Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Óttist eigi og skelfist eigi“

„Óttist eigi og skelfist eigi“

„Óttist eigi og skelfist eigi“

„Óttist eigi og skelfist eigi. . . . Drottinn mun vera með yður.“ — 2. KRONÍKUBÓK 20:17.

1. Hver eru viðbrögð margra þegar þeir heyra minnst á hryðjuverk og hvers vegna er skiljanlegt að fólk sé óttaslegið?

HRYÐJUVERK! Orðið eitt vekur ugg og ótta í hjörtum manna. Fólk er óöruggt og finnst það hjálparvana, og ýmsar tilfinningar vakna á borð við hrylling, sorg og reiði. Margir óttast að hryðjuverk eigi eftir og hrjá mannkynið um ókomin ár. Sú vitneskja að sumar þjóðir hafa í áratugi barist gegn hryðjuverkum í ýmsum myndum og náð aðeins takmörkuðum árangri rennir stoðum undir slíkan ótta.

2. Um hvað eru vottar Jehóva sannfærðir og hvaða spurningar vekur það?

2 En við höfum samt góða ástæðu til að vera vonglöð. Vottar Jehóva eru ákaflega bjartsýnir en þeir prédika af fullum krafti í 234 löndum og stjórnarsvæðum í heiminum. Þeir eru sannfærðir um að mannkynið eigi eftir að sjá fyrir endann á hryðjuverkum og það mjög bráðlega. En er þessi bjartsýni raunæf? Hver gæti losað jörðina við þessa plágu og með hvaða hætti? Þar sem flest okkar hafa sennilega kynnst ofbeldi í einhverri mynd er viðeigandi að skoða hvaða ástæðu við höfum til að vera svona bjartsýn.

3. Af hverju er fólk óttaslegið og hverju var spáð um okkar daga?

3 Fólk óttast og skelfist af mörgum ástæðum. Gríðarlega margir eru of aldraðir til að annast sig sjálfir, margir þjást vegna ólæknandi sjúkdóma og fjölskyldur streða við að láta enda ná saman. Lífið sjálft er einnig svo hverfult. Slys og hörmungar virðast liggja í leyni við hvert fótmál, albúin að ræna okkur öllu sem okkur er kært. Ótti og áhyggjur sem þessar, auk persónulegra vandamála og vonbrigða, hafa gert það að verkum að nútíminn er nákvæmlega eins og Páll postuli lýsir: „Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, . . . kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-3.

4. Hvaða jákvæðu hlið er að finna á þeirri óhugnanlegu mynd sem dregin er upp í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-3?

4 Þó að þessi ritningarstaður dragi upp óhugnanlega mynd gefur hann okkur líka von. Taktu eftir að ástandið átti að verða svona slæmt „á síðustu dögum“ þessa illa heimskerfis Satans. Þetta þýðir að lausnin er í nánd og að stjórn Guðsríkis, sem Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja um, tekur bráðlega við af núverandi heimskerfi. (Matteus 6:9, 10) Þetta ríki er himnesk stjórn Guðs sem „aldrei skal á grunn ganga“ að sögn Daníels spámanns, heldur mun það „knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [manna], en sjálft mun það standa að eilífu“. — Daníel 2:44.

Kristið hlutleysi og hryðjuverk

5. Hvernig hafa þjóðir brugðist við hryðjuverkaógninni?

5 Þúsundir manna hafa fallið fyrir hendi hryðjuverkamanna á síðustu áratugum. Eftir árásirnar í New York og Washington, D.C., 11. september 2001 varð fólk út um allan heim töluvert meðvitaðra um þessa ógn. Í ljósi þess hve algeng hryðjuverk eru um heim allan tóku þjóðir heims fljótt höndum saman í herför gegn hryðjuverkum. Til dæmis var greint frá því í fjölmiðlum að 4. desember 2001 hafi „utanríkisráðherrar 55 landa í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu samþykkt áætlun“ um að sameina krafta sína. Virtur embættismaður í Bandaríkjunum lofaði þetta framtak og sagði það gefa „aukinn styrk“ í baráttunni gegn hryðjuverkum. Allt í einu voru hundruð milljónir manna þátttakendur í því sem tímaritið The New York Times Magazine kallaði „upphaf sögulegrar baráttu“. Við eigum enn eftir að sjá hvaða árangri þetta framtak mun skila. Margir hafa hins vegar áhyggjur af því hver eftirköstin verði af slíku stríði gegn hryðjuverkum. En þeir sem treysta á Jehóva óttast ekki.

