Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblían getur bætt hjónabandið

Biblían getur bætt hjónabandið

Biblían getur bætt hjónabandið

HJÓNABAND — orðið vekur ánægjulegar hugsanir hjá sumum. Hjá öðrum kallar það fram hjartasorg. „Mér finnst eins og ég sé tilfinningalega fráskilin,“ segir kona nokkur sorgmædd. „Mér finnst ég alltaf vera ein og yfirgefin.“

Hvað verður til þess að tvær manneskjur, sem hétu eitt sinn að elska og annast hvor aðra, fjarlægjast svona? Að einhverju leyti er það vegna vanþekkingar á því hvað hjónabandið felur í sér. „Við göngum í hjónaband án nokkurrar fræðslu,“ segir blaðamaður sem skrifar um læknisfræði.

Í athugun, sem gerð var um stöðu hjónabanda í Bandaríkjunum, kemur fram að fáir hafa slíka þekkingu nú á tímum en rannsóknin var gerð að frumkvæði Rutgersháskólans í New Jersey. „Margir sem tóku þátt í þessari könnun ólust upp hjá óhamingjusömum eða fráskildum foreldrum,“ skrifa stjórnendur rannsóknarinnar. „Þeir vita nákvæmlega hvað misheppnað hjónaband er, en eru ekki eins vissir um hvað sé gott hjónaband. Sumir geta aðeins lýst góðu hjónabandi sem ‚andstæðunni við hjónaband foreldra sinna‘.“

Eru sannkristnir menn ónæmir fyrir hjónabandsvandamálum? Nei, alls ekki. Á fyrstu öld þurftu nokkrir þeirra á afdráttarlausum ráðleggingum að halda til að ‚leitast ekki við að verða lausir‘ við maka sinn. (1. Korintubréf 7:27) Ljóst er að hjónaband tveggja ófullkominna einstaklinga hefur yfirleitt í för með sér vandamál öðru hverju en við getum fengið hjálp. Hjón geta bætt samband sitt með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar.

Að vísu er Biblían ekki handbók fyrir hjónabandið. Samt sem áður getum við vænst þess að grundvallarreglur hennar komi að gagni þar sem hún er innblásin af stofnanda hjónabandsins. Jehóva Guð segir fyrir munn Jesaja: „Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ — Jesaja 48:17, 18.

Er ástin, sem þið hjónin báruð hvort til annars, farin að kólna? Finnst ykkur þið vera föst í ástlausu hjónabandi? Eiginkona nokkur sagði eftir 26 ára hjónaband: „Varla er hægt að lýsa sársaukanum sem fylgir slíku sambandi. Hann er stöðugt fyrir hendi og gegnsýrir allt.“ Hvers vegna ekki að einsetja sér að taka málið í sínar hendur fremur en sætta sig við hjónaband sem uppfyllir ekki væntingarnar? Í næstu grein er bent á hvernig grundvallarreglur Biblíunnar geta bætt hjónabandið á ákveðnu sviði, það er að segja er varðar hjúskaparheitið.