Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna eigum við að biðja án afláts?

Hvers vegna eigum við að biðja án afláts?

Hvers vegna eigum við að biðja án afláts?

„Biðjið án afláts. Þakkið alla hluti.“ — 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 5:17, 18.

1, 2. Hvernig sýndi Daníel að það var honum mikils virði að mega biðja til Guðs, og hvaða áhrif hafði það á samband hans við Guð?

DANÍEL spámaður var vanur að biðja til Guðs þrisvar á dag. Hann kraup á kné við gluggann á loftherbergi sínu, sem sneri í áttina til Jerúsalem, og baðst þar fyrir. (1. Konungabók 8:46-49; Daníel 6:11) Engu breytti þótt það væri bannað samkvæmt konunglegri tilskipun að biðja til nokkurs nema Daríusar Medíukonungs. Þessi bænrækni maður bað án afláts til Jehóva, hvort sem það stofnaði lífi hans í hættu eða ekki.

2 Hvernig leit Jehóva á Daníel? Þegar Gabríel engill kom til að svara einni af bænum Daníels kallaði hann spámanninn ‚ástmög Guðs‘ eða ‚mann elskuverðan‘. (Daníel 9:20-23, Biblían 1859) Í spádómi Esekíels talar Jehóva um Daníel sem ráðvandan mann. (Esekíel 14:14, 20) Ljóst er að áralöng bænrækni Daníels stuðlaði að nánu sambandi við Guð, og Daríus gerði sér jafnvel grein fyrir því. — Daníel 6:17.

3. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að vera ráðvönd eins og trúboði nokkur fékk að reyna?

3 Reglubundið bænasamband getur einnig hjálpað okkur að standast erfiðar prófraunir. Harold King er dæmi um það en hann var trúboði í Kína og var dæmdur í fimm ára einangrunarvist. Hann segir um þessa lífsreynslu: „Ég var aðskilinn frá meðbræðrum mínum en enginn gat aðskilið mig frá Guði. . . . Ég kraup því á kné þrisvar á dag í klefa mínum, í sjónmáli allra sem áttu leið hjá, og baðst fyrir upphátt , minnugur Daníels sem Biblían talar um. . . . Á stundum sem þessum virtist mér sem andi Guðs beindi huga mínum inn á góðar brautir og veitti mér ró og stillingu. Bænin styrkti mig ósegjanlega og hughreysti!“

4. Hvaða spurningar ætlum við að skoða í þessari grein?

4 „Biðjið án afláts. Þakkið alla hluti,“ segir Biblían. (1. Þessaloníkubréf 5:17, 18) Í ljósi þessarar hvatningar skulum við hugleiða eftirfarandi: Hvers vegna ættum við að skoða hvernig og hve oft við biðjum? Hvaða ástæður höfum við til að vera bænrækin? Og hvað ættum við að gera ef okkur finnst við svo ófullkomin að við séum óverðug þess að biðja til Guðs?

Byggðu upp vináttusamband með bæninni

5. Hvaða einstakt vináttusamband býður bænin upp á?

5 Langar þig til að Jehóva líti á þig sem vin sinn eins og ættföðurinn Abraham? (Jesaja 41:8; Jakobsbréfið 2:23) Jehóva vill að við eigum vináttusamband við sig og hvetur okkur hreinlega til að nálægjast sig. (Jakobsbréfið 4:8) Ætti þessi hvatning ekki að vera okkur tilefni til að hugleiða hve einstakt það er að eiga bænasamband við Guð? Það er ekki hlaupið að því að fá viðtal við háttsettan ráðamann, að ekki sé nú talað um að eignast vináttu hans. En skapari alheims hvetur okkur til að nálgast sig að vild í bæn, hvenær sem við viljum eða þurfum. (Sálmur 37:5) Að biðja án afláts stuðlar að nánu sambandi við Jehóva.

6. Hvernig er Jesús fyrirmynd um að ‚biðja án afláts‘?

6 En það er ósköp auðvelt að vanrækja bænina. Glíman við álag hins daglega lífs getur tekið svo mikið af tíma okkar og kröftum að ekkert verði úr því að biðja til Guðs. Jehóva hvatti fylgjendur sína til að ‚vaka og biðja‘ og hann gerði það sjálfur. (Matteus 26:41) Hann var önnum kafinn frá morgni til kvölds en tók sér engu að síður tíma til að tala við föður sinn á himnum. Stundum fór hann á fætur „árla, löngu fyrir dögun“, til að biðjast fyrir og stundum fór hann einn á afvikinn stað þegar kvöldaði til að tala við Jehóva. (Markús 1:35; Matteus 14:23) Hann gaf sér alltaf tíma til að biðjast fyrir og það ættum við líka að gera. — 1. Pétursbréf 2:21.

