Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig sumra er minnst

Hvernig sumra er minnst

Hvernig sumra er minnst

FYRIR um það bil þrjú þúsund árum var Davíð á flótta undan Sál, konungi Ísraels. Davíð sendi menn til Nabals til að biðja um mat og vatn en Nabal var ríkur hjarðmaður sem átti bæði sauðfé og geitur. Í raun áttu Davíð og menn hans greiða inni hjá Nabal fyrir að vernda hjarðir hans. En Nabal var ekki á þeim buxunum að sýna gestrisni. Hann jós jafnvel fúkyrðum yfir menn Davíðs. Nabal var að leika sér að eldinum því að Davíð var harður í horn að taka. — 1. Samúelsbók 25:5, 8, 10, 11, 14.

Hátterni Nabals gekk þvert á þá miðausturlensku hefð að sýna gestum og ókunnugum gestrisni. Hvaða mannorð ávann Nabal sér fyrir vikið? Í frásögu Biblíunnar er talað um að hann hafi verið „harður og illur viðureignar“ og „hrakmenni“. Nafn hans merkir „heimskingi“ og hann bar svo sannarlega nafn með rentu. (1. Samúelsbók 25:3, 17, 25) Myndi þig langa til að þín yrði minnst á þennan hátt? Ert þú strangur og harðbrjósta í samskiptum við aðra, einkum ef þeir mega sín minna en þú? Eða ertu vingjarnlegur, gestrisinn og tillitssamur?

Abígail — skynsöm kona

Nabal var kominn í klandur vegna harðneskju sinnar. Davíð og 400 menn hans gyrtu sig sverði og ætluðu að veita Nabal ráðningu. Abígail, kona Nabals, komst á snoðir um það sem gerst hafði. Henni var ljóst að átök voru í aðsigi. En hvað gat hún gert? Í snatri tók hún til nægar matarbirgðir og hélt af stað til Davíðs og manna hans til að stöðva þá. Þegar hún hitti þá sárbað hún Davíð að úthella ekki blóði að ástæðulausu. Hjarta hans mildaðist. Hann hlustaði á beiðni hennar og sýndi vægð. Stuttu eftir þessa atburði dó Nabal. Og Davíð tók Abígail sér fyrir konu þar sem hann tók eftir góðum eiginleikum hennar. — 1. Samúelsbók 25:14-42.

Hvaða mannorð ávann Abígail sér? Hún var „vitur“ eða „gáfuð“ eins og kemur fram í hebreska frumtextanum. Hún var auðsjáanlega skynsöm og hagsýn og vissi hvernig og hvenær var rétt að taka málin í sínar hendur. Hún sýndi tryggð er hún verndaði heimskan mann sinn og heimilismenn gegn miklum hörmungum. Hún dó vissulega að lokum, en hún hafði getið sér það mannorð að vera skynsöm kona. — 1. Samúelsbók 25:3, Biblíurit, ný þýðing 1994.

Hvaða orðstír gat Pétur sér?

Færum okkur nú til fyrstu aldarinnar eftir okkar tímatali og tökum hina 12 postula Jesú sem dæmi. Pétur, öðru nafni Kefas, var efalaust hvað ófeimnastur og fljótfærastur postulanna, en hann hafði áður verið fiskimaður í Galíleu. Hann var kraftmikill að eðlisfari og óhræddur við að láta tilfinningar sínar í ljós. Eitt dæmi um það er þegar Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. Hvernig brást Pétur við þegar kom að því að þvo fætur hans?

Hann sagði við Jesú: „Herra, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“ Jesús svaraði honum: „Nú skilur þú ekki, hvað ég er að gjöra, en seinna muntu skilja það.“ Þá sagði Pétur: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Taktu eftir hvað Pétur er eindreginn en hvatvís í afstöðu sinni. Hvernig brást Jesús við?

„Ef ég þvæ þér ekki,“ sagði Jesús, „áttu enga samleið með mér.“ Símon Pétur sagði þá við hann: „Herra, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“ Nú fer Pétur út í hinar öfgarnar. En eitt var víst, fólk vissi alltaf hvar það hafði hann. Hann var ekki tvöfaldur í roðinu. — Jóhannes 13:6-9.

Péturs er einnig minnst fyrir mannlega veikleika. Hann afneitaði til dæmis Jesú þrisvar frammi fyrir fólki sem sakaði hann um að vera fylgjandi þessa dæmda manns frá Nasaret. Þegar Pétur áttaði sig á því sem hann hafði gert grét hann beisklega. Hann fór ekki í neinar grafgötur með harm sinn og eftirsjá. Það er einnig athyglisvert að guðspjallaritararnir skyldu skrá niður afneitun Péturs og að öllum líkindum var það Pétur sjálfur sem lét þær upplýsingar í té. Hann var nógu auðmjúkur til að viðurkenna mistök sín. Hefur þú þá dyggð til að bera? — Matteus 26:69-75; Markús 14:66-72; Lúkas 22:54-62; Jóhannes 18:15-18, 25-27.

