Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónar Jehóva hafa sanna von

Þjónar Jehóva hafa sanna von

Þjónar Jehóva hafa sanna von

„Leifar Jakobs meðal heiðingjanna, mitt á meðal margra þjóða, munu vera sem dögg frá Drottni, sem regndropar á grasi, þeir . . . vænta ekki neins af mannanna börnum.“ — MÍKA 5:6.

1. Hvernig eru andlegir Ísraelsmenn endurnærandi fyrir aðra?

JEHÓVA skapaði regnið og döggina. Það er borin von að menn geti vökvað jörðina með þeim hætti. Míka spámaður skrifaði: „Leifar Jakobs meðal heiðingjanna, mitt á meðal margra þjóða, munu vera sem dögg frá Drottni, sem regndropar á grasi, þeir er bíða ekki eftir neinum og vænta ekki neins af mannanna börnum.“ (Míka 5:7) Hverjir eru ‚leifar Jakobs‘ nú á tímum? Það eru andlegir Ísraelsmenn, þeir sem eftir eru af „Ísrael Guðs“. (Galatabréfið 6:16) Fyrir ‚margar þjóðir‘ jarðar eru þeir eins og hressandi „dögg frá Drottni“ og sem ‚regndropar á grasi‘. Já, smurðir kristnir menn eru blessun frá Guði til þjóðanna, og hann notar þá til að boða ríki sitt og færa fólki sanna von.

2. Hvers vegna höfum við örugga von þó að við búum í heimi sem á í miklum vanda?

2 Það kemur ekki á óvart að heiminn skuli skorta sanna von. Satan drottnar yfir honum þannig að við reiknum með óstöðugleika í stjórnmálum, siðferðishruni, glæpum, efnahagskreppu, hryðjuverkum og stríðsátökum. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Í heimi sem þessum eru margir uggandi um framtíðina. En við erum óhrædd því að við tilbiðjum Jehóva og eigum örugga von um bjarta framtíð. Þessi von er örugg þar sem hún er byggð á orði Guðs. Við treystum Jehóva og orði hans af því að það sem hann segir rætist alltaf.

3. (a) Hvers vegna ætlaði Jehóva að láta til skarar skríða gegn Ísrael og Júda? (b) Af hverju eiga orð Míka við nú á tímum?

3 Innblásinn spádómur Míka styrkir okkur í að ganga í nafni Jehóva og er góður grundvöllur sannrar vonar. Míka var spámaður á áttundu öld f.o.t. en sáttmálaþjóð Guðs skiptist þá í tvær þjóðir, Ísrael og Júda, sem báðar hunsuðu sáttmála Guðs. Afleiðingin var siðferðishrun, fráhvarf frá trúnni og gegndarlaus efnishyggja. Þess vegna varaði Jehóva þær við að hann myndi taka í taumana. Viðvaranir hans beindust auðvitað að samtíðarmönnum Míka. En nú á dögum er ástandið mjög áþekkt því sem var á tímum Míka þannig að orð hans eiga einnig við núna. Þetta skýrist betur þegar við skoðum nokkur mikilvæg atriði úr spádómsbók Míka en bókin skiptist í sjö kafla.

Yfirlit yfir bókina

4. Hvaða er að finna í 1. til 3. kafla Míka?

4 Byrjum á því að renna stuttlega yfir innihald spádómsbókarinnar. Í 1. kafla flettir Jehóva ofan af uppreisn Ísraels og Júda. Ísraelsríkinu verður eytt vegna synda þess og refsing Júdamanna skal ná allt að borgarhliðum Jerúsalem. Annar kaflinn segir frá því að hinir ríku og voldugu kúgi hina máttvana og hjálparlausu. En Guð lofar því jafnframt að safna fólki sínu saman í einingu. Þriðji kaflinn talar um úrskurð Jehóva gegn leiðtogum þjóðarinnar og spilltum spámönnum hennar. Leiðtogarnir rangsnúa réttlætinu og spámennirnir tala lygar. En heilagur andi Jehóva knýr Míka til að boða komandi dóm hans.

5. Hver er kjarninn í 4. og 5. kafla Míka?

5 Fjórði kafli segir fyrir að á hinum síðustu dögum muni allar þjóðir ganga upp á háreist fjall Jehóva, sem hús hans stendur á, og fá kennslu hjá honum. Áður en það gerist eiga Júdamenn að fara í útlegð til Babýlonar en Jehóva mun frelsa þá. Í 5. kafla er opinberað að Messías eigi að fæðast í Betlehem í Júda. Hann mun gæta fólks síns og frelsa það undan þjóðum sem kúga það.

