Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystu á Jehóva

Treystu á Jehóva

Treystu á Jehóva

„Þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.“ — SÁLMUR 71:5.

1. Hvaða þraut tókst fjárhirðirinn Davíð á við?

HANN var næstum þrír metrar á hæð. Sem vonlegt er voru allir hermenn Ísraels dauðhræddir við að mæta honum í bardaga! Vikum saman hafði risinn Golíat smánað hersveitir Ísraels kvölds og morgna og skorað á þær að senda kappa til að berjast við sig. Að lokum var áskorun hans tekið, en þar var ekki hermaður á ferð heldur unglingur. Fjárhirðirinn Davíð var sem dvergur í samanburði við andstæðinginn og sennilega léttari en vopn og herklæði Golíats! Þrátt fyrir það gekk ungi maðurinn fram til að berjast við risann og hefur þaðan í frá verið ævarandi tákn um hugrekki. — 1. Samúelsbók 17:1-51.

2, 3. (a) Hvers vegna gat Davíð gengið óhræddur fram til að berjast við Golíat? (b) Hvað tvennt ætlum við að skoða sem er nauðsynlegt til að treysta á Jehóva?

2 Hvernig gat Davíð verið svona hugrakkur? Það mun hafa verið löngu síðar sem hann skrifaði: „Þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.“ (Sálmur 71:5) Sem unglingur hafði Davíð treyst óhagganlega á Jehóva. Þegar hann gekk fram fyrir Golíat sagði hann: „Þú kemur á móti mér með sverð og lensu og spjót, en ég kem á móti þér í nafni Drottins allsherjar, Guðs herfylkinga Ísraels, sem þú hefir smánað.“ (1. Samúelsbók 17:45) Golíat treysti á vopn sín og líkamsburði en Davíð treysti á Jehóva. En hví skyldi Davíð óttast lítilmótlegan mann fyrst alvaldur alheimsins stóð með honum, þó að maðurinn sá væri risi að vexti og vopnaður í bak og fyrir?

3 Þegar þú lest um Davíð óskarðu þess kannski að traust þitt til Jehóva væri sterkara. Sennilega er það svo um flest okkar. Við skulum því skoða tvennt sem við getum öll gert til að treysta á Jehóva. Í fyrsta lagi þurfum við að sjá við algengum hugmyndum sem geta torveldað okkur að treysta á Jehóva. Í öðru lagi þurfum við að komast að raun um hvað það þýðir að treysta á hann.

Algengar hugmyndir sem tálma fólki að treysta á Jehóva

4, 5. Hvers vegna eiga margir erfitt með að treysta á Guð?

4 Hvað tálmar fólki að treysta á Guð? Oft er ástæðan sú að fólk skilur ekki orsökina fyrir böli og þjáningum mannnanna. Mörgum er sagt að þær séu Guði að kenna. Þegar ógæfu ber að garði segja prestar stundum að Guð hafi „tekið“ hina látnu til himna. Og margir trúarleiðtogar kenna að Guð hafi endur fyrir löngu ákveðið allt fyrir fram — þar á meðal alla harmleiki og öll illvirki. Það væri óneitanlega erfitt að treysta á harðneskjulegan Guð af því tagi. Satan er áfram um að halda þessum „lærdómum illra anda“ að fólki og blinda hugi þeirra sem trúa ekki. — 1. Tímóteusarbréf 4:1; 2. Korintubréf 4:4.

5 Satan vill að fólk hætti að treysta á Jehóva. Þessi óvinur Guðs vill ekki að við vitum af hverju þjáningar manna stafa í raun og veru. Og ef við vitum hvað Biblían kennir um orsakir þjáninganna vill Satan helst að við gleymum því. Það er því gott að rifja upp af og til þrjár meginástæður fyrir þjáningunum í heiminum. Þannig getum við friðað hjörtu okkar með þeirri vitneskju að erfiðleikarnir, sem við verðum fyrir í lífinu, séu ekki Jehóva að kenna. — Filippíbréfið 1:9, 10.

6. Hvernig bendir 1. Pétursbréf 5:8 á eina ástæðu fyrir þjáningum mannanna?

6 Ein ástæðan fyrir þjáningum mannanna er sú að Satan vill spilla ráðvendni trúrra þjóna Jehóva. Hann reyndi það við Job en mistókst. Hann hefur þó ekki lagt árar í bát. Hann er höfðingi heimsins og reynir að ‚gleypa‘ trúa þjóna Jehóva. (1. Pétursbréf 5:8) Hvert og eitt okkar er meðtalið! Satan vill að við hættum að þjóna Jehóva og reynir að koma því til leiðar, meðal annars með því að æsa til ofsókna. Þó að það sé alltaf erfitt að þjást höfum við ærna ástæðu til að þrauka vegna þess að þá gleðjum við Jehóva og eigum þátt í að sanna að Satan er lygari. (Jobsbók 2:4; Orðskviðirnir 27:11) Við finnum traustið til Jehóva vaxa þegar hann styrkir okkur til að standast ofsóknir. — Sálmur 9:10, 11.

