Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Iðkum sjálfstjórn og hljótum launin

Iðkum sjálfstjórn og hljótum launin

Iðkum sjálfstjórn og hljótum launin

„Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt.“ — 1. Korintubréf 9:25.

1. Hvernig hafa milljónir manna vígst Jehóva í samræmi við Efesusbréfið 4:22-24?

EF ÞÚ ert skírður vottur Jehóva ertu búinn að lýsa opinberlega yfir að þú sért fús til að taka þátt í kappleik þar sem eilíft líf er í verðlaun. Þú játaðist undir að gera vilja Jehóva. Mörg okkar urðu að gera ýmsar róttækar breytingar áður en við vígðumst Jehóva, til að vígslan væri gild og Guði þóknanleg. Við gerðum eins og Páll postuli ráðlagði kristnum mönnum: „Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum . . . og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ (Efesusbréfið 4:22-24) Með öðrum orðum, áður en við játuðumst undir vígslu við Guð urðum við að afneita fyrra líferni sem var honum vanþóknanlegt.

2, 3. Hvaða tvenns konar breytingar bendir 1. Korintubréf 6:9-12 á sem eru nauðsynlegar til að hljóta velþóknun Guðs?

2 Orð Guðs fordæmir beinlínis ákveðna þætti gamla persónuleikans sem væntanlegir vottar Jehóva verða að „afklæðast“. Páll tíundaði sumt af því í bréfi sínu til Korintumanna: „Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.“ Síðan benti hann á að kristnir menn fyrstu aldar hefðu gert nauðsynlegar breytingar á sér og bætti við: „Þetta voruð þér, sumir yðar.“ Við tökum eftir að hann segir voruð en ekki eruð. — 1. Korintubréf 6:9-11.

3 Páll lætur þess getið að ýmsar fleiri breytingar geti verið nauðsynlegar því að hann heldur áfram: „Allt er mér leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt.“ (1. Korintubréf 6:12) Margir sem þrá að verða vottar Jehóva nú á dögum átta sig á því að þeir þurfa að neita sér um ýmislegt sem er leyfilegt en ekki gagnlegt eða hefur ekkert varanlegt gildi. Þetta gæti verið eitthvað tímafrekt sem gæti hindrað þá í að gera það sem meira máli skiptir.

4. Í hverju eru vígðir kristnir menn sama sinnis og Páll?

4 Menn vígjast Guði af fúsum og frjálsum vilja, ekki með tregðu rétt eins og það kosti stórkostlegar fórnir. Vígðir kristnir menn eru sama sinnis og Páll sem sagði eftir að hann gerðist fylgjandi Krists: „Sakir [Jesú] hef ég misst allt og met það sem sorp, til þess að ég geti áunnið Krist.“ (Filippíbréfið 3:8) Páll hafnaði fúslega lítilsverðum hlutum til að geta haldið áfram að þjóna Guði.

5. Hvaða kapphlaupi lauk Páll og hvernig getum við gert það líka?

5 Páll sýndi sjálfstjórn í hinu andlega kapphlaupi og gat sagt að lokum: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans.“ (2. Tímóteusarbréf 4:7, 8) Ætli við getum einhvern tíma sagt eitthvað svipað? Við getum það ef við iðkum sjálfstjórn og höldum áfram í hinu kristna kapphlaupi uns það er á enda.

Sjálfstjórn til að gera gott

6. Hvað er sjálfstjórn og á hvaða tveim sviðum þurfum við að sýna hana?

6 Hebresku og grísku biblíuorðin, sem lýsa hugmyndinni „sjálfstjórn“, merkja bókstaflega mann sem hefur vald yfir eða stjórn á sjálfum sér. Þau lýsa oft þeirri hugsun að aftra sjálfum sér frá að gera eitthvað illt. En það er líka augljóst að það þarf vissa sjálfstjórn til að vinna góð verk. Það er meðfædd tilhneiging manna að gera rangt þannig að baráttan er tvíþætt. (Prédikarinn 7:29; 8:11) Við þurfum bæði að forðast að gera illt og neyða okkur til að gera gott. Ein besta leiðin til að forðast að gera illt er reyndar sú að stjórna líkamanum til að gera gott.

