Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jesús Kristur — sannanir fyrir tilvist hans

Jesús Kristur — sannanir fyrir tilvist hans

Jesús Kristur — sannanir fyrir tilvist hans

TRÚIR þú að maðurinn Albert Einstein hafi verið til? Eflaust svararðu hiklaust játandi. En af hverju? Fæstir hafa hitt hann í eigin persónu. En áreiðanlegar heimildir um afrek hans sanna að hann var til. Áhrifa hans gætir í því hvernig uppgötvanir hans eru notaðar í vísindum. Til dæmis nota margir rafmagn sem er framleitt með kjarnorku. Og þegar slík orka er leyst úr læðingi er það nátengt hinni frægu jöfnu Einsteins, E=mc2 (orka er sama sem massi sinnum ljóshraðinn í öðru veldi).

Sama rökfærsla á við um Jesú Krist sem er óneitanlega áhrifamesti maður sögunnar. Það sem skrifað var um hann og þau sýnilegu áhrif, sem hann hafði, sanna umfram allan vafa að hann var til. Þó að fornmunurinn, sem fjallað var um í greininni á undan, sé áhugaverður veltur tilvist Jesú hvorki á honum né öðrum fornmunum. Staðreyndin er sú að hægt er að finna ýmsar sannanir fyrir tilvist Jesú í skrifum veraldlegra sagnaritara um hann og fylgjendur hans.

Vitnisburður sagnaritara

Til dæmis er vitnisburður Flavíusar Jósefusar athyglisverður, en hann var Gyðingur, farísei og sagnaritari á fyrstu öld. Hann minnist á Jesú Krist í Gyðingasögu sinni. Sumir draga reyndar fyrstu vísunina í efa þar sem Jósefus talar um Jesú sem Messías, en að sögn Louis H. Feldmans, prófessors við Yeshiva-háskóla, hafa fáir dregið síðari vísunina í efa. Jósefus segir þar: „[Ananus æðsti prestur] kallaði saman dómara æðsta ráðsins og færði fyrir þá mann sem heitir Jakob, bróður Jesú sem kallaður var Kristur.“ (Jewish Antiquities, XX, 200) Já, farísei viðurkenndi tilvist ,Jakobs, bróður Jesú‘ en almennt voru farísear og fylgismenn þeirra svarnir óvinir Jesú.

Áhrifin af tilvist Jesú komu greinilega í ljós með starfi fylgjenda hans. Þegar Páll postuli var fangelsaður í Róm um árið 59 sögðu fyrirmenn Gyðinga við hann: „Oss [er] kunnugt um flokk þennan, að honum er alls staðar mótmælt.“ (Postulasagan 28:17-22) Þeir kölluðu lærisveina Jesú „flokk þennan“. Heldurðu ekki að veraldlegir sagnfræðingar myndu skrifa um þá fyrst þeim var alls staðar mótmælt?

Tacítus minnist á kristna menn í Annálum sínum en hann fæddist um árið 55 og er talinn einn fremsti sagnfræðingur mannkynssögunnar. Hann skrifaði í frásögn sinni af því þegar Neró kenndi kristnum mönnum um eldinn mikla í Róm árið 64: „[Neró skellti skuldinni á] flokk manna sem almenningur kallaði Christianos og alræmdir voru fyrir illa siðu. Refsaði hann þeim með frábærri grimmd. Christus sá sem þeir voru við kenndir hafði verið dæmdur til dauða og líflátinn af Pontíusi Pílatusi skattlandsstjóra, á veldisdögum Tíberíusar.“ * Smáatriðin í þessari frásögu samræmast upplýsingunum um Jesú Biblíunnar.

Pliníus yngri, landstjóri Biþyníu, var annar ritari sem fjallaði um fylgjendur Jesú. Um árið 111 skrifaði Pliníus til Trajanusar keisara og spurði hann hvernig ætti að fara með kristna menn. Pliníus segir frá því að fólk, sem var ranglega sakað um að vera kristið, myndi sanna sakleysi sitt með því að fara með bæn til guðanna og tilbiðja líkneski af Trajanusi. Pliníus heldur áfram: „Sagt er að engin leið sé að þvinga kristna menn til að gefa eftir.“ Þetta er til sannindamerkis um tilvist Krists. Fylgjendur hans voru reiðubúnir að láta lífið fyrir trúna á hann.

