Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitum að því góða í fari allra

Leitum að því góða í fari allra

Leitum að því góða í fari allra

„Mundu mér það, Guð minn, til góðs.“ — NEHEMÍABÓK 13:31.

1. Hvernig sýnir Jehóva öllum gæsku?

ÞAÐ er sérstaklega gaman að sjá sólina þegar það hefur verið skýjað og drungalegt veður í marga daga. Fólk verður léttara í lund og því líður vel. Á sama hátt getur verið hressandi að fá smárigningu eða jafnvel hellidembu þegar það hefur verið sólríkt og þurrt í veðri í langan tíma. Veðurkerfið í lofthjúpnum er dásamleg gjöf frá Jehóva, kærleiksríkum skapa okkar. Jesús vakti athygli á örlæti Guðs þegar hann sagði: „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ (Matteus 5:43-45) Já, Jehóva sýnir öllum gæsku. Þjónar hans ættu að reyna að líkja eftir honum með því að leita að því góða í fari annarra.

2. (a) Af hverju sýnir Jehóva gæsku? (b) Eftir hverju tekur Jehóva í fari okkar?

2 Af hverju sýnir Jehóva gæsku? Allt frá syndafalli Adams hefur Jehóva leitast við að sjá það góða í fari manna. (Sálmur 130:3, 4) Það er ætlun hans hlýðið mannkyn fái að búa í paradís á nýjan leik. (Efesusbréfið 1:9, 10) Vegna óverðskuldaðrar góðvildar hans höfum við þá von að losna undan synd og ófullkomleika fyrir milligöngu hins fyrirheitna sæðis. (1. Mósebók 3:15; Rómverjabréfið 5:12, 15) Ef við tökum við lausnargjaldinu höfum við möguleika á að öðlast fullkomleika. Jehóva fylgist nú með okkur öllum, meðal annars til að sjá hver viðbrögð okkar eru við örlæti hans. (1. Jóhannesarbréf 3:16) Hann tekur eftir öllu sem við gerum til að sýna þakklæti okkar fyrir gæsku hans. „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans,“ skrifaði Páll postuli. — Hebreabréfið 6:10.

3. Hvað ættum við að skoða?

3 En nú skulum við athuga hvernig við getum líkt eftir Jehóva á fjórum sviðum lífsins og leitað að því góða í fari annarra: (1) í boðunarstarfinu, (2) í fjölskyldunni, (3) í söfnuðinum og (4) í samskiptum okkar við aðra.

Þegar við prédikum og gerum menn að lærisveinum

4. Af hverju er þátttaka okkar í boðunarstarfinu merki um að við leitum að hinu góða í fari annarra?

4 „Akurinn er heimurinn,“ sagði Jesús þegar lærisveinarnir báðu hann að útskýra dæmisöguna um hveitið og illgresið. Við sem erum lærisveinar Krists nú á dögum skiljum sannleikann í þessum orðum þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu. (Matteus 13:36-38; 28:19, 20) Þá játum við trú okkar meðal almennings. Sú staðreynd að vottar Jehóva eru þekktir fyrir að prédika hús úr húsi og á götum úti vitnar um að þeir leita dyggilega að öllum sem eru verðugir fagnaðarerindisins. Jesús sagði líka: „Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um, hver þar sé verðugur.“ — Matteus 10:11; Postulasagan 17:17; 20:20.

5, 6. Af hverju höldum við staðfastlega áfram að heimsækja fólk?

5 Þegar við heimsækjum fólk óboðin sjáum við viðbrögð þess við boðskap okkar. Stundum hittum við fólk sem vill hlusta á okkur en síðan kallar einhver annar á heimilinu: „Við höfum ekki áhuga,“ og þar með lýkur samtalinu. Það er sorglegt þegar andstaða eða áhugaleysi einnar manneskju hefur áhrif á viðbrögð annarrar. En hvernig getum við haldið ótrauð áfram að leita að því góða í fari allra?

6 Í næsta skipti sem við prédikum á þessu svæði gætum við fengið tækifæri til að tala við þann sem lauk samtalinu í fyrra skiptið. Ef við munum eftir því sem gerðist þá auðveldar það okkur undirbúninginn. Sá sem vildi ekki tala við okkur hélt kannski að það væri rétt af sér að koma í veg fyrir að hinn hlustaði á boðskapinn um ríkið. Afstaða hans gæti verið mótuð af röngum upplýsingum um fyrirætlanir okkar. En við höldum staðfastlega áfram að boða fagnaðarerindið um ríkið á þessu heimili og reynum háttvíslega að leiðrétta allan misskilning. Við viljum hjálpa öllum að fá nákvæma þekkingu á Guði. Það gæti orðið til þess að Jehóva dragi þennan einstakling til sín. — Jóhannes 6:44; 1. Tímóteusarbréf 2:4.

