Spyrð þú: „Hvar er Drottinn?“
Spyrð þú: „Hvar er Drottinn?“
„Þeir hurfu frá mér . . . og sögðu ekki: ‚Hvar er Drottinn?‘“ — JEREMÍA 2:5, 6.
1. Hvað gæti fólk haft í huga þegar það spyr: „Hvar er Guð “?
„HVAR er Guð?“ Margir hafa spurt þessarar spurningar. Sumir hafa einfaldlega verið að reyna að skilja hvar skaparinn hafi aðsetur. Aðrir hafa borið upp þessa spurningu eftir miklar hörmungar eða þegar þeir hafa sjálfir liðið illt og skilja ekki af hverju Guð skarst ekki í leikinn. Enn aðrir spyrja einskis af því að þeir trúa ekki að Guð sé til. — Sálmur 10:4.
2. Hverjir sjá árangur af leit sinni að Guði?
2 Margir viðurkenna vissulega hinar fjölmörgu sannanir fyrir því að Guð sé til. (Sálmur 19:2; 104:24) Sumir þeirra eru sáttir, svo framarlega sem þeir hafa einhvers konar trú. En sterk sannleiksást hefur hvatt milljónir manna víðsvegar um heiminn til að leita hins sanna Guðs. Erfiði þeirra hefur ekki verið til ónýtis því að „eigi er hann langt frá neinum af oss.“ — Postulasagan 17:26-28.
3. (a) Hvar er aðsetur Guðs? (b) Hvað er innifalið í spurningunni: „Hvar er Drottinn“?
3 Þegar fólk finnur Jehóva gerir það sér grein fyrir því að „Guð er andi,“ ósýnilegur augum manna. (Jóhannes 4:24) Jesús kallaði hinn sanna Guð ‚föður sinn sem er á himnum.‘ Þetta segir okkur að tilverusvið hins himneska föður sé háleitt í andlegum skilningi á sama hátt og hinn efnislegi himinn er hátt yfir jörðinni. (Matteus 12:50; Jesaja 63:15) En þó að við getum ekki séð Guð með eigin augum gefur hann okkur kost á að kynnast sér og læra um fyrirætlanir sínar. (2. Mósebók 33:20; 34:6, 7) Hann svarar spurningum einlægra manna sem leita að tilgangi lífsins. Hann gerir okkur kleift að komast að því hvort langanir okkar séu í samræmi við tilgang hans og hvert viðhorf hans er til ýmissa mála sem snerta líf okkar. Hann vill að við spyrjum sig um slíkt og að við leggjum okkur einlæglega fram um að finna svörin. Fyrir milligöngu Jeremía spámanns ávítaði Jehóva Ísraelsmenn til forna fyrir að gera þetta ekki. Þeir vissu hvað Guð hét en spurðu ekki: „Hvar er Drottinn?“ (Jeremía 2:6) Fyrirætlanir Jehóva voru þeim ekki efst í huga. Þeir leituðu ekki leiðsagnar hans. Spyrð þú: „Hvar er Drottinn,“ þegar þú þarft að taka ákvarðanir, hvort sem þær eru smáar eða stórar?
Þeir leituðu leiðsagnar Guðs
4. Hvaða góða fordæmi gaf Davíð okkur?
4 Davíð Ísaíson ræktaði með sér sterka trú á Jehóva þegar hann var ungur að árum. Hann þekkti Jehóva sem ‚hinn lifanda Guð.‘ Davíð hafði kynnst vernd Jehóva af eigin raun. Knúinn af trú og kærleika til ‚nafns Jehóva‘ felldi Davíð filistarisann Golíat sem var vopnaður í bak og fyrir. (1. Samúelsbók 17:26, 34-51) En þó að Davíð hafi gengið vel varð hann ekki of sjálfsöruggur. Hann hugsaði ekki með sér að núna myndi Jehóva blessa hann, hvað svo sem hann tæki sér fyrir hendur. Á árunum eftir þetta leitaði Davíð leiðsagnar Jehóva hvað eftir annað þegar hann þurfti að taka ákvarðanir. (1. Samúelsbók 23:2; 30:8; 2. Samúelsbók 2:1; 5:19) Hann hélt áfram að biðja: „Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína. Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.“ (Sálmur 25:4, 5) Hann gaf okkur gott fordæmi til eftirbreytni.