7. Á hvaða ástæðu fyrir þjáningum er bent í Galatabréfinu 6:7?

7 Önnur ástæða fyrir þjáningum mannanna kemur fram í meginreglunni: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ (Galatabréfið 6:7) Stundum sáir fólk með því að taka óviturlegar ákvarðanir og uppsker vissar þjáningar fyrir vikið. Menn aka óvarlega og valda slysum. Margir reykja og fá hjartasjúkdóma eða lungnakrabbamein. Og þeir sem lifa siðlausu lífi eiga á hættu að sundra fjölskyldunni, glata sjálfsvirðingunni, fá samræðissjúkdóma og valda óæskilegri þungun. Sumir reyna að kenna Guði um þjáningarnar en í rauninni eru þeir fórnarlömb óskynsamlegra ákvarðana sem þeir hafa sjálfir tekið. — Orðskviðirnir 19:3.

8. Hvers vegna þjáist fólk, að sögn Prédikarans 9:11?

8 Þriðja ástæðan fyrir þjáningum kemur fram í Prédikaranum 9:11: „Enn sá ég undir sólinni, að hinir fljótu ráða ekki yfir hlaupinu, né kapparnir yfir stríðinu, né heldur spekingarnir yfir brauðinu, né hinir hyggnu yfir auðnum, né vitsmunamennirnir yfir vinsældinni, því að tími og tilviljun mætir þeim öllum.“ Stundum er fólk hreinlega á röngum stað á röngum tíma. Þjáningar og dauði geta orðið óvænt á vegi okkar, óháð styrkleika okkar eða veikleika. Á dögum Jesú hrundi til dæmis turn í Jerúsalem og varð 18 manns að bana. Jesús benti á að Guð hefði ekki verið að refsa þessu fólki fyrir fyrri syndir. (Lúkas 13:4) Nei, slíkar þjáningar eru ekki Jehóva að kenna.

9. Hvað eiga margir erfitt með að skilja í sambandi við þjáningar?

9 Það er mikilvægt að skilja einhverjar af orsökum þjáninganna í heiminum. En það er önnur hlið á málinu sem margir eiga erfitt með að skilja — hvers vegna Guð leyfir þjáningarnar.

Hvers vegna leyfir Jehóva þjáningar?

10, 11. (a) Hvað varð um alla sköpunina samkvæmt Rómverjabréfinu 8:19-22? (b) Hvernig er hægt að finna út hver það var sem gerði sköpunina ‚fallvalta‘?

10 Páll postuli varpar ljósi á þetta mikilvæga mál í bréfi til kristinna manna í Róm. Hann segir: „Sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber. Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann, í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna. Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“ — Rómverjabréfið 8:19-22.

11 Til að skilja það sem versin segja þurfum við að leita svara við nokkrum mikilvægum spurningum. Hver var það til dæmis sem gerði sköpunina ‚fallvalta‘? Sumir benda á Satan en aðrir á Adam. En hvorugur þeirra gat gert þetta. Hvers vegna? Vegna þess að sá sem varpaði sköpuninni undir ‚fallvaltleikann‘ gerði það „í von“. Já, hann býður fram þá von að trúfastir menn verði um síðir ‚leystir úr ánauð forgengileikans‘. Hvorki Adam né Satan gátu veitt slíka von. Það gat enginn nema Jehóva. Það er því ljóst að það var hann sem gerði sköpunina ‚fallvalta‘.

12. Hvað halda sumir að „öll sköpunin“ sé en hver er rétta skýringin?

12 En hvað er átt við þegar talað er um ‚alla sköpun‘ í þessum versum? Sumir segja að „öll sköpunin“ sé allur hinn lifandi heimur, þar á meðal dýra- og jurtaríkið. En vonast dýrin og jurtirnar eftir ‚dýrðarfrelsi Guðs barna‘? Nei. (2. Pétursbréf 2:12) „Öll sköpunin“ getur því aðeins verið mannkynið. Þetta er sú sköpun sem er undirorpin synd og dauða vegna uppreisnarinnar í Eden og sárþarfnast vonar. — Rómverjabréfið 5:12.

13. Hvað gerði uppreisnin í Eden mannkyninu?

13 Hvað gerði uppreisnin mannkyninu? Páll lýsir afleiðingum hennar með einu orði: ‚fallvaltleiki‘. * Heimildarrit segir að orðið lýsi „tilgangsleysi hlutar sem virkar ekki eins og hann var gerður til“. Mennirnir voru gerðir til að lifa eilíflega og annast paradís jarðarinnar saman sem fullkomin og sameinuð fjölskylda. En í staðinn er mannlífið stutt, sársaukafullt og oft lítið annað en vonbrigði. „Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi,“ eins og Job orðaði það. (Jobsbók 14:1) Fallvölt og tilgangslítil tilvera það!

