Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Guð er kærleikur“

„Guð er kærleikur“

„Guð er kærleikur“

„Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 4:8.

1-3. (a) Hvað segir Biblían um kærleika Jehóva og hvað er sérstakt við það? (b) Hvers vegna segir Biblían að ‚Guð sé kærleikur‘?

ALLIR eiginleikar Jehóva eru frábærir, fullkomnir og aðlaðandi. En af öllum eiginleikum hans er það kærleikurinn sem ber af. Ekkert laðar okkur sterkar að honum en kærleikur hans. Og kærleikurinn er líka áhrifamesti eiginleiki hans. Hvernig vitum við það?

2 Biblían segir svolítið um kærleikann sem hún segir aldrei um hina höfuðeiginleika hans. Hún segir hvergi að Guð sé máttur, Guð sé réttlæti eða Guð sé viska. Hann hefur þessa eiginleika og er uppspretta þeirra allra. En um kærleikann er tekið mun dýpra í árinni. Í 1. Jóhannesarbréfi 4:8 segir: „Guð er kærleikur.“ Já, kærleikur Jehóva er mjög djúpstæður. Kærleikurinn er innsta eðli hans. Almennt séð mætti líta þannig á málið: Máttur Jehóva gerir honum kleift að framkvæma. Réttlæti hans og viska leiðbeinir honum í verki. En það er kærleikurinn sem veldur því að hann langar til að framkvæma. Og kærleikurinn endurspeglast alltaf í því hvernig hann beitir hinum eiginleikunum.

3 Oft er sagt að Jehóva sé persónugervingur kærleikans. Þess vegna þurfum við að fræðast um Jehóva ef við viljum fræðast um kærleikann. Við skulum því líta nánar á ýmsa þætti hins óviðjafnanlega kærleika Jehóva.

Mesta kærleiksverk Guðs

4, 5. (a) Hvert er mesta kærleiksverk mannkynssögunnar? (b) Af hverju getum við sagt að Jehóva og sonur hans séu bundnir sterkustu kærleiksböndum sem til eru?

4 Jehóva hefur sýnt kærleika á marga vegu en eitt kærleiksverk stendur þó upp úr. Hann sendi son sinn til að þjást og deyja fyrir okkur. Við getum með sanni sagt að það sé mesta kærleiksverk mannkynssögunnar. Hvers vegna getum við sagt það?

5 Biblían kallar Jesú ‚frumburð allrar sköpunar‘. (Kólossubréfið 1:15) Hugsaðu þér — sonur Jehóva var til löngu áður en efnisheimurinn var skapaður. Hversu lengi ætli faðir og sonur hafi verið saman? Sumir vísindamenn áætla að aldur alheimsins sé 13 milljarðar ára. Ef við göngum út frá því að þetta sé rétt mat er frumgetinn sonur Jehóva eldri en það. Við hvað fékkst hann allar þessar aldir? Hann þjónaði fagnandi sem verkstjóri föður síns. (Orðskviðirnir 8:30; Jóhannes 1:3) Jehóva og sonur hans unnu saman að því að gera allt annað. Það hljóta að hafa verið spennandi og skemmtilegir tímar. Ekkert okkar getur gert sér í hugarlund hve sterk bönd hafa myndast milli þeirra á þessum óralanga tíma. Ljóst er að Jehóva Guð og sonur hans eru bundnir sterkustu kærleiksböndum sem til eru.

6. Hvernig tjáði Jehóva tilfinningar sínar í garð Jesú við skírn hans?

6 Engu að síður sendi Jehóva son sinn til jarðar til að fæðast sem mannsbarn. Það hafði í för með sér að hann þurfti að neita sér um félagsskap sonar síns á himnum um nokkurra áratuga skeið. Ofan af himni fylgdist hann af brennandi áhuga með Jesú er hann óx úr grasi sem fullkominn maður. Jesús lét skírast þegar hann var um þrítugt. Þá talaði faðir hans persónulega af himni og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ (Matteus 3:17) Það hlýtur að hafa glatt Jehóva ósegjanlega að sjá Jesú gera dyggilega allt sem spáð hafði verið um hann, allt sem hann var beðinn að gera. — Jóhannes 5:36; 17:4.

