Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Andlegar samræður eru uppbyggilegar

Andlegar samræður eru uppbyggilegar

Andlegar samræður eru uppbyggilegar

„Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ — EFESUSBRÉFIÐ 4:29.

1, 2. (a) Hversu dýrmætur er málhæfileikinn? (b) Hvernig vilja þjónar Jehóva nota tunguna?

„MÁLHÆFILEIKINN er leyndardómur; hann er gjöf frá Guði, kraftaverk.“ Þetta skrifaði orðabókahöfundurinn Ludwig Koehler. Kannski tökum við þessa verðmætu gjöf Guðs sem sjálfsagðan hlut. (Jakobsbréfið 1:17) En hugsaðu þér hversu mikið glatast þegar fólk missir málið vegna heilablóðfalls. „Tjáskiptin okkar á milli voru einstaklega góð,“ segir Joan, en maðurinn hennar fékk nýlega heilablóðfall. „Ég sakna þess sárlega að geta ekki átt samræður við hann.“

2 Samræður geta styrkt vináttubönd, leiðrétt misskilning, uppörvað niðurdregna, styrkt trúna og auðgað lífið. En þetta gerist ekki sjálfkrafa. Vitri konungurinn Salómon sagði: „Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur, en tunga hinna vitru græðir.“ (Orðskviðirnir 12:18) Við erum þjónar Jehóva og viljum því að orð okkar græði og byggi upp en ekki að þau særi eða rífi niður. Við viljum einnig nota tunguna til að lofa Jehóva, bæði í boðunarstarfinu og einkasamræðum. Sálmaritarinn söng: „Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu.“ — Sálmur 44:9.

3, 4. (a) Við hvaða vandamál þurfum öll að glíma í sambandi við tal okkar? (b) Af hverju skiptir tal okkar máli?

3 „Tunguna getur enginn maður tamið,“ sagði lærisveinninn Jakob í viðvörunartón. Hann minnti okkur líka á að „allir hrösum vér margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum.“ (Jakobsbréfið 3:2, 8) Ekkert okkar er fullkomið. Þess vegna er tal okkar ekki alltaf uppbyggilegt og það er Jehóva ekki alltaf til lofs, jafnvel þótt við viljum vel. Við verðum því að læra að gefa gaum að því sem við segjum. Jesús sagði enn fremur: „Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi. Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“ (Matteus 12:36, 37) Já, við erum ábyrg fyrir orðum okkar frammi fyrir hinum sanna Guði.

4 Ein besta leiðin til að forðast skaðleg orð er að venja sig á að eiga andlegar samræður við aðra. Þessi grein fjallar nánar um hvernig það er hægt, hvað við getum talað um og hvaða gagn við höfum af uppbyggilegum samræðum.

Gefðu gaum að hjartanu

5. Hvernig gegnir hjartað lykilhlutverki í uppbyggilegum samræðum?

5 Þegar við temjum okkur að eiga uppbyggilegar samræður við aðra verðum við að gera okkur grein fyrir því að tal okkar endurspeglar það sem í hjartanu býr. „Af gnægð hjartans mælir munnurinn,“ sagði Jesús. (Matteus 12:34) Við tölum sem sagt gjarnan um það sem skiptir okkur máli. Við þurfum því að spyrja sjálf okkur: ‚Hvað segir val mitt á umræðuefni um hjartalag mitt? Tala ég aðallega um andleg mál þegar ég er með fjölskyldunni eða trúsystkinum eða snúast samræðurnar frekar um íþróttir, föt, kvikmyndir, mat, það sem ég var að kaupa eða einhver önnur hégómamál?‘ Kannski hefur líf okkar og hugðarefni farið að snúast um þess konar mál án þess að við höfum tekið eftir því. Ef við breytum áherslum okkar í lífinu hefur það góð áhrif á samræður okkar við aðra og lífið almennt. — Filippíbréfið 1:10.

6. Hvaða áhrif hefur hugleiðing á samræður?

6 Markviss hugleiðing er önnur leið til að stuðla að uppbyggilegri samræðum. Ef við leggjum okkur ákveðið fram um að hugleiða andleg málefni tölum við ósjálfrátt meira um þau. Davíð konungur gerði sér grein fyrir þessu. Hann söng: „Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn.“ (Sálmur 19:15) Og sálmaritarinn Asaf sagði: „Ég íhuga allar athafnir þínar [Guðs], athuga stórvirki þín.“ (Sálmur 77:13) Þegar hugurinn og hjartað er upptekið af sannleiksorði Guðs enduróma orð okkar það. Jeremía gat ekki annað en talað um það sem Jehóva hafði kennt honum. (Jeremía 20:9) Eins verður það með okkur ef við hugleiðum andleg málefni reglulega. — 1. Tímóteusarbréf 4:15.

