Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ofsóttir fyrir réttlætis sakir

Ofsóttir fyrir réttlætis sakir

Ofsóttir fyrir réttlætis sakir

„Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir.“ — MATTEUS 5:10.

1. Hvers vegna var Jesús frammi fyrir Pontíusi Pílatusi og hvað sagði Jesús?

„TIL ÞESS er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) Er Jesús sagði þessi orð var hann frammi fyrir Pontíusi Pílatusi, rómverska landstjóranum í Júdeu. Jesús var hvorki staddur þar að eigin frumkvæði né að boði Pílatusar. Hann var þar vegna þess að trúarleiðtogar Gyðinga höfðu gefið honum að sök að vera glæpamaður sem væri dauðasekur. — Jóhannes 18:29-31.

2. Hvað gerði Jesús og til hvers leiddi það?

2 Jesús vissi mætavel að Pílatus hafði bæði vald til að láta hann lausan og lífláta. (Jóhannes 19:10) En það aftraði honum ekki frá því að segja Pílatusi djarfmannlega frá Guðsríki. Líf hans var í hættu en hann notaði samt tækifærið til að vitna fyrir æðsta yfirvaldinu á svæðinu. Þrátt fyrir vitnisburðinn var Jesús sakfelldur og tekinn af lífi. Hann dó sársaukafullum píslarvættisdauða á kvalastaur. — Matteus 27:24-26; Markús 15:15; Lúkas 23:24, 25; Jóhannes 19:13-16.

Vottur eða píslarvottur?

3. Hvað merkti gríska orðið marʹtys á biblíutímanum, en hver er ein merking þess núna?

3 Margir líta píslarvott meira eða minna sömu augum og ofstækis- eða öfgamann. Þeir sem eru tilbúnir til að deyja fyrir skoðun sína, einkum ef hún er trúarlegs eðlis, eru oft á tíðum grunaðir um að vera hryðjuverkamenn eða að minnsta kosti ógn við samfélagið. En orðið píslarvottur er þýðing á gríska orðinu marʹtys sem merkti á biblíutímanum „vottur“, það er að segja maður sem ber vitni sannleikanum sem hann trúir, ef til vill í réttarsal. Það var ekki fyrr en seinna að orðið fékk merkinguna „maður sem lætur líf sitt af því að hann ber vitni“, eða jafnvel að vitna með því að gefa líf sitt.

4. Einkum í hvaða skilningi var Jesús píslarvottur?

4 Jesús var píslarvottur einkum í upprunalegri merkingu orðsins. Eins og hann sagði Pílatusi kom hann til að ,bera sannleikanum vitni‘. Fólk brást mjög misjafnlega við vitnisburði hans. Sumir meðal almennings voru snortnir af því sem þeir sáu og heyrðu og tóku trú á Jesú. (Jóhannes 2:23; 8:30) Fólk almennt brást hins vegar ókvæða við, einkum trúarleiðtogarnir. Jesús sagði við vantrúaða ættingja sína: „Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond.“ (Jóhannes 7:7) Jesús reitti leiðtoga þjóðarinnar til reiði með því að bera sannleikanum vitni og það leiddi til dauða hans. Já, hann var „votturinn (marʹtys) trúi og sanni“. — Opinberunarbókin 3:14.

„Þér munuð hataðir af öllum“

5. Hvað sagði Jesús snemma á þjónustuferli sínum um ofsóknir?

5 Jesús varaði fylgjendur sína við að þeir yrðu grimmilega ofsóttir ekkert síður en hann. Snemma á þjónustuferli sínum sagði hann áheyrendum sínum í fjallræðunni: „Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki. Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum.“ — Matteus 5:10-12.

6. Hvaða viðvörun gaf Jesús þegar hann sendi postulana 12 út að prédika?

6 Seinna, þegar Jesús sendi postulana 12 út að prédika, sagði hann þeim: „Varið yður á mönnunum. Þeir munu draga yður fyrir dómstóla og húðstrýkja yður í samkundum sínum. Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar.“ En trúaryfirvöldin yrðu ekki ein um að ofsækja lærisveinana. Jesús sagði einnig: „Bróðir mun selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða. Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 10:17, 18, 21, 22) Saga frumkristinna manna vitnar um sannleiksgildi þessara orða.

