Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig ræktum við með okkur kærleika?

Hvernig ræktum við með okkur kærleika?

Hvernig ræktum við með okkur kærleika?

„Kærleikur er lífselixír; kærleikur er lífið.“ — Joseph Johnson. Living to Purpose. 1871.

HVERNIG lærum við að elska? Með því að nema sálfræði, lesa sjálfshjálparbækur eða horfa á rómantískar kvikmyndir? Varla. Við lærum það fyrst og fremst af foreldrum okkar — af fordæmi þeirra og kennslu. Börn skilja hvað kærleikur er ef þau alast upp í ástríku umhverfi þar sem foreldrarnir sjá fyrir þeim og vernda þau, tala við þau og sýna þeim persónulegan áhuga. Þau læra einnig að elska þegar foreldrarnir kenna þeim að virða grundvallarreglur um rétt og rangt.

Kærleikur er ekki grunn og yfirborðsleg tilfinning. Hann vinnur stöðugt að hag annarra, jafnvel þótt þeir kunni ekki að meta það til fulls á þeim tíma, eins og til dæmis þegar foreldrar aga börn sín í kærleika. Skaparinn er besta fyrirmyndin í að sýna óeigingjarnan kærleika. Páll postuli skrifaði: „Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu Drottins, og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig. Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar.“ — Hebreabréfið 12:5, 6.

Foreldrar, hvernig getið þið líkt eftir Jehóva og sýnt kærleika í fjölskyldunni? Og hversu mikilvægt er það fordæmi sem þið setjið með samskiptum ykkar innan hjónabandsins?

Kennið kærleika með fordæmi ykkar

Eiginmenn, metið þið eiginkonur ykkar mikils og sýnið þeim heiður og virðingu? Eiginkonur, eruð þið ástríkar og styðjið þið eiginmenn ykkar? Biblían segir að hjón eigi að elska og virða hvort annað. (Efesusbréfið 5:28; Títusarbréfið 2:4) Ef þau gera það sjá börnin kristinn kærleika í verki og það getur verið kröftugur og mikilvægur lærdómur.

Foreldrar stuðla einnig að kærleika á heimilinu með því að hafa háa staðla í sambandi við afþreyingu, siðferði, markmið og forgangsröðun. Fólk út um allan heim hefur komist að raun um að Biblían hjálpar því að setja slíka staðla fyrir fjölskylduna, og það er sönnun þess að Biblían er í raun og veru „innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti“. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Að mati margra eru siðferðis- og lífsreglurnar í fjallræðunni algerlega óviðjafnanlegar, svo dæmi sé nefnt. — Matteus, kaflar 5 til 7.

Þegar öll fjölskyldan leitar leiðsagnar Guðs og fylgir stöðlum hans eru börnin líklegri til að elska og virða foreldra sína. Þetta stuðlar að öryggiskennd hjá öllum. En ef staðlarnir á heimilinu eru tvöfaldir, óviðeigandi eða slakir geta börnin á hinn bóginn orðið ergileg, reið og uppreisnargjörn. — Rómverjabréfið 2:21; Kólossubréfið 3:21.

En hvað með einstæða foreldra? Er erfiðara fyrir þá að kenna börnunum að elska? Ekki endilega. Þó að ekkert komi í staðinn fyrir föður og móður, sem vinna vel saman, sýnir reynslan að góð samskipti innan fjölskyldunnar geta að einhverju leyti vegið upp á móti því að annað foreldrið vantar. Þið einstæðu foreldrar ættuð að leggja ykkur fram um að fara eftir meginreglum Biblíunnar á heimilinu. Já, orðskviður segir: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta“ — einnig fyrir foreldra. — Orðskviðirnir 3:5, 6; Jakobsbréfið 1:5.

Margir duglegir unglingar ólust upp hjá einstæðu foreldri en þjóna nú trúfastlega í þúsundum safnaða Votta Jehóva um allan heim. Það er sönnun þess að einstæðir foreldrar geta kennt börnum sínum að elska.

