Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystum á Jehóva þegar erfiðleikar steðja að

Treystum á Jehóva þegar erfiðleikar steðja að

Treystum á Jehóva þegar erfiðleikar steðja að

„Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.“ — SÁLMUR 46:2.

1, 2. (a) Hvaða dæmi sýnir að það er ekki nóg að segjast treysta á Guð? (b) Hvers vegna verðum við að gera eitthvað meira en að segjast treysta á Jehóva?

ÞAÐ ER eitt að segjast treysta á Guð en allt annað að sýna það í verki. Orðin „Guði treystum vér“ hafa til dæmis staðið lengi á bandarískri mynt og peningaseðlum. * Bandaríska þingið batt það í lög árið 1956 að þetta skyldu vera kjörorð þjóðarinnar. En það er kaldhæðnislegt að margir — ekki aðeins vestanhafs heldur út um heim allan — skuli treysta meira á peninga og efnislegan auð en á Guð. — Lúkas 12:16-21.

2 Það er ekki nóg fyrir sannkristna menn að segjast treysta á Jehóva. Það er marklaust að segjast treysta á Guð nema við sýnum það í verki, ekki ósvipað og ‚trúin er dauð án verka‘. (Jakobsbréfið 2:26) Í greininni á undan kom fram að við sýnum traust okkar á Jehóva þegar við snúum okkur til hans í bæn, leitum leiðsagnar í orði hans og öflum okkur leiðbeininga frá skipulagi hans. Við skulum nú kanna hvernig við getum gert þetta þrennt þegar erfiðleika ber að garði.

Atvinnuleysi eða lágar tekjur

3. Hvernig fjárhagserfiðleikum geta þjónar Guðs lent í og hvernig vitum við að hann er fús til að rétta okkur hjálparhönd?

3 Við lifum á erfiðum tímum og við sem erum kristin getum lent í fjárhagsvandræðum rétt eins og allir aðrir. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Við gætum til dæmis misst vinnuna fyrirvaralaust eða átt um lítið annað að velja en að vinna langan vinnudag á lágu kaupi. Þetta gæti gert okkur erfitt fyrir að sjá fjölskyldunni farborða. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Er hinn hæsti Guð fús til að hjálpa okkur þegar svona stendur á? Svo sannarlega. Jehóva hlífir okkur auðvitað ekki við öllum erfiðleikum sem fylgja lífinu í þessu heimskerfi. En ef við treystum honum rætast orðin í Sálmi 46:2 á okkur: „Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.“ Hvernig getum við sýnt að við treystum Jehóva skilyrðislaust þegar fjárhagurinn er bágborinn?

4. Um hvað getum við beðið ef við eigum í fjárhagserfiðleikum, og hvernig svarar Jehóva slíkum bænum?

4 Að leita til Jehóva í bæn er ein leið til að sýna að við treystum á hann. En um hvað getum við beðið? Ef við eigum í fjárhagserfiðleikum er trúlega fátt mikilvægara en viska og skynsemi. Biðjum þá um hana fyrir alla muni! Orð Jehóva fullvissar okkur: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.“ (Jakobsbréfið 1:5) Já, biddu Jehóva að gefa þér visku — hæfileikann til að nota þekkingu þína, skilning og dómgreind — til að taka réttar og skynsamlegar ákvarðanir. Hinn ástríki faðir á himnum fullvissar okkur um að hann heyri slíkar bænir. Hann er alltaf fús til að greiða götu þeirra sem treysta á hann af öllu hjarta. — Sálmur 65:3; Orðskviðirnir 3:5, 6.

5, 6. (a) Hvers vegna getum við leitað í orði Guðs til að hjálpa okkur ef við eigum í fjárhagserfiðleikum? (b) Hvað gætum við gert til að draga úr áhyggjum ef við verðum atvinnulaus?

5 Önnur leið til að sýna að við treystum á Jehóva er sú að leita leiðsagnar í orði hans. Hinar viturlegu ábendingar Biblíunnar hafa reynst ‚harla áreiðanlegar‘. (Sálmur 93:5) Þó að þessi innblásna bók hafi verið fullskrifuð fyrir rúmlega 1900 árum hefur hún að geyma örugg ráð og mikla visku sem getur auðveldað okkur glímuna við fjárhagserfiðleika. Lítum á nokkur dæmi um visku Biblíunnar.