5, 6. Hvernig leitaði Jósafat Jehóva við ýmis tækifæri í lífinu?
5 Á dögum Jósafats, fimmta konungsins í ætt Davíðs, tóku herir þriggja þjóða höndum saman og ætluðu að ráðast á Júda. Á þessari hættustundu „tók [Jósafat] að leita Drottins.“ (2. Kroníkubók 20:1-3) Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Jósafat leitaði Jehóva. Konungurinn hafði valið að ganga á vegi Jehóva og halda sér frá Baalsdýrkuninni sem blómstraði í Ísrael, hinu fráhverfa norðurríki. (2. Kroníkubók 17:3, 4) En hvernig ‚leitaði Jósafat Drottins‘ núna þegar hann stóð frammi fyrir þessari miklu hættu?
6 Á þessari örlagaríku stundu fór Jósafat með opinbera bæn í Jerúsalem. Í þessari bæn sýndi hann fram á að hann myndi eftir almætti Jehóva. Hann hafði hugleitt vandlega ástæðurnar fyrir því að Jehóva hafði hrakið aðrar þjóðir í burtu og gefið Ísrael ákveðið landsvæði að erfð. Konungurinn viðurkenndi að hann þyrfti á hjálp Jehóva að halda. (2. Kroníkubók 20:6-12) Gaf Jehóva honum kost á að finna sig við þetta tækifæri? Já, svo sannarlega. Jehóva gaf ákveðnar leiðbeiningar fyrir milligöngu Jehasíels levíta og daginn eftir veitti hann fólki sínu sigur. (2. Kroníkubók 20:14-28) En hvernig getur þú verið viss um að Jehóva gefi þér kost á að finna sig þegar þú leitar leiðsagnar hans?
7. Bænir hverra heyrir Guð?
7 Jehóva er ekki hlutdrægur. Hann býður fólki af öllum þjóðum að leita sín í bæn. (Sálmur 65:3; Postulasagan 10:34, 35) Hann veit hvað býr í hjörtum þeirra sem biðja til hans. Hann fullvissar okkur um að hann heyri bænir réttlátra manna. (Orðskviðirnir 15:29) Hann gefur fólki kost á að finna sig ef það leitar leiðsagnar hans auðmjúklega, jafnvel þótt það hafi ekki sýnt áhuga á honum fram til þessa. (Jesaja 65:1) Hann heyrir jafnvel bænir þeirra sem hafa ekki fylgt lögum hans en iðrast nú auðmjúklega. (Sálmur 32:5, 6; Postulasagan 3:19) En þegar fólk er ekki undirgefið Guði eru bænir þess til einskis. (Markús 7:6, 7) Hér á eftir eru nokkur dæmi um það.
Þeir báðu en fengu ekki bænheyrslu
8. Af hverju voru bænir Sáls konungs ekki Jehóva boðlegar?
8 Sál konungur féll fram fyrir Jehóva þegar Samúel spámaður sagði honum að Jehóva hefði hafnað honum vegna óhlýðni hans. (1. Samúelsbók 15:30, 31) En þetta var einungis sýndarmennska. Sál vildi ekki hlýða Guði heldur vildi hann láta heiðra sig frammi fyrir fólkinu. Seinna, þegar Filistar herjuðu á Ísrael, leitaði Sál Jehóva til málamynda. En þegar hann fékk ekki svar leitaði hann til særingakonu þó að hann hafi vitað að Jehóva fordæmdi slíkt. (5. Mósebók 18:10-12; 1. Samúelsbók 28:6, 7) Málið er dregið saman í 1. Kroníkubók 10:14 þar sem segir: „Við Drottin hafði hann eigi gengið til frétta.“ Af hverju er þetta sagt? Af því að bænir Sáls voru ekki byggðar á trú. Það var því engu líkara en hann hefði alls ekki beðið til Jehóva.
