Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heyrið hvað andinn segir!

Heyrið hvað andinn segir!

Heyrið hvað andinn segir!

„Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.“ — OPINBERUNARBÓKIN 3:22.

1, 2. Hvaða hvatning fylgir orðsendingum Jesú til safnaðanna sjö sem nefndir eru í Opinberunarbókinni?

ÞJÓNAR JEHÓVA verða að gefa gaum að innblásnum orðsendingum Jesú Krists til safnaðanna sjö sem nefndir eru í Opinberunarbókinni. Allar innihalda þær eftirfarandi hvatningu: „Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.“ — Opinberunarbókin 2:7, 11, 17, 29; 3:6, 13, 22.

2 Við erum búin að fara yfir boð Jesú til engla eða umsjónarmanna safnaðanna í Efesus, Smýrnu og Pergamos. Hvaða gagn höfum við af því sem heilagur andi sagði hinum söfnuðunum fjórum?

Til engilsins í Þýatíru

3. Hvar stóð Þýatíra og fyrir hvað var hún einkum þekkt?

3 „Sonur Guðs“ bæði hrósar söfnuðinum í Þýatíru og ávítar hann. (Lestu Opinberunarbókina 2:18-29.) Þýatíra (nú Akhisar) stóð við þverá Gediz (nefnd Hermus til forna) í vestanverðri Litlu-Asíu. Borgin var kunn fyrir ýmiss konar handiðn. Þar var unninn hinn víðfrægi skarlats- eða purpuralitur úr rót af rauðagrasi. Lýdía, sem gerðist kristin er Páll heimsótti Filippí í Grikklandi, var ‚úr Þýatíruborg og verslaði með purpura‘. — Postulasagan 16:12-15.

4. Fyrir hvað er söfnuðinum í Þýatíru hrósað?

4 Jesús hrósar söfnuðinum í Þýatíru fyrir góð verk hans, kærleika, trú, þolgæði og boðunarstarf. ‚Hin síðari verk safnaðarins voru meiri en hin fyrri.‘ En þó að við höfum staðið okkur vel áður fyrr megum við aldrei vera kærulaus um siðferði okkar.

5-7. (a) Hver var ‚konan Jessabel‘ og hvað átti að gera varðandi áhrif hennar? (b) Hvernig er guðræknum konum hjálp í erindi Krists til safnaðarins í Þýatíru?

5 Söfnuðurinn í Þýatíru umbar skurðgoðadýrkun, falskenningar og kynferðislegt siðleysi. Í söfnuðinum var ‚konan Jessabel‘. Þar er hugsanlega átt við hóp kvenna sem höfðu einhver af einkennum Jesebelar fortíðar en hún var drottning Ísraelsríkis hinna tíu ættkvísla. Sumir fræðimenn telja að ‚spákonurnar‘ í Þýatíru hafi reynt að lokka kristna menn til að dýrka guði og gyðjur hinna ýmsu iðngreina og taka þátt í hátíðum þar sem skurðgoðum voru færðar matfórnir. Engin sjálfskipuð spákona ætti að reyna að ráðskast með aðra í kristna söfnuðinum nú á dögum.

6 Kristur ætlaði að ‚varpa konunni Jessabel á sjúkrabeð og þeim í mikla þrengingu sem drýgðu hór með henni, ef þeir gerðu ekki iðrun og létu af verkum hennar‘. Umsjónarmenn voga sér ekki að láta undan illum kenningum og áhrifum sem þessum, og enginn kristinn maður þarf að drýgja hór, andlega eða líkamlega, eða fást við skurðgoðadýrkun til að uppgötva að „djúp Satans“ er ekkert nema illska. Ef við gefum gaum að viðvörun Jesú ‚höldum við því sem við höfum‘ og syndin ræður ekki yfir okkur. Hinir smurðu hafa hafnað óguðlegu framferði, girndum og markmiðum og fá því, eftir upprisuna, „vald yfir heiðingjunum“ og mola þá sundur ásamt Kristi. Söfnuðir nútímans eiga sér táknrænar stjörnur en hinum smurðu verður gefin „stjarnan skínandi, morgunstjarnan“, sem er brúðguminn Jesús Kristur, þegar þeir eru reistir upp til himna. — Opinberunarbókin 22:16.

