Leiðarbók Nóa — hefur hún einhverja þýðingu fyrir okkur?
Leiðarbók Nóa — hefur hún einhverja þýðingu fyrir okkur?
Í SPÁDÓMINUM um tákn nærveru sinnar og endaloka heimskerfisins sagði Jesús: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins.“ (Matteus 24:3, 37) Af spádómi Jesú er augljóst að það sem er að gerast á okkar dögum er hliðstætt dögum Nóa. Áreiðanleg og nákvæm frásögn af dögum Nóa getur reynst ómetanlegur fjársjóður.
Er leiðarbók Nóa slíkur fjársjóður? Ber hún þess merki að vera áreiðanleg sagnaheimild? Er hægt að tímasetja nákvæmlega hvenær flóðið átti sér stað?
Hvenær átti flóðið sér stað?
Biblían greinir frá ýmsum atburðum í tímaröð og það gerir okkur kleift að telja tímann nákvæmlega aftur til upphafs mannkynssögunnar. Í 1. Mósebók 5:1-29 er að finna ættartöluna frá sköpun fyrsta mannsins, Adams, og þar til Nói fæddist. Flóðið hófst „á sexhundraðasta aldursári Nóa“. — 1. Mósebók 7:11.
Til að tímasetja flóðið verður að miða við ákveðið ártal sem er staðfest af veraldlegum sagnaheimildum og samsvarar ákveðnum atburði í Biblíunni. Út frá þessu ártali er svo hægt að reikna út hvenær flóðið átti sér stað samkvæmt gregoríska tímatalinu sem almennt er notað.
Árið 539 fyrir okkar tímatal er eitt slíkt ártal. Það ár vann Kýrus Persakonungur Babýlon. Meðal veraldlegra heimilda frá stjórnartíð hans eru babýlonskar áletranir og rit Díódórosar, Afríkanusar, Evsebíusar og Ptólemeosar. Kýrus gaf út tilskipun sem heimilaði leifum Gyðinga að yfirgefa Babýlon. Þeir komu til heimalands síns árið 537 f.o.t. og þar með lauk 70 ára auðn Júda sem hófst árið 607 f.o.t. samkvæmt frásögn Biblíunnar. Með því að taka mið af dómara- og konungatímanum er hægt að reikna út að burtför Ísraelsmanna frá Egyptalandi átti sér stað árið 1513 f.o.t. Tímatal Biblíunnar færir okkur um 430 ár til viðbótar aftur til ársins 1943 f.o.t. en þá var Abrahamssáttmálinn gerður. Næst verður að taka mið af fæðingu og æviskeiði Tara, Nahors, Serúgs, Reús, Pelegs, Ebers, Sela og Arpaksads sem fæddist „tveim árum eftir flóðið“. (1. Mósebók 11:10-32) Með þessu móti getum við tímasett byrjun flóðsins árið 2370 f.o.t. *
Flóðið hefst
Áður en farið verður yfir ýmsa atburði á dögum Nóa gæti verið gott að lesa 1. Mósebók 7. kafla, vers 11 til 8. kafla, vers 4. Þar er meðal annars sagt um úrhellið: „Á sexhundraðasta aldursári Nóa [2370 f.o.t.], í öðrum mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á þeim degi opnuðust allar uppsprettur hins mikla undirdjúps og flóðgáttir himinsins lukust upp.“ — 1. Mósebók 7:11.
Nói skipti árinu niður í 12 mánuði og hverjum mánuði í 30 daga. Á þeim tíma var fyrsti mánuður ársins um miðjan september samkvæmt okkar almanaki. Úrhellið hófst „í öðrum mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins“ og það rigndi í 40 daga og 40 nætur í nóvember og desember árið 2370 f.o.t.
1. Mósebók 7:24–8:4) Það liðu sem sagt 150 dagar eða fimm mánuðir frá því að vatnið umlukti jörðina og þar til það fór að réna. Örkin settist á Araratsfjöll í apríl 2369 f.o.t.