6. (a) Af hverju gætu sumir átt erfitt með að sætta sig við kristið hlutleysi votta Jehóva? (b) Hvaða fordæmi gaf Jesús fylgjendum sínum í þessum málum?

6 Vottar Jehóva eru þekktir fyrir að vera hlutlausir í stjórnmálum. Á friðartímum sætta flestir sig við afstöðu þeirra en þegar sérstakar aðstæður koma upp er oft grynnra á umburðarlyndinu. Óttinn og óöryggið, sem fylgir stríði, vekur oft upp sterka þjóðernishyggju. Fólki gæti þá fundist erfitt að skilja af hverju einhver vill ekki styðja baráttu sem almenningur er fylgjandi. Sannkristnir menn vita hins vegar að þeir verða að hlýða boði Jesú og vera „ekki af heiminum“. (Jóhannes 15:19; 17:14-16; 18:36; Jakobsbréfið 4:4) Í því felst að vera hlutlaus í pólitískum og þjóðfélagslegum málum. Jesús gaf okkur gott fordæmi. Hann bjó yfir fullkominni visku, hafði framúrskarandi hæfileika og hefði því getað látið til sín taka í þjóðfélagsmálum á fyrstu öldinni. En hann vildi ekki taka þátt í stjórnmálum. Við upphaf þjónustu sinnar hafnaði hann staðfastlega boði Satans um að stjórna öllum ríkjum heims. Seinna kom hann sér hjá því að vera skipaður í pólitískt embætti. — Matteus 4:8-10; Jóhannes 6:14, 15.

7, 8. (a) Hvernig má ekki skilja hlutleysi votta Jehóva í stjórnmálum og hvers vegna? (b) Hvernig útilokar Rómverjabréfið 13:1, 2 að við getum tekið þátt í ofbeldisaðgerðum á móti stjórnvöldum?

7 Það má alls ekki skilja hlutleysi votta Jehóva sem svo að þeir styðji ofbeldisverk eða horfi fram hjá þeim. Ef svo væri gætu þeir ekki með réttu sagst þjóna ‚Guði kærleikans og friðarins‘. (2. Korintubréf 13:11) Þeir vita hvað Jehóva finnst um ofbeldi. Sálmaritarinn skrifaði: „Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.“ (Sálmur 11:5) Þeir vita líka að Jesús sagði við Pétur postula: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ — Matteus 26:52.

8 Sagan sýnir greinilega að falskristnir menn hafa oft brugðið „sverði“ en það hafa vottar Jehóva hins vegar ekki gert. Þeir taka ekki þátt í neinu slíku. Vottarnir hlýða trúfastlega fyrirmælunum í Rómverjabréfinu 13:1, 2: „Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði. Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn.“

9. Á hvaða tvo vegu berjast vottar Jehóva gegn hryðjuverkum?

9 En þar sem hryðjuverk eru eins ill og raun ber vitni, ættu vottar Jehóva þá ekki að taka þátt í að berjast gegn þeim? Jú, og það gera þeir. Í fyrsta lagi taka þeir ekki þátt í neinu slíku sjálfir. Og í öðru lagi kenna þeir fólki kristnar meginreglur sem hjálpa því að forðast ofbeldi í sérhverri mynd. * Á síðasta ári vörðu vottarnir 1.202.381.302 klukkustundum í að hjálpa fólki að læra þessar kristnu lífsreglur. Þessum tíma var ekki illa varið því að í kjölfarið létu 265.469 skírast sem vottar Jehóva og sýndu þannig opinberlega að þeir hafna ofbeldi skilyrðislaust.