7 Söfnuðurinn í Þýatíru var varaður við því að líða hættuleg áhrif fráhvarfskvenna. Innblásin orðsending Krists til safnaðarins hjálpar guðræknum konum að halda sig innan þeirra marka sem Guð hefur sett. Þær reyna ekki að ráða yfir karlmönnum og tæla bræður aldrei út í andlegan eða bókstaflegan hórdóm. (1. Tímóteusarbréf 2:12) Þessar konur eru til fyrirmyndar í góðum verkum og þjónustu sem er Guði til lofs. (Sálmur 68:12; 1. Pétursbréf 3:1-6) Ef söfnuðurinn heldur því sem hann hefur — hreinni kenningu og breytni og þjónustunni við ríki Guðs — þá hlýtur hann umbun en ekki eyðingu af hendi Krists.

Til engilsins í Sardes

8. (a) Lýstu legu og einkennum Sardes. (b) Hvers vegna var söfnuðurinn í Sardes hjálparþurfi?

8 Söfnuðinn í Sardes bráðvantaði hjálp því að hann var andlega dauður. (Lestu Opinberunarbókina 3:1-6.) Sardes var blómleg borg um 50 kílómetrum suður af Þýatíru. Íbúar voru um 50.000 í eina tíð og borgin átti auð sinn að þakka verslun, frjósömu landi og framleiðslu teppa og vaðmáls úr ull. Sagnaritarinn Jósefus segir fjölmennt Gyðingasamfélag hafa verið í borginni á fyrstu öld okkar tímatals. Í rústum hennar er að finna samkunduhús og musteri gyðjunnar Artemisar frá Efesus.

9. Hvað er til ráða ef við þjónum aðeins til málamynda?

9 Kristur sagði engli safnaðarins í Sardes: „Ég þekki verkin þín, að þú lifir að nafninu, en ert dauður.“ Hvað er til ráða ef við erum talin vera andlega sinnuð en erum í rauninni sinnulítil gagnvart þjónustuverkefnum í söfnuðinum og þjónusta okkar er aðallega til málamynda og ‚að dauða komin‘? Þá þurfum við að ‚minnast þess hvernig við tókum á móti og heyrðum‘ boðskapinn um ríkið, og við ættum að blása nýju lífi í þjónustu okkar. Við ættum að temja okkur að taka þátt í safnaðarsamkomum af heilum huga. (Hebreabréfið 10:24, 25) Kristur aðvaraði söfnuðinn í Sardes: „Ef þú vakir ekki, mun ég koma eins og þjófur, og þú munt alls ekki vita, á hverri stundu ég kem yfir þig.“ Þessi viðvörun minnir á að við þurfum bráðlega að standa reikningsskap gerða okkar.

10. Hvað ætti að vera hægt að segja um suma, jafnvel þó að ástandið sé svipað og í Sardes?

10 Jafnvel þó að staðan sé eins og lýst er í Sardes eru kannski fáeinir sem ‚ekki hafa saurgað klæði sín og geta gengið með Kristi í hvítum klæðum því að þeir eru maklegir‘. Það er auðséð öllum stundum að þeir eru kristnir því að þeir eru óflekkaðir af þessum heimi, bæði siðferðilega og trúarlega. (Jakobsbréfið 1:27) Þess vegna mun Jesús ‚ekki afmá nöfn þeirra úr bók lífsins heldur kannast við þau fyrir föðurnum og englunum‘. Brúðarhópurinn, hinir smurðu, er lýstur maklegur þess að ganga með Kristi og er skrýddur skínandi og hreinu líni sem táknar réttlætisverk heilagra þjóna Guðs. (Opinberunarbókin 19:8) Þjónustusérréttindin, sem bíða þeirra á himnum, eru þeim hvati til að sigra heiminn. Það er líka mikil blessun að eiga í vændum eilíft líf á jörðinni, og nöfn þeirra sem eiga þá von eru skráð í bók lífsins.