9. Hvað gerði Sedekía rangt þegar hann bað um leiðsögn Jehóva?
9 Svipað átti sér stað þegar dró að endalokum Júdaríkis. Fólkið leitaði til spámanna Jehóva og bað fleiri bæna. En þótt það segðist bera lotningu fyrir Jehóva stundaði það skurðgoðadýrkun á sama tíma. (Sefanía 1:4-6) Það leitaði Guðs til málamynda en bjó hjarta sitt ekki undir að lúta vilja hans. Sedekía konungur sárbað Jeremía um að ganga til frétta við Jehóva. Jehóva hafði þegar sagt konunginum hvað hann ætti að gera. En konungurinn hlýddi ekki Jehóva af því að hann skorti trú og lét undan ótta við menn. Jehóva gaf konunginum því ekkert annað svar sem hentaði honum betur. — Jeremía 21:1-12; 38:14-19.
10. Hvað var rangt við það sem Jóhanan gerði og hvað lærum við af mistökum hans?
10 Eftir að Jerúsalem hafði verið eytt og her Babýlonar var farinn á brott með Gyðingana í útlegð, bjó Jóhanan sig undir að fara til Egyptalands með þann fámenna hóp Gyðinga sem eftir var í Júda. Búið var að ákveða hvert förinni væri heitið. Áður en þeir lögðu af stað báðu þeir samt Jeremía að biðja fyrir hönd þeirra og leita leiðsagnar Jehóva. En þegar þeir fengu ekki svarið sem þeir vildu heyra héldu þeir sig við það sem þeir höfðu þegar ákveðið. (Jeremía 41:16–43:7) Getur þú dregið einhvern lærdóm af þessum frásögum svo að Jehóva gefi þér kost á að finna sig þegar þú leitar hans?
‚Rannsakið, hvað Drottni er þóknanlegt‘
11. Af hverju er nauðsynlegt að fara eftir því sem fram kemur í Efesusbréfinu 5:10?
11 Það að iðka sanna trú felur í sér meira en að tákna vígslu okkar með niðurdýfingarskírn, mæta á safnaðarsamkomur og taka þátt í boðunarstarfinu. Það hefur áhrif á alla lífsstefnu okkar. Á hverjum degi verðum við fyrir áreiti sem gæti snúið okkur frá vegi guðrækninnar. Stundum er þetta áreiti lúmskt en stundum er það meira áberandi. Hver eru viðbrögð okkar? Þegar Páll postuli skrifaði trúföstum kristnum mönnum í Efesus hvatti hann þá: ‚Rannsakið, hvað Drottni er þóknanlegt.‘ (Efesusbréfið 5:10; Biblían 1912) Viskan í þessum orðum endurspeglast í mörgum frásögum Ritningarinnar.
12. Af hverju hafði Jehóva vanþóknun á því þegar Davíð lét flytja sáttmálsörkina til Jerúsalem?
12 Eftir að sáttmálsörkinni hafði verið skilað til Ísraels og hún hafði verið í Kirjat Jearím í mörg ár vildi Davíð konungur flytja hana til Jerúsalem. Hann ráðgaðist við höfðingja fólksins og sagði að örkin yrði flutt ‚ef þeim líkaði svo og ef það virtist vera komið frá Drottni.‘ En hann gekk samt ekki fyllilega úr skugga um hver vilji Jehóva væri í þessu máli. Ef hann hefði gert það hefði örkin aldrei verið sett á vagn heldur hefðu levítar af ætt Kahats borið hana á öxlum sér eins og Guð hafði gefið skýr fyrirmæli um. Þó að Davíð hafi oft leitað leiðsagnar Jehóva gerði hann það ekki nægilega vel við þetta tækifæri. Afleiðingin var hörmuleg. Seinna viðurkenndi Davíð: ‚Drottinn Guð vor hefur lostið oss, af því að vér leituðum hans eigi svo sem vera bar.‘ — 1. Kroníkubók 13:1-3; 15:11-13; 4. Mósebók 4:4-6, 15; 7:1-9.