Alfræðibókin The Encyclopædia Britannica (útg. 2002) telur upp vísanir fyrstu og annarrar aldar sagnfræðinga til Jesú Krists og fylgjenda hans og segir síðan: „Þessar óháðu frásagnir sanna að jafnvel óvinir kristninnar til forna véfengdu aldrei að Jesús væri sannsöguleg persóna, en það var í fyrsta sinn véfengt á ófullnægjandi forsendum undir lok 18. aldar, á 19. öld og í byrjun 20. aldar.“

Vitnisburður fylgjenda Jesú

„Nýja testamentið lætur okkur í té nálega allar þær upplýsingar sem þarf til að endurskapa söguna af ævi hans og örlögum og sjá hvernig frumkristnir menn túlkuðu mikilvægi hans,“ segir alfræðibókin The Encyclopedia Americana. Efahyggjumenn líta kannski ekki á Biblíuna sem sönnun fyrir tilvist Jesú. En það er samt hægt að beita að minnsta kosti tveim biblíulegum rökfærslum til að sýna fram á að Jesús hafi verið til í raun og veru.

Eins og nefnt hefur verið eru kenningar Einsteins sönnun fyrir tilvist hans. Á líkan hátt sanna kenningar Jesú að hann hafi verið til. Tökum hina þekktu fjallræðu Jesú sem dæmi. (Matteus, kafla 5-7) Matteus postuli skrifaði um áhrifin sem hún hafði: „Undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur.“ (Matteus 7:28, 29) Prófessor Hans Dieter Betz segir um þau áhrif sem fjallræðan hefur haft á fólk í aldanna rás: „Áhrifin af fjallræðunni ná yfirleitt langt út fyrir gyðingdóminn og kristindóminn eða jafnvel vestræna menningu.“ Hann bætir við að þessi ræða hafi „einstakt aðdráttarafl fyrir allar þjóðir“.

Fjallræðan hefur til dæmis að geyma eftirfarandi viskuorð sem eru bæði hnitmiðuð og hagnýt: „Slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.“ „Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum.“ „Hafið . . . ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur.“ „Kastið eigi perlum yðar fyrir svín.“ „Biðjið, og yður mun gefast.“ „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ „Gangið inn um þrönga hliðið.“ „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.“ „Sérhvert gott tré [ber] góða ávöxtu.“ — Matteus 5:39; 6:1, 34; 7:6, 7, 12, 13, 16, 17.

Þú hefur örugglega heyrt sum þessara viskuorða eða kjarna þeirra. Mörg eru höfð að máltæki í ýmsum málum. Þau eru öll tekin úr fjallræðunni. Áhrifa fjallræðunnar gætir hjá mörgum þjóðum og menningarsamfélögum og er það áhrifamikil sönnun fyrir því að „kennarinn mikli“ hafi verið til.

Ímyndum okkur að einhver hafi spunnið upp sögupersónu að nafni Jesús Kristur. Segjum sem svo að hann hafi verið nógu snjall til að finna upp kenningarnar sem eignaðar eru Jesú Kristi í Biblíunni. Hefði hann ekki gert Jesú og kenningar hans eins aðlaðandi fyrir almenning og framast væri unnt? Páll postuli komst hins vegar svo að orði: „Gyðingar heimta tákn, og Grikkir leita að speki, en vér prédikum Krist krossfestan [„staurfestan“, NW ], Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku.“ (1. Korintubréf 1:22, 23) Boðskapurinn um staurfestingu Krists var hvorki aðlaðandi í augum Gyðinga né annarra þjóða. Þó var það sá Kristur sem kristnir menn á fyrstu öldinni kunngerðu. En hvers vegna töluðu þeir um að Kristur hefði verið staurfestur? Eina viðunandi skýringin er sú að ritarar kristnu Grísku ritninganna hafi skráð niður sannleikann um líf og dauða Jesú.