7, 8. (a) Hvað þurfti Jesús að ganga í gegnum hinn 14. nísan árið 33 og hvaða áhrif hafði það á föður hans á himnum? (b) Hvers vegna leyfði Jehóva að sonur sinn þjáðist og dæi?

7 En hvernig var Jehóva innanbrjósts hinn 14. nísan árið 33 þegar Jesús var svikinn og handtekinn af reiðum múgi? Þegar hann var hæddur, barinn og hrækt var á hann? Þegar hann var húðstrýktur svo að bakið á honum var eitt flakandi sár? Þegar hann var negldur á höndum og fótum á tréstaur og látinn hanga þar meðan fólk formælti honum? Hvernig var föðurnum innanbrjósts þegar ástkær sonur hans hrópaði til hans sárkvalinn? Hvernig leið Jehóva þegar Jesús dró andann í hinsta sinn og var ekki til í fyrsta skipti frá því hann var skapaður? — Matteus 26:14-16, 46, 47, 56, 59, 67; 27:26, 38-44, 46; Jóhannes 19:1.

8 Þar eð Jehóva hefur tilfinningar hlýtur það að hafa kvalið hann meira en orð fá lýst að sjá son sinn þjást og deyja. Hins vegar er hægt að lýsa því hvers vegna hann leyfði að þetta gerðist. Hvers vegna lét faðirinn slíka kvöl yfir sig ganga? Jehóva opinberar það fagurlega í Jóhannesi 3:16 — í biblíuversi sem er svo mikilvægt að það hefur verið kallað litla Biblían. Þar segir: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ Það var því kærleikur sem bjó að baki hjá Guði, og meiri kærleikur hefur aldrei birst.

Jehóva fullvissar okkur um kærleika sinn

9. Hvað vill Satan telja okkur trú um en um hvað fullvissar Jehóva okkur?

9 En þetta vekur upp mikilvæga spurningu: Elskar Guð okkur persónulega? Sumir fallast kannski á að Guð elski mannkynið almennt séð eins og fram kemur í Jóhannesi 3:16. Hins vegar hugsa þeir í reynd: ‚Guð getur aldrei elskað mig sem persónu.‘ Satan er reyndar mikið í mun að telja okkur trú um að Jehóva elski okkur ekki né meti okkur nokkurs. En við skulum hafa hugfast að það skiptir ekki máli þó að við teljum okkur ekki vera elskuverð eða okkur finnist við einskis virði, því að Jehóva fullvissar okkur um að hver einasti trúr þjónn sinn sé dýrmætur í augum sínum.

10, 11. Hvernig sýnir samlíking Jesú við spörvana að við erum verðmæt í augum Jehóva?

10 Lítum til dæmis á orð Jesú í Matteusi 10:29-31. Þar tekur hann dæmi til að sýna fram á hvers virði lærisveinar sínir séu og segir: „Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. Verið því óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ Veltum aðeins fyrir okkur hvað þessi orð þýddu fyrir áheyrendur Jesú á fyrstu öld.

11 Á dögum Jesú var spörvinn ódýrasti matfugl sem seldur var. Hægt var að kaupa tvo spörva fyrir einn smápening. En eins og Jesús sagði síðar fengust fimm spörvar en ekki fjórir fyrir tvo smápeninga, samkvæmt Lúkasi 12:6, 7. Fimmti fuglinn var látinn fylgja með, rétt eins og hann væri verðlaus. Kannski voru þessir fuglar einskis virði í augum manna en hvernig leit skaparinn á þá? Jesús sagði: „Þó er ekki einn þeirra [ekki einu sinni sá sem fylgdi með í kaupbæti] gleymdur Guði.“ Kannski áttum við okkur á því núna hvað Jesús var að fara. Fyrst Jehóva metur einn spörva svona mikils hlýtur maðurinn að vera margfalt verðmætari í augum hans! Eins og Jesús sagði þekkir Jehóva okkur í smáatriðum. Höfuðhárin á okkur eru meira að segja talin!