6, 7. Hvað kemur fram í 6. og 7. kafla í spádómi Míka?

6 Í sjötta kafla hjá Míka er ásökunum Jehóva á hendur fólki hans lýst eins og dómsmáli. Hvað hefur hann gert til að stuðla að uppreisn fólksins? Ekkert. Kröfur hans eru meira að segja mjög sanngjarnar. Hann vill að tilbiðjendur sínir geri rétt og framgangi í kærleika og lítillæti fyrir honum. En í staðinn hafa Ísrael og Júda gert uppreisn og verða því að taka afleiðingunum.

7 Í síðasta kafla spádómsins fordæmir Míka illsku samtíðarmanna sinna. En hann missir ekki kjarkinn því að hann er ákveðinn í að „bíða“ eftir Jehóva. (Míka 7:7) Í bókarlok lýsir Míka yfir því trausti að Jehóva miskunni fólki sínu. Sagan staðfestir að þessi von rættist. Árið 537 f.o.t. lauk Jehóva við að aga þjóð sína og í miskunn sinni leyfði hann leifum hennar að snúa aftur heim.

8. Lýstu efni spádómsbókar Míka í hnotskurn.

8 Það eru mikilsverðar upplýsingar sem Jehóva opinberar í bók Míka. Þessi innblásna bók hefur að geyma dæmi til viðvörunar um það hvernig Guð tekur á þeim sem segjast þjóna honum en eru ótrúir. Hún segir fyrir atburði sem eru að gerast nú á dögum. Og þar leiðbeinir Guð okkur um það hvernig við eigum að hegða okkur á þessum erfiðu tímum þannig að við getum haft örugga von.

Alvaldur Drottinn Jehóva talar

9. Hvað ætlaði Jehóva að gera samkvæmt Míka 1:2?

9 Við skulum líta nánar á bók Míka. Við lesum í Míka 1:2: „Heyrið, allir lýðir! Hlusta þú, jörð, og allt sem á þér er! Og Drottinn Guð veri vottur gegn yður, Drottinn frá sínu heilaga musteri.“ Þessi orð hefðu áreiðanlega vakið athygli þína ef þú hefðir verið uppi á dögum Míka. Þau vekja sannarlega athygli okkar því að Jehóva talar frá heilögu musteri sínu og ávarpar alla menn, ekki aðeins Ísrael og Júda. Samtíðarmenn Míka voru búnir að hafna alvöldum Drottni Jehóva allt of lengi. En það átti að breytast fljótlega því að Jehóva var ákveðinn í að taka á málum af fullri festu.

10. Hvers vegna eru orðin í Míka 1:2 mikilvæg fyrir okkur?

10 Hið sama er að segja um nútímann. Af Opinberunarbókinni 14:18-20 sjáum við að Jehóva talar aftur frá heilögu musteri sínu. Bráðlega tekur hann til óspilltra málanna og örlagaríkir atburðir munu aftur ganga yfir mannkynið. Í það skiptið verður vondum ,vínviði allrar jarðarinnar‘ kastað í hina miklu reiði-vínþröng Jehóva og heimskerfi Satans eytt að fullu.

11. Við hvað er átt í Míka 1:3, 4?

11 Taktu eftir hvað Jehóva ætlar að gera. Míka 1:3, 4 segir: „Sjá, Drottinn mun út fara frá bústað sínum, mun ofan stíga og ganga eftir hæðum jarðarinnar. Fjöllin munu bráðna undan honum og dalirnir klofna sem vax fyrir eldi, sem vatn, er steypist ofan bratta hlíð.“ Ætlar Jehóva að yfirgefa himneskan bústað sinn og ganga bókstaflega á fjöllum og sléttlendi fyrirheitna landsins? Nei, hann þarf þess ekki. Hann þarf aðeins að beina athygli sinni að jörðinni til að ná fram vilja sínum. Auk þess er ekki átt við hið bókstaflega land heldur eru það íbúar þess sem munu líða. Þegar Jehóva tekur í taumana er afleiðingin skelfileg fyrir hina ótrúu — rétt eins og fjöllin bráðni sem vax og dalirnir klofni í jarðskjálfta.

12, 13. Hvernig getum við gert vonina örugga samkvæmt 2. Pétursbréfi 3:10-12?