Fylgjendur Jesú boðuðu kenningar hans af miklu kappi og er það annað sem rennir stoðum undir að hann hafi verið til. Það var aðeins 30 árum eftir að Jesús hóf þjónustu sína að Páll gat sagt að fagnaðarerindið hefði verið ,prédikað fyrir öllu sem skapað er undir himninum‘. (Kólossubréfið 1:23) Já, kenningar Jesú breiddust út um hinn forna heim þrátt fyrir andstöðu. Páll hafði sjálfur verið ofsóttur sem kristinn maður, og hann skrifaði: „Ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.“ (1. Korintubréf 15:12-17) Ef það hefði verið tilgangslaust að boða Krist sem hafði ekki verið reistur upp frá dauðum hefði verið enn tilgangslausara að boða Krist sem hafði aldrei verið til. Eins og við lásum í bréfi Pliníusar yngri voru kristnir menn á fyrstu öld reiðubúnir að deyja fyrir trúna á Jesú Krist. Þeir hættu lífi sínu fyrir hann af því að hann var raunverulegur — hann hafði lifað á jörðinni eins og guðspjöllin greina frá.

Þú hefur fengið sönnun

Trú á upprisu Jesú Krists var forsenda kristinnar prédikunar. Þú getur líka séð Jesú fyrir þér upprisinn með því að taka eftir þeim áhrifum sem hann hefur nú á dögum.

Rétt áður en Jesús var staurfestur bar hann fram stórbrotinn spádóm um nærveru sína síðar meir. Hann gaf einnig til kynna að hann yrði reistur upp og myndi sitja við hægri hönd Guðs þar sem hann biði þess að fást við óvini sína. (Sálmur 110:1; Jóhannes 6:62; Postulasagan 2:34, 35; Rómverjabréfið 8:34) Eftir það myndi hann kasta Satan og illum öndum hans niður af himnum. — Opinberunarbókin 12:7-9.

Hvenær átti þetta að gerast? Jesús gaf lærisveinum sínum ,tákn um nærveru sína og endalok heimskerfisins‘. Táknið, sem átti að einkenna ósýnilega nærveru hans, fól í sér styrjaldir, matarskort, jarðskjálfta, falsspámenn, aukið lögleysi og miklar drepsóttir. Við slíkum hörmungum var að búast þar sem úthýsing Satans myndi þýða ,vei fyrir jörðina‘. Djöfullinn er í nágrenni jarðarinnar og hann er „í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma“. Táknið fól einnig í sér að fagnaðarerindið yrði prédikað „um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar“. — Matteus 24:3-14; Opinberunarbókin 12:12; Lúkas 21:7-19.

Spádómar Jesú hafa uppfyllst svo nákvæmlega að því má líkja við búta í púsluspili sem falla hver að öðrum. Síðan fyrri heimstyrjöldin braust út árið 1914 höfum við orðið vitni að öllu því sem átti að einkenna ósýnilega nærveru Jesú Krists. Hann ríkir sem konungur Guðsríkis og hefur gífurleg áhrif. Að þú hefur þetta tímarit í höndunum er sönnun þess að boðunarstarf Guðsríkis er í fullum gangi nú á dögum.

Þú þarft að grannskoða Biblíuna til að skilja betur þau áhrif sem tilvist Jesú hefur. Hvers vegna ekki að spyrja Votta Jehóva nánar út í nærveru Jesú Krists?

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Will Durant. Rómaveldi, fyrra bindi. Mál og menning. Reykjavík. 1993. Jónas Kristjánsson íslenskaði.

[Myndir á blaðsíðu 5]

Jósefus, Tacítus og Pliníus yngri vísuðu til Jesú Krists og fylgjenda hans.

[Credit line]

Allar myndirnar þrjár: © Bettmann/CORBIS.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Frumkristnir menn voru sannfærðir um að Jesús væri raunverulegur.