12. Hvers vegna megum við vera viss um að Jesús hafi ekki verið að ýkja þegar hann sagði að höfuðhárin á okkur væru talin?

12 Einhverjum kann nú að þykja að Jesús hafi verið að ýkja. En hugsaðu til upprisunnar. Jehóva þarf að þekkja okkur mjög nákvæmlega til að endurskapa okkur. Hann metur okkur svo mikils að hann man eftir hverju einasta smáatriði, þar á meðal hinum flókna erfðalykli og allri þeirri reynslu og þeim minningum sem við höfum safnað á ævinni. Að telja höfuðhárin á okkur — sem eru um 100.000 að meðaltali á venjulegu höfði — hlýtur að vera einfalt mál í samanburði við það. Þessi orð Jesú lýsa því mjög fagurlega hversu annt Jehóva er um okkur sem einstaklinga!

13. Hvernig er Jósafat konungur dæmi um að Jehóva leitar hins góða í fari okkar þrátt fyrir að við erum ófullkomin?

13 Biblían opinberar annað sem veitir okkur vissu fyrir því að Jehóva elski okkur. Hann leitar hins góða í fari okkar og metur það. Tökum Jósafat konung sem dæmi. Jósafat var góður konungur en gerði heimskuleg mistök. Spámaður Jehóva sagði honum þá: „Sakir þessa liggur á þér reiði Drottins.“ Hvílík tilhugsun! En Jehóva hafði fleira að segja. Spámaðurinn hélt áfram: „Þó er nokkuð gott fundið í fari þínu.“ (2. Kroníkubók 19:1-3) Réttlát reiði Jehóva blindaði hann sem sagt ekki fyrir því ‚góða‘ sem fannst í fari Jósafats. Er það ekki hughreystandi að Guð skuli leita að hinu góða í fari okkar þó að við séum ófullkomin?

Guð sem er „fús til að fyrirgefa“

14. Hvaða tilfinningar geta sótt að okkur þegar við syndgum en hvernig getum við fengið fyrirgefningu Jehóva?

14 Þegar við syndgum geta vonbrigðin, smánin og sektarkenndin orðið til þess að okkur finnist við aldrei geta verið verðug þess að þjóna Jehóva. En munum að Jehóva er „fús til að fyrirgefa“. (Sálmur 86:5) Já, við getum fengið fyrirgefningu Jehóva ef við iðrumst synda okkar og leggjum hart að okkur til að endurtaka þær ekki. Lítum á dæmi þar sem Biblían lýsir þessum frábæra þætti í kærleika Jehóva.

15. Hvernig fjarlægir Jehóva syndir okkar?

15 Sálmaskáldið Davíð lýsir fyrirgefningu Jehóva með sterku myndmáli: „Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.“ (Sálmur 103:12) Hve langt er austrið frá vestrinu? Í vissum skilningi er austrið alltaf mesta fjarlægð sem hægt er að hugsa sér frá vestrinu. Vestrið og austrið geta aldrei mæst. Fræðimaður segir þetta orðalag merkja „eins fjarlægt og hægt er, eins langt og hægt er að ímynda sér“. Innblásin orð Davíðs merkja að þegar Jehóva fyrirgefur okkur fjarlægir hann syndir okkar og kemur þeim eins langt í burtu og við getum ímyndað okkur.

16. Hvers vegna getum við treyst að Jehóva álíti okkur hrein eftir að hann hefur fyrirgefið syndir okkar?

16 Hefurðu einhvern tíma reynt að ná bletti af ljósri flík? Þú reyndir þitt besta en bletturinn vildi ekki hverfa alveg. Sjáðu hvernig Jehóva lýsir fyrirgefningu sinni: „Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri, skulu þær verða sem ull.“ (Jesaja 1:18) „Skarlat“ lýsir sterkum, rauðum lit og „purpuri“ var sterkur rauðfjólublár litur. * Við getum aldrei afmáð blett syndarinnar af eigin rammleik. En Jehóva getur tekið syndir, sem eru eins og purpuri og skarlat, og gert þær hvítar sem snjó og sem ólitaða ull. Þegar Jehóva fyrirgefur syndir okkar þurfum við ekki að hafa á tilfinningunni að við berum bletti syndarinnar það sem eftir er ævinnar.

