Hvaða augum eigum við að líta aðra er dagur Jehóva nálgast?
Hvaða augum eigum við að líta aðra er dagur Jehóva nálgast?
„Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið . . . heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ — 2. PÉTURSBRÉF 3:9.
1, 2. (a) Hvaða augum lítur Jehóva fólk nú á tímum? (b) Hvaða spurninga getum við spurt okkur?
JEHÓVA hefur falið þjónum sínum það verkefni að ‚gera allar þjóðir að lærisveinum‘. (Matteus 28:19) Til að gera því skil þurfum við að líta fólk sömu augum og hann á þeim tíma sem eftir er þangað til ‚hinn mikli dagur‘ hans rennur upp. (Sefanía 1:14) Og hvaða augum lítur hann fólk? Pétur postuli svarar: „Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9) Guð lítur svo á að hver maður eigi möguleika á að komast til iðrunar. Hann „vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Hann fagnar því að „hinn óguðlegi hverfi frá breytni sinni og haldi lífi“. — Esekíel 33:11.
2 Lítum við fólk sömu augum og Jehóva? Lítum við á einstaka menn af öllum þjóðum og kynþáttum sem hugsanlega sauði hans og „gæsluhjörð“? (Sálmur 100:3; Postulasagan 10:34, 35) Lítum á tvö dæmi sem sýna hve mikilvægt það er að hafa sama sjónarmið og Guð. Í báðum tilfellum var tortíming yfirvofandi og þjónar Jehóva fengu að vita af því fyrir fram. Það er sérstaklega mikilvægt að hafa þessi dæmi í huga meðan við bíðum eftir hinum mikla degi Jehóva.
Abraham hafði sama sjónarmið og Jehóva
3. Hvaða augum leit Jehóva íbúa Sódómu og Gómorru?
3 Í fyrra dæminu koma við sögu ættfaðirinn Abraham og borgirnar Sódóma og Gómorra sem þekktar voru af óguðleika sínum. Jehóva eyddi ekki borgunum og öllum íbúum þeirra tafarlaust er hann heyrði „hrópið yfir Sódómu og Gómorru“. Fyrst kannaði hann málið. (1. Mósebók 18:20, 21) Tveir englar voru sendir til Sódómu og gistu hjá hinum réttláta Lot. Kvöldið sem englarnir komu „slógu borgarmenn . . . hring um húsið, bæði ungir og gamlir, allur múgurinn hvaðanæva“ og vildu eiga kynvillumök við englana. Borgarbúar voru greinilega svo siðspilltir að þeir verðskulduðu tortímingu. Englarnir sögðu Lot engu að síður: „Átt þú hér nokkra fleiri þér nákomna? Tengdasyni, syni, dætur? Alla í borginni, sem þér eru áhangandi, skalt þú hafa á burt héðan.“ Jehóva gerði ráðstafanir til að bjarga sumum borgarbúum en þegar yfir lauk komust engir undan nema Lot og dætur hans tvær. — 1. Mósebók 19:4, 5, 12, 16, 23-26.
4, 5. (a) Hvers vegna bað Abraham Sódómubúum vægðar? (b) Var viðhorf Abrahams í samræmi við sjónarmið Jehóva?
4 En snúum okkur aftur að því þegar Jehóva upplýsti að hann ætlaði að kanna ástandið í Sódómu og Gómorru. Það var þá sem Abraham sagði í bæn: „Vera má, að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Hvort munt þú afmá þá og ekki þyrma staðnum vegna þeirra fimmtíu réttlátu, sem þar eru? Fjarri sé það þér að gjöra slíkt, að deyða hina réttlátu með hinum óguðlegu, svo að eitt gangi yfir réttláta og óguðlega. Fjarri sé það þér! Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?“ Abraham notaði tvisvar orðin „fjarri sé það þér“. Hann vissi af reynslunni að Jehóva myndi ekki eyða réttlátum með ranglátum. Þegar Jehóva sagðist ekki mundu eyða Sódómu ef ‚fimmtíu réttlátir menn væru í borginni‘ lækkaði Abraham töluna smám saman niður í aðeins tíu. — 1. Mósebók 18:22-33.