7, 8. Hvaða umræðuefni eru uppbyggileg?

7 Ef við höfum góðar andlegar venjur höfum við nægilegt umræðuefni í uppbyggilegar samræður. (Filippíbréfið 3:16) Mót, safnaðarsamkomur, ný rit og dagstextinn sjá okkur fyrir andlegum gersemum sem við getum miðlað öðrum. (Matteus 13:52) Og frásögur úr boðunarstarfinu geta verið andlega örvandi.

8 Salómon konungur var hugfanginn af öllum þeim mismunandi tegundum trjáa, dýra, fugla og fiska sem hann sá í Ísrael. (1. Konungabók 4:33) Hann naut þess að tala um sköpunarverk Guðs. Við getum gert það sama. Þjónar Jehóva hafa gaman af því að tala um fjölbreytileg málefni, en andleg umræðuefni krydda alltaf samræður andlega hugsandi fólks. — 1. Korintubréf 2:13.

„Hugfestið það“

9. Hvað ráðlagði Páll Filippímönnum?

9 Ef við fylgjum ráðleggingum Páls til safnaðarins í Filippí stuðlum við að uppbyggilegum samræðum óháð umræðuefninu. Hann skrifaði: „Allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ (Filippíbréfið 4:8) Þetta sem Páll nefnir hér er svo mikilvægt að hann segir okkur að ‚hugfesta það‘ eða fylla hugann og hjartað af því. Við skulum nú skoða nánar þessi átta atriði, sem Páll nefnir, til að athuga hvernig við getum stuðlað að uppbyggilegri samræðum.

10. Hvernig getum við látið samræður snúast um það sem er satt?

10 Það sem er satt er ekki aðeins réttar upplýsingar. Það vísar til þess sem er heiðvirt og áreiðanlegt eins og sannleikans í orði Guðs. Þegar við tölum við aðra um biblíusannindi sem við hrifumst að, fyrirlestra eða ræður sem uppörvuðu okkur eða ráð frá Biblíunni sem hjálpuðu okkur, erum við að hugfesta það sem er satt. En á hinn bóginn höfnum við ‚rangnefndri þekkingu‘ sem aðeins virðist vera sönn. (1. Tímóteusarbréf 6:20) Og við forðumst að breiða út slúður eða segja vafasamar frásögur sem ekki er hægt að staðfesta.

11. Hvaða göfugu málefni getum við rætt um við aðra?

11 Það sem er göfugt er umræðuefni sem er virðulegt og mikilvægt en ekki innantómt og ómerkilegt. Þá má til dæmis nefna umræður um boðunastarfið, þessa erfiðu tíma sem við lifum og hve nauðsynlegt er að hegðun okkar sé alltaf til fyrirmyndar. Þegar við ræðum um göfug málefni af þessu tagi styrkir það ásetning okkar að halda okkur andlega vakandi, sýna ráðvendni og halda áfram að prédika fagnaðarerindið. Já, athyglisverðar frásögur úr boðunarstarfinu og atburðir, sem minna okkur á að við lifum á síðustu dögum, veita okkur nægilegt efni í uppörvandi samræður. — Postulasagan 14:27; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

12. Hvað ættum við að forðast í ljósi þess að Páll hvatti okkur til að hugfesta það sem er rétt og hreint?

12 Það sem er rétt felur í sér að gera það sem er rétt í augum Guðs — fylgja siðferðisreglum hans. Og það sem er hreint lýsir hreinleika í hugsun og hegðun. Rógur, klúrir brandarar eða tvíræðar athugasemdir eru alls ekki viðeigandi umræðuefni. (Efesusbréfið 5:3; Kólossubréfið 3:8) Kristnir menn sýna skynsemi og draga sig í hlé þegar slíkar samræður eiga sér stað á vinnustað eða í skóla.