Saga trúfesti og þolgæði

7. Hvað leiddi til píslarvættisdauða Stefáns?

7 Skömmu eftir dauða Jesú var Stefán grýttur. Hann var fyrsti kristni maðurinn sem líflátinn var fyrir að bera sannleikanum vitni. Hann var „fullur af náð og krafti og gjörði undur og tákn mikil meðal fólksins“. Trúarlegir óvinir hans „gátu ekki staðið gegn visku þeirri og anda, sem hann talaði af“. (Postulasagan 6:8, 10) Fullir öfundar drógu þeir Stefán fyrir æðstaráðið þar sem hann mætti falsákærendum sínum og bar kröftuglega vitni. En að lokum myrtu þeir þennan trúfasta vott. — Postulasagan 7:59, 60.

8. Hvernig brugðust lærisveinarnir í Jerúsalem við ofsóknunum sem fylgdu í kjölfar dauða Stefáns?

8 Eftir morðið á Stefáni ,hófust miklar ofsóknir gegn söfnuðinum í Jerúsalem. Allir dreifðust út um byggðir Júdeu og Samaríu nema postularnir.‘ (Postulasagan 8:1) Létu kristnir menn ofsóknir stöðva prédikun sína? Nei, þvert á móti. Frásagan segir að ,þeir sem dreifst höfðu, hafi farið víðs vegar og flutt fagnaðarerindið‘. (Postulasagan 8:4) Þeim hlýtur að hafa liðið eins og Pétri postula er hann sagði nokkru áður: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 5:29) Þrátt fyrir ofsóknirnar héldu þessir trúföstu og hugrökku lærisveinar áfram að bera sannleikanum vitni þó svo að þeir vissu að það myndi valda þeim meiri erfiðleikum. — Postulasagan 11:19-21.

9. Hvernig voru fylgjendur Jesú ofsóttir áfram?

9 Og þrengingunum linnti ekki. Fyrst er okkur sagt frá Sál, manninum sem lét sér vel líka að Stefán var grýttur. Við lesum: „Sál blés enn ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins. Gekk hann til æðsta prestsins og beiddist bréfa af honum til samkundanna í Damaskus, að hann mætti flytja í böndum til Jerúsalem þá, er hann kynni að finna og væru þessa vegar, hvort heldur karla eða konur.“ (Postulasagan 9:1, 2) Síðan, um árið 44, „lét Heródes konungur leggja hendur á nokkra úr söfnuðinum og misþyrma þeim. Hann lét höggva Jakob bróður Jóhannesar með sverði.“ — Postulasagan 12:1, 2.

10. Hvaða ofsóknarsögu er að finna í Postulasögunni og Opinberunarbókinni?

10 Framhald postulasögunnar inniheldur óafmáanlega sögu af prófraunum, fangelsunum og ofsóknum sem kristnir menn gengu í gegnum. Einn þeirra var Páll sem áður hafði verið ofsækjandi en gerðist síðar postuli. Að öllum líkindum dó hann píslarvættisdauða fyrir hendi rómverska keisarans Nerós um árið 65. (2. Korintubréf 11:23-27; 2. Tímóteusarbréf 4:6-8) Í Opinberunarbókinni, sem var rituð í lok fyrstu aldarinnar, segir af hinum aldraða Jóhannesi postula þar sem hann er fangi á eynni Patmos „fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú“. Bókin nefnir einnig ,Antípas, minn trúa vott, sem deyddur var‘ í Pergamos. — Opinberunarbókin 1:9; 2:13.