14, 15. (a) Hvernig vitnar dómur Jehóva yfir mannkyni um réttlæti? (b) Hvers vegna sagði Páll að sköpunin væri ekki undirorpin fallvaltleikanum „sjálfviljug“?

14 En snúum okkur nú að aðalspurningunni: Hvers vegna gerði „dómari alls jarðríkis“ mannkyninu að búa við þessar þjáningar og raunir? (1. Mósebók 18:25) Var það réttlátt af honum? Höfum hugfast hvað foreldrar mannkyns gerðu. Með uppreisninni gegn Guði tóku þau afstöðu með Satan er hann ögraði drottinvaldi Jehóva. Með verkum sínum tóku þau undir það að maðurinn væri betur settur ef hann stjórnaði sér sjálfur án Jehóva. Hann væri betur settur undir handleiðslu andaveru sem gert hafði uppreisn gegn Guði. Með dómi sínum yfir uppreisnarseggjunum má segja að Jehóva hafi gefið þeim það sem þeir báðu um. Hann leyfði manninum að stjórna sér sjálfur undir áhrifum Satans. Var ekki réttlátast miðað við aðstæður að úrskurða sem svo að mannkynið skyldi undirorpið ‚fallvaltleikanum‘ í von?

15 Sköpunin gerði þetta auðvitað ekki „sjálfviljug“. Við fæðumst í þrælkun syndar og hrörnunar og eigum ekkert val. En það var miskunn af hálfu Jehóva að leyfa Adam og Evu að lifa um sinn og eignast börn. Þó að við, afkomendur þeirra, séum undirorpin synd og dauða höfum við tækifæri til að gera það sem Adam og Evu mistókst. Við getum hlustað á Jehóva og komist að raun um að drottinvald hans er réttlátt og fullkomið, en stjórn manna óháð Jehóva er tilgangslítil og hefur einungis sársauka og vonbrigði í för með sér. (Jeremía 10:23; Opinberunarbókin 4:11) Og áhrif Satans gera illt verra. Mannkynssagan vitnar um það. — Prédikarinn 8:9.

16. (a) Hvers vegna getum við treyst að þjáningarnar í heiminum séu ekki Jehóva að kenna? (b) Hvaða von hefur Jehóva í kærleika sínum veitt trúu fólki?

16 Ljóst er að Jehóva hafði gildar ástæður til að setja mannkynið í þessa stöðu. En þýðir það að Jehóva sé valdur að ‚fallvaltleikanum‘ og þjáningum sem hrjá okkur öll? Tökum dæmi: Hugsum okkur dómara sem fellir réttlátan dóm yfir afbrotamanni. Dómurinn hefur töluverðar þjáningar í för með sér fyrir hinn dæmda en getur hann með réttu sakað dómarann um að hafa valdið þessum þjáningum? Auðvitað ekki. Auk þess er Jehóva aldrei valdur að neinni illsku. Jakobsbréfið 1:13 segir: „Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ Við skulum líka hafa hugfast að Jehóva felldi dóm sinn „í von“. Hann hefur gert þá kærleiksráðstöfun að trúir afkomendur Adams og Evu sjái ‚fallvaltleikann‘ taka enda og hljóti ‚dýrðarfrelsi Guðs barna‘. Trúfastir menn þurfa aldrei að eilífu að óttast að öll sköpunin komist aftur í þá erfiðu stöðu sem hún er í núna. Með því að taka réttlátlega á málum hefur Jehóva staðfest í eitt skipti fyrir öll að honum ber drottinvaldið með réttu. — Jesaja 25:8.

17. Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að rifja upp ástæðurnar fyrir þjáningunum í heiminum?

17 Við höfum nú farið yfir það hvers vegna mennirnir þjást. Sjáum við einhverja ástæðu til að kenna Jehóva um illskuna eða glata trausti okkar til hans? Nei, við getum þvert á móti endurómað orð Móse: „Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ (5. Mósebók 32:4) Við skulum skerpa skilning okkar á þessu máli af og til með því að hugleiða þetta. Þá tekst Satan ekki að sá efasemdum í huga okkar þegar erfiðleika ber að garði. En hvað um síðara atriðið sem nefnt var í byrjun? Hvað er það að treysta á Jehóva?

Hvað er það að treysta á Jehóva?

18, 19. Hvernig hvetur Biblían okkur til að treysta á Jehóva en hvaða ranghugmyndir hafa sumir?