13. Hvað er hægt að ræða um sem er elskuvert og gott afspurnar?

13 Þegar Páll hvetur okkur til að hugfesta það sem er elskuvert er hann að vísa til þess sem er jákvætt og ánægjulegt og hvetur til kærleika. Þetta er andstaða þess sem vekur hatur, biturð eða deilur. Það sem er gott afspurnar eru góðar og áreiðanlegar upplýsingar eins og til dæmis ævisögur trúfastra bræðra og systra sem birtast reglulega í blöðunum Varðturninum og Vaknið! Af hverju ekki að segja öðrum hvað þér fannst um þessar trústyrkjandi greinar eftir að þú hefur lesið þær? Og er ekki líka uppörvandi að heyra af andlegum afrekum annarra? Slíkar samræður hvetja til kærleika og efla eininguna í söfnuðinum.

14. (a) Hvað verðum við að gera ef við viljum sýna dyggð? (b) Hvernig getum við talað um það sem er lofsvert?

14 Páll talar einnig um „dyggð“. Dyggð tengist góðvild og góðu siðferði. Við verðum að láta varir okkar stjórnast af biblíulegum meginreglum og gæta þess að þær víki ekki frá því sem er rétt, hreint og dyggðugt. Lofsvert þýðir „hrósvert“. Ef þú heyrir góða ræðu eða tekur eftir góðu fordæmi einhvers í söfnuðinum skaltu minnast á það — bæði við þann sem á í hlut og aðra. Páll postuli lofaði oft trúsystkini sín fyrir góða eiginleika þeirra. (Rómverjabréfið 16:12; Filippíbréfið 2:19-22; Fílemonsbréfið 4-7) Og auðvitað eru handaverk skaparans lofsverð. Þar finnum við mikið efni í uppbyggilegar samræður. — Orðskviðirnir 6:6-8; 20:12; 26:2.

Eigðu uppbyggilegar samræður við aðra

15. Hvaða biblíulega boð skyldar foreldra til að eiga innihaldsríkar samræður við börnin?

15 Í 5. Mósebók 6:6, 7 segir: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ Það er greinilega nauðsynlegt að foreldrar eigi innihaldsríkar samræður við börnin um andleg mál.

16, 17. Hvað geta kristnir foreldrar lært af fordæmi Jehóva og Abrahams?

16 Við getum ímyndað okkur að Jesús hlýtur að hafa rætt vel og lengi við himneskan föður sinn um verkefni sitt á jörðinni. „Faðirinn, sem sendi mig, [hefur] boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala,“ sagði Jesús við lærisveinana. (Jóhannes 12:49; 5. Mósebók 18:18) Og ættfaðirinn Abraham hlýtur að hafa varið miklum tíma í að ræða við Ísak um þær blessanir sem Jehóva hafði veitt þeim og forfeðrum þeirra. Slíkar samræður hafa örugglega hjálpað bæði Jesú og Ísak að lúta vilja Guðs auðmjúklega. — 1. Mósebók 22:7-9; Matteus 26:39.

17 Við verðum einnig að eiga uppbyggilegar samræður við börnin okkar — þau þurfa á því að halda. Foreldrar verða að taka sér tíma til að tala við börnin, þótt þeir séu uppteknir. Ef það er mögulegt væri gott að sjá til þess að fjölskyldan borðaði saman að minnsta kosti einu sinni á dag. Fjölskyldan fær þá tækifæri til að eiga uppbyggilegar samræður á matmálstímum og þessar samræður geta reynst ómetanlegar og styrkt fjölskylduna í trúnni.

18. Segðu frásögu sem sýnir gagn þess að foreldrar og börn eigi góð tjáskipti.

18 Alejandro er brautryðjandi um tvítugt og hann minnist þess að hafa haft ýmsar efasemdir þegar hann var 14 ára. Hann segir: „Vegna áhrifa frá skólafélögum og kennurum var ég ekki viss hvort Guð væri til og hvort Biblían væri áreiðanleg. Foreldrar mínir sýndu mikla þolinmæði og vörðu mörgum klukkustundum í að rökræða við mig. Þessar samræður hjálpuðu mér ekki aðeins að yfirvinna þær efasemdir sem ég hafði á þessu erfiða tímabili heldur líka að taka viturlegar ákvarðanir í lífinu.“ En hvernig er þetta núna? Alejandro segir: „Ég bý enn þá heima. En þar sem við höfum mikið að gera er erfitt fyrir mig og pabba að ræða saman í einrúmi. Þess vegna borðum við saman á vinnustaðnum hans einu sinni í viku. Ég kann virkilega að meta þessar stundir.“