Jakobsbréfið 2:23) Þegar Jehóva beindi athygli sinni að Sódómu og Gómorru var hann fús til að taka tillit til bónar Abrahams. Af hverju? Af því að faðirinn á himnum „vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar“.
5 Hefði Jehóva hlustað á bón Abrahams ef hún hefði ekki samræmst sjónarmiði hans sjálfs? Auðvitað ekki. Abraham var „Guðs vinur“ og vissi greinilega hvernig hann hugsaði. (Afstaða Jónasar var gerólík
6. Hvernig brugðust Nínívemenn við boðun Jónasar?
6 Síðara dæmið, sem við lítum á, er Jónas spámaður. Nú var það Níníve sem átti að eyða. Jónasi spámanni var sagt að boða að ‚vonska borgarbúa væri stigin upp fyrir augliti Jehóva‘. (Jónas 1:2) Níníve var mikil borg, „þrjár dagleiðir á lengd“ ef úthverfi eru meðtalin. Jónas hlýddi að lokum, kom til Níníve og boðaði: „Að fjörutíu dögum liðnum skal Níníve verða í eyði lögð. En Nínívemenn trúðu Guði og boðuðu föstu og klæddust hærusekk.“ Konungur Níníve iðraðist meira að segja. — Jónas 3:1-6.
7. Hvernig leit Jehóva á iðrunarhug Nínívemanna?
7 Þetta voru allt önnur viðbrögð en í Sódómu. Hvernig leit Jehóva á hina iðrandi Nínívemenn? Jónas 3:10 segir: „Þá iðraðist Guð þeirrar ógæfu, er hann hafði hótað að láta yfir þá koma, og lét hana ekki fram koma.“ Jehóva „iðraðist“ í þeim skilningi að hann breytti um afstöðu gagnvart Nínívemönnum eftir að þeir breyttu hátterni sínu. Mælikvarði Jehóva hafði ekki breyst heldur breytti hann ákvörðun sinni þegar hann sá að Nínívemenn iðruðust. — Malakí 3:6.
8. Af hverju móðgaðist Jónas?
8 Var Jónas sama sinnis og Jehóva þegar hann gerði sér ljóst að Nínívemönnum yrði ekki tortímt? Nei, því að frásagan segir: „Jónasi mislíkaði þetta mjög, og hann varð reiður.“ Hvað annað gerði hann? Frásagan heldur áfram: „Hann bað til Drottins og sagði: ‚Æ, Drottinn! Kemur nú ekki að því sem ég hugsaði, meðan ég enn var heima í mínu landi? Þess vegna ætlaði ég áður fyrr að flýja til Tarsis, því að ég vissi, að þú ert líknsamur og miskunnsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og lætur þig angra hins vonda.‘“ (Jónas 4:1, 2) Jónas þekkti eiginleika Jehóva en móðgaðist og var alls ekki sama sinnis og hann gagnvart hinum iðrandi Nínívemönnum.
9, 10. (a) Hvaða lexíu kenndi Jehóva Jónasi? (b) Af hverju getum við ályktað að Jónas hafi breytt um afstöðu til Nínívemanna?
9 Jónas fór út úr borginni, gerði sér laufskála og settist undir hann í skugganum og „beið þess að hann sæi, hvernig borginni reiddi af“. Jehóva lét rísínusrunn spretta upp til að veita Jónasi forsælu. En daginn eftir visnaði plantan. Þegar Jónas reiddist því sagði Jehóva: „Þig tekur sárt til rísínusrunnsins, . . . og mig skyldi ekki taka sárt til Níníve, hinnar miklu borgar, þar sem eru meira en hundrað Jónas 4:5-11) Þetta var dýrmæt lexía fyrir Jónas varðandi skoðun Jehóva á fólki.
og tuttugu þúsundir manna, er ekki þekkja hægri hönd sína frá hinni vinstri, og fjöldi af skepnum?“ (10 Ósagt er látið hvernig Jónas brást við er Guð sagðist taka sárt til Nínívebúa. Þó er ljóst að hann hlýtur að hafa breytt um afstöðu til borgarmanna, því að Jehóva notaði hann til að færa þessa innblásnu frásögu í letur.