18 Orð Guðs hvetur: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ (Orðskviðirnir 3:5, 6) Þetta eru falleg orð og traustvekjandi. Engum í öllum alheimi er betur treystandi en ástríkum föður okkar á himnum. En það er eitt að lesa þetta í Orðskviðunum og annað að fara eftir því.

19 Margir misskilja hvað það er að treysta á Jehóva. Sumir halda að slíkt traust sé aðeins einhver tilfinning, einhvers konar sælukennd sem á að spretta sjálfkrafa upp í hjartanu. Aðrir virðast halda að traust á Guði sé það að ætlast til að hann hlífi okkur við öllum erfiðleikum, leysi öll vandamál okkar og láti allt fara á þann veg sem við vonum — tafarlaust! En þessar hugmyndir eiga sér enga stoð í veruleikanum. Traust er annað og meira en tilfinning og það er ekki óraunsætt. Hjá fullorðnu fólki er traust meðvitað og úthugsað.

20, 21. Hvað er fólgið í því að treysta á Jehóva? Lýstu með dæmi.

20 Lítum aftur á Orðskviðina 3:5. Þar er talað annars vegar um að treysta Jehóva og hins vegar eigin hyggjuviti. Það liggur í orðunum að við getum ekki gert hvort tveggja. Eigum við þá ekki að beita hyggjuviti okkar? Jú, því að Jehóva gaf okkur það og ætlast til að við notum það í þjónustunni við sig. (Rómverjabréfið 12:1) En hvað reiðum við okkur á? Hvað gerum við ef við hugsum ekki í takt við Jehóva? Viðurkennum við þá að hann er óendanlega vitrari en við? (Jesaja 55:8, 9) Að treysta á Jehóva merkir að láta sjónarmið hans stýra hugsun okkar.

21 Skýrum þetta með dæmi. Barn situr í aftursæti bifreiðar en foreldrarnir í framsætunum. Faðirinn situr undir stýri. Hvað gerir hlýðið barn sem treystir foreldrum sínum, þegar þeir eru ekki vissir um hvaða ökuleið eigi að velja, vegurinn er slæmur eða akstursskilyrðin versna vegna veðurs? Hrópar það skipanir úr aftursætinu og segir föðurnum til um aksturinn? Véfengir það ákvarðanir foreldranna eða streitist á móti þegar þeir minna það á að vera með bílbeltið fest? Nei, það treystir foreldrum sínum þótt þeir séu ófullkomnir. Jehóva er fullkominn faðir. Ættum við ekki að treysta honum skilyrðislaust, einkum þegar erfiðleikar steðja að? — Jesaja 30:21.

22, 23. (a) Hvers vegna ættum við að treysta á Jehóva þegar við eigum í erfiðleikum, og hvernig getum við gert það? (b) Um hvað er fjallað í greininni á eftir?

22 En Orðskviðirnir 3:6 benda á að við eigum að ‚muna til Jehóva á öllum vegum okkar‘, ekki aðeins þegar við eigum í erfiðleikum. Daglegar ákvarðanir okkar ættu því að endurspegla að við treystum á Jehóva. Þegar vandamál verða á vegi okkar ættum við ekki að örvænta, fyllast skelfingu eða streitast á móti leiðsögn Jehóva um hvernig best sé að snúa sér í málinu. Við þurfum að líta á prófraunir sem tækifæri til að styðja drottinvald Jehóva, til að eiga þátt í að sanna að Satan sé lygari og að temja okkur hlýðni og annað sem er Jehóva þóknanlegt. — Hebreabréfið 5:7, 8.

23 Við getum sýnt að við treystum á Jehóva óháð þeim hindrunum sem virðast vera í veginum. Við gerum það í bænum okkar og með því að leita leiðsagnar í orði Jehóva og hjá skipulagi hans. En hvernig getum við sýnt að við treystum á Jehóva þegar við eigum í erfiðleikum sem koma upp í heimi nútímans? Um það er fjallað í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

^ gr. 13 Gríska orðið, sem þýtt er ‚fallvaltleiki‘ í bréfi Páls, var notað í grísku Sjötíumannaþýðingunni fyrir orð sem Salómon notar oft í Prédikaranum, til dæmis þar sem segir „allt er hégómi“. — Prédikarinn 1:2, 14; 2:11, 17; 3:19; 12:8.

Hvert er svarið?

• Hvernig sýndi Davíð að hann treysti á Jehóva?

• Hvað er það þrennt sem veldur þjáningum í mannheimi og hvers vegna er gott að rifja það upp af og til?

• Hvaða dóm felldi Jehóva yfir mannkyninu og hvers vegna var það réttlátur dómur?

• Hvað er fólgið í því að treysta á Jehóva?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 24]

Davíð treysti á Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Jesús benti á að það hefði ekki verið Jehóva að kenna að turn hrundi í Jerúsalem.