Okkur er einnig sagt um flóðið: „Og vötnin mögnuðust á jörðinni [„umluktu jörðina,“ NW ] hundrað og fimmtíu daga. . . . Og vatnið rénaði meir og meir á jörðinni og þvarr eftir hundrað og fimmtíu daga. Og örkin nam staðar í sjöunda mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á Araratsfjöllunum.“ (Núna gæti verið gott að lesa 1. Mósebók 8:5-17. Fjallatindarnir sáust um tveimur og hálfum mánuði (73 dögum) síðar, „í tíunda mánuðinum [júní], á fyrsta degi mánaðarins“. (1. Mósebók 8:5) * Þrem mánuðum (90 dögum) síðar, ,á sexhundraðasta og fyrsta ári Nóa, í fyrsta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins‘, eða um miðjan september árið 2369 f.o.t., tók Nói þakið af örkinni. Þá sá hann að ,yfirborð jarðarinnar var orðið þurrt‘. (1. Mósebók 8:13) Einum mánuði og 27 dögum (alls 57 dögum) síðar, „í öðrum mánuðinum, á tuttugasta og sjöunda degi mánaðarins [um miðjan nóvember árið 2369 f.o.t.] var jörðin þurr.“ Nói og fjölskylda hans stigu þá út úr örkinni á þurra jörð. Þau voru því eitt tunglár og 27 daga (alls 370 daga) í örkinni. — 1. Mósebók 8:14.
Hvað sannar þessi nákvæma frásögn sem tekur til atburða, smáatriða og tímasetninga? Að hebreski spámaðurinn Móse skráði ekki niður goðsagnakennda táknsögu heldur einfaldlega staðreyndir, byggðar á heimildum sem hann hafði fengið. Flóðið hefur því mikla þýðingu fyrir okkur.
Hvernig litu aðrir biblíuritarar á flóðið?
Auk frásögunnar í 1. Mósebók eru fjölmargar vísanir til Nóa eða flóðsins í Biblíunni. Tökum dæmi:
(1) Fræðimaðurinn Esra hafði Nóa og syni hans (Sem, Kam og Jafet) með í ættartölu Ísraelsmanna. — 1. Kroníkubók 1:4-17.
(2) Læknirinn og guðspjallaritarinn Lúkas taldi Nóa með er hann skráði forfeður Jesú Krists. — Lúkas 3:36.
(3) Pétur postuli notaði frásöguna af flóðinu mikið í bréfum til trúsystkina sinna. — 2. Pétursbréf 2:5; 3:5, 6.
(4) Páll talaði um þá miklu trú sem Nói sýndi er hann smíðaði örk til bjargar fjölskyldu sinni. — Hebreabréfið 11:7.
Leikur nokkur vafi á því að þessir guðinnblásnu biblíuritarar hafi trúað frásögn 1. Mósebókar af flóðinu? Þeir álitu hana greinilega vera staðreynd.
Jesús og flóðið
Jesús Kristur var til áður en hann varð maður. (Orðskviðirnir 8:30, 31) Hann var andavera á himnum meðan á flóðinu stóð. Og þar sem hann var sjónarvottur að flóðinu er hann áreiðanlegasti heimildarmaðurinn um að Nói hafi verið til og flóðið hafi átt sér stað. Jesús sagði: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu [„nærveru,“ NW ] Mannssonarins.“ — Matteus 24:37-39.
Ætli Jesús myndi nota þjóðsögu til að vara okkur við endi núverandi heimskerfis? Auðvitað ekki. Við erum fullviss um að hann notaði ósvikið dæmi til að lýsa því þegar dómi Guðs yfir hinum vondu verður fullnægt. Auðvitað týndu margir lífi í flóðinu en það er uppörvandi til að vita að Nói og fjölskylda hans lifðu flóðið af.