7. (a) Um hvað ættum við að biðja, líkt og Davíð? (b) Hvað getur hjálpað okkur að sýna meiri sjálfstjórn?

7 Sjálfstjórn er greinilega nauðsynleg til að halda vígsluheit sitt við Guð. Við þurfum að biðja eins og Davíð: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ (Sálmur 51:12) Við getum ígrundað hvaða kostir fylgja því að forðast það sem er siðferðilega rangt eða skaðlegt fyrir líkamann. Veltu fyrir þér tjóninu sem þú getur valdið með því að forðast það ekki, svo sem alvarlegt heilsutap, sambandsslit eða jafnvel ótímabæran dauða. Hugleiddu svo kosti þess að fylgja þeim lífsvegi sem Jehóva segir okkur að ganga. En til að vera raunsæ verðum við að hafa hugfast að hjartað er svikult. (Jeremía 17:9) Við verðum að vera ákveðin í að verjast tilraunum hjartans til að gera lítið úr gildi þess að fylgja mælikvarða Jehóva.

8. Hvað lærum við af reynslunni? Lýstu með dæmi.

8 Flestir vita af reynslunni að tregða holdsins reynir oft að slökkva eld viljans. Tökum boðunarstarfið sem dæmi. Jehóva hefur yndi af þeim sem vilja taka þátt í þessu áríðandi starfi. (Sálmur 110:3; Matteus 24:14) En fæstum okkar fannst beinlínis auðvelt að læra að prédika meðal almennings. Það útheimti — og útheimtir kannski enn — að við stjórnum líkama okkar, ‚leikum hann hart‘ og ‚gerum hann að þræli okkar‘ í stað þess að láta hann leiða okkur auðveldustu leiðina. — 1. Korintubréf 9:16, 27; 1. Þessaloníkubréf 2:2.

Á öllum sviðum?

9, 10. Hvað er fólgið í því að sýna sjálfstjórn á öllum sviðum?

9 Biblían ráðleggur okkur að ‚neita okkur um allt‘ í merkingunni að sýna sjálfstjórn á öllum sviðum. Ljóst er að þetta er meira en að hafa stjórn á skapi sínu og forðast siðlaust hátterni. Okkur finnst við kannski hafa náð góðri sjálfstjórn á þessum sviðum og getum verið þakklát ef svo er. En hvað um önnur svið í lífinu þar sem það er ekki eins augljóst að við þurfum að sýna sjálfstjórn? Tökum dæmi: Segjum að við búum í landi þar sem velmegun er mikil og lífskjörin góð. Væri þá ekki viturlegt að læra að eyða ekki peningum í óþarfa? Foreldrar ættu að kenna börnunum að kaupa ekki allt sem þeim dettur í hug aðeins af því að það er til og þau langar í það og þau hafa efni á því. En til að kennslan skili árangri þurfa foreldrarnir auðvitað að gefa gott fordæmi. — Lúkas 10:38-42.

10 Það getur bætt viljastyrkinn að læra að neita sér um eitt og annað. Það getur líka kennt okkur að meta betur þá efnislegu hluti sem við eigum og gert okkur skilningsríkari í garð þeirra sem verða af illri nauðsyn að neita sér um ýmis gæði. Slík hófsemi stingur auðvitað í stúf við hið útbreidda viðhorf að ‚maður eigi skilið það besta‘ eða eigi að ‚dekra við sjálfan sig‘. Auglýsingarnar hvetja fólk til að fullnægja löngunum sínum þegar í stað, en það er gert til að viðskiptaheimurinn græði á því. Þetta getur engu að síður gert okkur erfiðara fyrir að sýna sjálfstjórn. Tímarit, sem gefið er út í einu af efnuðu löndunum í Evrópu, sagði nýverið: „Ef þeir sem búa við sárustu örbirgð þurfa að heyja innri baráttu til að halda óæskilegum skyndihvötum í skefjum, hvað þá um hina sem búa í landi er flýtur í mjólk og hunangi, í nægtaþjóðfélagi nútímans?“