7. Hvaða aðstæður ættu að vera okkur hvöt til að biðja til föður okkar á himnum?

7 Það bjóðast margar viðeigandi stundir á hverjum degi til að biðjast fyrir í einrúmi þegar vandamál og freistingar verða á vegi okkar og þegar við þurfum að taka ákvarðanir. (Efesusbréfið 6:18) Vináttuböndin við Jehóva styrkjast við það að leita leiðsagnar hans á öllum sviðum í lífinu. Tveir vinir treysta vináttuböndin með því að takast á við vandamál í sameiningu. (Orðskviðirnir 17:17) Þetta gerist líka þegar við reiðum okkur á Jehóva og fáum að reyna hjálp hans. — 2. Kroníkubók 14:11.

8. Hvað má læra af Nehemía, Jesú og Hönnu um það hversu langar bænir okkar megi vera?

8 Við getum glaðst yfir því að Guð setur því engin takmörk hve oft eða hve lengi við megum tala við hann í bæn. Nehemía fór með stutta bæn í hljóði áður en hann bar upp bón sína við konung Persíu. (Nehemíabók 2:4, 5) Jesús fór líka með stutta bæn þegar hann bað Jehóva að gefa sér kraft til að reisa Lasarus upp frá dauðum. (Jóhannes 11:41, 42) Hanna gerði hins vegar „lengi bæn sína fyrir augliti Drottins“ og úthellti hjarta sínu fyrir honum. (1. Samúelsbók 1:12, 15, 16) Einkabænir okkar geta verið stuttar eða langar eftir þörfum og aðstæðum.

9. Hvers vegna ættum við að lofa Jehóva í bænum okkar og þakka honum allt sem hann gerir fyrir okkur?

9 Margar bænir, sem Biblían segir frá, tjá innilegar þakkir og lotningu fyrir hárri stöðu Jehóva og stórvirkjum hans. (2. Mósebók 15:1-19; 1. Kroníkubók 16:7-36; Sálmur 145) Jóhannes postuli sér 24 öldunga í sýn, en þeir tákna smurða kristna menn alla saman komna á himnum. Þeir lofa Jehóva og segja: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ (Opinberunarbókin 4:10, 11) Við höfum sömuleiðis ástæðu til að lofa skaparann reglulega. Foreldrum finnst einkar ánægjulegt þegar barn þakkar þeim innilega fyrir eitthvað sem þeir hafa gert fyrir það. Að hugleiða góðvild Jehóva og tjá honum innilegar þakkir fyrir hana er góð leið til að bæta bænir okkar.

„Biðjið án afláts“ — hvers vegna?

10. Hvernig getur bænin styrkt trúna?

10 Það er nauðsynlegt að biðja reglulega til að varðveita sterka trú. Eftir að Jesús hafði sagt dæmisögu til að sýna fram á að það væri nauðsynlegt að ‚biðja stöðugt og þreytast ekki‘ spurði hann: „Mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?“ (Lúkas 18:1-8) Einlægar bænir styrkja trúna. Eitt sinn, er ættfaðirinn Abraham var orðinn gamall, ræddi hann við Guð um það að hann skyldi enn vera barnlaus. Jehóva bað hann þá að horfa til himins og telja stjörnurnar ef hann gæti. Síðan sagði hann: „Svo margir skulu niðjar þínir verða.“ Áhrifin urðu þau að Abraham „trúði Drottni, og hann reiknaði honum það til réttlætis“. (1. Mósebók 15:5, 6) Jehóva styrkir trú okkar ef við opnum hjörtu okkar fyrir honum í bæn, tökum við því sem hann segir í Biblíunni og hlýðum honum.

11. Hvernig getur bænin hjálpað okkur að takast á við erfiðleika?

11 Bænin getur líka hjálpað okkur þegar erfiðleikar steðja að. Er daglega lífið erfitt og aðstæður okkar illbærilegar? Biblían segir: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ (Sálmur 55:23) Þegar erfiðar ákvarðanir blasa við getum við líkt eftir fordæmi Jesú sem var heila nótt á bæn áður en hann útnefndi postulana 12. (Lúkas 6:12-16) Og nóttina fyrir dauða sinn baðst Jesús svo ákaft fyrir að „sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina“. (Lúkas 22:44) Jesús ‚fékk líka bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar‘. (Hebreabréfið 5:7) Með því að biðja án afláts auðveldum við okkur að komast gegnum álag og erfiðar prófraunir.