11. Hvernig sönnuðust orð Jesú varðandi ofsóknir á frumkristnum mönnum?

11 Allt sannaði þetta orð Jesú: „Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóhannes 15:20) Hinir trúföstu frumkristnu menn voru reiðubúnir að láta lífið fyrir að vinna verkefnið sem þeir fengu frá Drottni Jesú Kristi: „Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ — Postulasagan 1:8.

12. Hvers vegna eru ofsóknir á hendur kristnum mönnum ekki bara liðin tíð?

12 Þeim manni skjátlast hrapallega sem heldur að fylgjendur Jesú hafi sætt slíkri grimmilegri meðferð aðeins til forna. Páll fékk sinn skerf af prófraunum eins og við höfum séð, en hann skrifaði: „Allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.“ (2. Tímóteusarbréf 3:12) Pétur sagði um ofsóknir: „Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ (1. Pétursbréf 2:21) Allt til ,síðustu daga‘, sem nú standa yfir, er fólk Jehóva skotspónn haturs og andstöðu. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Vottar Jehóva hafa hvarvetna sætt ofsóknum, bæði sem einstaklingar og sem hópur, og gildir þá einu hvort þeir hafa búið við einræði eða lýðræði.

Hvers vegna hataðir og ofsóttir?

13. Hvað ættu þjónar Jehóva nú á tímum að hafa í huga varðandi ofsóknir?

13 Við búum flest við frelsi til að prédika og koma friðsamlega saman. En við verðum samt að muna eftir áminningu Biblíunnar um að ,mynd þessa heims sé að breytast‘. (1. Korintubréf 7:31, NW) Hlutirnir geta breyst mjög hratt og ef við erum ekki undir það búin bæði tilfinningalega og andlega er hætta á að við guggnum. Hvernig getum við þá brynjað okkur gegn slíku? Það er okkur öflug vörn að hafa skýrt í huga hvers vegna friðelskandi og löghlýðnir kristnir menn eru hataðir og ofsóttir.

14. Hver var ástæðan fyrir því að kristnir menn voru ofsóttir að sögn Péturs?

14 Pétur postuli ræddi um þetta mál í fyrra bréfi sínu, sem hann skrifaði kringum árið 62-64, þegar kristnir menn um allt Rómaveldi urðu fyrir prófraunum og ofsóknum. Hann sagði: „Þér elskaðir, látið yður eigi undra eldraunina, sem yfir yður er komin yður til reynslu, eins og yður hendi eitthvað kynlegt.“ Í framhaldinu útskýrir Pétur hvað hann á við: „Enginn yðar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það, er öðrum kemur við. En ef hann líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki, heldur gjöri Guð vegsamlegan með þessu nafni.“ Pétur benti á að þeir hafi ekki þjáðst vegna einhverra misgerða heldur vegna þess að þeir voru kristnir. Hefðu þeir velt sér upp úr ,sama spillingardíkinu‘ og fólkið umhverfis þá hefði verið tekið vel á móti þeim. En þeir þjáðust vegna þess að þeir kappkostuðu að uppfylla skyldur sínar sem fylgjendur Krists. Því er eins farið hjá sannkristnum mönnum nú á dögum. — 1. Pétursbréf 4:4, 12, 15, 16.

15. Hvað er mótsagnakennt við meðferðina á vottum Jehóva?

15 Í mörgum heimshlutum er vottum Jehóva hrósað opinberlega fyrir einingu og samvinnu á mótum og við byggingarframkvæmdir, fyrir heiðarleika og iðjusemi, fyrir gott siðferði og fyrirmyndarfjölskyldulíf og jafnvel fyrir heilbrigt útlit og góða hegðun. * Hins vegar er starf þeirra bannað í hvorki meira né minna en 28 löndum þegar þessi orð eru skrifuð og margir þeirra verða fyrir eignatjóni og líkamlegu ofbeldi vegna trúar sinnar. Hvers vegna sæta vottarnir slíkri meðferð þrátt fyrir að þeir séu alls staðar til fyrirmyndar? Og hvers vegna leyfir Guð þetta?