Ekki liðu nema fáar vikur frá því að Pétur afneitaði Kristi og þar til að hann prédikaði djarfmannlega fyrir fjölda Gyðinga á hvítasunnunni, fylltur heilögum anda. Hinn upprisni Jesús bar greinilega traust til hans. — Postulasagan 2:14-21.

Seinna féll Pétur í annars konar gildru. Páll postuli sagði frá því að Pétur hefði umgengist trúaða menn af þjóðunum frjálslega í Antíokkíu, áður en vissir bræður af hópi Gyðinga komu þangað. En síðan aðgreindi hann sig frá þeim „af ótta við þá, sem héldu fram umskurninni“ og komið höfðu frá Jerúsalem. Páll fletti ofan af tvöfeldni Péturs við þessar aðstæður. — Galatabréfið 2:11-14.

En hver af lærisveinunum lét í sér heyra á örlagastundu þegar svo virtist sem margir af fylgjendum Jesú væru tilbúnir til að yfirgefa hann? Atvikið átti sér stað þegar Jesús opinberaði nýjan hlut varðandi þýðingu þess að borða hold hans og drekka blóð hans. Hann sagði: „Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður.“ Flestir fylgjendur Jesú af hópi Gyðinga hneyksluðust og sögðu: „Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?“ Hvað gerðist næst? „Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum.“ — Jóhannes 6:50-66.

Á þessari úrslitastundu sneri Jesús sér að postulunum 12 og spurði: „Ætlið þér að fara líka?“ Pétur svaraði: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs, og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.“ — Jóhannes 6:67-69.

Hvers konar mannorð gat Pétur sér? Sá sem les frásögurnar af honum getur ekki annað en dáðst að þessum heiðarlega, hreinskilna og trygga manni sem var fús til að viðurkenna veikleika sína. Já, Pétur ávann sér gott mannorð.

Hvernig var Jesú minnst?

Jarðnesk þjónusta Jesú stóð aðeins yfir í þrjú og hálft ár. En hvernig er hans minnst af fylgjendum sínum? Var hann fálátur og kuldalegur þar sem hann var fullkominn og syndlaus? Lét hann mikið yfir sér vegna þess að hann vissi að hann var sonur Guðs? Reyndi hann að hræða eða þvinga fylgjendur sína til hlýðni? Tók hann sig svo alvarlega að hann var gersneyddur öllu skopskyni? Var hann svo upptekinn að hann hafði engan tíma fyrir börn eða hina veikburða og sjúku? Fyrirleit hann fólk af öðru þjóðerni og leit hann niður á konur eins og margir karlmenn gerðu á þeim tíma? Hvað segir frásagan okkur?

Jesús sýndi fólki áhuga. Þegar við lítum yfir þjónustuferil hans tökum við eftir að hann læknaði oft lamaða og sjúka. Hann gerði sér far um að hjálpa þurfandi fólki. Hann sýndi börnum áhuga og sagði lærisveinunum: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi.“ Síðan ,tók Jesús þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau‘. Gefur þú börnum af tíma þínum eða ertu svo upptekinn að þú tekur varla eftir þeim? — Markús 10:13-16; Matteus 19:13-15.

Þegar Jesús var á jörðinni voru Gyðingar að kikna undan trúarlegum reglum og ákvæðum sem voru langt umfram það sem lögmálið krafðist. Trúarleiðtogarnir lögðu þungar byrðar á fólk en vildu sjálfir ekki snerta þær einum fingri. (Matteus 23:4; Lúkas 11:46) Jesús var alger andstæða þeirra. Hann sagði: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld.“ — Matteus 11:28-30.

Fólk endurnærðist þegar það umgekkst Jesú. Lærisveinum hans stóð ekki slík ógn af honum að þeir væru ragir við að tjá sig. Hann spurði þá spurninga og hvatti þá þannig til að segja hug sinn. (Markús 8:27-29) Kristnir öldungar ættu að spyrja sig: ,Hef ég sömu áhrif á trúsystkini mín? Tjá aðrir öldungar mér skoðun sína eða eru þeir tregir til þess?‘ Það er endurnærandi þegar öldungar eru viðmótsgóðir, hlusta á aðra og eru sveigjanlegir. Ósanngirni kemur einungis í veg fyrir hreinskilnar og óþvingaðar umræður.