12. Hvernig vitnar bænin um persónulegan áhuga Jehóva á okkur?

12 Önnur ástæða til að nálægjast Jehóva í bæn er sú að hann nálgast okkur á móti. (Jakobsbréfið 4:8) Finnum við ekki að Jehóva hefur áhuga á þörfum okkar og honum er innilega annt um okkur þegar við opnum hjartað fyrir honum í bæn? Við skynjum kærleika hans með afar persónulegum hætti. Þjónar Jehóva biðja himneskan föður sinn ótal bæna en hann hefur ekki falið neinum öðrum að hlusta á þær. Hann hlustar sjálfur á hverja einustu bæn. (Sálmur 66:19, 20; Lúkas 11:2) Og hann býður okkur að ‚varpa öllum áhyggjum okkar á sig því að hann beri umhyggju fyrir okkur‘. — 1. Pétursbréf 5:6, 7.

13, 14. Hvaða ástæður höfum við til að biðja án afláts?

13 Bænin getur aukið kostgæfni okkar í boðunarstarfinu og styrkt okkur þegar áhugaleysi eða andstaða er slík að okkur er skapi næst að gefast upp. (Postulasagan 4:23-31) Bænin getur líka verndað okkur gegn ‚vélabrögðum djöfulsins‘. (Efesusbréfið 6:11, 17, 18) Við getum beðið Guð án afláts að styrkja okkur í baráttunni við hinar daglegu prófraunir. Í fyrirmyndarbæn Jesú er Jehóva meðal annars beðinn um að frelsa okkur „frá hinum vonda“, Satan djöflinum. — Matteus 6:13, neðanmáls.

14 Jehóva styður okkur ef við höldum áfram að biðja um hjálp hans til að hafa hemil á syndugum tilhneigingum. Biblían lofar: „Guð er trúr og lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ (1. Korintubréf 10:13) Páll postuli kynntist stuðningi og umhyggju Jehóva við alls konar aðstæður. „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir,“ skrifaði hann. — Filippíbréfið 4:13; 2. Korintubréf 11:23-29.

Verum staðföst í bæninni þrátt fyrir ófullkomleikann

15. Hvað getur gerst ef við hegðum okkur ekki í samræmi við mælikvarða Guðs?

15 Ef við viljum fá bænheyrslu verðum við að taka við þeim ráðleggingum sem orð Guðs gefur. „Hvað sem vér biðjum um fáum vér hjá honum, af því að vér höldum boðorð hans og gjörum það, sem honum er þóknanlegt,“ skrifaði Jóhannes postuli. (1. Jóhannesarbréf 3:22) En hvað getur gerst þegar okkur tekst ekki að fylgja þeim mælikvarða sem Guð setur? Adam og Eva földu sig eftir að þau höfðu syndgað í Eden. Okkur gæti líka langað til að ‚fela okkur fyrir Jehóva‘ með því að hætta að biðja til hans. (1. Mósebók 3:8) „Ég hef veitt því eftirtekt að fyrstu mistökin, sem fólk gerir ef það fjarlægist Jehóva og skipulag hans, er að hætta að biðja til hans,“ segir Klaus sem er reyndur farandumsjónarmaður. (Hebreabréfið 2:1) Þannig var það hjá José Ángel. „Ég bað varla til Jehóva í næstum átta ár,“ segir hann. „Mér fannst ég ekki verðugur þess að tala við hann þó að ég hætti aldrei að líta á hann sem föður minn á himnum.“

16, 17. Nefndu dæmi um hvernig reglulegt bænasamband getur hjálpað okkur að sigrast á andlegum veikleikum.

16 Sumum getur fundist þeir óverðugir þess að biðja ef þeir eru andlega veikburða eða þeim hefur orðið eitthvað á. En það er einmitt þá sem við þurfum sérstaklega að notfæra okkur bænina til fulls. Jónas stakk af frá því verkefni sem honum var falið. En síðan ‚kallaði hann til Drottins í neyð sinni og Drottinn svaraði honum. Hann hrópaði frá skauti Heljar og Jehóva heyrði raust hans.‘ (Jónas 2:2) Jónas baðst fyrir, Jehóva svaraði bæn hans og Jónas náði sér andlega.