11. Hvers vegna er gott að læra að neita sér um hluti en hvers vegna er það erfitt?

11 Ef við eigum erfitt með að greina á milli langana og raunverulegra þarfa gæti verið gott að gera ákveðnar ráðstafanir til að koma í veg fyrir óábyrga hegðun. Segjum að við höfum tilhneigingu til að eyða úr hófi fram og viljum sporna gegn því. Þá gæti verið ráð að einsetja sér að nota ekki kreditkort eða taka aðeins ákveðna fjárhæð með þegar maður fer út að versla. Páll benti á að ‚guðhræðsla samfara nægjusemi sé mikill gróðavegur‘ og bætti við: „Því að ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan. Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.“ (1. Tímóteusarbréf 6:6-8) Gerum við það? Það kostar viljastyrk og sjálfstjórn að lifa einföldu lífi og forðast óþarfar byrðar sem fylgja sjálfsdekri í einhverri mynd. En það er þess virði að læra það.

12, 13. (a) Hvernig kosta samkomurnar sjálfsögun? (b) Á hvaða öðrum sviðum þurfum við að temja okkur sjálfstjórn?

12 Það kostar líka ákveðna sjálfstjórn að sækja safnaðarsamkomur og mót. Við þurfum til dæmis að gæta þess að láta hugann ekki reika meðan á dagskránni stendur. (Orðskviðirnir 1:5) Það getur kostað nokkra sjálfstjórn að trufla ekki aðra með því að hvíslast á við sessunautinn í stað þess að einbeita okkur að dagskránni. Það getur líka kostað sjálfsögun að koma tímanlega á samkomurnar. Og það getur þurft sjálfsögun til að taka sér tíma til að búa sig undir samkomur og taka þátt í þeim.

13 Með því að sýna sjálfstjórn í smáu þjálfumst við í að gera það í stóru. (Lúkas 16:10) Það er skynsamlegt að venja sig á að lesa að staðaldri í Biblíunni og biblíutengdum ritum, nota þau til náms og hugleiða svo það sem við lærum. Það er viturlegt að sýna sjálfsögun gagnvart vinnu, félagsskap, viðhorfum og venjum sem eru ekki skynsamlegar fyrir kristinn mann, eða temja sér að taka ekki þátt í neinu sem gæti stolið dýrmætum tíma frá þjónustunni við Guð. Að vera önnum kafin í þjónustu Jehóva er vernd fyrir mörgu sem gæti annars leitt okkur burt frá andlegu paradísinni í heimssöfnuði Jehóva.

Látum sjálfstjórnina þroska okkur

14. (a) Hvernig ættu börn að læra sjálfstjórn? (b) Hvernig er það til gagns að læra sjálfstjórn á barnsaldri?

14 Nýfædd börn hafa litla sjálfstjórn. Í bæklingi um hegðun barna segir: „Sjálfstjórnin kemur ekki sjálfkrafa eða skyndilega. Ungbörn og smábörn þurfa að fá leiðsögn og stuðning frá foreldrum sínum til að læra að temja sér sjálfstjórn. . . . Sjálfstjórnin fer vaxandi á skólaárunum undir handleiðslu foreldranna.“ Rannsókn á fjögurra ára börnum leiddi í ljós að börn, sem höfðu lært að sýna vissa sjálfstjórn, „voru yfirleitt heilsteyptari, vinsælli, áræðnari, sjálfsöruggari og áreiðanlegri á táningsaldrinum“. Þau börn, sem voru ekki byrjuð að læra þetta, „áttu frekar á hættu að vera einmana, vonsvikin og þrjósk. Þau kiknuðu undan álagi og veigruðu sér við að takast á við krefjandi viðfangsefni“. Ljóst er að barn þarf að læra sjálfsögun til að verða heilsteyptur einstaklingur á fullorðinsárunum.