Allir geta ræktað með sér kærleika

Biblían spáði því að ‚síðustu dagar‘ myndu einkennast af ‚kærleiksleysi‘ sem þýðir að skortur verður á þeirri eðlilegu umhyggju sem á að ríkja innan fjölskyldunnar. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 3) En jafnvel þótt fólk hafi ekki alist upp við mikla hlýju getur það lært að sýna kærleika. Hvernig? Með því að læra af Jehóva en hann er uppspretta kærleikans og sýnir öllum kærleika og umhyggju sem snúa sér til hans í fullri einlægni. (1. Jóhannesarbréf 4:7, 8) „Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér,“ segir sálmaritari. — Sálmur 27:10.

Jehóva sýnir okkur kærleika á marga vegu. Hann gefur okkur til dæmis föðurlega leiðsögn í Biblíunni, veitir okkur hjálp heilags anda og stuðning frá kristna bræðrafélaginu. (Sálmur 119:97-105; Lúkas 11:13; Hebreabréfið 10:24, 25) Athugum hvernig þetta þrennt getur hjálpað okkur að styrkja kærleikann til Guðs og náungans.

Innblásin föðurleg leiðsögn

Til að mynda innileg tengsl við aðra verðum við að þekkja þá vel. Jehóva opinberar sig á síðum Biblíunnar og býður okkur þannig að nálgast sig. En það er ekki nóg að lesa Biblíuna. Við verðum líka að fara eftir því sem hún segir og njóta þeirrar blessunar sem það hefur í för með sér. (Sálmur 19:8-11) „Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga“, segir í Jesaja 48:17. Já, Jehóva, persónugervingur kærleikans, leiðbeinir okkur, ekki til að skerða frelsi okkar með óþörfum boðum og bönnum heldur til að við sjálf getum notið góðs af því.

Nákvæm þekking á Biblíunni hjálpar okkur einnig að styrkja kærleikann til náungans. Biblían kennir okkur hvernig Guð lítur á mennina og bendir á meginreglur sem ættu að stjórna því hvernig við komum fram hvert við annað. Slík þekking gefur okkur grundvöll til að rækta með okkur náungakærleika. Páll postuli segir: „Þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind.“ — Filippíbréfið 1:9.

Til að sýna hvernig má beina kærleikanum í rétta átt með nákvæmri „þekkingu“ getum við skoðað grundvallarsannindin í Postulasögunni 10:34, 35: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ Guð metur fólk ekki eftir þjóðerni eða kynþætti heldur eftir réttlætisverkum og guðsótta. Ættum við ekki að gera slíkt hið sama? — Postulasagan 17:26, 27; 1. Jóhannesarbréf 4:7-11, 20, 21.

Kærleikur — ávöxtur anda Guðs

Tímabær rigning á ræktarland stuðlar að góðri uppskeru. Á svipaðan hátt getum við ræktað með okkur eiginleika sem Biblían kallar ‚ávöxt andans‘, ef við höfum anda Guðs. (Galatabréfið 5:22, 23) Kærleikur er göfugasti hluti þessa ávaxtar. (1. Korintubréf 13:13) En hvernig fáum við anda Guðs? Ein mikilvæg leið er að biðja til Guðs. Guð gefur okkur anda sinn ef við biðjum um hann. (Lúkas 11:9-13) Biður þú staðfastlega um heilagan anda? Ef þú gerir það mun dýrmætur ávöxtur hans, þar á meðal kærleikurinn, verða enn augljósari í lífi þínu.

En til er annars konar andi sem vinnur gegn anda Guðs. Biblían kallar hann „anda heimsins“. (1. Korintubréf 2:12; Efesusbréfið 2:2) Hér er átt við ill áhrif sem Satan djöfullinn er kveikjan að en hann er ‚höfðingi þessa heims‘, það er að segja mannheimsins sem er fjarlægur Guði. (Jóhannes 12:31) ‚Andi heimsins‘ er eins og vindur sem þyrlar upp ryki og rusli. Hann vekur upp skaðlegar fýsnir sem spilla fyrir kærleikanum og svala veikleika holdsins. — Galatabréfið 5:19-21.