12 Spádómsorðin í Míka 1:3, 4 minna þig kannski á annan innblásinn spádóm sem boðar hörmungar á jörðinni. Pétur postuli skrifaði í 2. Pétursbréfi 3:10: „Dagur Drottins mun koma sem þjófur, og þá munu himnarnir með miklum gný líða undir lok, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna.“ Pétur er ekki að tala um bókstaflegan himin og jörð frekar en Míka, heldur um mikla þrengingu sem kemur yfir hinn óguðlega heim sem nú er.

13 Þrátt fyrir þær hörmungar, sem eru framundan, geta kristnir menn horft vonglaðir fram veginn alveg eins og Míka. Hvernig? Með því að fara eftir ráðleggingunni sem er að finna í versunum á eftir í bréfi Péturs. Þar segir postulinn: „Hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags.“ (2. Pétursbréf 3:11, 12) Við eigum örugga framtíðarvon ef við temjum okkur hlýðni og guðrækni og gætum þess að vera heilög í allri breytni. Til að hafa örugga von verðum við einnig að hafa hugfast að það er öruggt að dagur Jehóva komi.

14. Af hverju verðskulda Ísrael og Júda refsingu?

14 Jehóva útskýrir hvers vegna fólk hans á refsingu skilda. Míka 1:5 segir: „Og allt þetta sakir misgjörðar Jakobs og sakir syndar Ísraels húss. Hver er þá misgjörð Jakobs? Er það ekki Samaría? Og hver er synd Júda? Er það ekki Jerúsalem?“ Ísrael og Júda eiga tilveru sína Jehóva að þakka en hafa gert uppreisn gegn honum, og uppreisnin nær alla leið inn í höfuðborgirnar Samaríu og Jerúsalem.

Illskan er mikil

15, 16. Hvaða vonskuverk gerðu samtíðarmenn Míka sig seka um?

15 Í Míka 2:1, 2 er nefnt glöggt dæmi um illskuna sem var á þeim tíma: „Vei þeim, sem hugsa upp rangindi og hafa illt með höndum í hvílurúmum sínum og framkvæma það, þegar ljómar af degi, jafnskjótt og þeir megna. Langi þá til að eignast akra, þá ræna þeir þeim, eða hús, þá taka þeir þau burt. Þeir beita ofríki gegn húsbóndanum og húsi hans, gegn manninum og óðali hans.“

16 Ágjarnir menn liggja andvaka um nætur og leggja á ráðin hvernig þeir geti hrifsað til sín hús og akra nágranna sinna. Þegar morgnar flýta þeir sér að framkvæma það. Þeir myndu ekki vinna slík fólskuverk ef þeir minntust sáttmála Jehóva. Í Móselögunum eru ákvæði til verndar fátækum sem tryggja að engin fjölskylda missi arfleifð sína fyrir fullt og allt. En það skiptir þessa ágjörnu menn engu máli. Þeir hunsa boðið í 3. Mósebók 19:18 þar sem segir: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

17. Hvað getur gerst þegar þeir sem segjast þjóna Guði setja efnislega hluti á oddinn?

17 Þetta sýnir hvernig getur farið þegar fólk, sem segist þjóna Guði, missir sjónar á andlegum markmiðum og sækist fyrst og fremst eftir efnislegum hlutum. Páll aðvaraði kristna menn á fyrstu öld: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.“ (1. Tímóteusarbréf 6:9) Sá sem leggur mest upp úr því að græða peninga er í rauninni að tilbiðja falsguð — mammón eða auðinn. Það er falsguð sem býður ekki upp á neina örugga framtíðarvon. — Matteus 6:24.

18. Hvernig fór fyrir efnishyggjumönnunum á dögum Míka?

18 Margir á dögum Míka lærðu í hörðum skóla reynslunnar að það er hreinn hégómi að treysta á efnislega hluti. Jehóva segir í Míka 2:4: „Á þeim degi munu menn háðkvæði um yður kveða og hefja harmatölur á þessa leið: ‚Vér erum gjörsamlega eyðilagðir, landeign þjóðar minnar er úthlutað með mæliþræði, og enginn fær mér hana aftur. Ökrum vorum er skipt milli þeirra, er oss hafa hertekið!‘“ Já, þessir ræningjar, sem stela heimilum og ökrum, glata fjölskylduarfleifð sinni. Þeir verða sendir til annars lands og eignir þeirra verða ránsfengur erlendra manna sem hertaka þá. Allar vonir um velmegun renna út í sandinn.