17 José Ángel bað líka innilega um hjálp. „Ég opnaði hjarta mitt fyrir Guði og sárbændi hann að fyrirgefa mér,“ segir hann. „Og hann hjálpaði mér. Ég held ekki að ég hefði snúið aftur til sannleikans nema fyrir hjálp bænarinnar. Núna biðst ég reglulega fyrir á hverjum degi og hlakka til þessara stunda.“ Við ættum alltaf að geta talað frjálslega við Guð um mistök okkar og beðið hann auðmjúklega fyrirgefningar. Jehóva fyrirgaf Davíð konungi syndir hans þegar hann játaði þær. (Sálmur 32:3-5) Jehóva vill hjálpa okkur, ekki fordæma. (1. Jóhannesarbréf 3:19, 20) Og bænir safnaðaröldunganna eru ‚kröftugar‘ og geta hjálpað okkur í trúnni. — Jakobsbréfið 5:13-16.

18. Hverju geta þjónar Guðs treyst, óháð því hve langt þeir hafa borist af leið?

18 Enginn faðir myndi vísa syni sínum á bug ef hann kæmi til hans og bæði auðmjúklega um ráð eftir að hafa orðið eitthvað á. Dæmisagan um glataða soninn sýnir að faðir okkar á himnum fagnar þegar við snúum aftur til hans, hversu langt sem við höfum borist af leið. (Lúkas 15:21, 22, 32) Jehóva hvetur alla sem villast af leið til að ákalla sig „því að hann fyrirgefur ríkulega“. (Jesaja 55:6, 7) Davíð syndgaði alvarlega en ákallaði Jehóva og bað: „Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.“ Hann hélt áfram: „Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og [Jehóva] heyrir raust mína.“ (Sálmur 55:2, 18) Þetta er einstaklega hughreystandi.

19. Hvers vegna skulum við ekki halda að það sé merki um vanþóknun Guðs þótt okkur finnist bænum okkar ekki svarað?

19 Hvað getum við gert ef svo virðist sem bæn okkar sé ekki svarað? Þá þurfum við að ganga úr skugga um að bænin sé í samræmi við vilja Jehóva og sé borin fram í nafni Jesú. (Jóhannes 16:23; 1. Jóhannesarbréf 5:14) Lærisveinninn Jakob nefnir dæmi um kristna menn sem fengu ekki bænheyrslu vegna þess að þeir ‚báðu illa‘ eða af röngu tilefni. (Jakobsbréfið 4:3) Við ættum hins vegar aldrei að álykta í fljótfærni að það sé alltaf merki um vanþóknun Guðs ef bænum okkar virðist ekki vera svarað. Stundum lætur Jehóva trúa tilbiðjendur sína biðja einhvers um tíma áður en hann svarar þeim. „Haldið áfram að biðja og ykkur verður gefið,“ sagði Jesús. (Matteus 7:7, NW) Þess vegna þurfum við að vera ‚staðföst í bæninni‘. — Rómverjabréfið 12:12.

Biðjið reglulega

20, 21. (a) Hvers vegna þurfum við að biðja án afláts núna á „síðustu dögum“? (b) Hvað fáum við ef við göngum daglega að náðarhásæti Jehóva?

20 Hinir ‚síðustu dagar‘ eru erfiðir því að álagið eykst og erfiðleikarnir magnast. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Og prófraunir, sem við lendum í, geta hæglega átt hug okkar allan. En með því að biðja án afláts getum við einbeitt okkur að andlegu málunum, þrátt fyrir þrálát vandamál og freistingar, kjarkleysi eða vanmáttarkennd. Með daglegum bænum til Jehóva getum við fengið þann stuðning sem okkur vantar.

21 Jehóva „heyrir bænir“ og er aldrei of upptekinn til að ljá okkur eyra. (Sálmur 65:3) Verum aldrei of upptekin til að tala við hann. Vinátta Guðs er það dýrmætasta sem við eigum. Lítum aldrei á hana sem sjálfsagðan hlut. „Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.“ — Hebreabréfið 4:16.

Hvert er svarið?

• Hvað lærum við af Daníel spámanni um gildi bænarinnar?

• Hvernig getum við styrkt vináttuböndin við Jehóva?

• Af hverju eigum við að biðja án afláts?

• Hvers vegna ættum við ekki að hætta að biðja til Jehóva þó að okkur finnist við óverðug þess?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 25]

Nehemía fór með stutta bæn í hljóði áður en hann talaði við konung.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Hanna „gjörði lengi bæn sína fyrir augliti Drottins“.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Jesús baðst fyrir alla nóttina áður en hann útnefndi postulana 12.

[Myndir á blaðsíðu 29]

Daglega gefast mörg tækifæri til að biðjast fyrir.