Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Standið kyrrir og sjáið liðsinni Drottins“

„Standið kyrrir og sjáið liðsinni Drottins“

„Standið kyrrir og sjáið liðsinni Drottins“

„Skipið yður aðeins í fylkingu, standið kyrrir og sjáið liðsinni Drottins við yður.“ — 2. KRONÍKUBÓK 20:17.

1, 2. Af hverju verður árás ‚Gógs í Magóglandi‘ afdrifaríkari en hryðjuverkaárásir sem ógna heimsbyggðinni?

SUMIR segja hryðjuverk vera árás á heimssamfélagið og jafnvel á siðmenninguna sjálfa. Þótt slíka ógn þurfi að sjálfsögðu að taka alvarlega er önnur árás yfirvofandi sem heimssamfélagið gefur lítinn eða engan gaum að og sú árás verður enn afdrifaríkari. Hvaða árás er það?

2 Það er árás ‚Gógs í Magóglandi‘ sem Biblían fjallar um í 38. kafla Esekíelsbókar. Er of djúpt í árinni tekið að segja að sú árás verði afdrifaríkari en hryðjuverkaárásir sem ógna heimsbyggðinni? Nei, alls ekki því að árás Gógs beinist ekki gegn stjórnum manna heldur gegn himneskri stjórn Guðs. En þó að menn geti aðeins að takmörkuðu leyti brugðist við árásum á stjórnir sínar er skaparinn fyllilega hæfur til að stöðva grimmilega árás Gógs.

Árás á stjórn Guðs

3. Hvað hefur leiðtogum manna staðið til boða frá 1914 og hver hafa viðbrögð þeirra verið?

3 Átök milli konungs Guðs, sem nú ríkir, og hins illa heimskerfis Satans hafa staðið yfir frá því að Guðsríki var stofnsett á himnum árið 1914. Frá þeim tíma hefur leiðtogum manna staðið til boða að lúta útvöldum leiðtoga Guðs. En þeir hafa hafnað því boði eins og sagt var fyrir: „Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða: ‚Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra.‘“ (Sálmur 2:1-3) Andspyrna gegn stjórn Guðsríkis nær augljóslega hámarki í árás Gógs frá Magóg.

4, 5. Hvernig geta menn barist gegn ósýnilegri stjórn Guðs á himnum?

4 Okkur er kannski spurn hvernig menn geti barist gegn ósýnilegri stjórn á himnum. Biblían segir að þessi stjórn sé mynduð af ‚hundrað fjörutíu og fjórum þúsundum, sem út eru leystar frá jörðunni‘ ásamt ‚lambinu‘, Jesú Kristi. (Opinberunarbókin 14:1, 3; Jóhannes 1:29) Þessi nýja stjórn er himnesk og því kölluð ‚nýr himinn‘, en þegnar þessarar stjórnar eru kallaðir ‚ný jörð‘. (Jesaja 65:17; 2. Pétursbréf 3:13) Flestir af 144.000 meðstjórnendum Krists hafa nú þegar lokið jarðnesku lífsskeiði sínu í trú. Þeir hafa sannað sig verðuga þess að sinna nýju þjónustustarfi á himnum.

5 Leifar hinna 144.000 eru hins vegar enn á jörðinni. Þó að rúmlega 15.000.000 hafi sótt kvöldmáltíð Drottins árið 2002 sýndu aðeins 8.760 að þeir höfðu þá von að vera útvaldir til að þjóna á himnum. Hver sá sem vogar sér að ráðast á væntanlega stjórnendur Guðsríkis er í raun að ráðast á Guðsríki sjálft. — Opinberunarbókin 12:17.