13. Hvaða áminningu var að finna í söngnum sem sunginn var þegar örkin var að lokum flutt til Jerúsalem?
13 Þegar levítarnir fluttu örkina að lokum frá húsi Óbeðs Edóms til Jerúsalem var sunginn söngur sem Davíð samdi. Í söngnum var þessi einlæga áminning: „Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans. Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans.“ — 1. Kroníkubók 16:11, 12.
14. Hvaða lærdóm getum við dregið af góðu fordæmi Salómons og mistökum hans seinna á ævinni?
14 Fyrir dauða sinn gaf Davíð Salómon syni sínum þessar ráðleggingar: „Ef þú leitar [Jehóva], mun hann gefa þér kost á að finna sig.“ 1. Kroníkubók 28:9) Þegar Salómon varð konungur fór hann til Gíbeon, þar sem samfundatjaldið var, og færði Jehóva fórnir. Þar bauð Jehóva honum: „Bið þú þess, er þú vilt að ég veiti þér.“ Í samræmi við bón Salómons veitti Jehóva honum örlátlega visku og þekkingu til að dæma í Ísrael. Auk þess veitti hann honum auðlegð og sæmd. (2. Kroníkubók 1:3-12) Salómon notaði teikningarnar, sem Jehóva gaf Davíð, til að byggja stórfenglegt musteri. En Salómon leitaði hins vegar ekki Jehóva í hjónabandsmálum sínum. Hann kvæntist konum sem tilbáðu ekki Jehóva. Á efri árum hans sneru þær hjarta hans frá Jehóva. (1. Konungabók 11:1-10) Það skiptir því ekki máli hversu virt, fróð eða vitur við erum. Við þurfum alltaf að ‚rannsaka, hvað Drottni er þóknanlegt.‘
(15. Hvers vegna gat Asa beðið um hjálp í fullu trausti til Jehóva þegar Sera Blálendingur fór á móti Júda?
15 Frásagan af konungdómi Asa, sonarsonarsyni Salómons, undirstrikar þetta atriði enn betur. Ellefu árum eftir að Asa varð konungur fór Sera Blálendingur á móti Júda með milljón manna her. Myndi Jehóva frelsa Júda? Um 500 árum áður hafði Jehóva tekið skýrt fram hvernig færi ef þjóðin hlustaði á hann og héldi boðorð hans og hvernig færi ef hún gerði það ekki. (5. Mósebók 28:1, 7, 15, 25) Við upphaf stjórnartíðar Asa hafði hann afnumið úr Júda ölturu og merkissteina sem notuð voru til falskrar tilbeiðslu. Hann hafði hvatt fólkið til að „leita Drottins.“ Asa hafði ekki beðið með að leita hans þangað til erfiðleikar komu upp. Því gat Asa í fullu trausti til Jehóva beðið hann að hjálpa þeim. Árangurinn var sá að Jehóva veitti Júda afgerandi sigur. — 2. Kroníkubók 14:2-12.
16, 17. (a) Hvaða áminningu veitti Jehóva Asa þótt hann hafi unnið sigur? (b) Hvaða hjálp fékk Asa þegar hann hegðaði sér óviturlega en hvernig brást hann við? (c) Hvað lærum við af því að hugleiða frásöguna af Asa?
16 En þegar Asa kom heim, eftir að hafa unnið sigurinn, sendi Jehóva Asarja á fund konungsins og lét hann segja: „Hlýðið á mig, þér Asa og allur Júda og Benjamín. Drottinn er með yður, ef þér eruð með honum. Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður.“ (2. Kroníkubók 15:2) Asa efldi nú sanna tilbeiðslu af auknum krafti. En 24 árum seinna þegar styrjöld var enn á ný yfirvofandi leitaði hann ekki Jehóva. Hann leitaði ekki leiðsagnar í orði Guðs og minntist þess ekki sem Guð gerði þegar her Blálendinga réðst á Júda. Hann tók þá óviturlegu ákvörðun að gera bandalag við Sýrland. — 2. Kroníkubók 16:1-6.