17. Í hvaða skilningi varpar Jehóva syndum okkar að baki sér?

17 Hiskía orti hrífandi þakkarljóð eftir að hann læknaðist af banvænum sjúkdómi. Hann sagði við Jehóva: „Þú varpaðir að baki þér öllum syndum mínum.“ (Jesaja 38:17) Hér er Jehóva lýst þannig að hann taki syndir iðrandi manns og kasti þeim aftur fyrir sig þar sem hann hvorki sér þær né gefur gaum að þeim framar. Heimildarrit segir að það megi orða hugmyndina þannig: „Þú hefur farið með [syndir mínar] eins og þær hafi aldrei átt sér stað.“ Er það ekki hughreystandi?

18. Hvernig gefur Míka spámaður í skyn að Jehóva afmái syndir okkar fyrir fullt og allt þegar hann fyrirgefur?

18 Í endurreisnarspádómi lýsir Míka spámaður þeirri sannfæringu sinni að Jehóva fyrirgefi iðrandi fólki sínu. Hann segir: „Hver er slíkur Guð sem þú, sá er fyrirgefur leifum arfleifðar sinnar misgjörð þeirra? . . . Já, þú munt varpa öllum syndum vorum í djúp hafsins.“ (Míka 7:18, 19) Hugsaðu þér hvað þessi orð þýddu fyrir fólk á biblíutímanum. Var nokkur leið að endurheimta það sem kastað var „í djúp hafsins“? Orð Míka bera þannig með sér að Jehóva afmái syndirnar fyrir fullt og allt þegar hann fyrirgefur.

Miskunn og umhyggja Guðs

19, 20. (a) Hvað merkir eitt af hebresku orðunum sem notað er um umhyggju og miskunn? (b) Hvernig notar Biblían móðurástina til að fræða okkur um umhyggju Jehóva?

19 Umhyggja er einnig sterkur þáttur í kærleika Jehóva. Hvað er umhyggja? Allmörg hebresk og grísk orð eru notuð í Biblíunni til að lýsa umhyggju, til dæmis hebreska orðið rachamʹ sem er einnig þýtt miskunn. Jehóva notar þetta orð um sjálfan sig en það er skylt orði sem þýtt er „móðurkviður“ og getur merkt „móðurleg umhyggja“.

20 Biblían líkir umhyggju Jehóva við móðurástina. Jesaja 49:15 segir: „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni [rachamʹ] eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki.“ Það er erfitt að ímynda sér að móðir gleymi að annast barn sitt og gefa því brjóst. Ungbarnið er algerlega bjargarlaust og þarfnast móður sinnar að degi sem nóttu. En það gerist því miður að mæður vanræki börn sín, einkum á þeim erfiðu tímum sem við lifum. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 3) Jehóva segir hins vegar: ‚Ég gleymi þér samt ekki.‘ Hjartans umhyggja Jehóva fyrir þjónum sínum er óendanlega sterkari en eðlilegasta tilfinningin sem hægt er að hugsa sér — umhyggja móðurinnar fyrir ungbarni sínu.

21, 22. Hvernig var komið fyrir Ísraelsmönnum í Egyptalandi og hvernig brást Jehóva við kalli þeirra?

21 Hvernig sýnir Jehóva umhyggju, í líkingu við ástríka móður? Hún birtist oft í samskiptum hans við Ísrael fortíðar. Undir lok 16. aldar fyrir okkar tímatal voru milljónir Ísraelsmanna í þrælkun í Egyptalandi og sættu harðneskjulegri kúgun. (2. Mósebók 1:11, 14) Í bágindum sínum hrópuðu þeir til Jehóva. Hvernig brást hinn umhyggjusami Guð við?