Konungurinn fer út til þess að sigra

6. Hvernig líta Jehóva og Jesús á andstöðu sem beint er gegn fólki Jehóva?

6 Búið er að segja fyrir hvernig Jehóva bregðist við andspyrnunni gegn stofnsettu ríki sínu: „Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim. Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni: ‚Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga.‘“ (Sálmur 2:4-6) Nú er kominn tími til að Kristur, undir stjórn Jehóva, ‚fari út til þess að sigra‘. (Opinberunarbókin 6:2) Hvað finnst Jehóva um andstöðuna sem beint er gegn fólki hans í lokaárásinni? Hann lítur svo á að henni sé beint gegn sér og ríkjandi konungi sínum. „Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn,“ segir Jehóva. (Sakaría 2:8) Og Jesús lítur svo á að allt sem menn geri smurðum bræðrum hans hafi þeir gert honum. — Matteus 25:40, 45.

7. Af hverju fær ‚hinn mikli múgur‘, sem talað er um í Opinberunarbókinni 7:9, að kenna á reiði Gógs?

7 En þeir sem styðja hinar smurðu leifar eiga auðvitað líka eftir að fá að kenna á reiði Gógs. Þeir horfa fram til þess að tilheyra hinni ‚nýju jörð‘ Guðs og eru „mikill múgur . . . af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“. (Opinberunarbókin 7:9) Sagt er að þeir ‚standi frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu skrýddir hvítum skikkjum‘ sem þýðir að þeir hafa velþóknun Guðs og Jesú Krists. Þeir hafa „pálmagreinar í höndum“ og lofa Jehóva sem réttmætan alheimsdrottinn en hann ríkir fyrir milligöngu konungsins Jesú Krists sem kallaður er „Guðs lamb“. — Jóhannes 1:29, 36.

8. Hvað finnur Kristur sig knúinn til að gera þegar Góg gerir árás og með hvaða afleiðingum?

8 Þegar Góg gerir árás finnur krýndur konungur Guðs sig knúinn til að taka í taumana og heyja Harmagedónstríðið. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Þeim sem hafa ekki viljað viðurkenna drottinvald Jehóva verður eytt. En þeir sem hafa þolað þrengingar vegna trúfesti sinnar við Guðsríki hljóta hins vegar varanlega hvíld. Páll postuli skrifaði: „[Þrengingarnar] eru augljóst merki þess, að Guð dæmir rétt og mun álíta yður maklega Guðs ríkis, sem þér nú líðið illt fyrir. Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu, sem að yður þrengja. En yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ — 2. Þessaloníkubréf 1:5-8.

9, 10. (a) Hvernig veitti Jehóva Júda sigur á öflugum óvini? (b) Hvað verða kristnir menn að halda áfram að gera núna?

9 Í hinni komandi miklu þrengingu, sem nær hámarki í Harmagedón, heyr Kristur stríð gegn öllu illu. Íbúar tveggjaættkvíslaríkisins Júda til forna þurftu ekki að berjast og fylgjendur hans nú á dögum munu ekki þurfa þess heldur. Þetta var bardagi Jehóva og hann veitti sigurinn. Frásagan segir: „Setti Drottinn launsátur móti Ammónítum, Móabítum og Seírfjalla-búum, er fóru í móti Júda, og þeir biðu ósigur. Ammónítar og Móabítar hófust gegn Seírfjalla-búum til þess að gjöreyða þeim og tortíma, og er þeir höfðu gjörsigrað Seírbúa, þá hjálpuðu þeir til að tortíma hver öðrum. Og er Júdamenn komu á hæðina, þaðan er sjá mátti yfir eyðimörkina, og lituðust um eftir mannfjöldanum, sjá, þá voru þeir hnignir dauðir til jarðar, og enginn hafði undan komist.“ — 2. Kroníkubók 20:22-24.

10 Þetta var nákvæmlega eins og Jehóva var búinn að segja: „Eigi þurfið þér að berjast.“ (2. Kroníkubók 20:17) Kristnir menn ættu að fylgja þessari fyrirmynd þegar Kristur ‚fer út til þess að sigra‘. En fram að þeim tíma halda þeir áfram að berjast gegn illsku með andlegum vopnum í stað bókstaflegra. Þannig sigra þeir „illt með góðu“.— Rómverjabréfið 6:13; 12:17-21; 13:12; 2. Korintubréf 10:3-5.

