Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Íhlutun Guðs — hvers getum við vænst?

Íhlutun Guðs — hvers getum við vænst?

Íhlutun Guðs — hvers getum við vænst?

Á ÁTTUNDU öld fyrir okkar tímatal fékk Hiskía, konungur Júda, sem þá var 39 ára, þær fregnir að hann væri með banvænan sjúkdóm. Hann var niðurbrotinn og grátbændi Guð um lækningu. Guð svaraði honum fyrir milligöngu spámanns: „Ég hefi heyrt bæn þína og séð tár þín. Sjá, ég vil enn leggja fimmtán ár við aldur þinn.“ — Jesaja 38:1-5.

Hvers vegna greip Guð inn í við þetta ákveðna tækifæri? Öldum áður hafði Guð lofað hinum réttláta Davíð konungi: „Hús þitt og ríki skal stöðugt standa fyrir mér að eilífu. Hásæti þitt skal vera óbifanlegt að eilífu.“ Guð hafði líka opinberað að Messías ætti að fæðast í ættlegg Davíðs. (2. Samúelsbók 7:16; Sálmur 89:21, 27-30; Jesaja 11:1) Þegar Hiskía veiktist átti hann ekki son og því var hætta á að konungsætt Davíðs myndi deyja út. Í þessu tilfelli þjónaði íhlutun Guðs þeim ákveðna tilgangi að vernda ættlegginn sem Messías átti að koma af.

Fyrir daga kristninnar fann Jehóva sig oft knúinn til að grípa inn í málefni þjóðar sinnar til að uppfylla loforð sín. Móse lýsti yfir í tengslum við frelsun Ísraelsmanna úr ánauðinni í Egyptalandi: „Sökum þess að Drottinn elskar yður og af því að hann vildi halda eiðinn, sem hann sór feðrum yðar, þá leiddi hann yður burt með sterkri hendi.“ — 5. Mósebók 7:8.

Á fyrstu öldinni greip Guð líka oft inn í til að þoka fyrirætlunum sínum áfram. Á leiðinni til Damaskus sá Gyðingur að nafni Sál yfirnáttúrulega sýn sem átti að fá hann til að hætta að ofsækja lærisveina Krists. Eftir sinnaskiptin átti þessi maður, sem fékk nafnið Páll postuli, stóran þátt í að útbreiða fagnaðarerindið meðal þjóðanna. — Postulasagan 9:1-16; Rómverjabréfið 11:13.

Var það regla að Guð gripi inn í?

Var það regla frekar en undantekning að Guð gripi inn í gang mála? Af Ritningunni má sjá skýrt að það var alls ekki reglan. Þó að Guð hafi frelsað ungu Hebreana þrjá úr eldsofninum og spámanninn Daníel úr ljónagryfjunni kom hann ekki í veg fyrir að aðrir spámenn dæju. (2. Kroníkubók 24:20, 21; Daníel 3:21-27; 6:17-23; Hebreabréfið 11:37) Pétur var frelsaður úr fangelsi þar sem Heródes Agrippa fyrsti hafði látið loka hann inni. En þessi sami konungur lét lífláta Jakob postula og Guð gerði ekkert til að koma í veg fyrir þann glæp. (Postulasagan 12:1-11) Guð veitti postulunum mátt til að lækna sjúka og reisa upp dána. En hann féllst ekki á að fjarlægja ,fleininn í holdi‘ Páls postula, sem var ef til vill líkamlegur sjúkleiki af einhverju tagi. — 2. Korintubréf 12:7-9; Postulasagan 9:32-41; 1. Korintubréf 12:28.

Guð stöðvaði ekki ofsóknarhrinu rómverska keisarans Nerós á hendur lærisveinum Krists. Þeir voru pyndaðir, brenndir lifandi og kastað fyrir villidýr. Þessi andstaða kom frumkristnum mönnum hins vegar ekki á óvart og veikti engan veginn trú þeirra á tilvist Guðs. Jesús var búinn að vara lærisveinana við að þeir yrðu dregnir fyrir dómstóla og hann sagði að þeir ættu að vera viðbúnir að þjást og jafnvel deyja fyrir trúna. — Matteus 10:17-22.

Guð er auðvitað fær um að frelsa þjóna sína frá hættum nú á dögum eins og áður fyrr og það ætti ekki að gagnrýna þá sem finnst þeir hafa notið verndar hans. En það er erfitt að segja með algerri vissu hvort Guð hafi gripið inn í eða ekki við slíkar aðstæður. Nokkrir trúfastir þjónar Jehóva særðust í sprengingu í Toulouse og þúsundir dóu í fangabúðum nasista og kommúnista eða við aðrar átakanlegar aðstæður án þess að Guð gerði nokkuð til að koma í veg fyrir það. Hvers vegna grípur Guð ekki inn í í þágu allra þeirra sem hafa velþóknun hans? — Daníel 3:17, 18.

