Fornleifafundur sem sannar að Jesús hafi verið til?
Fornleifafundur sem sannar að Jesús hafi verið til?
„SÖNNUN fyrir tilvist Jesú letruð í stein.“ Þetta sagði tímaritið Biblical Archaeology Review á forsíðu (nóvember-desember 2002). Á síðunni var mynd af beinakistli úr kalksteini sem fundist hafði í Ísrael. Beinakistlar voru algengir hjá Gyðingum á 1. öld fyrir okkar tímatal og fram til ársins 70 eftir okkar tímatali. En það sem gerði þennan beinakistil mikilvægan öðrum fremur var arameísk áletrun á einni hliðinni. Fræðimenn hafa komið sér saman um að þar standi: „Jakob, sonur Jósefs, bróðir Jesú.“
Samkvæmt Biblíunni átti Jesús frá Nasaret bróður að nafni Jakob sem var álitinn sonur Jósefs og Maríu. Er Jesús kenndi í heimabæ sínum spurðu áheyrendur furðu lostnir: „Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas? Og eru ekki systur hans allar hjá oss?“ — Matteus 13:54-56; Lúkas 4:22; Jóhannes 6:42.
Áletrunin á beinakistlinum kemur greinilega heim og saman við lýsinguna á Jesú frá Nasaret. Ef Jakob sá, sem áletrunin nefnir, var hálfbróðir Jesú Krists er kistillinn „elsta fornleifafræðilega sönnunin, utan Biblíunnar, fyrir tilvist Jesú“, að sögn André Lemaire, en hann er heimildarmaður um fornar áletranir og höfundur fyrrnefndrar greinar í tímaritinu Biblical Archaeology Review. Hershel Shanks, ritstjóri tímaritsins, segir að beinakistillinn sé „áþreifanlegur og sýnilegur vitnisburður um mikilvægasta mann sem til hefur verið“.
En öll nöfnin þrjú á beinakistlinum voru algeng á fyrstu öldinni. Það er því mögulegt að til hafi verið Jakob, Jósef og Jesús í einhverri annarri fjölskyldu. Lemaire áætlar að „um 20 menn í Jerúsalem hafi getað kallast Jakob, sonur Jósefs, bróðir Jesú síðustu tvær kynslóðir fyrir árið 70“. Hvað sem því líður telur hann að það séu 90 prósent líkur á því að Jakob á beinakistlinum hafi verið hálfbróðir Jesú Krists.
Það er önnur ástæða fyrir því að sumir trúa að þessi Jakob hafi verið hálfbróðir Jesú Krists. Þó að það hafi verið algengt að slíkar áletranir hafi nefnt föður hins látna á slíkum áletrunum var mjög sjaldgæft að þær nefndu bróður. Þess vegna álíta sumir fræðimenn að þessi Jesús hljóti að hafa verið mikilvægur maður og þar af leiðandi halda þeir að hann hafi verið Jesús Kristur, stofnandi kristninnar.
Er beinakistillinn ósvikinn?
Beinakistlar voru hafðir undir bein látins manns eftir að holdið hafði rotnað í grafhelli. Mörgum beinakistlum var rænt úr gröfum umhverfis Jerúsalem. Kistillinn, sem hér um ræðir, fékkst á fornmunamarkaði en ekki við opinberan fornleifauppgröft. Eigandi kistilsins er sagður hafa keypt hann á áttunda áratugnum fyrir nokkra tugi þúsunda króna. Uppruni kistilsins er því hulin ráðgáta. „Ef ekki er hægt að vita hvar fornmunur fannst eða hvar hann hefur verið síðustu 2000 árin getur maður ekki gefið sér að hann tengist fólkinu sem kann að vera nefnt á honum,“ segir Bruce Chilton, prófessor við Bard-háskólann í New York.
André Lemaire sendi beinakistilinn til rannsóknarstöðvarinnar Geological Survey í Ísrael til að bæta upp fyrir það hve lítið var vitað um uppruna hans og sögu. Rannsakendur þar sannreyndu að kistillinn var gerður úr kalksteini frá fyrstu eða annarri öld e.o.t. Þeir sögðu að ,engin ummerki hefðu fundist um að nútímaverkfæri hefðu verið notuð‘ við gerð kistilsins. Biblíufræðingar, sem The New York Times átti viðtal við, sögðu samt sem áður að „líkurnar á tengslum við Jesú væru hugsanlega sterkar en þetta væru engu að síður aðeins líkur“.
Tímaritið Time sagði að ,næstum því enginn menntaður nútímamaður dragi í efa að Jesús hafi verið til‘. Margir eru samt á þeirri skoðun að það ættu að vera fleiri sönnunargögn en Biblían um tilvist hans. Ætti fornleifafræðin að vera forsendan fyrir því að trúa á Jesú Krist? Hvaða sögulegar sannanir höfum við fyrir tilvist ,mikilvægasta manns sem til hefur verið‘?
[Mynd credit line á blaðsíðu 3]
Til vinstri, beinakistill Jakobs: AFP PHOTO/J.P. Moczulski; til hægri, áletrun: AFP PHOTO/HO.