17 Af þessum sökum lét Jehóva Hananí sjáanda ávíta Asa. Asa hefði getað notið góðs af því þegar Jehóva lét útskýra mál sitt en í staðinn móðgaðist hann og lét setja Hananí í stokkhúsið. (2. Kroníkubók 16:7-10) Þetta var sorglegt. En hvað með okkur? Leitum við Guðs en neitum síðan að fylgja ráðleggingum hans? Hvað myndum við gera ef umhyggjusamur öldungur notaði Biblíuna til að benda okkur á að við værum of upptekin af málefnum heimsins? Yrðum við þakklát fyrir að fá kærleiksríkar ábendingar um ‚hvað Drottni er þóknanlegt‘?
Gleymum ekki að spyrja
18. Hvað lærum við af því sem Elíhú sagði við Job?
18 Þeir sem hafa áunnið sér gott mannorð í þjónustu Jehóva geta jafnvel gert mistök þegar þeir eru undir álagi. Þegar Job fékk Jobsbók 35:10) Job þurfti að beina athyglinni að Jehóva og hugleiða hver afstaða hans væri. Job var auðmjúkur og tók þessum leiðbeiningum og fordæmi hans getur hjálpað okkur að gera slíkt hið sama.
hræðilegan sjúkdóm, missti börn sín og eignir og sat undir röngum ásökunum af hendi kunningja sinna varð hann of upptekinn af sjálfum sér. Elíhú áminnti hann og sagði: „Enginn . . . segir: ‚Hvar er Guð, skapari minn?‘“ (19. Hvað vanræktu Ísraelsmenn allt of oft?
19 Ísraelsmenn vissu hvernig Guð hafði haft afskipti af þjóðinni í gegnum tíðina. En þegar þeir stóðu frammi fyrir ákveðnum aðstæðum í lífinu gleymdu þeir allt of oft því sem Jehóva hafði áður gert. (Jeremía 2:5, 6, 8) Þegar þeir þurftu að taka ákvarðanir leituðu þeir eigin vilja í stað þess að spyrja: „Hvar er Drottinn?“ — Jesaja 5:11, 12.
Haldið áfram að spyrja: „Hvar er Drottinn?“
20, 21. (a) Hverjir hafa nú á dögum sýnt sama hugarfar og Elísa og leitað leiðsagnar Jehóva? (b) Hvernig getum við líkt eftir og notið góðs af trúarfordæmi þeirra?
20 Þegar þjónustu Elía lauk tók Elísa, aðstoðarmaður hans, skikkjuna sem fallið hafði af Elía, gekk að ánni Jórdan, sló vatnið og sagði: „Hvar er nú Drottinn, Guð Elía?“ (2. Konungabók 2:14) Jehóva svaraði með því að sýna að núna væri andi hans yfir Elísa. Hvað getum við lært af þessu?
21 Svipaður atburður hefur átt sér stað nú á dögum. Vissir smurðir kristnir menn, sem tekið höfðu forystuna í prédikunarstarfinu, hurfu af jarðnesku sjónarsviði. Í kjölfarið var öðrum mönnum falin forystan og þessir menn rannsökuðu Ritninguna og báðu Jehóva um leiðsögn. Þeir gleymdu ekki að spyrja: „Hvar er Drottinn?“ Þess vegna hefur Jehóva haldið áfram að leiða fólk sitt og blessa starf þess. Líkjum við eftir trú þessara manna? (Hebreabréfið 13:7) Ef svo er munum við halda okkur fast við skipulag Jehóva, fylgja leiðsögn þess og taka fullan þátt í því starfi sem unnið er undir leiðsögn Jesú Krists. — Sakaría 8:23.
Hvert er svarið?
• Hvert ætti að vera markmið okkar þegar við spyrjum: „Hvar er Drottinn“?
• Hvernig getum við fundið svar við spurningunni: „Hvar er Drottinn“?
• Af hverju svarar Guð ekki öllum sem biðja um leiðsögn hans?
• Hvaða dæmi í Biblíunni minna okkur á nauðsyn þess að ‚rannsaka hvað Drottni er þóknanlegt‘?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 9]
Hvernig leitaði Jósafat konungur Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Hvers vegna leitaði Sál til særingakonu?
[Myndir á blaðsíðu 12]
Biddu til Jehóva, rannsakaðu orð hans og hugleiddu það til að ganga úr skugga um ‚hvar Jehóva er.‘