Hver leiðir árás Gógs?

11. (a) Hvaða stofnanir notar Góg til að vinna verk sitt? (b) Hvað er fólgið í því að vera andlega vakandi?

11 Góg frá Magóg táknar Satan djöfulinn eftir að hann var niðurlægður árið 1914. En þar sem hann er andavera og getur ekki bókstaflega gert árás sjálfur notar hann stofnanir manna til að vinna verk sitt. Hvaða stofnanir verða það? Biblían lýsir því ekki í smáatriðum en hún gefur okkur ákveðnar vísbendingar sem hjálpa okkur að bera kennsl á þær. Þetta skýrist smám saman eftir því sem heimsatburðir uppfylla spádóma Biblíunnar. Fólk Guðs forðast getgátur en heldur sér samt andlega vakandi og fylgist með hvernig framvinda trúmála og stjórnmála uppfyllir spádóma Biblíunnar.

12, 13. Hverju spáir Daníel um lokaárás á fólk Guðs?

12 Spámaðurinn Daníel varpar ljósi á lokaárásina á fólk Guðs og segir: „Mun hann [konungurinn norður frá] þá í mikilli bræði hefja ferð sína til þess að eyða og tortíma mörgum. Hann mun slá skrauttjöldum sínum milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði.“ — Daníel 11:44, 45.

13 ‚Hafið‘, sem hér er nefnt, er Miðjarðarhafið og ‚fjall hinnar helgu prýði‘ er Síon. Jehóva sagði um Síon: „Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga.“ (Sálmur 2:6; Jósúabók 1:4) Í andlegum skilningi táknar því landið „milli hafsins og fjalls hinnar helgu prýði“ blómlega landareign smurðra kristinna manna. Þeir tilheyra ekki lengur ólgusjó mannkynsins, sem er fjarlægur Guði, heldur horfa fram til þess að stjórna með Jesú Kristi í himneska ríkinu. Það er því augljóst að smurðir þjónar Guðs og trúir félagar þeirra af hinum mikla múgi verða skotspónn konungsins norður frá þegar hann kemur af stað árásinni sem boðuð er í spádómi Daníels. — Jesaja 57:20; Hebreabréfið 12:22; Opinberunarbókin 14:1.

Hver verða viðbrögð þjóna Guðs?

14. Hvað eiga þjónar Guðs að gera þegar ráðist verður á þá?

14 En hvað er ætlast til að þjónar Guðs geri þegar ráðist verður á þá? Við getum tekið okkur til fyrirmyndar viðbrögð þjóðar Guðs á dögum Jósafats. Þá var þegnunum fyrirskipað að gera þrennt: (1) skipa sér í fylkingu, (2) standa kyrrir og (3) sjá liðsinni Jehóva. Hvernig geta þjónar Guðs nú á dögum farið eftir þessum orðum? — 2. Kroníkubók 20:17.

15. Hvernig skipar fólk Guðs sér í fylkingu?

15 Skipa sér í fylkingu: Þjónar Guðs halda ótrauðir áfram að styðja Guðsríki. Þeir varðveita kristið hlutleysi, eru „staðfastir, óbifanlegir“ og trúfastir í þjónustu sinni við Jehóva og halda áfram að lofa hann opinberlega fyrir ást hans og umhyggju. (1. Korintubréf 15:58; Sálmur 118:28, 29) Engir erfiðleikar, hvorki núna né í framtíðinni, fá þá til að stofna góðu sambandi sínu við Guð í hættu.

16. Í hvaða skilningi munu þjónar Jehóva standa kyrrir?