Hvernig lítur þú á fólk?
11. Hvernig er líklegt að Abraham liti á þá sem eru uppi nú á tímum?
11 Nú blasir við önnur eyðing. Hinn mikli dagur Jehóva er framundan og þá verður núverandi illu heimskerfi eytt. (Lúkas 17:26-30; Galatabréfið 1:4; 2. Pétursbréf 3:10) Hvernig ætli Abraham liti á þá sem búa í heimi nútímans, heimi sem verður bráðlega eytt? Líklega væri honum annt um þá sem hafa ekki enn þá heyrt ‚fagnaðarerindið um ríkið‘. (Matteus 24:14) Hann bað Guð margsinnis að þyrma réttlátum mönnum sem kynnu að finnast í Sódómu. Látum við okkur annt um þá sem myndu hafna hátterni heimsins, sem Satan stjórnar, ef þeir fengju tækifæri til að iðrast og þjóna Guði? — 1. Jóhannesarbréf 5:19; Opinberunarbókin 18:2-4.
12. Af hverju getum við hæglega farið að hugsa um fólk eins og Jónas gerði, og hvað er þá til ráða?
12 Það er rétt að þrá að sjá illskuna taka enda. (Habakkuk 1:2, 3) En það er líka auðvelt að fara að hugsa eins og Jónas og vera áhugalaus um velferð þeirra sem gætu hugsanlega iðrast. Það er sérstaklega hætta á þessu ef fólk er upp til hópa áhugalaust, andsnúið okkur eða lætur ófriðlega þegar við heimsækjum það til að boða fagnaðarerindið um ríkið. Við gætum misst sjónar á því að enn er fólk að finna sem Jehóva á eftir að leiða út úr þessu illa heimskerfi. (Rómverjabréfið 2:4) Ef alvarleg sjálfsrannsókn leiðir í ljós að við höfum sömu viðhorf og Jónas hafði í fyrstu gagnvart Nínívemönnum, þó ekki sé nema eilítið, þá ættum við að biðja Jehóva um hjálp til að leiðrétta hugarfar okkar.
13. Hvers vegna getum við fullyrt að Jehóva sé annt um þá sem eru uppi núna?
13 Jehóva er annt um þá sem eru ekki enn farnir að þjóna honum og hann hlustar á bænir þeirra sem eru vígðir honum. (Matteus 10:11) Hann bænheyrir þá með því að „rétta hlut“ þeirra. (Lúkas 18:7, 8) Og þegar þar að kemur uppfyllir hann öll fyrirheit sín og stendur við það sem hann hefur ákveðið. (Habakkuk 2:3) Meðal annars upprætir hann illskuna af jörðinni alveg eins og hann eyddi Níníve eftir að íbúarnir höfðu fallið aftur í sama far illskunnar. — Nahúm 3:5-7.
14. Hvað eigum við að gera á meðan við bíðum eftir hinum mikla degi Jehóva?
14 Bíðum við þolinmóð og verðum við önnum kafin við að gera vilja Jehóva uns hinu illa heimskerfi verður útrýmt á hinum mikla degi hans? Við vitum ekki í smáatriðum hve mikið boðunarstarf er eftir áður en dagur Jehóva rennur upp, en það vitum við að fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina að því marki sem Guð vill áður en endirinn kemur. Og við ættum auðvitað að láta okkur annt um ‚gersemarnar‘ sem Jehóva á eftir að safna saman til að fylla hús sitt dýrð. — Haggaí 2:7.