15. Til hvers bendir taumleysi en hvaða markmið hvetur Biblían okkur til að hafa?

15 Við þurfum líka að læra sjálfstjórn til að verða fullorðin í kristinni trú. Vanti hana er það merki þess að við séum enn andleg börn. Biblían hvetur okkur til að verða ‚fullorðin í dómgreind‘. (1. Korintubréf 14:20) Það ætti að vera markmið okkar að ‚verða einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verða fullþroska og ná vaxtartakmarki Krists fyllingar‘. Hvers vegna? Vegna þess að „vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar“. (Efesusbréfið 4:13, 14) Sjálfstjórn er augljóslega nauðsynleg til að þroskast í trúnni.

Að temja sér sjálfstjórn

16. Hvernig hjálpar Jehóva okkur?

16 Við þurfum á hjálp Guðs að halda til að temja okkur sjálfstjórn, og hún stendur okkur til boða. Orð Guðs er eins og fullkominn spegill sem sýnir hverju við þurfum að breyta, og það leiðbeinir okkur hvernig við getum farið að því. (Jakobsbréfið 1:22-25) Við eigum líka kærleiksríkt bræðrafélag að sem er reiðubúið að hjálpa okkur. Skilningsríkir safnaðaröldungar eru meira en fúsir til að verða okkur að liði. Jehóva gefur okkur fúslega af anda sínum ef við biðjum hann. (Lúkas 11:13; Rómverjabréfið 8:26) Við skulum nýta okkur alla þessa hjálp. Tillögurnar á bls. 19 gætu reynst gagnlegar.

17. Hvaða hvatningu fáum við í Orðskviðunum 24:16?

17 Það er einkar hughreystandi til að vita að Jehóva skuli meta það við okkur þegar við reynum að þóknast honum. Það ætti að vera okkur hvatning til að halda áfram að aga okkur. Gefumst aldrei upp þó að við hrösum hvað eftir annað. „Sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur aftur upp.“ (Orðskviðirnir 24:16) Við höfum ástæðu til að vera ánægð í hvert sinn sem okkur tekst að þóknast Jehóva. Og við megum treysta að Jehóva er líka ánægður með okkur. Vottur nokkur segist hafa verið að hætta reykingum áður en hann vígðist Jehóva. Í hvert sinn sem honum tókst að vera reyklaus í viku umbunaði hann sjálfum sér með því að kaupa eitthvað gagnlegt fyrir peningana sem sjálfstjórnin sparaði honum.

18. (a) Hvað þurfum við að aga til að sýna sjálfstjórn? (b) Hverju lofar Jehóva?

18 Umfram allt skulum við muna að sjálfstjórn snertir bæði hugann og tilfinningarnar. Við sjáum það af orðum Jesú er hann sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matteus 5:28; Jakobsbréfið 1:14, 15) Sá sem hefur lært að stjórna huganum og tilfinningunum á auðveldara með að stjórna líkamanum. Við skulum því bæði vera einbeitt í að forðast hið ranga og að hugsa um það. Ef rangar hugsanir kvikna skulum við hafna þeim tafarlaust. Við getum flúið freistinguna með því að einblína á Jesú og vera bænrækin. (1. Tímóteusarbréf 6:11; 2. Tímóteusarbréf 2:22; Hebreabréfið 4:15, 16) Með því að gera okkar besta förum við eftir ráðleggingunni í Sálmi 55:23: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“

Manstu?

• Á hvaða tvo vegu þurfum við að temja okkur sjálfstjórn?

• Hvað merkir það að ‚neita sér um allt‘?

• Hvaða ráðleggingar um sjálfstjórn vöktu sérstaklega athygli þína?

• Hvar þarf sjálfstjórnin að byrja?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 19]

Að bæta sjálfstjórnina

• Temdu þér sjálfstjórn í smáu.

• Hugleiddu kosti hennar bæði í nútíð og framtíð.

• Gerðu það sem Guð hvetur til í stað þess sem hann bannar.

• Hafnaðu röngum hugmyndum tafarlaust.

• Fylltu hugann af því sem er andlega uppbyggjandi.

• Þiggðu hjálp andlega þroskaðra trúsystkina.

• Forðastu freistandi aðstæður.

• Biddu Guð um hjálp þegar þú verður fyrir freistingu.

[Myndir á blaðsíðu 17, 18]

Sjálfstjórn hjálpar okkur að gera gott.