19, 20. Hvernig fór fyrir þeim Gyðingum sem treystu á Jehóva?

19 En vonir þeirra sem treysta á Jehóva bregðast ekki. Jehóva er trúr sáttmála sínum við Abraham og Davíð, og er miskunnsamur við menn eins og Míka sem elska hann og harma fráhvarf landa sinna frá Guði. Það er vegna ráðvandra manna sem endurreisn mun eiga sér stað á tilsettum tíma Guðs.

20 Þetta gerist árið 537 f.o.t. þegar leifar Gyðinga snúa heim eftir fall Babýlonar. Orðin í Míka 2:12 eiga sér þá byrjunaruppfyllingu. Jehóva segir: „Safna, já safna vil ég, Jakob, öllum þínum, færa saman leifar Ísraels eins og sauðfé í rétt, eins og hjörð í haga, og þar skal verða kliður mikill af mannmergðinni.“ Jehóva er ástríkur Guð! Eftir að hafa agað fólk sitt leyfir hann leifum að snúa heim og þjóna sér í landinu sem hann gaf forfeðrum þeirra.

Athyglisverð hliðstæða

21. Hvernig er nútíminn í samanburði við ástandið á dögum Míka?

21 Það er athyglisvert að sjá hve margt er líkt með samtíð okkar og Míka eins og hann lýsir henni í fyrstu tveim köflum bókar sinnar. Nú á tímum segjast margir þjóna Guði rétt eins og á dögum Míka. En líkt og Júda og Ísrael eru þeir sundurþykkir og hafa jafnvel átt í stríðsátökum innbyrðis. Margir auðmenn kristna heimsins hafa kúgað hina snauðu. Trúarleiðtogar viðurkenna sífellt fleira sem er beinlínis fordæmt í Biblíunni. Það kemur ekki á óvart að kristni heimurinn eigi bráðlega að líða undir lok ásamt öllu heimsveldi falstrúarbragðanna, ‚Babýlon hinni miklu‘. (Opinberunarbókin 18:1-5) En Jehóva mun áfram eiga sér trúfasta þjóna á jörðinni eins og á dögum Míka.

22. Hvaða tveir hópar hafa sett von sína á ríki Guðs?

22 Árið 1919 sögðu smurðir kristnir menn endanlega skilið við kristna heiminn og hófu að prédika fagnaðarerindið öllum þjóðum til vitnisburðar. (Matteus 24:14) Fyrst leituðu þeir uppi þá sem eftir voru af hinum andlega Ísrael. Í kjölfarið var farið að safna saman ‚öðrum sauðum‘ og hóparnir tveir urðu „ein hjörð“ undir umsjón ‚eins hirðis‘. (Jóhannes 10:16) Þó að trúir tilbiðjendur Guðs þjóni honum núna í 234 löndum hafa þeir sannarlega verið ,færðir saman‘ í einingu. Og nú er „kliður mikill af mannmergðinni“ í sauðabyrginu. Þeir setja ekki von sína á þetta heimskerfi heldur á Guðsríki sem mun endurreisa paradís á jörð innan tíðar.

23. Af hverju ertu sannfærður um að vonin sé örugg?

23 Síðasta versið í 2. kafla Míka segir um trúa tilbiðjendur Jehóva: „Konungur þeirra fer fyrir þeim og Drottinn er í broddi fylkingar þeirra.“ Sérðu sjálfan þig í þessari sigurfylkingu þar sem þú fylgir konungi þínum, Jesú Kristi, með Jehóva í broddi fylkingar? Ef svo er máttu vita að sigurinn er tryggður og vonin örugg. Þetta skýrist enn betur þegar við skoðum framhaldið af spádómi Míka.

Hvert er svarið?

• Af hverju lét Jehóva til skarar skríða gegn Júda og Ísrael á dögum Míka?

• Hvað getur gerst ef þeir sem segjast þjóna Guði setja efnislega hluti á oddinn?

• Hvers vegna ertu sannfærður um að vonin sé örugg, eftir að hafa farið yfir fyrstu tvo kaflana hjá Míka?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Spádómur Míka getur styrkt okkur andlega.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Andlegir Ísraelsmenn og félagar þeirra efla sanna tilbeiðslu líkt og leifar Gyðinga árið 537 f.o.t.