11. Hvað ættum við að gera ef við erum orðin andlega syfjuð?

11 Enginn vill komast í það dapurlega ástand sem var í söfnuðinum í Sardes. En hvað er til ráða ef við áttum okkur á því að við erum orðin andlega syfjuð? Þá er okkur fyrir bestu að bregðast hart við. Ef óguðlegt hátterni höfðar til okkar eða við erum orðin ódugleg að sækja samkomur eða fara í boðunarstarfið skulum við leita hjálpar Jehóva í innilegri bæn. (Filippíbréfið 4:6, 7, 13) Við stuðlum að andlegri árvekni með daglegum biblíulestri og námi í Biblíunni og ritum ‚hins trúa ráðsmanns‘. (Lúkas 12:42-44) Þá verðum við eins og þeir safnaðarmenn í Sardes sem Kristur hafði velþóknun á og erum trúsystkinum okkar til blessunar.

Til engilsins í Fíladelfíu

12. Lýstu trúarlífinu í Fíladelfíu.

12 Jesús hrósaði söfnuðinum í Fíladelfíu. (Lestu Opinberunarbókina 3:7-13.) Fíladelfía (nú Alasehir) var efnuð borg og miðstöð vínræktarhéraðs í vesturhluta Litlu-Asíu. Vínguðinn Díonýsos var helsta goð borgarmanna. Svo virðist sem Gyðingar í Fíladelfíu hafi reynt, án árangurs, að telja kristna menn þar í borg á að halda í suma af siðum Móselaganna eða taka þá upp að nýju.

13. Hvernig hefur Kristur notað „lykil Davíðs“?

13 Kristur „hefur lykil Davíðs“ og er þar með trúað fyrir því að gæta hagsmuna Guðsríkis í öllu og hafa umsjón með heimamönnum trúarinnar. (Jesaja 22:22; Lúkas 1:32) Jesús notaði þennan lykil til að opna kristnum mönnum í Fíladelfíu og annars staðar aðgang að þeim tækifærum og verkefnum sem Guðsríki bauð upp á. Frá 1919 hefur hann lokið upp ‚víðum dyrum og verkmiklum‘ sem enginn getur læst, þannig að ‚hinn trúi ráðsmaður‘ geti prédikað Guðsríki. (1. Korintubréf 16:9; Kólossubréfið 4:2-4) En auðvitað er algerlega lokað fyrir það að ‚samkunda Satans‘ fái nokkurn aðgang að sérréttindum Guðsríkis, enda eru engir andlegir Ísraelsmenn í henni.

14. (a) Hverju lofaði Jesús söfnuðinum í Fíladelfíu? (b) Hvernig getum við komið í veg fyrir að við föllum á „reynslustundinni“?

14 Jesús lofaði kristnum mönnum í Fíladelfíu: „Af því að þú hefur varðveitt orðið um þolgæði mitt mun ég og varðveita þig frá reynslustundinni, sem koma mun yfir alla heimsbyggðina, til að reyna þá sem á jörðunni búa.“ Boðunarstarfið útheimtir þolgæði líkt og Jesús sýndi. Hann lét aldrei undan óvininum heldur gerði alltaf vilja föðurins. Þess vegna var hann reistur upp og honum veittur ódauðleiki á himnum. Ef við erum staðföst í þeirri ákvörðun að tilbiðja Jehóva og styðjum ríki hans með því að prédika fagnaðarerindið, þá föllum við ekki á „reynslustundinni“ sem nú stendur yfir. Þá ‚höldum við fast því sem við höfum‘ frá Kristi með því að leggja okkur öll fram um að efla hag Guðsríkis. Fyrir vikið hljóta hinir smurðu ómetanlega kórónu á himni og dyggir félagar þeirra eilíft líf á jörð.

15. Hvers er krafist af þeim sem verða ‚stólpar í musteri Guðs‘?

15 Kristur bætir við: „Þann er sigrar mun ég gjöra að stólpa í musteri Guðs míns. . . . Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja.“ Smurðir umsjónarmenn verða að halda sannri tilbeiðslu á loft. Þeir verða að gæta þess að þeir séu hæfir til að tilheyra ‚hinni nýju Jerúsalem‘ með því að prédika ríki Guðs og halda sér andlega hreinum. Þetta er nauðsynlegt til að fá að vera stólpar í musterinu á himnum og til að bera nafn borgar Guðs. Þannig geta þeir orðið himneskir þegnar hennar og fengið hlut í nafni Krists sem brúður hans. Og auðvitað verða þeir að hafa eyru sem ‚heyra hvað andinn segir söfnuðunum‘.

