Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kærleikur er ómissandi

Kærleikur er ómissandi

Kærleikur er ómissandi

ALLIR þrá að vera elskaðir. Þessi sterka þrá er óháð aldri, menningu, tungu eða kynþætti. Fólk er ekki hamingjusamt nema þessari þörf sé fullnægt. Rannsóknarmaður á sviði læknavísinda skrifaði: „Ást og náið samband við aðra ræður miklu um það hvort við erum veik eða heilbrigð, hvort við erum sorgmædd eða glöð og hvort við þjáumst eða fáum bót meina okkar. Ef nýtt lyf hefði sömu áhrif myndi sennilega hver einasti læknir á landinu mæla með því. Það yrði álitin vanræksla að ávísa ekki þessu nýja lyfi.“

Í nútímasamfélagi er hins vegar oft lögð meiri áhersla á auð, völd, frægð og kynlíf en þörf manna fyrir innilegt og ástúðlegt samband við aðra. Fjölmiðlar og vinsæl átrúnaðargoð eiga sinn þátt í að ýta undir þennan hugsunarhátt. Margir kennarar og kennslufræðingar leggja áherslu á veraldleg markmið og starfsframa og mæla velgengni aðallega út frá þeim kvarða. Að sjálfsögðu er mikilvægt að mennta sig og þroska hæfileika sína, en er rétt að leggja svo ríka áherslu á það að maður hafi engan tíma fyrir fjölskyldu og vini? Menntaður rithöfundur til forna, sem fylgdist grannt með mannlegu eðli, sagði að hæfileikarík manneskja án kærleika væri eins og „hljómandi málmur eða hvellandi bjalla“. (1. Korintubréf 13:1) Slíkt fólk getur verið auðugt og jafnvel frægt en það verður aldrei raunverulega hamingjusamt.

Kristur hafði djúpstæðan skilning á mannlegu eðli og þótti einstaklega vænt um mannfólkið, og í kennslu sinni lagði hann sérstaka áherslu á að elska Guð og náungann. Hann sagði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. . . . Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (Matteus 22:37-39) Þeir einir sem fylgdu þessu yrðu sannir lærisveinar Jesú. Þess vegna sagði hann: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:35.

En hvernig getum við ræktað með okkur kærleika í heimi nútímans? Og hvernig geta foreldrar kennt börnum sínum að elska? Um það er rætt í næstu grein.

[Myndir á blaðsíðu 3]

Það getur verið erfitt að rækta með sér kærleika í heimi sem stjórnast af græðgi.