að geta tekið framförum í trúnni. Mana, sem er ung kristin stúlka, segir: „Markmið hjálpuðu mér mikið. Nú fór mér ekki aftur heldur stefndi ég hugrökk fram á við. Ég bað Jehóva einlæglega um handleiðslu í sambandi við markmið mín og lét ekkert trufla framfarir mínar.“

Markmið þín ættu að vera raunhæf. Það gæti verið raunhæft markmið að lesa einn kafla í Biblíunni á dag. Þú gætir einnig byrjað á rannsóknarverkefni. Tökum dæmi: Ef þú lest ensku þér að gagni gætirðu kynnt þér eiginleika Jehóva með því að fletta upp í efnisskránni Watch Tower Publications Index undir flettunni „Jehovah“ og millifyrirsögninni „Qualities by Name“ (Eiginleikar í stafrófsröð). Þar eru taldir upp um 40 eiginleikar sem þú getur skoðað. Rannsóknin mun örugglega styrkja samband þitt við Jehóva og hvetja þig til að gera meira fyrir hann. Önnur raunhæf markmið eru meðal annars að svara að minnsta kosti einu sinni á hverri samkomu þar sem áheyrendur mega gefa athugasemdir. Þú gætir líka reynt að kynnast að minnsta kosti einu trúsystkini betur á hverri samkomu og láta aldrei dag líða án þess að biðja til Jehóva og tala um hann við aðra.

Það væri gott markmið að skrá þig í Boðunarskólann ef þú hefur ekki þegar gert það. Tekurðu þátt í boðunarstarfinu? Ef ekki, gætirðu stefnt að því að verða óskírður boðberi. Næsta skref væri auðvitað að hugsa alvarlega um sambandið við Jehóva og vígja þig honum. Margir vígðir unglingar stefna síðan að því að verða boðberar í fullu starfi.

Það er gott að hafa markmið í lífinu en það þarf að varast keppnisanda. Þú hefur meiri ánægju af verkum þínum ef þú berð þig ekki saman við aðra. — Galatabréfið 5:26; 6:4.

Ef til vill finnst þér þú vera óreyndur og eiga erfitt með að setja þér raunhæf markmið. Farðu þá eftir ráðleggingu Biblíunnar: „Hneig eyra þitt og heyr orð hinna vitru.“ (Orðskviðirnir 22:17) Nýttu þér aðstoð foreldra þinna eða annarra þroskaðra trúsystkina. Bæði foreldrar og aðrir þurfa að vera raunsæir og hvetjandi hvað þetta varðar. Ef unglingum finnst þrýst á sig að ná markmiði, sem aðrir hafa sett þeim, getur það rænt þá gleði og jafnvel gert markmiðið gagnslaust. Stúlka, sem fann fyrir slíkum þrýstingi, segir: „Foreldrar mínir settu mér hvert markmiðið á fætur öðru, til dæmis að skrá mig í Boðunarskólann, taka þátt í boðunarstarfinu, að láta skírast og verða brautryðjandi. Ég lagði mig mikið fram til að ná þeim öllum. En þegar ég náði einu markmiði hrósuðu þau mér ekki, heldur settu mér bara nýtt markmið. Þess vegna fannst mér ég alltaf vera neydd til að ná markmiðum. Ég var úrvinda og mér fannst ég ekki ná neinum árangri.“ Hvað var að? Öll markmiðin voru góð og gild en þau voru ekki hennar markmið. Ef markmiðin eiga að skila árangri verður mann sjálfan að langa til setja sér þau!

Hugsaðu um Jesú Krist. Hann vissi hvers Jehóva, faðir hans, vænti af honum þegar hann kom til jarðar. Það að gera vilja Jehóva var ekki bara markmið fyrir Jesú heldur verkefni sem hann átti að inna af hendi. Hvernig leit hann á verkefni sitt? Hann sagði: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ (Jóhannes 4:34) Jesús naut þess að gera vilja Jehóva og uppfylla væntingar hans. Fyrir Jesú var það eins og matur — hann fann fyrir gleði og innri vellíðan þegar hann fullnaði verkið sem hann átti að gera. (Hebreabréfið 10:5-10) Þú getur líka notið þess að gera það sem foreldrar þínir hvetja þig til.

Þreytist ekki að gera það sem gott er

Þegar þú hefur sett þér markmið skaltu leggja þig allan fram við að ná því. Galatabréfið 6:9 segir: „Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.“ Treystu ekki aðeins á eigin styrk og getu. Að öllum líkindum verða einhverjar hindranir á vegi þínum og hugsanlega á þér jafnvel eftir að finnast að þér hafi mistekist. En Biblían fullvissar okkur um að Jehóva ‚geri stigu okkar slétta ef við munum til hans á öllum vegum okkar.‘ (Orðskviðirnir 3:6) Jehóva styrkir þig þegar þú leggur þig fram við að ná andlegum markmiðum.

Já, með því að glæða löngunina til að þjóna Jehóva og reyna að ná andlegum markmiðum geturðu látið ‚framför þína vera öllum augljósa.‘ (1. Tímóteusarbréf 4:15) Þá geturðu lifað innihaldsríku lífi í þjónustu Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Biblíulestur og hugleiðing glæðir með þér löngun til að þjóna Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Jesús uppfyllti væntingar föður síns.