22 Jehóva var snortinn í hjarta sér. „Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar,“ sagði hann, „ég veit, hversu bágt hún á.“ (2. Mósebók 3:7) Jehóva hlaut að finna til með þjónum sínum þegar hann sá kvöl þeirra og heyrði hróp þeirra. Hann getur sett sig í spor annarra sem er nátengt því að sýna umhyggju. En Jehóva fann ekki aðeins til með fólki sínu heldur fann sig knúinn til að koma því til bjargar. Jesaja 63:9 segir: „Af elsku sinni og vægðarsemi endurleysti hann þá.“ Hann bjargaði Ísraelsmönnum frá Egyptalandi með „sterkri hendi“. (5. Mósebók 4:34) Síðan sá hann þeim fyrir fæði og leiddi þá inn í frjósamt land sem hann gaf þeim til eignar.

23. (a) Hvernig fullvissar sálmaskáldið okkur um að Jehóva sé ákaflega annt um okkur hvert og eitt? (b) Með hvaða hætti hjálpar Jehóva okkur?

23 Jehóva er ekki aðeins annt um þjóna sína í heild heldur ber hann líka mikla umhyggju fyrir þeim sem einstaklingum. Hann er ákaflega næmur fyrir öllum þjáningum sem við verðum fyrir. Sálmaskáldið sagði: „Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra. Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.“ (Sálmur 34:16, 19) Hvernig hjálpar Jehóva okkur hverju og einu? Ekki endilega með því að losa okkur við orsök þjáninganna. Hann hefur hins vegar gert ótalmargt fyrir þá sem ákalla hann til hjálpar. Í orði hans er að finna góð ráð sem við getum haft verulegt gagn af. Í söfnuðinum hefur hann látið í té hæfa umsjónarmenn sem kappkosta að endurspegla umhyggju hans þegar þeir hjálpa öðrum. (Jakobsbréfið 5:14, 15) Jehóva „heyrir bænir“ og gefur þeim „heilagan anda, sem biðja hann“. (Sálmur 65:3; Lúkas 11:13) Allt er þetta til merkis um „hjartans miskunn Guðs vors“. — Lúkas 1:78.

24. Hvernig bregst þú við kærleika Jehóva?

24 Er ekki hrífandi að hugleiða kærleikann sem faðir okkar á himnum hefur til að bera? Í greininni á undan vorum við minnt á það að Jehóva hefur beitt mætti sínum, réttlæti og visku af mikilli alúð í þágu okkar. Og í þessari grein sáum við að Jehóva hefur sýnt mannkyninu — og okkur sem einstaklingum — kærleika sinn með einstæðum hætti. En við ættum öll að spyrja okkur: ‚Hvernig bregst ég við kærleika Jehóva?‘ Við skulum elska hann af öllu hjarta, huga, sálu og mætti. (Markús 12:29, 30) Sýndu dag hvern með líferni þínu að þú þráir innilega að nálægja þig Jehóva jafnt og þétt. Og megi Jehóva, sem er kærleikur, nálgast þig — um alla eilífð. — Jakobsbréfið 4:8.

[Neðanmáls]

^ gr. 16 Fræðimaður segir að skarlat hafi verið „litekta. Hvorki dögg, regn, þvottur né langvinn notkun vann á litnum.“

Manstu?

Hvernig vitum við að kærleikurinn er áhrifamesti eiginleiki Jehóva?

Af hverju má segja að það sé mesta kærleiksverk sögunnar að Jehóva skyldi senda son sinn til að þjást og deyja fyrir okkur?

Hvernig fullvissar Jehóva okkur um að hann elski okkur hvert og eitt?

Hvernig lýsir Biblían fyrirgefningu Jehóva ljóslifandi?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

„Guð . . . gaf son sinn eingetinn.“

[Mynd á blaðsíðu 16]

„Þér eruð meira verðir en margir spörvar.“

[Credit line]

© J. Heidecker/VIREO.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Móðurástin kennir okkur margt um umhyggju Jehóva.