„Tími og tilviljun“

Þegar stórslys eiga sér stað geta allir búist við því að verða fyrir áhrifum, og trúfesti við Guð breytir ekki endilega gangi mála. Þrjátíu manns fórust og hundruð særðust í sprengingunni í Toulouse án þess að þeim væri um að kenna. En Alain og Liliane sluppu ómeidd. Ef litið er víðar verða tugþúsundir manna fórnarlömb glæpa, glannalegs aksturs eða styrjalda og ekki er hægt að gera Guð ábyrgan fyrir ógæfu þeirra. Biblían minnir okkur á að ,tími og tilviljun mæti‘ öllum. — Prédikarinn 9:11.

Menn eru þar að auki undirorpnir veikindum, elli og dauða. Sumum finnst Guð hafa bjargað lífi sínu með kraftaverki eða þeir þakka honum óvæntan bata en fyrr eða síðar deyja þeir. Það á enn eftir að útrýma sjúkdómum og dauða og „þerra hvert tár“af augum manna. — Opinberunarbókin 21:1-4.

Til að svo megi verða er þörf á umfangsmiklum og róttækum breytingum en ekki aðeins að gripið sé inn í endrum og sinnum. Biblían talar um atburð sem nefnist „hinn mikli dagur Drottins“. (Sefanía 1:14) Þegar þessi víðtæka íhlutun á sér stað mun Guð fjarlægja alla illsku. Mannkyninu býðst þá að lifa að eilífu við fullkomnar aðstæður þar sem „hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma“. (Jesaja 65:17) Dánir verða meira að segja reistir upp til lífsins þannig að mestu ógæfu mannsins verður snúið við. (Jóhannes 5:28, 29) Guð, sem er óendanlega kærleiksríkur og gæskuríkur, verður þá búinn að leysa vandamál mannkyns fyrir fullt og allt.

Hvernig Guð grípur inn í nú á dögum

En þetta merkir ekki að Guð hlusti aðgerðalaus á kveinstafi sköpunarverksins. Nú á dögum býður Jehóva öllum mönnum, óháð þjóðerni eða þjóðfélagsstétt, að kynnast sér og rækta persónulegt samband við sig. (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Jesús lýsti þessu ferli með eftirfarandi orðum: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ (Jóhannes 6:44) Guð notar boðskapinn um ríkið, sem þjónar hans boða, til að draga réttsinnað fólk til sín.

Þar að auki hefur Guð bein áhrif á líf þeirra sem eru tilbúnir að lúta leiðsögn hans. Hann ,opnar hjörtu‘ þeirra með heilögum anda sínum til að þeir skilji hver vilji hans er og lifi í samræmi við kröfur hans. (Postulasagan 16:14) Já, Guð sýnir og sannar hve einlægan áhuga hann hefur á hverju og einu okkar með því að gefa okkur tækifæri til að kynnast sér, orði sínu og fyrirætlunum sínum. — Jóhannes 17:3.

Guð hjálpar ekki þjónum sínum nú á dögum með því að frelsa þá á undraverðan hátt heldur gefur hann þeim heilagan anda og „ofurmagn kraftarins“ til að takast á við hverjar þær aðstæður sem upp kunna að koma. (2. Korintubréf 4:7) Páll postuli skrifaði: „Allt megna ég fyrir hjálp hans [Jehóva Guðs], sem mig styrkan gjörir.“ — Filippíbréfið 4:13.

Þess vegna höfum við fulla ástæðu á hverjum degi til að vera Guði þakklát fyrir lífið og vonina um að fá að lifa að eilífu í heimi sem er laus við þjáningar. „Hvað á ég að gjalda Drottni fyrir allar velgjörðir hans við mig?“ spurði sálmaritarinn. „Ég lyfti upp bikar hjálpræðisins og ákalla nafn Drottins.“ (Sálmur 116:12, 13) Með því að lesa þetta tímarit reglulega áttu auðveldara með að skilja hvað Guð hefur gert, er að gera og mun gera sem getur fært þér hamingju núna og trausta framtíðarvon. — 1. Tímóteusarbréf 4:8.

[Innskot á blaðsíðu 6]

„Hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma.“ — Jesaja 65:17.

[Myndir á blaðsíðu 5]

Jehóva kom ekki í veg fyrir að Sakaría væri grýttur á biblíutímanum . . .

né heldur fjöldamorð Heródesar á saklausum drengjum.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Þess er ekki langt að bíða að þjáningar heyra sögunni til, og hinir dánu lifna á ný.