Til engilsins í Laódíkeu

16. Lýstu Laódíkeu.

16 Söfnuðurinn í Laódíkeu var sjálfumglaður og Kristur ávítar hann. (Lestu Opinberunarbókina 3:14-22.) Laódíkea stóð um 150 kílómetra austur af Efesus þar sem skárust fjölfarnar verslunarleiðir í frjósömum dal þar sem áin Lycus rann. Borgin var auðug iðnaðar- og fjármálamiðstöð. Fatnaður úr svartri ull þaðan af svæðinu var víðfrægur. Í Laódíkeu var þekktur læknaskóli og sennilega var framleitt þar augnlyf sem kallað var Frýgíuduft. Lækningaguðinn Asklepíos var einn helsti guðdómur borgarinnar. Gyðingar virðast hafa verið margir í Laódíkeu og sumir býsna auðugir.

17. Fyrir hvað voru Laódíkeumenn ávítaðir?

17 Jesús talaði til safnaðarins í Laódíkeu með því að ávarpa ‚engil‘ hans, og hann talar af myndugleik sem „votturinn trúi og sanni, upphaf sköpunar Guðs“. (Kólossubréfið 1:13-16) Laódíkeumenn voru ávítaðir fyrir að vera ‚hvorki kaldir né heitir‘ andlega. Þeir voru hálfvolgir svo að Kristur ætlaði að skyrpa þeim út af munni sínum. Þessi líking ætti ekki að hafa vafist fyrir þeim. Heitar lindir voru í grannborginni Híerapólis og kalt vatn í Kólossu. Hins vegar þurfti að leiða vatn til Laódíkeu um nokkurn veg og það var sennilega hálfvolgt þegar til borgarinnar kom. Að hluta til var það leitt um vatnsveitubrú en nær borginni rann það um gegnumboraðar steinblokkir sem límdar voru saman.

18, 19. Hvernig er hægt að hjálpa kristnum mönnum sem eru eins og Laódíkeumenn fortíðar?

18 Þeir sem líkjast Laódíkeumönnum eru hvorki nógu heitir til að vera hressandi né nógu kaldir til að vera svalandi. Jesús skyrpir þeim eins og væru þeir hálfvolgt vatn. Hann vill ekki hafa þá fyrir talsmenn sína og smurða ‚erindreka‘. (2. Korintubréf 5:20) Ef þeir iðrast ekki glata þeir þeim sérréttindum að vera boðberar Guðsríkis. Laódíkeumenn voru áfjáðir í jarðneskan auð og ‚vissu ekki að þeir voru vesalingar og aumingjar, fátækir, blindir og naktir‘. Til að losna við andlega fátækt, blindu og nekt þarf hver sá sem líkist þeim að kaupa af Kristi ‚skírt gull‘, sem er fullreynd trú, „hvít klæði“ réttlætisins og ‚smyrsl að smyrja með augu sín‘ til að skerpa andlegu sjónina. Kristnir umsjónarmenn eru meira en fúsir til að hjálpa þeim sem eru sér meðvita um andlega þörf sína, þannig að þeir geti orðið „auðugir í trú“. (Jakobsbréfið 2:5; Matteus 5:3) Og umsjónarmenn þurfa að hjálpa þeim að nota andlegu ‚augnsmyrslin‘ — að meðtaka og fara eftir kennslu Jesú, ráðum og fordæmi og tileinka sér hugarfar hans. Þetta er læknislyf gegn „fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti“. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.

19 Jesús agar og áminnir alla sem hann elskar. Umsjónarmenn undir stjórn hans verða að gera það líka með sama, blíðlega hættinum. (Postulasagan 20:28, 29) Laódíkeumenn þurftu að ‚vera heilhuga og gera iðrun‘ með því að breyta hugsunarhætti sínum og líferni. Eru sum okkar búin að venja sig á líferni þar sem hin heilaga þjónusta við Guð er orðin að aukaatriði? Þá skulum við ‚kaupa augnsmyrsl af Jesú‘ svo að við sjáum hve mikilvægt það er að leita fyrst ríkis Guðs og gera það af kappi. — Matteus 6:33.