10. Hverjar eru líkurnar á því að hægt sé að útrýma ofbeldi í heimi nútímans?

10 Vottar Jehóva gera sér auk þess grein fyrir því að þeir geta aldrei upp á eigin spýtur losað heiminn við illsku. Þess vegna setja þeir allt traust sitt á þann sem getur það — Jehóva Guð. (Sálmur 83:19) Mennirnir geta ekki bundið enda á ofbeldi þótt þeir leggi sig einlæglega fram. Innblásinn biblíuritari varaði við því að á okkar tímum, hinum „síðustu dögum“, myndu „vondir menn og svikarar . . . magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir“. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 13) Frá þessum sjónarhóli er ekki líklegt að menn eigi eftir að sigra í baráttunni við illskuna. En við getum hins vegar treyst því að Jehóva útrými allri illsku fyrir fullt og allt. — Sálmur 37:1, 2, 9-11; Orðskviðirnir 24:19, 20; Jesaja 60:18.

Óttalaus þrátt fyrir yfirvofandi árás

11. Hvað hefur Jehóva nú þegar gert til að útrýma ofbeldi?

11 Guð friðarins hatar ofbeldi og þess vegna er skiljanlegt að hann ætli sér að ráðast að rótum vandans og eyða Satan djöflinum. Hann hefur meira að segja nú þegar látið Satan bíða niðurlægjandi ósigur fyrir erkienglinum Míkael — nýkrýndum konungi Guðs, Jesú Kristi. Biblían lýsir þessu svona: „Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans, en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.“ — Opinberunarbókin 12:7-9.

12, 13. (a) Hvaða merkisatburður átti sér stað árið 1914? (b) Hvað bíður þeirra sem styðja ríki Guðs, samkvæmt spádómi Esekíels?

12 Samkvæmt tímareikningi Biblíunnar og heimsmálunum má ráða að stríðið á himnum hafi átt sér stað árið 1914. Síðan þá hefur ástandið í heiminum hríðversnað. Opinberunarbókin 12:12 útskýrir af hverju og segir: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“

13 Skiljanlega beinist reiði Satans aðallega að smurðum tilbiðjendum Guðs og félögum þeirra, ‚öðrum sauðum‘. (Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 12:17) Þessi andstaða nær brátt hámarki í grimmilegri árás Satans á alla þá sem styðja og setja traust sitt á stofnsett ríki Guðs. Í 38. kafla Esekíelsbókar er þessi allsherjarárás kölluð árás ‚Gógs í Magóglandi‘.

14. Hvaða verndar hafa vottar Jehóva oft notið og verður það alltaf svo?

14 Frá því að Satan var úthýst af himnum hafa viss pólitísk öfl stundum verndað fólk Guðs fyrir árásum hans. Þessum pólitísku öflum er lýst á táknrænan hátt í Opinberunarbókinni 12:15, 16. Hins vegar gefur Biblían í skyn að í lokaárás Satans eigi engar stofnanir manna eftir að koma til varnar þeim sem leggja traust sitt á Jehóva. Ættu kristnir menn því að óttast eða skelfast? Nei, alls ekki.

15, 16. (a) Af hverju höfum við ástæðu til að vera bjartsýn með hliðsjón af hughreystandi orðum Jehóva til þjóna sinna á dögum Jósafats? (b) Hvaða fordæmi gáfu Jósafat og lýðurinn þjónum Guðs nú á dögum?

15 Guð mun styðja fólk sitt eins og hann studdi þjóð sína á dögum Jósafats konungs. Við lesum: „Hlýðið á allir Júdamenn og Jerúsalembúar og þú Jósafat konungur: Svo segir Drottinn við yður: Hræðist eigi né skelfist fyrir þessum mikla mannfjölda, því að eigi er yður búinn bardaginn, heldur Guði. . . . Eigi þurfið þér að berjast við þá, skipið yður aðeins í fylkingu, standið kyrrir og sjáið liðsinni Drottins við yður, þér Júdamenn og Jerúsalembúar. Óttist eigi og skelfist eigi. Farið í móti þeim á morgun, og Drottinn mun vera með yður.“ — 2. Kroníkubók 20:15-17.