6 Hinn vitri Salómon sagði endur fyrir löngu: „Sætur er svefninn þeim sem erfiðar, hvort sem hann etur lítið eða mikið, en offylli hins auðuga lætur hann eigi hafa frið til að sofa.“ (Prédikarinn 5:11) Það kostar tíma og fé að vernda efnislegar eigur sínar og halda þeim við. Ef við missum vinnuna er kannski ástæða til að endurskoða lífsstílinn og reyna að gera greinarmun á þörfum og löngunum. Það gæti verið viturlegt að breyta einhverju til að firra sig áhyggjum. Getum við til dæmis einfaldað lífsstílinn, kannski minnkað við okkur húsnæði eða losað okkur við óþarfar efnislegar eigur? — Matteus 6:22.

7, 8. (a) Hvernig kemur fram í orðum Jesú að hann vissi að ófullkomnum mönnum hættir til að gera sér óþarfar áhyggjur af efnislegum hlutum? (Sjá einnig neðanmáls.) (b) Hvernig er hægt að forðast óþarfar áhyggjur samkvæmt því sem Jesús ráðlagði?

7 Jesús ráðlagði í fjallræðunni: „Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast.“ (Matteus 6:25) Jesús vissi að ófullkomnir menn láta sér eðlilega annt um að afla sér lífsnauðsynja. En hvernig getum við hætt að hafa áhyggjur af því? Jesús sagði: ‚Leitið fyrst ríkis Guðs.‘ Við verðum að láta tilbeiðsluna á Jehóva ganga fyrir öðru í lífinu, óháð þeim vandamálum sem verða á vegi okkar. Ef við gerum það ‚veitast okkur að auki‘ allar daglegar nauðsynjar. Faðirinn á himnum sér til þess á einn eða annan hátt að við höfum það sem við þurfum. — Matteus 6:33.

8 Jesús ráðlagði enn fremur: „Hafið . . . ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“ (Matteus 6:34) Það er ekki skynsamlegt að gera sér óþarfar áhyggjur af því sem gæti gerst á morgun. Fræðimaður segir: „Veruleikinn er sjaldan jafnslæmur og við óttumst að hann verði.“ Sýnum þá auðmýkt að láta það sem máli skiptir ganga fyrir í lífinu og láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Það hjálpar okkur að forðast óþarfar áhyggjur. — 1. Pétursbréf 5:6, 7.

9. Hvernig geta rit ‚hins trúa og hyggna þjóns‘ hjálpað ef við eigum í fjárhagserfiðleikum?

9 Ef við eigum í fjárhagserfiðleikum getum við líka sýnt að við treystum á Jehóva með því að leita eftir aðstoð í ritum ‚hins trúa og hyggna þjóns‘. (Matteus 24:45) Tímaritið Vaknið! hefur af og til birt greinar þar sem gefin hafa verið góð ráð um viðbrögð við fjárhagserfiðleikum. Í greininni „Out of a Job — What Are the Solutions?“ („Atvinnulaus — hvað er til ráða?“) sem birtist í enskri útgáfu Vaknið! 8. ágúst 1991, voru gefnar átta tillögur um hvernig hægt væri að halda í horfinu í fjármálum og varðveita jafnaðargeð í atvinnuleysi. * Til að slíkar ráðleggingar dugi er auðvitað nauðsynlegt að sjá peninga í réttu ljósi. Það var rætt í sama blaði í grein sem nefndist „Something More Vital Than Money“ („Það sem er mikilvægara en peningar“). — Prédikarinn 7:12.

Heilsubrestur

10. Hvernig er Davíð konungur dæmi um að það sé raunhæft að treysta á Jehóva í alvarlegum veikindum?

10 Er raunhæft að treysta á Jehóva ef alvarlegur heilsubrestur steðjar að? Tvímælalaust! Jehóva finnur til með þjónum sínum sem eru veikir og er meira en fús til að hjálpa þeim. Tökum Davíð konung sem dæmi. Hugsanlegt er að hann hafi sjálfur verið alvarlega veikur þegar hann skrifaði um samskipti Guðs við veikan þjón sinn. Hann sagði: „Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.“ (Sálmur 41:2, 4, 8, 9) Davíð treysti Guði skilyrðislaust og náði sér að lokum. En hvernig getum við sýnt að við treystum Guði þegar heilsan bilar?