Afstaðan birtist í verkum
15. Hvernig getum við skerpt vitundina um að við þurfum að boða fagnaðarerindið?
15 Við búum kannski í samfélagi þar sem lítill áhugi er fyrir því sem við boðum, og erum ef til vill ekki í aðstöðu til að flytja þangað sem er meiri þörf fyrir boðbera Guðsríkis. Segjum að hægt sé að finna tíu manns á svæðinu okkar áður en endirinn kemur. Finnst okkur það þess virði að leita að þessum tíu? Jesús ‚kenndi í brjósti um‘ fólk því að það var ‚hrjáð og umkomulaust eins og sauðir er engan hirði hafa‘. (Matteus 9:36) Með því að nema Biblíuna og lesa vel Varðturninn og Vaknið! getum við fengið betri innsýn í bágindi heimsins. Það getur síðan skerpt vitundina um að við þurfum að prédika fagnaðarerindið. Og ef við kunnum vel að meta hið biblíutengda efni, sem ‚trúi og hyggni þjónninn‘ lætur í té, getum við náð meiri sannfæringarkrafti á svæðum þar sem oft er starfað. — Matteus 24:45-47; 2. Tímóteusarbréf 3:14-17.
16. Hvernig getum við hugsanlega náð meiri árangri í boðunarstarfinu?
16 Okkur er annt um þá sem eiga kannski eftir að taka við lífsboðskap Biblíunnar þannig að við ættum enn fremur að hugleiða hvort við getum náð betur til fólks í boðunarstarfinu með því að breyta um starfstíma eða aðferðir. Eru fáir heima þegar við förum hús úr húsi? Þá náum við kannski betri árangri með því að starfa á öðrum tímum og öðrum stöðum en áður. Sjómenn róa til fiskjar þegar veiðivon er mest. Getum við gert það líka í andlegu veiðistarfi okkar? (Markús 1:16-18) Hvernig væri að starfa á kvöldin eða nota símann þar sem það er leyfilegt? Sumir hafa fundið góð ‚fiskimið‘ á bílastæðum, viðskiptasvæðum og í almenningsgörðum. Og ef við grípum þau tækifæri, sem gefast til að vitna óformlega, sýnir það sig líka að við sjáum fólk sömu augum og Abraham.
17. Hvernig getum við verið trúboðum og öðrum sem starfa erlendis til hvatningar?
17 Milljónir manna eiga eftir að heyra boðskapinn um ríkið og við reynum að ná til þeirra með því að boða fagnaðarerindið. Getum við líka sýnt þessu fólki umhyggju án þess að fara út úr húsi? Segjum að við þekkjum trúboða eða boðbera í fullu starfi erlendis. Þá gætum við skrifað þeim og látið í ljós hve mikils við metum starf þeirra. Ber það vott um umhyggju fyrir fólki almennt? Já, því að bréf frá okkur gætu hvatt trúboðana til að halda starfi sínu áfram á hinum erlenda akri þar sem þeir geta hjálpað mörgum fleiri til að kynnast sannleikanum. (Dómarabókin 11:40) Við getum líka beðið fyrir trúboðunum og fólki í öðrum löndum sem hungrar í sannleikann. (Efesusbréfið 6:18-20) Fjárframlög til alþjóðastarfs Votta Jehóva eru önnur leið til að sýna umhyggju fyrir fólki. — 2. Korintubréf 8:13, 14; 9:6, 7.
Geturðu flust búferlum?
18. Hvað hafa sumir kristnir menn gert til að koma fagnaðarerindinu enn betur á framfæri í heimalandi sínu?
18 Margir hafa flust þangað sem var meiri þörf fyrir boðbera en heima fyrir og hlotið umbun fórnfýsi sinnar. En sumir vottar Jehóva hafa gert annað. Í stað þess að flytja til annars lands hafa þeir lært nýtt tungumál til að geta boðað innflytjendum fagnaðarerindið. Þetta hefur borið góðan ávöxt. Sem dæmi má nefna að sjö vottar, sem starfa meðal kínverskumælandi fólks í Texas í Bandaríkjunum, tóku á móti 114 manns á kvöldmáltíð Drottins árið 2001. Þeir sem starfa meðal slíkra hópa hafa oft fundið frjósama akra. — Matteus 9:37, 38.