7. Hvað getur hjálpað okkur að vera jákvæð þegar við komum að máli við fólk?

7 Þegar Jesús leiðbeindi lærisveinunum minntist hann líka á andstöðu innan fjölskyldunnar. Hann sagði: „Ég er kominn að gjöra ‚son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni.‘“ Og síðan bætti hann við: „Heimamenn manns verða óvinir hans.“ (Matteus 10:35, 36) En aðstæður og viðhorf breytast. Skyndileg veikindi, ástvinamissir, náttúruhamfarir, tilfinningalegt áfall og fjölmargt annað hefur áhrif á það hvernig fólk bregst við boðunarstarfi okkar. Getum við sagt að við séum að leita að því góða í fari fólks ef við erum neikvæð og ákveðum fyrir fram að fólkið, sem við prédikum fyrir, eigi aldrei eftir að taka við boðskapnum? Af hverju ekki að heimsækja það glöð í bragði við annað tækifæri? Kannski fáum við önnur viðbrögð. Stundum er það ekki aðeins það sem við segjum sem breytir viðbrögðum fólks heldur einnig hvernig við segjum það. Ef við biðjum innilega til Jehóva áður en við förum í boðunarstarfið hjálpar það okkur að vera jákvæð og koma boðskapnum á framfæri við alla á aðlaðandi hátt. — Kólossubréfið 4:6; 1. Þessaloníkubréf 5:17.

8. Hvaða árangri getur það skilað þegar bræður og systur leitast við að sjá það góða í fari vantrúaðra ættingja?

8 Í sumum söfnuðum eru margir innan sömu fjölskyldu sem þjóna Jehóva. Oft var það þrautseigja eldri ættingja sem vakti aðdáun og virðingu yngra fólksins í fjölskyldunni. Gott samband hinna fullorðnu við fjölskyldu og maka varð til þess að yngra fólkið breytti afstöðu sinni. Margar kristnar eiginkonur hafa líka unnið eiginmenn sína „orðalaust“ með því að fylgja ráðum Páls postula. — 1. Pétursbréf 3:1, 2.

Í fjölskyldunni

9, 10. Hvernig leituðu bæði Jakob og Jósef að því góða í fari fjölskyldunnar?

9 Við ættum einnig að leita að því góða í fari annarra í fjölskyldunni. Við getum til dæmis lært mikið af samskiptum Jakobs við syni sína. Í 1. Mósebók kafla 37, versum 3 og 4 er sagt að Jakobi hafi þótt sérstaklega vænt um Jósef. Bræður Jósefs urðu svo öfundsjúkir að þeir lögðu jafnvel á ráðin um að drepa hann. En það er eftirtektarvert að bæði Jakob og Jósef leituðust við að sjá það góða í fari fjölskyldu sinnar síðar á ævinni.

10 Þegar Jósef var matvælaráðherra í Egyptalandi og mikið hallæri gekk yfir landið tók hann vel á mót bræðrum sínum. Hann sagði þeim ekki strax hver hann væri en sá til þess að hugsað væri vel um þá og að þeir fengju nægan mat til að fara með til föður síns sem var aldraður. Já, Jósef gerði það sem var bræðrum hans fyrir bestu þótt þeir hafi hatað hann. (1. Mósebók 41:53–42:8; 45:23) Það var eins með Jakob. Á dánarbeði hans blessaði hann alla syni sína og blessunarorðin voru jafnframt spádómleg. Þeir erfðu allir hluta af landinu þótt þeir hafi misst viss sérréttindi vegna rangrar breytni. (1. Mósebók 49:3-28) Jakob sýndi svo sannarlega tryggan kærleika.

11, 12. (a) Hvaða spádómlega dæmisaga undirstrikar nauðsyn þess að leita að hinu góða í fari annarra í fjölskyldunni? (b) Hvað getum við lært af fordæmi föðurins í dæmisögu Jesú um glataða soninn?