20, 21. Hverjir bregðast rétt við þegar Jesús ‚knýr á‘ núna og hvað eiga þeir í vændum?

20 „Sjá, ég stend við dyrnar og kný á,“ segir Kristur. „Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.“ Jesús kenndi oft við matarborðið. (Lúkas 5:29-39; 7:36-50; 14:1-24) Núna knýr hann dyra hjá söfnuðum sem eru með Laódíkeueinkenni. Ætla safnaðarmenn að ljúka upp fyrir honum, endurlífga ást sína á honum, taka honum fagnandi og láta hann kenna sér? Ef þeir gera það sest Kristur að veisluborði með þeim og þeir hljóta mikla andlega blessun.

21 ‚Aðrir sauðir‘ nútímans ljúka upp fyrir Jesú táknrænt séð og það stuðlar að því að þeir hljóti eilíft líf. (Jóhannes 10:16; Matteus 25:34-40, 46) Kristur veitir öllum hinum smurðu, sem sigra, að ‚sitja hjá sér í hásæti sínu, eins og hann sjálfur sigraði og settist hjá föður sínum í hásæti hans‘. Já, hann lofar þeim stórfenglegum launum — að fá að sitja hjá sér í hásæti við hægri hönd föðurins á himnum. Og aðrir sauðir eiga í vændum unaðslegan stað á jörð undir stjórn Guðsríkis, ef þeir sigra.

Lærdómur handa okkur öllum

22, 23. (a) Hvernig geta allir kristnir menn notið góðs af orðsendingum Jesú til safnaðanna sjö? (b) Í hverju ættum við að vera staðráðin?

22 Enginn vafi leikur á að allir kristnir menn geta haft mikið gagn af orðsendingum Jesú til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu. Umhyggjusamir safnaðaröldungar eru minnugir þess að Kristur hrósaði eftir því sem við átti, og þeir leggja sig fram um að hrósa einstaklingum og söfnuðum sem standa sig vel í trúnni. Þar sem veikleika er vart hjálpa öldungarnir trúsystkinum sínum að fara eftir ráðum Biblíunnar. Við getum öll haft mikið gagn af leiðbeiningum Krists til safnaðanna sjö, svo framarlega sem við förum eftir þeim í bænarhug og gerum það án tafar. *

23 Núna á síðustu dögum megum við alls ekki láta sjálfumgleði, efnishyggju eða nokkuð annað verða þess valdandi að við þjónum Guði aðeins til málamynda. Hver einasti söfnuður ætti því að leggja sig fram um að skína skært eins og ljósastika sem Jesús lætur standa á sínum stað. Verum trúföst og staðráðin í að gefa gaum að orðum Krists og heyra hvað andinn segir. Þá verðum við ævarandi ljósberar, Jehóva til dýrðar, og njótum eilífrar gleði.

[Neðanmáls]

^ gr. 22 Það er einnig fjallað um Opinberunarbókina 2:1–3:22 í 7. til 13. kafla bókarinnar Revelation — Its Grand Climax At Hand! sem Vottar Jehóva gefa út.

Hvert er svarið?

• Hver var ‚konan Jessabel‘ og af hverju líkja guðræknar konur ekki eftir henni?

• Hvernig var ástandið í söfnuðinum í Sardes og hvað getum við gert til að verða ekki eins og margir kristnir menn þar í borg?

• Hverju lofaði Jesús söfnuðinum í Fíladelfíu og hvernig á það við núna?

• Fyrir hvað fengu Laódíkeumenn ákúrur en hvað lá fyrir þeim sem voru kostgæfnir?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 16]

Það er mikilvægt að forðast vonsku ‚konunnar Jessabel‘.

[Myndir á blaðsíðu 18]

Jesús hefur opnað fylgjendum sínum „víðar dyr“ að þjónustu við Guðsríki.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Tekurðu fagnandi á móti Jesú og hlýðir á hann?