19. Hvað er ráðlegt að gera ef við erum að hugsa um að flytja til annars lands í þeim tilgangi að styðja boðunarstarfið þar?
19 En setjum sem svo að þið fjölskyldan teljið ykkur vera í aðstöðu til að flytja þangað sem er meiri þörf fyrir boðbera Guðsríkis en heima fyrir. Fyrst er auðvitað skynsamlegt að ‚setjast niður og reikna kostnaðinn‘, sérstaklega ef hugmyndin er að flytja til útlanda. (Lúkas 14:28) Sá sem er að hugleiða þetta ætti að spyrja sig spurninga eins og: Get ég framfleytt fjölskyldunni þar? Get ég fengið viðeigandi vegabréfsáritun? Tala ég málið í landinu eða er ég reiðubúinn að læra það? Hef ég tekið mið af loftslagi og menningu? Get ég verið trúbræðrum mínum þar í landi til styrktar en ekki þyngsla? (Kólossubréfið 4:10, 11) Það er alltaf ráðlegt að skrifa þeirri deildarskrifstofu sem hefur umsjón með boðunarstarfinu á því svæði sem þú ert að hugsa um að flytja til, og kanna hversu mikil þörfin er þar. *
20. Nefndu dæmi um ungan kristinn mann sem lagði sig fram í þágu trúsystkina sinna og annarra í öðru landi.
20 Vottur nokkur hafði unnið við að byggja ríkissali í Japan en frétti að það vantaði færa byggingarmenn til að reisa tilbeiðsluhús í Paragvæ. Þar sem hann var ungur og einhleypur fluttist hann þangað og vann þar í átta mánuði við að reisa húsið, sá eini sem vann við það í fullu starfi. Hann lærði spænsku meðan á verkinu stóð og hélt biblíunámskeið heima hjá fólki. Honum var ljóst að það vantaði boðbera þar í landi. Hann sneri aftur til Japans en kom fljótlega aftur til Paragvæ til að leggja hönd á plóginn við að safna fólki inn í nýja ríkissalinn.
21. Hvað ættum við fyrst og fremst að láta okkur annt um meðan við bíðum eftir hinum mikla degi Jehóva?
21 Guð sér til þess að fagnaðarerindið verði boðað til fullnustu í samræmi við vilja hans. Nú er hann að hraða lokaspretti uppskerustarfsins. (Jesaja 60:22) Meðan við bíðum eftir að dagur Jehóva renni upp skulum við taka virkan þátt í uppskerustarfinu og líta fólk sömu augum og Guð kærleikans gerir.
[Neðanmáls]
^ gr. 19 Það er ekki heppilegt í öllum tilvikum að flytja upp á eigin spýtur til lands þar sem boðunarstarfið er bannað eða takmörkunum háð. Það gæti jafnvel verið til tjóns fyrir boðberana sem starfa með leynd við þær aðstæður.
Manstu?
• Hvernig ættum við að líta á fólk meðan við bíðum eftir degi Jehóva?
• Hvernig leit Abraham á réttláta menn sem voru hugsanlega í Sódómu?
• Hvernig leit Jónas á iðrandi íbúa Níníve?
• Hvernig getum við sýnt að við höfum sama viðhorf og Jehóva til þeirra sem hafa ekki heyrt fagnaðarerindið enn þá?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 24]
Abraham leit fólk sömu augum og Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Jónas lærði að sjá iðrandi Nínívebúa sömu augum og Jehóva.
[Myndir á blaðsíðu 26]
Vegna umhyggju fyrir fólki reynum við að prédika fagnaðarerindið á ýmsum tímum og með ýmsum aðferðum.