11. Um hvað getum við beðið föðurinn á himnum ef heilsan bilar?

11 Þegar við eigum við veikindi að stríða er meðal annars hægt að sýna að maður treysti Jehóva með því að biðja hann um hjálp til að vera stöðuglyndur. Við getum beðið hann um „visku“ til að ná þeirri heilsubót sem er raunhæft að reikna með miðað við aðstæður. (Orðskviðirnir 3:21) Við getum líka beðið hann að hjálpa okkur að vera þolinmóð og þolgóð þannig að við getum umborið veikindin. Umfram allt viljum við biðja Jehóva að halda okkur uppi og gefa okkur styrk til að vera honum trúföst og missa ekki jafnvægið, hvað sem fyrir ber. (Filippíbréfið 4:13) Það er enn mikilvægara að vera Guði trúr en að varðveita hið núverandi líf. Ef við erum Guði trú umbunar hann okkur með eilífu lífi og fullkomnu heilbrigði. — Hebreabréfið 11:6.

12. Hvaða meginreglur Biblíunnar geta hjálpað okkur að taka viturlegar ákvarðanir varðandi læknismeðferð?

12 Ef við treystum Jehóva leitum við einnig leiðsagnar í orði hans, Biblíunni. Meginreglur hennar geta hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir varðandi læknismeðferð. Við vitum til dæmis að Biblían fordæmir spíritisma og forðumst þar af leiðandi greiningaraðferðir eða meðferð sem á eitthvað skylt við spíritisma. (Galatabréfið 5:19-21; 5. Mósebók 18:10-12) „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín,“ segir Biblían sem er annað dæmi um óbrigðula visku hennar. (Orðskviðirnir 14:15) Þegar læknismeðferð blasir við er viturlegt að ‚trúa ekki öllu‘ heldur leita sér áreiðanlegra upplýsinga. Það er ‚heilbrigð hugsun‘ sem getur hjálpað okkur að íhuga vandlega þá valkosti, sem við höfum, og taka upplýsta ákvörðun. — Títusarbréfið 2:12, NW.

13, 14. (a) Hvaða fræðandi greinar um heilsufar hafa birst í tímaritunum Varðturninn og Vaknið!? (Sjá rammagrein á bls. 31.) (b) Hvaða ráðleggingar varðandi langvinna sjúkdóma birtust í Vaknið! 22. janúar 2001?

13 Við getum líka sýnt að við treystum á Jehóva með því að leita í ritum hins trúa þjóns. Tímaritin Varðturninn og Vaknið! hafa stundum birt fræðandi greinar um ýmiss konar heilsubrest og sjúkdóma. * Stundum hafa birst þar frásagnir fólks sem hefur tekist á við sjúkdóma og fötlun af ýmsu tagi. Og þar hafa birst biblíulegar leiðbeiningar og raunhæf ráð um það hvernig hægt er að lifa við langvinnan heilsubrest.

14 Til dæmis birtist greinaröð í Vaknið! (á ensku) 22. janúar 2001 með yfirskriftinni „Comfort for the Sick“ („Hughreysting handa sjúkum“). Þar var bent á ýmsar meginreglur í Biblíunni og góð ráð frá fólki sem hefur sjálft verið óvinnufært vegna veikinda um margra ára skeið. Í einni af greinunum voru gefin eftirfarandi ráð: Lestu þér til um sjúkdóminn sem best þú getur. (Orðskviðirnir 24:5) Settu þér raunhæf markmið, þar á meðal það að verða öðrum að gagni, en gerðu þér jafnframt ljóst að þú getur kannski ekki náð sömu markmiðum og aðrir. (Postulasagan 20:35; Galatabréfið 6:4) Einangraðu þig ekki. (Orðskviðirnir 18:1) Vertu góður heim að sækja. (Orðskviðirnir 17:22) Síðast en ekki síst skaltu varðveita náið samband við Jehóva og söfnuðinn. (Nahúm 1:7; Rómverjabréfið 1:11, 12) Erum við ekki þakklát fyrir hina áreiðanlegu leiðsögn sem Jehóva veitir fyrir milligöngu skipulags síns?