11 Langlyndi Jehóva í samskiptum hans við hina ótrúu Ísraelsþjóð gefur okkur frekari innsýn í það hvernig hann leitar að því góða í fari þjóna sinna. Jehóva notaði fjölskylduaðstæður Hósea spámanns til að lýsa tryggum kærleika sínum. Gómer, eiginkona Hósea, framdi ítrekað hjúskaparbrot. Þrátt fyrir það sagði Jehóva við Hósea: „Far enn og elska konu, sem elskar annan mann og haft hefir fram hjá, eins og Drottinn elskar Ísraelsmenn, þótt þeir hneigist að öðrum guðum og þyki rúsínukökur góðar.“ (Hósea 3:1) Af hverju gaf Jehóva honum þessar leiðbeiningar? Hann vissi að þótt þjóðin í heild hefði villst frá vegum hans væru vissir einstaklingar sem myndu breyta sér ef hann sýndi þolinmæði. Hósea lýsti yfir: „Eftir það munu Ísraelsmenn snúa sér og leita Drottins, Guðs síns, og Davíðs, konungs síns, og þeir munu á hinum síðustu dögum flýja til Drottins og til hans blessunar.“ (Hósea 3:5) Þetta er vissulega gott fordæmi fyrir okkur þegar við þurfum að takast á við erfiðleika innan fjölskyldunnar. Ef þú heldur áfram að leita að því góða í fari fjölskyldunnar ertu að minnsta kosti góð fyrirmynd í þolinmæði.

12 Dæmisaga Jesú um glataða soninn gefur okkur enn betri innsýn í það hvernig við getum leitað að því góða í fari annarra í fjölskyldunni. Yngri sonurinn sneri aftur heim til sín eftir að hann hætti eyðslusömu líferni sínu. Faðirinn sýndi honum miskunn. En hvernig brást faðirinn við kvörtun eldri sonarins sem hafði aldrei farið frá fjölskyldunni? Hann sagði við hann: „Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt.“ Þetta var ekki biturt andsvar heldur staðfesting á kærleika föðurins. „En nú varð að halda hátíð og fagna,“ sagði hann síðan, „því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“ Á svipaðan hátt getum við haldið áfram að leita að því góða í fari annarra. — Lúkas 15:11-32.

Í kristna söfnuðinum

13, 14. Hvernig getum við haldið hið konunglega boðorð kærleikans í kristna söfnuðinum?

13 Þar sem við erum kristin leggjum við okkur fram um að halda hið konunglega boðorð kærleikans. (Jakobsbréfið 2:1-9) Jafnvel þótt við mismunum ekki safnaðarmönnum sem búa við annan fjárhag gætum við mismunað þeim sem hafa ólíkan trúaruppruna eða eru af öðrum kynþætti eða menningu. Hvernig gætum við tekið leiðbeiningar Jakobs til okkar ef svo væri?

14 Við sýnum að við höfum gert rúmt í hjörtum okkar ef við bjóðum velkomna alla þá sem koma á safnaðarsamkomur. Við getum dregið úr óróleika eða óöryggi þeirra sem heimsækja ríkissalinn í fyrsta skipti með því að eiga frumkvæðið að því að tala við þá. Margir hafa sagt eftir fyrstu samkomuna: „Allir voru mjög vingjarnlegir. Það var eins og þeir hefðu alltaf þekkt mig. Mér fannst ég vera velkominn.“

15. Hvernig er hægt að hjálpa hinum ungu í söfnuðinum að sýna fullorðnu fólki áhuga?

15 Í sumum söfnuðum safnast gjarnan nokkrir unglingar saman eftir samkomuna inni í ríkissalnum eða fyrir utan hann og koma sér hjá því að tala við fullorðna fólkið. Hvernig er hægt að sporna gegn þessu með jákvæðum hætti? Foreldrar ættu auðvitað að kenna börnunum heima fyrir og búa þau undir samkomurnar. (Orðskviðirnir 22:6) Þau gætu fengið það verkefni að taka saman ritin sem fjölskyldan þarf að hafa á samkomunni. Foreldrar eru líka í bestu aðstöðunni til að hvetja börnin til að segja nokkur orð við aldraða og veikburða safnaðarmenn. Það getur gefið börnunum mjög mikið að hafa eitthvað ákveðið að segja við slíka einstaklinga.

16, 17. Hvernig geta hinir fullorðnu leitað að hinu góða í fari unga fólksins í söfnuðinum?

16 Bræður og systur ættu að sýna yngra fólkinu í söfnuðinum áhuga. (Filippíbréfið 2:4) Þau gætu tekið frumkvæðið að því að segja nokkur hvetjandi orð við unglingana. Oftast er fjallað um eitthvað eftirminnilegt á samkomum. Við gætum spurt unga fólkið hvort því hafi fundist samkoman ánægjuleg og hvort það hafi tekið eftir einhverju sérstöku sem hægt var að taka til sín. Unglingar eru óaðskiljanlegur hluti af söfnuðinum og því ætti að hrósa þeim fyrir að taka vel eftir. Þegar þeir svara á samkomunni eða taka þátt í einhverjum dagskrárlið ætti líka að hrósa þeim fyrir það. Samskipti unglinga við fullorðið fólk í söfnuðinum og þátttaka í einföldum húsverkum er oft góð vísbending um að þeir geti sennilega axlað meiri ábyrgð síðar á ævinni. — Lúkas 16:10.