,Dagar Nóa‘ hafa mikla þýðingu fyrir menn nú á tímum því að ,nærvera Mannssonarins‘, Jesú Krists, stendur yfir. Þegar við lesum þessa nákvæmu frásögn af heimsflóðinu, sem Nói skrásetti, þurfum við ekki að velkjast í neinum vafa um það hvort hún sé ósvikin sagnaheimild. Og það er margt sem við getum lært af þessari guðinnblásnu frásögu í 1. Mósebók. Nói, synir hans og konur þeirra lögðu traust sitt á hjálpræðisleið Guðs og við getum á líkan hátt notið verndar Guðs vegna trúar okkar á lausnarfórn Jesú. (Matteus 20:28) Við getum meira að segja haft þá von að vera í hópi þeirra sem lifa af endi núverandi heimskerfis, rétt eins og Nói og fjölskylda hans lifðu af flóð sem afmáði óguðlegan heim þess tíma.
[Neðanmáls]
^ gr. 7 Nákvæmari skýringar á tímasetningu flóðsins er að finna í 1. bindi bókarinnar Insight on the Scriptures (Innsýn í Ritninguna), blaðsíðu 458-60. Gefin út af Vottum Jehóva.
^ gr. 12 Bókin Keil-Delitzsch Commentary on the Old Testament segir í 1. bindi á blaðsíðu 148: „Það var líklega 73 dögum eftir að örkin settist að fjallatindarnir sáust, það er að segja tindar armeníska hálendisins sem voru umhverfis hana.“
[Rammagrein á blaðsíðu 5]
Voru menn svona langlífir?
„Allir dagar Nóa voru níu hundruð og fimmtíu ár. Þá andaðist hann,“ segir Biblían. (1. Mósebók 9:29) Metúsala, langafi Nóa, lifði í 969 ár og er það hæsti mannsaldur sem skráður hefur verið. Meðalaldur tíu ættliða frá Adam til Nóa var yfir 850 ár. (1. Mósebók 5:5-31) Var fólk svona langlíft á þeim tíma?
Guð ætlaði manninum að lifa að eilífu. Þegar fyrsti maðurinn, Adam, var skapaður lá fyrir honum að lifa endalaust, svo framarlega sem hann væri hlýðinn Guði. (1. Mósebók 2:15-17) En Adam óhlýðnaðist og fyrirgerði þar með tækifærinu. Hann dó 930 ára gamall eftir hægfara dánarferli og sneri aftur til jarðarinnar, þaðan sem hann hafði verið tekinn. (1. Mósebók 3:19; 5:5) Fyrsti maðurinn lét alla afkomendur sína fá synd og dauða í arf. — Rómverjabréfið 5:12.
Þegar þessir menn voru uppi var skammt um liðið síðan Adam var fullkominn og það var greinilega ástæðan fyrir því að þeir lifðu lengur en þeir sem síðar fæddust. Mannsaldurinn var þess vegna næstum því þúsund ár fyrir flóðið en eftir flóðið fór hann hríðlækkandi. Til dæmis varð Abraham aðeins 175 ára. (1. Mósebók 25:7) Og um 400 árum eftir að þessi trúfasti forfaðir dó skrifaði spámaðurinn Móse: „Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi.“ (Sálmur 90:10) Staðan er svipuð nú á dögum.
[Skýringarmynd/myndir á blaðsíðu 6, 7]
Talið til baka frá tilskipun Kýrusar um að Gyðingar fengju frelsi úr ánauðinni til flóðsins á dögum Nóa
537 Tilskipun Kýrusar *
539 Kýrus Persakonungur vinnur Babýlon
68 ár
607 70 ára auðn Júda hefst
906 ára tímabil
leiðtoga, dómara
og konunga
Ísraels
1513 Burtför Ísraelsmanna úr Egyptalandi
430 ár 430 ára tímabil Ísraelsmanna í
Egyptalandi og Kanaanlandi
1943 Abrahamssáttmálinn tekur gildi
205 ár
2148 Tara fæðist
222 ár
2370 Flóðið hefst
[Neðanmáls]
^ gr. 35 Tilskipun Kýrusar um að Gyðingar skyldu leystir úr ánauð var gefin út „á fyrsta ríkisári Kýrusar Persakonungs“, að öllum líkindum árið 538 f.o.t. eða snemma árs 537 f.o.t.