Hugsaðu skýrt — breyttu viturlega
Hugsaðu skýrt — breyttu viturlega
SJÁÐU fyrir þér eftirfarandi atburðarás: Jesús Kristur útskýrir fyrir lærisveinum sínum að trúarlegir óvinir hans eigi eftir að valda honum miklum þjáningum og að lokum taka hann af lífi. Pétur postuli, náinn vinur hans, trúir honum ekki. Hann dregur Jesú afsíðis og fer að átelja hann. Það leikur enginn vafi á að Pétur gerir þetta af umhyggju og fullri einlægni. En hvernig tekur Jesús afstöðu Péturs? „Vík frá mér, Satan,“ segir Jesús, „þú ert mér til ásteytingar, þú hugsar ekki um það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er.“ — Matteus 16:21-23.
Pétri hlýtur að hafa brugðið hastarlega. Í stað þess að hjálpa meistara sínum og styðja hann var Pétur honum til „ásteytingar“. Hvernig gat þetta gerst? Líklegt er að Pétur hafi gengið í mjög algenga gildru — þá að trúa aðeins því sem maður vill trúa.
Vertu ekki of sjálfsöruggur
Sú tilhneiging að vera of öruggur með sjálfan sig kemur oft í veg fyrir að við getum hugsað skýrt. Páll postuli aðvaraði trúbræður sína í Korintu og sagði: „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki.“ (1. Korintubréf 10:12) Hvers vegna sagði Páll þetta? Einfaldlega vegna þess að hann vissi hversu auðveldlega hugsanir og viðhorf manna geta brenglast — jafnvel hugsanir kristinna manna sem geta ‚spillst og leiðst burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist‘. — 2. Korintubréf 11:3.
Það var einmitt þetta sem kom fyrir heila kynslóð ættmenna Páls öldum áður. Jehóva sagði við þá: „Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir.“ (Jesaja 55:8) Þeir voru orðnir ‚vitrir í augum sjálfra sín‘ og það hafði haft skelfilegar afleiðingar. (Jesaja 5:21) Það hlýtur því að vera skynsamlegt að athuga hvernig við getum hugsað skýrt og forðast þannig svipaða ógæfu.
Varastu holdlegan hugsunarhátt
Holdlegur hugsunarháttur hafði slæm áhrif á suma í Korintu. (1. Korintubréf 3:1-3) Þeir einbeittu sér meira að heimspeki manna en orði Guðs. Hinir grísku hugsuðir voru eflaust miklir gáfumenn. En í augum Guðs voru þeir heimskir. Páll sagði: „Ritað er: Ég mun eyða speki spekinganna, og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gjöra. Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku?“ (1. Korintubréf 1:19, 20) Slíkir gáfumenn létu stjórnast af „anda heimsins“ en ekki anda Guðs. (1. Korintubréf 2:12) Hugmyndir þeirra og skoðanir voru ekki í samræmi við viðhorf Jehóva.
Satan djöfullinn er uppspretta holdlegs hugsunarháttar, en hann hafði notað höggorm til að tæla Evu forðum daga. (1. Mósebók 3:1-6; 2. Korintubréf 11:3) Stafar mönnum enn hætta af honum? Já, svo sannarlega. Samkvæmt orði Guðs hefur Satan tekist svo vel að ‚blinda huga‘ manna að hann „afvegaleiðir alla heimsbyggðina“. (2. Korintubréf 4:4; Opinberunarbókin 12:9) Það er því mjög mikilvægt að vera á varðbergi fyrir vélráðum hans. — 2. Korintubréf 2:11.
Varaðu þig á „slægum mönnum“
Páll postuli varaði okkur líka við „slægum mönnum“. (Efesusbréfið 4:14) Hann átti í höggi við ‚svikula verkamenn‘ sem þóttust boða sannleikann en voru í raun að rangsnúa honum. (2. Korintubréf 11:12-15) Til að ná tilætluðum árangri grípa slíkir menn stundum til þess ráðs að nota aðeins þau rök sem þeim henta. Oft nota þeir tilfinningaþrungið mál, villandi hálfsannindi, útsmognar dylgjur og jafnvel hreinar og beinar lygar.
Áróðursmenn nota gjarnan orð eins og „sértrúarflokkur“ til að sverta aðra. Í tillögu, sem lögð var fyrir ráðgjafarþing Evrópuráðsins, var bent á að það væri ekki ráðlegt að embættismenn notuðu þetta hugtak þegar þeir tækju nýja trúarhópa til skoðunar. Hvers vegna? Álitið var að orðið „sértrúarflokkur“ eða sértrúarsöfnuður fæli í sér afar neikvæða aukamerkingu. Grískir menntamenn héldu því fram að Páll postuli væri „skraffinnur“ eða „frætínslumaður“ samkvæmt bókstaflegri þýðingu orðsins. Það átti að gefa í skyn að hann væri aðeins iðjulaus þvaðrari sem safnaði að sér þekkingarglefsum og tönnlaðist síðan á þeim. En í raun og veru var Páll að ‚flytja fagnaðarerindið um Jesú og upprisuna‘. — Postulasagan 17:18.
