Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hún fyllti tómarúm í hjarta mér“

„Hún fyllti tómarúm í hjarta mér“

„Hún fyllti tómarúm í hjarta mér“

„ÉG ÞAKKA ykkur frá dýpstu hjartarótum fyrir bókina Nálægðu þig Jehóva. Þetta var falleg gjöf og hún fyllti tómarúm í hjarta mér — svalaði þeirri þörf að finna að Jehóva elskar mig og honum er annt um mig. Mér finnst ég standa svo miklu nær Jehóva og syni hans núna. Mig langar til að segja öllum frá þessari bók og gefa öllum ástvinum mínum hana.“ Þannig var einum votti Jehóva innanbrjósts eftir að hafa lesið nýju bókina sem gefin var út í tengslum við umdæmismótið „Kostgæfir boðberar Guðsríkis“ sem haldið var 2002-3. Lítum nánar á þessa nýju bók og veltum fyrir okkur hvers vegna hún var gefin út.

Helstu einkenni nýju bókarinnar

Þessi nýja bók inniheldur allt efnið sem fram kemur í námsgreinunum tveim hér á undan — og miklu meira en það. Hún er 320 blaðsíður og skiptist í 31 kafla. Hver kafli er á að giska jafnlangur og ein námsgrein í Varðturninum. Eftir formála og fyrstu þrjá kaflana skiptist bókin í fjóra hluta sem hver um sig er helgaður einum höfuðeiginleika Jehóva. Í byrjun hvers bókarhluta er yfirlit yfir viðkomandi eiginleika. Síðan koma nokkrir kaflar þar sem fjallað er um hvernig Jehóva sýnir þennan eiginleika. Einn kafli í hverjum bókarhluta fjallar um Jesú. Hvers vegna? Jesús sagði: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9) Jesús er fullkomin spegilmynd Jehóva og skýrt dæmi um það hvernig eiginleikar hans birtast í verki. Hverjum bókarhluta lýkur svo á kafla þar sem okkur er kennt að líkja eftir Jehóva með því að sýna þann eiginleika sem er til umræðu. Nýja bókin vitnar í allar bækur Biblíunnar.

Frá og með öðrum kafla bókarinnar Nálægðu þig Jehóva eru rammagreinar með yfirskriftinni „Til íhugunar“. Þar eru spurningar og ritningarstaðir, ekki þó til upprifjunar á kaflanum heldur til að hjálpa þér að hugleiða efnið gaumgæfilega með aðstoð Biblíunnar. Mælt er með að þú lesir allar ritningargreinarnar vandlega. Íhugaðu svo spurninguna og reyndu að heimfæra efnið á sjálfan þig. Þetta getur snortið hjarta þitt og hjálpað þér að nálægja þig Jehóva jafnt og þétt. — Sálmur 19:15.

Myndirnar í bókinni eru byggðar á ítarlegum biblíurannsóknum og gerðar til að vera bæði fræðandi og hvetjandi. Í 17 köflum eru fallegar heilsíðumyndir frá biblíutímanum.

Hvers vegna var bókin gefin út?

Hvers vegna var bókin Nálægðu þig Jehóva gefin út? Meginmarkmiðið er það að hjálpa okkur að kynnast Jehóva betur þannig að við getum styrkt samband okkar við hann.

Dettur þér einhver í hug sem gæti haft gagn af nýju bókinni, kannski biblíunemandi eða jafnvel trúbróðir eða trúsystir sem eru orðin óvirk? Og hvað um þig — ertu byrjaður að lesa hana? Ef ekki væri ráð að hefjast handa sem fyrst. Gefðu þér tíma til að hugleiða það sem þú lest. Það er von okkar að þessi nýja bók hjálpi þér að finna til æ meiri nálægðar við Jehóva Guð, þannig að þú hafir sífellt meira yndi af því að boða fagnaðarerindið um ríkið.