19. Af hverju eru andlegar samræður nauðsynlegar fyrir okkur öll?

19 Metum við ekki mikils tækifæri til að eiga góðar andlegar samræður við trúsystkini okkar? Við höfum tækifæri til þess á samkomum, í boðunarstarfinu og þegar við ferðumst eða gerum okkur dagamun. Páll hlakkaði til þess að tala við kristna menn í Róm. „Ég þrái að sjá yður,“ skrifaði hann, „svo að vér getum uppörvast saman fyrir hina sameiginlegu trú, yðar og mína.“ (Rómverjabréfið 1:11, 12) „Andlegar samræður við trúsystkini eru mjög nauðsynlegar,“ segir Jóhannes sem er safnaðaröldungur. „Þær ylja okkur um hjartarætur og létta álag lífsins. Oft bið ég eldra fólkið að segja mér frá lífi sínu og hvað hjálpaði því að vera trúfast. Það hefur virkilega auðgað líf mitt að tala við svona marga á liðnum árum því að hver og einn þeirra hefur miðlað mér af visku sinni og hjálpað mér að sjá margt í nýju ljósi.“

20. Hvað getum við gert ef við tölum við einhvern sem er feiminn?

20 En hvað ef einhver virðist tómlátur þegar þú færir andleg málefni í tal? Gefstu ekki upp. Kannski gætirðu fundið hentugri tíma seinna. „Gullepli í skrautlegum silfurskálum — svo eru orð í tíma töluð,“ sagði Salómon. (Orðskviðirnir 25:11) Sýndu þeim sem eru feimnir skilning. „Ráðin í hjarta mannsins eru sem djúp vötn, og hygginn maður eys þar af.“ * (Orðskviðirnir 20:5) Og umfram allt skaltu aldrei láta viðbrögð annarra koma í veg fyrir að þú talir um það sem er þér hjartans mál.

Andlegar samræður eru auðgandi

21, 22. Hvernig njótum við góðs af því að eiga andlegar samræður við aðra?

21 „Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni,“ sagði Páll, „heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ (Efesusbréfið 4:29; Rómverjabréfið 10:10) Það getur verið erfitt að beina umræðum í rétta átt en umbunin er mikil. Andlegar samræður gera okkur kleift að segja öðrum frá trú okkar og styrkja bræðrafélagið.

22 Við skulum því nota málhæfileikann til að uppörva aðra og lofa Guð. Slíkar samræður verða okkur til ánægju og öðrum til hvatningar. Umfram allt gleðja þær hjarta Jehóva vegna þess að hann fylgist með því sem við tölum um og fagnar þegar við notum tunguna rétt. (Sálmur 139:4; Orðskviðirnir 27:11) Við getum treyst því að Jehóva gleymir okkur ekki ef samræður okkar við aðra eru á andlegum nótum. Biblían talar um þá sem þjóna Jehóva á okkar dögum og segir: „Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast Drottin, og Drottinn gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast Drottin og virða hans nafn.“ (Malakí 3:16; 4:5) Það er sannarlega mikilvægt að samræður okkar við aðra séu andlega uppbyggjandi.

[Neðanmáls]

^ gr. 20 Sumir brunnar í Ísrael voru mjög djúpir. Í Gíbeon hafa fornleifafræðingar fundið vatnsþró sem var 25 metra djúp. Í henni voru tröppur sem gerðu fólki kleift að ganga niður að botninum til að ná í vatn.

Hvert er svarið?

• Hvað segja samræður okkar við aðra um okkur?

• Um hvaða uppbyggilegu mál getum við talað?

• Hvaða mikilvægu hlutverki gegna tjáskipti innan fjölskyldunnar og kristna safnaðarins?

• Hvaða blessana njótum við ef við eigum uppbyggilegar samræður við aðra?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 20]

Uppbyggilegar samræður snúast um . . .

„allt sem er satt“

„allt sem er göfugt“

„hvað sem er lofsvert“

‚allt sem er gott afspurnar‘

[Credit line]

Myndbandshulstur, Stalín: U.S. Army photo; Forsíða Skaparabókarinnar, Arnarþokan: J. Hester og P. Scowen (AZ State Univ.), NASA

[Mynd á blaðsíðu 21]

Gott er að nota matmálstíma til að tala saman um andleg mál.