Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fyrir og eftir — myrk fortíð, björt framtíð

Fyrir og eftir — myrk fortíð, björt framtíð

„Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður“

Fyrir og eftir — myrk fortíð, björt framtíð

„ORÐ GUÐS er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði . . . það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebreabréfið 4:12) Þetta sagði Páll postuli um þann mikla kraft sem boðskapur Guðs býr yfir. Það sýndi sig greinilega á fyrstu öldinni hversu vel boðskapurinn gat náð til hjartna fólks. Þeir sem gerðust kristnir íklæddust hinum nýja manni þrátt fyrir slæm áhrif þess tíma. — Rómverjabréfið 1:28, 29; Kólossubréfið 3:8-10.

Áhrifin, sem orð Guðs hafði á fólk í þá daga, eru ekkert síður augljós núna. Skoðum dæmi um hávaxinn og sterkbyggðan mann sem heitir Richard. Richard var mjög bráðlyndur og átti það til að lenda í slagsmálum við minnstu ögrun. Ofbeldi hafði mjög slæm áhrif á líf hans. Hann gekk meira að segja í hnefaleikafélag, æfði mikið og varð hnefaleikameistari í þungavigt í Westphalia í Þýskalandi. Hann drakk líka mikið og lenti oft í áflogum. Í einum slíkum áflogum dó maður og minnstu munaði að Richard lenti í fangelsi.

En hvað um hjónaband Richards? „Við Heike fórum okkar eigin leiðir áður en við byrjuðum að kynna okkur Biblíuna,“ segir hann. „Heike eyddi miklum tíma með vinkonum sínum en ég eyddi tíma í áhugamál mín sem voru aðallega hnefaleikar, köfun og brimbrettabrun.“

Þegar Richard og Heike fóru að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva, fannst Richard eins og hann gæti ekki gert þær breytingar sem hann þurfti að gera til að samræma líf sitt háum stöðlum Biblíunnar. En eftir því sem hann kynntist Jehóva Guði betur þroskaði hann með sér sterka löngun til að þóknast honum. Hann gerði sér grein fyrir því að Guð er ekki sáttur við þá sem elska ofbeldi eða líta á það sem skemmtun. Hann komst að því að ‚Drottinn hatar þann er elskar ofríki‘. — Sálmur 11:5.

Vonin um eilíft líf í paradís á jörð heillaði bæði Richard og Heike. Þau langaði til að búa þar saman. (Jesaja 65:21-23) Orðin ‚nálægðu þig Guði og þá mun hann nálgast þig‘ höfðu mikil áhrif á Richard. (Jakobsbréfið 4:8) Hann sá viskuna í því að fara eftir áminningunni: „Öfunda ekki ofbeldismanninn og haf engar mætur á neinum gjörðum hans. Því að andstyggð er sá Drottni, er afvega fer, en ráðvandir menn alúðarvinir hans.“ — Orðskviðirnir 3:31, 32.

Richard gerði sér grein fyrir því að hann gæti ekki tekið stakkaskiptum af eigin rammleik þótt hann væri allur af vilja gerður. Hann skildi að hann þurfti að leita hjálpar Guðs í bæn og fór eftir orðum Jesú til postulanna: „Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.“ — Matteus 26:41.

Eftir að hafa kynnt sér nánar viðhorf Guðs til ofbeldis og reiði var Richard ekki lengur í nokkrum vafa um að hnefaleikar væru óviðeigandi íþrótt. Hann sagði skilið við ofbeldi með hjálp frá Jehóva og hann fékk líka hvatningu frá þeim sem hjálpuðu honum að kynna sér Biblíuna. Hann lagði hnefaleikahanskana á hilluna, hætti að lenda í slagsmálum og ákvað að bæta fjölskyldulíf sitt. „Það að kynnast sannleika Biblíunnar hefur hjálpað mér að staldra við og hugsa áður en ég framkvæmi,“ segir Richard sem er núna skapmildur umsjónarmaður í söfnuði Votta Jehóva. Hann bætir við: „Meginreglurnar um kærleika og virðingu leiðbeina mér nú í samskiptum mínum við konuna og börnin. Fjölskylduböndin eru sterkari fyrir vikið.“

Sumir hafa ranglega haldið því fram að Vottar Jehóva sundri fjölskyldum. En dæmi um fólk eins og Richard afsanna það. Hins vegar getur sannleikur Biblíunnar komið á jafnvægi innan fjölskyldunnar og veitt þeim bjarta framtíð sem hafa átt myrka fortíð. — Jeremía 29:11.

[Innskot á blaðsíðu 9]

„Vonin um paradís á jörð fékk mig til að taka stakkaskiptum.“

[Rammi á blaðsíðu 9]

Meginreglur Biblíunnar að verki

Biblían getur haft mikil áhrif á líf fólks. Hér eru nokkrar af meginreglum hennar sem hafa hjálpað ofbeldisfullum einstaklingum að taka stakkaskiptum:

„Sá sem seinn er til reiði, er betri en kappi, og sá sem stjórnar geði sínu, er meiri en sá sem vinnur borgir.“ (Orðskviðirnir 16:32) Stjórnlaus reiði er merki um veikleika en ekki styrk.

„Hyggni mannsins gjörir hann seinan til reiði.“ (Orðskviðirnir 19:11) Ef við sýnum hyggni og skilning getur það hjálpað okkur að skilja raunverulega ástæðu ágreinings og komið í veg fyrir að reiðin blossi upp.

‚Legg eigi lag þitt við reiðigjarnan mann til þess að þú venjist eigi á háttsemi hans.‘ (Orðskviðirnir 22:24, 25) Það er viturlegt fyrir kristna menn að forðast samskipti við þá sem eru reiðigjarnir.