17 Unglingar þroska andlega eiginleika þegar þeir taka að sér ábyrgð og með tímanum geta sumir þeirra fengið að sinna veigameiri verkefnum. Ef þeir hafa eitthvað fyrir stafni getur það einnig komið í veg fyrir að þeir hegði sér óviturlega. (2. Tímóteusarbréf 2:22) Með því að fela ungum bræðrum ýmis verkefni er hægt að ‚reyna‘ þá sem sækjast eftir því að verða safnaðarþjónar. (1. Tímóteusarbréf 3:10) Ef þeir taka góðan þátt í samkomunum, eru kostgæfir í boðunarstarfinu og sýna öllum innan safnaðarins umhyggju hjálpar það öldungunum að koma auga á hæfni þeirra og meta hvort þeir geti tekið að sér aukna ábyrgð.

Að leita að hinu góða í fari allra

18. Hvað þurfa öldungar að forðast þegar þeir eru að dæma og hvers vegna?

18 „Hlutdrægni í dómi er ljót,“ segja Orðskviðirnir 24:23. Öldungar, sem tileinka sér speki frá Guði, forðast hlutdrægni þegar þeir dæma í málum innan safnaðarins. Jakob sagði: „En sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.“ (Jakobsbréfið 3:17) Öldungar, sem leita að hinu góða í fari annarra, verða vissulega að ganga úr skugga um að persónuleg tengsl eða tilfinningar blindi ekki dómgreind þeirra. Sálmaritarinn Asaf skrifaði: „Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna [„hinna guðlegu“, það er að segja mennskra dómara, NW neðanmáls]: ‚Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu?‘“ (Sálmur 82:1, 2) Í samræmi við þetta reyna öldungar að forðast allt sem ber keim af hlutdrægni í málum sem tengjast vinum eða ættingjum. Þannig viðhalda þeir einingu innan safnaðarins og leyfa anda Jehóva að starfa óhindrað. — 1. Þessaloníkubréf 5:23.

19. Hvernig getum við leitað að hinu góða í fari annarra?

19 Þegar við leitum að því góða í fari bræðra okkar og systra endurspeglum við viðhorfið sem Páll hafði þegar hann ávarpaði söfnuðinn í Þessaloníku. Hann sagði: „En vér höfum það traust til yðar vegna Drottins, að þér bæði gjörið og munuð gjöra það, sem vér leggjum fyrir yður.“ (2. Þessaloníkubréf 3:4) Við erum líklegri til að horfa fram hjá göllum annarra ef við leitum að því góða í fari þeirra. Þá leitum við að því sem við getum hrósað bræðrum okkar fyrir og forðumst gagnrýnisanda. Páll sagði: „Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr.“ (1. Korintubréf 4:2) Okkur þykir enn vænna um trúsystkini okkar þegar við sjáum trúfesti þeirra allra, ekki aðeins þeirra sem fara með ráðsmennsku innan safnaðarins. Þá verðum við enn nánari og styrkjum kristin vináttubönd. Við tileinkum okkur það viðhorf sem Páll hafði til samtíðarbræðra sinna. Þeir eru ‚samverkamenn okkar fyrir Guðs ríki, og okkur til huggunar‘. (Kólossubréfið 4:11) Með því að gera þetta sýnum við sama viðhorf og Jehóva.

20. Hvaða blessanir hljóta þeir sem leita að hinu góða í fari allra?

20 Við ættum að enduróma bæn Nehemía: „Mundu mér það, Guð minn, til góðs.“ (Nehemíabók 13:31) Við erum svo sannarlega ánægð að Jehóva skuli leita að því góða í fari fólks. (1. Konungabók 14:13) Við skulum sýna sama viðhorf í samskiptum okkar við aðra. Ef við gerum það getum við vonast eftir endurlausn og eilífu lífi í nýja heiminum sem nú er svo nálægur. — Sálmur 130:3-8.

Hvert er svarið?

Af hverju sýnir Jehóva öllum gæsku?

Hvernig getum við leitað að því góða í fari annarra

í boðunarstarfinu?

í fjölskyldunni?

í söfnuðinum?

í öllum samskiptum okkar við aðra?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 14]

Jósef leitaði að hinu góða í fari bræðra sinna þótt þeir hefðu áður sýnt honum hatur.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Andstaða kemur ekki í veg fyrir að við reynum að hjálpa öllum.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Allir synir Jakobs fengu blessun þrátt fyrir fortíð sína.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Bjóddu velkomna alla sem koma á samkomu.