16 Standa kyrrir: Þjónar Jehóva reyna ekki að bjarga sjálfum sér heldur leggja þeir allt traust sitt á Jehóva. Hann einn er fær um að bjarga þjónum sínum úr glundroða heimsins og það hefur hann lofað að gera. (Jesaja 43:10, 11; 54:15; Harmljóðin 3:26) Það að treysta Jehóva felur í sér að treysta þeirri sýnilegu boðleið sem hann notar núna og hefur greinilega notað í áratugi til að þjóna tilgangi sínum. Þá verður brýnna en nokkru sinni fyrr að sannkristnir menn treysti trúbræðrum sem Jehóva og konungur hans hafa falið yfirráð. Þessir trúu menn munu leiðbeina fólki Guðs. Ef við hunsum leiðsögn þeirra gæti það endað með ósköpum. — Matteus 24:45-47; Hebreabréfið 13:7, 17.

17. Af hverju munu trúfastir þjónar Guðs sjá liðsinni hans?

17 Sjá liðsinni Jehóva: Allir þeir sem varðveita kristið hlutleysi sitt og treysta því að Jehóva frelsi þá munu sjá liðsinni Jehóva eða hjálpræði. Þeir boða dómsdag Jehóva í þeim mæli sem þeir geta, fram á síðustu stundu. Öll sköpunin þarf að vita að Jehóva er hinn sanni Guð og að hann eigi trúfasta þjóna á jörðinni. Aldrei aftur þarf að útkljá langvarandi deilumál um það hvort Jehóva sé réttmætur alheimsdrottinn. — Esekíel 33:33; 36:23.

18, 19. (a) Hvernig lýsir sigursöngurinn í 15. kaflanum í 2. Mósebók tilfinningum þeirra sem munu lifa af árás Gógs? (b) Hvað er viðeigandi að fólk Guðs geri núna?

18 Fólk Guðs á eftir að ganga inn í nýja heiminn endurnýjað af krafti og ákaft í að syngja sigursöng eins og Ísraelsmenn til forna gerðu, eftir frelsun þeirra í gegnum Rauðahafið. Þeir verða, bæði sem einstaklingar og hópur, ævinlega þakklátir fyrir vernd Jehóva og munu enduróma orðin sem sögð voru forðum: „Ég vil lofsyngja Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört. . . . Drottinn er stríðshetja, Drottinn er hans nafn. . . . Þín hægri hönd, Drottinn, sundurkremur fjandmennina. Og með mikilleik þinnar hátignar leggur þú mótstöðumenn þína að velli, þú útsendir þína reiði, og hún eyðir þeim eins og hálmleggjum. . . . Þú hefir leitt fólkið, sem þú frelsaðir, með miskunn þinni, þú fylgdir því með þínum krafti til þíns heilaga bústaðar. . . . Þú leiddir þá inn og gróðursettir þá á fjalli arfleifðar þinnar, þeim stað, sem þú, Drottinn, hefir gjört að þínum bústað, þeim helgidóm, sem þínar hendur, Drottinn, hafa reist. Drottinn skal ríkja um aldur og að eilífu!“ — 2. Mósebók 15:1-19.

19 Núna, þegar horfurnar á eilífu lífi eru bjartari en nokkru sinni fyrr, er góður tími fyrir þjóna Jehóva að sýna hollustu sína við hann og styrkja þann ásetning að þjóna honum sem eilífum konungi. — 1. Kroníkubók 29:11-13.

Geturðu útskýrt?

• Hvers vegna ræðst Góg á hina smurðu og aðra sauði?

• Hvernig skipar fólk Guðs sér í fylkingu?

• Hvað merkir það að standa kyrrir?

• Hvernig fær fólk Guðs að sjá liðsinni hans?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Jósafat og þegnar hans þurftu ekki að berjast — Jehóva veitti þeim sigurinn.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Hinir smurðu og aðrir sauðir taka sameiginlega þátt í því að halda drottinvaldi Jehóva á loft.

[Mynd á blaðsíðu 30]

Bráðlega syngur fólk Guðs sigursöng eins og Ísraelsmenn gerðu forðum.