Þrálátir veikleikar holdsins

15. Hvernig gat Páll postuli sigrað í baráttunni gegn veikleikum holdsins og hverju megum við treysta?

15 „Ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu,“ skrifaði Páll postuli. (Rómverjabréfið 7:18) Hann vissi af eigin raun hve erfitt það getur verið að berjast gegn löngunum og veikleikum hins ófullkomna holds. En hann vissi að hann myndi hafa betur ef hann treysti á Jehóva. (1. Korintubréf 9:26, 27) Þess vegna gat hann sagt: „Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama? Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.“ (Rómverjabréfið 7:24, 25) Hvað um okkur? Við þurfum líka að berjast gegn veikleikum holdsins. Þegar við eigum í slíkri baráttu er auðvelt að missa kjarkinn og ímynda sér að maður geti aldrei sigrað. En Jehóva hjálpar okkur ef við reiðum okkur á hann eins og Páll gerði, en treystum ekki aðeins á eigin mátt.

16. Um hvað þurfum við að biðja þegar veikleikar holdsins eru þrálátir og hvað ættum við að gera ef það verður afturkippur hjá okkur?

16 Þegar veikleikar holdsins eru þrálátir getum við sýnt að við treystum á Jehóva með því að ákalla hann í bæn. Við þurfum að biðja, jafnvel sárbæna, Jehóva um hjálp heilags anda. (Lúkas 11:9-13) Við getum beðið sérstaklega um sjálfstjórn sem er hluti af ávexti anda Guðs. (Galatabréfið 5:22, 23) Hvað er til ráða ef það verður afturkippur hjá okkur? Gefumst fyrir alla muni ekki upp. Þreytumst aldrei að biðja Guð auðmjúklega um hjálp og fyrirgefningu. Hann er miskunnsamur og hafnar aldrei hjarta sem er „sundurmarið og sundurkramið“ undan fargi samviskunnar. (Sálmur 51:19) Jehóva hjálpar okkur að berjast gegn freistingunum ef við biðjum til hans með iðrunarfullu og einlægu hjarta. — Filippíbréfið 4:6, 7.

17. (a) Hvers vegna er gott að íhuga hvernig Jehóva lítur á ákveðinn veikleika sem við eigum í baráttu við? (b) Hvaða ritningarstaði gætum við lagt á minnið ef við erum að reyna að hafa hemil á skapinu, gæta tungunnar eða sporna gegn löngun í óheilnæma skemmtun?

17 Við getum líka sýnt að við treystum á Jehóva með því að leita hjálpar í orði hans. Við getum notað orðstöðulykil og efnisskrá Varðturnsfélagsins til að kanna hvernig Jehóva lítur á ákveðinn veikleika sem við eigum í baráttu við. Við getum styrkt löngunina til að þóknast honum með því að íhuga hvernig hann lítur á málin. Þá getum við lært að líta málin sömu augum og hann og hata það sem hann hatar. (Sálmur 97:10) Sumum finnst gott að leggja á minnið ritningarstaði sem fjalla um veikleikann sem þeir eiga í baráttu við. Erum við að reyna að hafa hemil á bráðum skapsmunum? Þá gæti verið gott að leggja á minnið texta eins og Orðskviðina 14:17 og Efesusbréfið 4:31. Eigum við erfitt með að gæta tungu okkar? Þá gætum við lært utan að texta eins og Orðskviðina 12:18 og Efesusbréfið 4:29. Togar óheilnæm skemmtun í okkur? Þá gætum við reynt að leggja á minnið vers eins og Efesusbréfið 5:3 og Kólossubréfið 3:5.

18. Af hverju ættum við ekki að skammast okkar fyrir að biðja öldungana um hjálp til að sigrast á veikleika?

18 Við getum einnig sýnt að við reiðum okkur á Jehóva með því að leita hjálpar safnaðaröldunganna. (Postulasagan 20:28) Þeir eru skipaðir af heilögum anda og eru gjöf frá Jehóva sem hann lét Krist færa söfnuðinum til að gæta sauðanna og vernda þá. (Efesusbréfið 4:7, 8, 11-14) Það getur að vísu verið erfitt að biðja um hjálp til að yfirstíga veikleika. Okkur gæti þótt það skammarlegt og óttumst kannski að falla í áliti hjá öldungunum. En öldungarnir eru þroskaðir í trúnni og virða okkur eflaust fyrir það hugrekki að biðja um hjálp. Og öldungarnir leitast við að endurspegla eiginleika Jehóva í samskiptum við hjörðina. Þeir geta hughreyst okkur og gefið raunhæf ráð og leiðbeiningar byggðar á orði Guðs. Það gæti verið það sem við þurfum til að styrkja ásetning okkar að sigrast á veikleikanum. — Jakobsbréfið 5:14-16.