16 Júdamenn voru fullvissaðir um að þeir þyrftu ekki að berjast. Þegar Góg frá Magóg ræðst á þjóna Guðs grípa þeir ekki heldur til vopna heldur ‚standa kyrrir og sjá liðsinni Drottins‘. En þótt þeir standi kyrrir þýðir það auðvitað ekki að þeir séu algerlega aðgerðalausir. Fólk Guðs á dögum Jósafats var ekki aðgerðalaust. Við lesum: „Þá laut Jósafat fram á ásjónu sína til jarðar, og allir Júdamenn og Jerúsalembúar féllu fram fyrir Drottin til þess að tilbiðja Drottin. . . . Síðan réðst [Jósafat] um við lýðinn og skipaði söngvara Drottni til handa, að þeir skyldu hefja lofsöngva í helgum skrúða, þá er þeir færu út á undan hermönnunum, og segja: ‚Lofið Drottin, því að miskunn hans varir að eilífu.‘“ (2. Kroníkubók 20:18-21) Já, fólkið hélt áfram að lofa Jehóva ákaft þrátt fyrir árásir óvina. Vottar Jehóva ættu að fylgja þessari fyrirmynd þegar Góg gerir árás á þá.

17, 18. (a) Hvaða jákvæða viðhorf hafa vottar Jehóva þrátt fyrir yfirvofandi árás Gógs? (b) Hvaða hvatningu fengu kristnir unglingar fyrir skömmu?

17 Vottar Jehóva halda áfram að styðja Guðsríki fram að árás Gógs og eftir að hún hefst. Þeir fá styrk og vernd með því að sækja samkomur hjá söfnuðunum sem nú eru yfir 94.600 um allan heim. (Jesaja 26:20) Núna er einmitt rétti tíminn til að lofa Jehóva af hugrekki. Þótt árás Gógs sé yfirvofandi skjóta þeir sér ekki undan í ótta heldur finna sig knúna til að auka lofgerðarfórn sína eins og þeir mögulega geta. — Sálmur 146:2.

18 Þúsundir ungra karla og kvenna út um allan heim endurspegla þetta jákvæða viðhorf með því að þjóna í fullu starfi. Á umdæmismótunum árið 2002 var smáritið Unglingar — hvernig ætlið þið að nota líf ykkar? gefið út til að leggja áherslu á yfirburði þess að velja slíka lífsstefnu. Kristnir menn, ungir sem aldnir, eru þakklátir fyrir tímabærar hvatningar sem þessar. — Sálmur 119:14, 24, 99, 119, 129, 146.

19, 20. (a) Af hverju þurfa kristnir menn hvorki að óttast né skelfast? (b) Hvaða gagn höfum við af næstu námsgrein?

19 Kristnir menn þurfa ekki að óttast eða skelfast þó að ástandið í heiminum sé eins og það er. Þeir vita að ríki Jehóva mun bráðlega þurrka út alla illsku fyrir fullt og allt. Þeir leita líka huggunar í því að margir, sem hafa týnt lífi vegna ofbeldis af hendi annarra, verða reistir upp til lífs á ný. Það gefur þá sumum tækifæri til að kynnast Jehóva í fyrsta sinn og gerir öðrum kleift að halda áfram að þjóna honum heilshugar. — Postulasagan 24:15.

20 Sannkristnir menn skilja að það er nauðsynlegt að varðveita kristið hlutleysi og þeir eru staðráðnir í að gera það. Við viljum halda fast í þá stórkostlegu von að fá að ‚standa kyrr og sjá liðsinni Drottins‘. Næsta grein styrkir trú okkar með því að benda á að atburðir líðandi stundar eru smám saman að gefa okkur meiri innsýn í uppfyllingu biblíuspádóma.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Sjá dæmi um fólk sem sneri baki við ofbeldisfullu líferni og gerðist vottar: Varðturninn 1. janúar 1996, bls. 5; 1. september 1998, bls. 5; Vaknið! apríl-júní 2000, bls. 20-23; og í enskri útgáfu blaðsins 22. mars 1990, bls. 21; 8. ágúst 1991, bls. 18.

Geturðu útskýrt?

• Af hverju eru margir bölsýnir?

• Af hverju eru vottar Jehóva bjartsýnir?

• Hvernig hefur Jehóva ráðist nú þegar að rótum ofbeldis í heiminum?

• Af hverju þurfum við ekki að óttast árás Gógs?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 22]

Jesús gaf gott fordæmi um kristið hlutleysi.

[Myndir á blaðsíðu 24]

Þúsundir ungra votta hafa ákveðið að þjóna í fullu starfi.

[Mynd credit line á blaðsíðu 21]

UN PHOTO 186226/M. Grafman.