16. Hver er helsta ástæðan fyrir því að Guð leyfir að fólk sitt sé ofsótt?

16 Við ættum fyrst og fremst að hafa hugfast það sem segir í Orðskviðunum 27:11: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ Já, þetta snýst um hið aldagamla deilumál um yfirvaldið yfir alheiminum. Þrátt fyrir kappnógan vitnisburð þeirra sem hafa verið ráðvandir Jehóva í aldanna rás hefur Satan haldið áfram að smána Jehóva eins og hann gerði á dögum hins réttláta Jobs. (Jobsbók 1:9-11; 2:4, 5) Það fer ekki á milli mála að Satan reynir af enn meiri ákafa að sanna mál sitt nú þegar Guðsríki stendur á traustum grunni með trúföstum þegnum og fulltrúum víðs vegar um jörðina. Verða þeir trúfastir Guði í hvaða mótlæti og erfiðleikum sem þeir kunna að lenda í? Hver einasti þjónn Jehóva verður að svara þessari spurningu sjálfur. — Opinberunarbókin 12:12, 17.

17. Hvað átti Jesús við með orðunum „þetta veitir yður tækifæri til vitnisburðar“?

17 Þegar Jesús sagði lærisveinunum frá því sem ætti að gerast við endalok heimskerfisins gaf hann til kynna aðra ástæðu fyrir því að Jehóva leyfir að þjónar sínir séu ofsóttir. Hann sagði: „[Menn munu] draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns. Þetta veitir yður tækifæri til vitnisburðar.“ (Matteus 24:3, 9; Lúkas 21:12, 13) Jesús vitnaði bæði fyrir Heródesi og Pontíusi Pílatusi. Páll postuli var líka ,dreginn fyrir konunga og landshöfðingja‘. Undir handleiðslu Drottins Jesú Krists leitaðist hann við að bera vitni fyrir æðsta valdhafa þess tíma er hann lýsti yfir: „Ég skýt máli mínu til keisarans.“ (Postulasagan 23:11; 25:8-12) Því er eins farið nú á dögum. Oft hafa komið upp erfiðar aðstæður sem hafa skilað góðum vitnisburði frammi fyrir embættismönnum og meðal almennings. *

18, 19. (a) Hvaða gagn höfum við af prófraunum? (b) Hvaða spurningar verða skoðaðar í næstu grein?

18 Að síðustu geta ofsóknir og þrengingar verið sjálfum okkur til góðs. Á hvaða hátt? Lærisveinninn Jakob sagði við kristna bræður sína: „Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði.“ Já, ofsóknir geta fágað trú okkar og eflt þolgæðið. Við hræðumst því hvorki ofsóknir né leitum óbiblíulegra leiða til að komast hjá þeim eða binda enda á þær. Jakob sagði: „Þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.“ — Jakobsbréfið 1:2-4.

19 En ofsóknirnar verða ekki endilega auðveldari þó að Biblían hjálpi okkur að skilja hvers vegna trúfastir þjónar Guðs eru ofsóttir og hvers vegna hann leyfir það. Hvað getur hjálpað okkur að standast þær? Hvað getum við gert þegar við stöndum frammi fyrir ofsóknum? Við leitum svara við þessum mikilvægu spurningum í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. desember 1995, bls. 27-9; 1. september 1994, bls. 26-7 og Vaknið! (enska útgáfu) 22. desember 1993, bls. 6-13.

^ gr. 17 Sjá Vaknið! (enska útgáfu) 8. janúar 2003, bls. 3-11.

Geturðu útskýrt?

• Einkum í hvaða skilningi var Jesús píslarvottur?

• Hvaða áhrif höfðu ofsóknir á frumkristna menn?

• Hvers vegna voru kristnir menn ofsóttir að sögn Péturs?

• Hvers vegna leyfir Jehóva að þjónar sínir séu ofsóttir?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 10, 11]

Kristnir menn á fyrstu öld þjáðust ekki fyrir misgerðir heldur fyrir að vera kristnir.

PÁLL

JAKOB

JÓHANNES

ANTÍPAS

STEFÁN