Jesús misnotaði aldrei vald sitt þó svo að hann væri sonur Guðs heldur rökræddi hann við áheyrendur sína. Það var einmitt það sem hann gerði þegar farísearnir reyndu að veiða hann í gildru með því að spyrja hann: „Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki?“ Jesús bað þá að sýna sér pening og spurði: „Hvers mynd og yfirskrift er þetta?“ Þeir svöruðu: „Keisarans.“ Jesús sagði þá: „Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Matteus 22:15-21) Einföld rökfærsla nægði í þessu tilfelli.

Hafði Jesús skopskyn? Sumum lesendum finnst votta fyrir kímni þegar þeir lesa versið þar sem Jesús sagði að auðveldara væri fyrir úlfalda að fara í gegnum nálarauga en ríkan mann að komast inn í Guðsríki. (Matteus 19:23, 24) Það er auðvitað fráleitt að úlfaldi komist í gegnum bókstaflegt nálarauga. Annað dæmi um slík ofhvörf er að sjá flísina í auga bróður síns en taka ekki eftir bjálkanum í eigin auga. (Lúkas 6:41, 42) Jesús var ekki hranalegur harðstjóri heldur hlýr og vinalegur. Nú á dögum getur svolítil kímnigáfa létt undir með kristnum mönnum þegar erfiðleikar steðja að.

Jesús bar umhyggju fyrir konum

Hvernig leið konum í návist Jesú? Það voru margar konur í hópi fylgjenda hans, þar á meðal María, móðir hans. (Lúkas 8:1-3; 23:55, 56; 24:9, 10) Augljóst dæmi um það hve auðvelt konum fannst að nálgast Jesú er þegar ,bersynduga‘ konan sem vætti fætur hans með tárum sínum og smurði með smyrslum. (Lúkas 7:37, 38) Önnur kona, sem hafði haft blæðingar í fjölda ára, tróð sér í gegnum mannþröng til að snerta klæði hans og læknast. Og Jesús lofaði trú hennar. (Matteus 9:20-22) Já, konum fannst auðvelt að nálgast hann.

Við annað tækifæri talaði Jesús við samverska konu við brunn. Hún sagði undrandi: „Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?“ En Gyðingar höfðu ekkert samneyti við Samverja. Jesús kenndi henni síðan stórkostlegan sannleika um ,vatn sem streymir fram til eilífs lífs‘. Hann átti auðvelt með að umgangast konur og fannst stöðu sinni ekki ógnað. — Jóhannes 4:7-15.

Jesú er minnst fyrir góða eiginleika, þar á meðal fórnfýsi. Hann var ímynd kærleika Guðs. Og hann er fyrirmynd allra sem vilja vera fylgjendur hans. Hversu vel fetar þú í fótspor Jesú? — 1. Korintubréf 13:4-8; 1. Pétursbréf 2:21.

Hvernig er kristinna manna nú á dögum minnst?

Þúsundir trúfastra kristinna manna hafa dáið á okkar tímum, margir á gamals aldri, aðrir tiltölulega ungir. En þeir áunnu sér gott mannorð. Crystal er til dæmis minnst fyrir hjartahlýju og félagslyndi en hún dó á gamals aldri. Dirks er minnst fyrir fúsleika og glaðlegt lunderni en hann dó á fimmtugsaldri.

José á Spáni er annað dæmi. Á sjöunda áratugnum, þegar starf votta Jehóva var bannað þar í landi, var hann giftur og átti þrjár ungar dætur. Hann hafði örugga vinnu í Barcelona. En á sama tíma var þörf fyrir þroskaða kristna öldunga á Suður-Spáni. José sagði upp öruggu starfi og flutti til Málaga með fjölskyldu sína. Hann var oft atvinnulaus og þá var þröngt í búi.

José var samt þekktur fyrir trúfesti og áreiðanleika í þjónustunni og fyrir að ala dætur sínar vel upp með aðstoð konu sinnar, Carmelu, sem veitti honum mikinn stuðning. Hann bauð sig alltaf fram þegar einhvern vantaði til að skipuleggja kristin mót á svæðinu. Á sextugsaldri fékk hann því miður alvarlegan sjúkdóm sem dró hann til dauða. En hann skildi eftir sig þann orðstír að vera áreiðanlegur og eljusamur öldungur og ástríkur eiginmaður og faðir.

En hvernig mun þín verða minnst? Hvað myndi fólk segja um þig í dag ef þú hefðir dáið í gær? Þetta er spurning sem gæti fengið okkur öll til að bæta framkomu okkar.

Hvernig getum við öðlast gott mannorð? Við getum alltaf tekið framförum í því að sýna ávöxt andans — kærleika, langlyndi, gæsku, hógværð og sjálfstjórn ásamt öðrum eiginleikum hans. (Galatabréfið 5:22, 23) Já, „betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur“. — Prédikarinn 7:1; Matteus 7:12.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Abígail er minnst fyrir visku.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Péturs er minnst fyrir að vera fljótfær en samt hreinskilinn.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Jesús gaf börnum af tíma sínum.