En virka aðferðir áróðursmanna? Já, þær hafa átt stóran þátt í því að rangsnúa hugmyndum fólks og ýta undir hatur í garð sumra þjóða og trúarhópa. Margir hafa notað þessar aðferðir til að gera óvinsæla minnihlutahópa hornreka. Adolf Hitler beitti þessari aðferð þegar hann sagði að Gyðingar og aðrir minnihlutahópar væru „úrkynjaðir“, „siðspilltir“ og „ógnun“ við ríkið. Við ættum aldrei að leyfa slíkum brögðum að eitra hugsanir okkar. — Postulasagan 28:19-22.
Blekktu ekki sjálfan þig
Það er auðvelt að blekkja sjálfan sig. Reyndar getur verið mjög erfitt að losa sig við eða véfengja fastmótaðar skoðanir. Hvers vegna? Vegna þess að skoðanir okkar eru okkur kærar. Við gætum þá farið að blekkja okkur með því að réttlæta skoðanir okkar, það er að segja hagræða sannleikanum til að réttlæta það sem við trúum í blindni.
Þetta gerðist hjá sumum kristnum mönnum á fyrstu öldinni. Þeir þekktu orð Guðs en létu það ekki stýra hugsun sinni. Og að lokum ‚sviku þeir sjálfa sig‘ með fölskum röksemdum. (Jakobsbréfið 1:22, 26) Ef við reiðumst þegar einhver dregur skoðanir okkar í efa getur það verið merki þess að við höfum fallið í þessa sömu gryfju — sjálfsblekkinguna. Í stað þess að reiðast væri því viturlegt að hlusta vel og með opnum huga á það sem aðrir hafa að segja — þótt við séum viss um að skoðun okkar sé sú rétta. — Orðskviðirnir 18:17.
Grafðu eftir ‚þekkingunni á Guði‘
Hvað getum við gert til að hugsa skýrt? Okkur stendur alls konar hjálp til boða, en við verðum að vera tilbúin til að bera okkur eftir henni. Hinn vitri konungur Salómon sagði: „Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að Orðskviðirnir 2:1-5) Já, ef við leggjum okkur fram um að fylla hugann og hjartað af sannleikanum í orði Guðs öðlumst við sanna visku, hyggindi og skilning. Við værum þá, með öðrum orðum, að grafa eftir því sem er langtum dýrmætara en silfur eða nokkur bókstaflegur fjársjóður. — Orðskviðirnir 3:13-15.
þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekking á Guði.“ (Viska og þekking eru nauðsynleg til að hugsa skýrt. „Því að speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg,“ segir Biblían. „Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig, til þess að frelsa þig frá vegi hins illa, frá þeim mönnum, sem fara með fals, sem yfirgefa stigu einlægninnar og ganga á vegum myrkursins.“ — Orðskviðirnir 2:10-13.
Það er sérstaklega mikilvægt að hafa viðhorf Guðs að leiðarljósi þegar við rötum í háska eða erum undir álagi. Sterkar tilfinningar, eins og reiði eða ótti, geta gert okkur erfitt um vik að hugsa skýrt. „Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja,“ segir Salómon. (Prédikarinn 7:7) Það er jafnvel hætta á að við förum að „illskast við Drottin“. (Orðskviðirnir 19:3) Hvernig þá? Við gætum farið að kenna Guði um þau vandamál sem að okkur steðja og notað það til að réttlæta hegðun sem samræmist ekki lögum hans og meginreglum. En í stað þess að halda að við sjálf höfum alltaf rétt fyrir okkur ættum við að hlusta auðmjúk á þá sem leitast við að leiðbeina okkur með hjálp Ritningarinnar. Og við ættum líka að vera tilbúin til að hafna fastmótaðri skoðun þegar það er orðið ljóst að hún er röng. — Orðskviðirnir 1:1-5; 15:22.
Haltu áfram að biðja til Guðs
Við lifum á hættulegum tímum og margt getur villt okkur sýn. Það er því nauðsynlegt að biðja Jehóva reglulega um að leiðbeina okkur við að sýna góða dómgreind og breyta viturlega. Páll skrifaði: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Ef okkur skortir visku til að takast á við erfiðleika og prófraunir, þá verðum við að ‚biðja Guð sem gefur öllum örlátlega og átölulaust‘. — Jakobsbréfið 1:5-8.
Pétur postuli vissi að trúbræður hans þyrftu að sýna visku. Þess vegna leitaðist hann við að ‚halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá þeim‘. Hann vildi að þeir ‚rifjuðu upp fyrir sér þau orð, sem hinir heilögu spámenn höfðu áður talað, og boðorð Drottins þeirra og frelsara‘, Jesú Krists. (2. Pétursbréf 3:1, 2) Ef við gerum slíkt hið sama og samræmum viðhorf okkar orði Jehóva hugsum við skýrt og breytum viturlega.
[Mynd á blaðsíðu 29]
Frumkristnir menn létu visku frá Guði móta hugsun sína en ekki heimspekileg rök.
[Credit line]
Heimspekingar, frá vinstri til hægri: Epíkúros: ljósmyndað með góðfúslegu leyfi British Museum; Cíceró: úr The Lives of the Twelve Caesars; Platón: Róm, Musei Capitolini.
[Myndir á blaðsíðu 31]
Bæn og nám í orði Guðs er nauðsynlegt.