Fólk drekkur í sig þennan illa anda þegar það lætur efnishyggju, eigingirni og ofbeldishegðun hafa áhrif á sig, eða þá rangsnúnu og oft brengluðu hugmynd um ást sem er svo algeng í heiminum. Ef þú vilt efla kærleikann verður þú að standa á móti anda heimsins. (Jakobsbréfið 4:7) En treystu ekki á eigin styrk; biddu Jehóva um hjálp. Andi hans — sterkasta aflið í alheiminum — getur styrkt þig og hjálpað þér að ná árangri. — Sálmur 121:2.

Lærið kærleika af kristna bræðrafélaginu

Börn læra að elska þegar þeim er sýnd ástúð. Á sama hátt geta allir — hvort sem þeir eru ungir eða aldnir — glætt með sér kærleika ef þeir umgangast aðra kristna menn. (Jóhannes 13:34, 35) Já, eitt lykilhlutverk kristna safnaðarins er að skapa umhverfi þar sem fólk getur ‚hvatt hvert annað til kærleika og góðra verka‘. — Hebreabréfið 10:24.

Þeir sem hafa verið „hrjáðir og umkomulausir“ í þessum kærleikslausa heimi, kunna sérstaklega að meta slíkan kærleika. (Matteus 9:36) Reynslan sýnir að kærleiksrík sambönd við aðra á fullorðinsárunum geta að mörgu leyti bætt fyrir slæm áhrif kærleikslausrar æsku. Það er því sérstaklega mikilvægt að allir vígðir kristnir menn taki vel á móti nýju fólki sem fer að umgangast söfnuðinn.

„Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“

Biblían segir að ‚kærleikurinn falli aldrei úr gildi‘. (1. Korintubréf 13:8) Hvernig þá? Páll postuli segir: „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.“ (1. Korintubréf 13:4, 5) Slíkur kærleikur er greinilega ekki óraunverulegt hugtak eða yfirborðsleg tilfinningasemi. Þeir sem sýna hann eru meðvitaðir um vonbrigði og erfiðleika lífsins en þeir láta það samt ekki spilla þeim kærleika sem þeir bera til náungans. Kærleikur sem þessi er „band algjörleikans“. — Kólossubréfið 3:12-14.

Skoðum sem dæmi 17 ára kristna stúlku í Kóreu. Þegar hún fór að þjóna Jehóva Guði var fjölskylda hennar mótfallin því og hún varð að flytja að heiman. En í stað þess að reiðast bað hún til Jehóva og lét orð hans og anda hafa áhrif á hugsunarhátt sinn. Hún skrifaði oft heim og lét í ljós einlægar og hlýjar tilfinningar til fjölskyldu sinnar. Í kjölfarið fóru báðir eldri bræður hennar að kynna sér Biblíuna og eru núna vígðir kristnir menn. Móðir hennar og yngri bróðir tóku einnig við sannleika Biblíunnar. Að síðustu skipti faðir hennar einnig um skoðun, en hann hafði verið mjög andsnúinn. Stúlkan skrifar: „Við fundum okkur öll maka innan safnaðarins og núna erum við 23 í fjölskyldunni sem tilbiðjum Jehóva.“ Þetta var sannur sigur fyrir kærleikann.

Vilt þú rækta með þér kærleika og hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama? Snúðu þér þá til Jehóva, uppsprettu þessa dýrmæta eiginleika. Já, farðu eftir því sem fram kemur í orði hans, biddu um heilagan anda og sæktu samkomur kristna bræðrafélagsins. (Jesaja 11:9; Matteus 5:5) Það er uppörvandi að vita til þess að bráðlega verða allir illgjarnir menn horfnir og þeir einir eftir sem sýna sannan kristinn kærleika. Já, kærleikurinn er lykillinn að hamingjunni og lífinu. — Sálmur 37:10, 11; 1. Jóhannesarbréf 3:14.

[Myndir á blaðsíðu 6]

Við ræktum með okkur kærleika meðal annars með því að biðja til Guðs og grannskoða orð hans.