19. (a) Hvernig reynir Satan að nota tilgangsleysi lífsins í þessu heimskerfi? (b) Hvað er traust og hvað ættum við að einsetja okkur?

19 Gleymum aldrei að Satan veit að hann hefur nauman tíma. (Opinberunarbókin 12:12) Hann reynir að nota tilgangsleysi lífsins í þessum heimi til að draga úr okkur kjark svo að við gefumst upp. Treystum í hvívetna því sem segir í Rómverjabréfinu 8:35-39: „Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? . . . Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss. Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ Þetta lýsir sannarlega sterku trausti á Jehóva. En slíkt traust er ekki tilfinning ein heldur er það byggt á yfirveguðum ákvörðunum sem við tökum dags daglega. Við skulum því einsetja okkur að treysta fullkomlega á Jehóva þegar erfiðleikar verða á vegi okkar.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Salmon P. Chase, fjármálaráðherra Bandaríkjanna sagði í bréfi til myntsláttunnar, dagsett 20. nóvember 1861: „Engin þjóð er sterk nema í krafti Guðs eða óhult nema hann verji hana. Mynt þjóðarinnar ætti að lýsa yfir trausti hennar til Guðs.“ Í kjölfarið birtust kjörorðin „Guði treystum vér“ á bandarískri mynt í fyrsta sinn árið 1864.

^ gr. 9 Tillögurnar átta eru þessar: (1) Láttu ekki ótta ná tökum á þér, (2) vertu jákvæður, (3) vertu opinn fyrir annars konar vinnu, (4) lifðu í samræmi við fjárráð þín, ekki fjárráð annarra, (5) farðu varlega í að kaupa með afborgunum, (6) haltu fjölskyldunni samhuga, (7) varðveittu sjálfsvirðinguna og (8) gerðu fjárhagsáætlun.

^ gr. 13 Þessi biblíutengdu tímarit aðhyllast ekki né mæla með ákveðinni læknismeðferð umfram aðra. Það er einkamál hvers og eins hvers konar meðferð hann velur. Þegar fjallað er um ákveðna sjúkdóma eða kvilla er það til þess gert að upplýsa og fræða lesendur.

Manstu?

• Hvernig getum við sýnt að við treystum á Jehóva ef við eigum í fjárhagserfiðleikum?

• Hvernig getum við sýnt að við treystum á Jehóva í langvinnum veikindum?

• Hvernig getum við sýnt að við reiðum okkur á Jehóva ef við eigum í baráttu við þráláta veikleika?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 31]

Manstu eftir þessum greinum?

Þegar heilsan bregst er uppörvandi að lesa frásögur annarra sem hafa staðið sig í baráttu við heilsubrest eða fötlun af einhverju tagi. Hér eru nokkur dæmi um frásögur sem birst hafa í Varðturninum og Vaknið!

„Coping With My Weaknesses“ fjallar um baráttu gegn neikvæðu hugarfari og þunglyndi. — Varðturninn, 1. maí 1990.

Stállunga gat ekki einu sinni komið í veg fyrir að hún prédikaði.“ — Vaknið!, apríl-júní 1993.

„A Bullet Changed My Life“ segir frá konu sem lamaðist. — Vaknið!, 22. október 1995.

„You Do Not Know What Your Life Will Be Tomorrow“ fjallar um baráttu við geðhvarfasýki. — Varðturninn, 1. desember 2000.

„Loida’s Journey out of Silence“ segir frá ungri konu með meðfædda heilalömun. — Vaknið!, 8. maí 2000.

„My Struggle With Endometriosis“ segir frá konu með legslímuvillu. — Vaknið!, 22. júlí 2000.

„My Fight With Scleroderma“ fjallar um viðureign manns við herslishúð. — Vaknið!, 8. ágúst 2001.

„I Won My Battle With Postpartum Depression“ segir frá konu sem sigraðist á þunglyndi eftir fæðingu. — Vaknið!, 22. júlí 2002.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Ef við missum vinnuna gæti verið skynsamlegt að endurskoða lífsstíl sinn.

[Mynd á blaðsíðu 30]

Saga Loidu sýnir hvernig traust á Jehóva hjálpar okkur að halda út. (Sjá rammagrein á bls. 31.)

[Mynd á blaðsíðu 32]

Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir að biðja um hjálp til að sigrast á veikleikum.