Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lofum Jehóva „í söfnuðinum“

Lofum Jehóva „í söfnuðinum“

Lofum Jehóva „í söfnuðinum“

JEHÓVA hefur séð fólki sínu fyrir safnaðarsamkomum til að halda því andlega sterku. Við sýnum þakklæti okkar fyrir samkomurnar með því að sækja þær reglulega. Og þar getum við ,hvatt trúsystkini okkar til kærleika og góðra verka‘ en það er mikilvæg leið til að sýna að við elskum hvert annað. (Hebreabréfið 10:24; Jóhannes 13:35) En hvernig getum við hvatt bræður okkar á samkomum?

Svaraðu á samkomum

Davíð konungur skrifaði: „Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig! Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði.“ „Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.“ „Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur.“ — Sálmur 22:23, 26; 35:18; 40:10.

Þegar kristnir menn komu saman til að tilbiðja á dögum Páls postula tjáðu þeir líka trú sína á Jehóva og töluðu um dýrð hans. Þannig uppörvuðu þeir og hvöttu hver annan til kærleika og góðra verka. Núna, löngu eftir að Davíð og Páll voru uppi, sjáum við skýrt ,að dagur Jehóva færist nær‘. (Hebreabréfið 10:24, 25) Heimskerfi Satans stefnir hraðbyri að eyðingu sinni og vandamálin hrannast upp. Við höfum meiri ‚þörf fyrir þolgæði‘ en nokkru sinni fyrr. (Hebreabréfið 10:36) Og hverjir eru betur til þess fallnir að hvetja okkur til þolgæðis en einmitt bræður okkar?

Nú eins og áður fyrr fá safnaðarmenn tækifæri til að tjá trú sína „í söfnuðinum“. Allir geta til dæmis boðist til að svara þegar spurningum er beint til áheyrenda á samkomum. Vanmettu aldrei þau góðu áhrif sem svar þitt getur haft. Athugasemdir um hvernig hægt sé að forðast vandamál eða sigrast á þeim styrkja til dæmis bræður okkar í ásetningi sínum að fylgja meginreglum Biblíunnar. Með því að útskýra ritningarstað, sem vísað er til en stendur ekki útskrifaður í meginmálinu, eða segja frá einhverju sem þú hefur rannsakað geturðu hvatt aðra til að tileinka sér betri einkanámsvenjur.

Alla votta Jehóva ætti að langa til að sigrast á feimni og hlédrægni þegar þeir gera sér grein fyrir því að bæði þeir sjálfir og aðrir njóta góðs af svörum þeirra. Sérstaklega mikilvægt er að öldungar og safnaðarþjónar svari á samkomum þar sem ætlast er til að þeir séu til fyrirmyndar í að taka þátt í samkomum og sækja þær. En hvernig geta þeir sem eiga erfitt með að svara tekið framförum?

Leiðir til að taka framförum

Mundu að svör þín tengjast tilbeiðslunni á Jehóva. Kristin kona í Þýskalandi útskýrir hvernig hún lítur á svör sín: „Þau eru svar mitt við tilraunum Satans til að koma í veg fyrir að fólk Guðs tjái trú sína.“ Nýskírður bróðir í sama söfnuði segir: „Ég bið mikið áður en ég svara.“

Undirbúðu þig vel. Ef þú nemur efnið ekki fyrir fram finnst þér erfitt að svara og svör þín verða ekki jafnáhrifarík. Finna má tillögur í sambandi við að svara á samkomum á bls. 70 í bókinni Aflaðu þér þekkingar í Boðunarskólanum. *

Settu þér það markmið að svara að minnsta kosti einu sinni á hverri samkomu. Það þýðir að þú þarft að undirbúa nokkur svör af því að líklegra er að þú fáir að svara ef þú réttir oft upp hönd. Þú gætir jafnvel sagt stjórnandanum fyrir fram hvaða spurningar þú hefur undirbúið að svara. Þetta er sérstaklega gagnlegt ef þú ert óvanur að svara. Þú gætir verið hikandi við að rétta upp hönd „í stórum söfnuði“ en það hvetur þig til að svara ef þú veist að þetta er þín grein og að sá sem stýrir umræðunum mun leita að þinni hönd.

Svaraðu snemma. Erfitt verkefni verður ekki auðveldara með því að fresta því. Það getur verið gott að svara snemma á samkomunni. Það á eftir að koma þér á óvart hve miklu auðveldara er að svara í annað eða þriðja skiptið þegar þú hefur hert upp hugann og svarað í fyrsta skiptið.

Veldu þér hentugt sæti. Sumum finnst auðveldara að svara ef þeir sitja framarlega í ríkissalnum. Þá er færra sem truflar og líklegra að sá sem stýrir umræðunum taki eftir þér. Ef þú reynir þetta skaltu muna að tala nógu hátt til að allir heyri í þér, sérstaklega ef engir hljóðnemar eru úti í sal.

Hlustaðu vel. Það kemur í veg fyrir að þú endurtakir það sem einhver annar var að enda við að segja. Og svör annarra minna þig kannski á ritningarstað eða eitthvað sem má bæta við hugmyndina í síðasta svari. Af og til getur stutt reynslufrásaga varpað ljósi á það sem er til umfjöllunar. Slíkar athugsemdir eru virkilega gagnlegar.

Lærðu að svara með eigin orðum. Ef þú lest svar upp úr námsefninu bendir það til þess að þú hafir fundið rétta svarið og þetta getur verið góð leið til að byrja að svara. En með því að taka framförum og svara með eigin orðum sýnirðu að þú skilur umræðuefnið. Það þarf ekki að vitna orðrétt í rit okkar. Vottar Jehóva endurtaka ekki bara það sem stendur í ritum þeirra.

Haltu þig við efnið. Athugasemdir, sem tengjast ekki viðfangsefninu eða draga athyglina frá aðalatriðunum, eru óviðeigandi. Svör þín ættu því að tengjast efninu sem er til umræðu. Þá stuðla þau að andlega uppbyggjandi umræðum um stef efnisins.

Vertu hvetjandi. Ein mikilvæg ástæða fyrir því að við svörum á samkomum er að hvetja aðra, og við verðum því að forðast að segja nokkuð sem gæti dregið úr þeim kjark. Svaraðu ekki heldur svo miklu í efnisgreininni að aðrir geti litlu sem engu bætt við. Löng og flókin svör gera hugsunina oft óskýra. Stutt og gagnorð svör geta verið mjög áhrifarík og þau hvetja nýja til að svara þótt stutt sé.

Hlutverk þeirra sem stýra umræðunum

Sá sem stýrir umræðunum hefur það mikilvæga hlutverk að hvetja aðra. Hann sýnir einlægan áhuga á öllum svörum með því að hlusta vel og horfa vingjarnlega á þann sem svarar í stað þess að vera upptekinn af einhverju öðru. Það væri mjög óviðeigandi ef hann hlustaði ekki vel og endurtæki þar af leiðandi að óþörfu það sem kom fram í svarinu eða spyrði spurningar sem nýbúið væri að svara.

Það væri líka letjandi ef hann endursegði reglulega svörin við spurningunum með aðeins öðrum orðum eins og hann væri að gefa í skyn að svarið væri ekki alveg fullnægjandi. Hins vegar er mjög uppörvandi þegar athugasemdir stuðla að frekari umræðum um mikilvægt atriði. Spurningar eins og: „Hvernig á þetta við okkar söfnuð?“ eða: „Hvaða ritningarstaður í greininni styður það sem fram kom?“ draga fram hvetjandi svör sem auka gildi efnisins.

Auðvitað ætti sérstaklega að hrósa nýjum eða feimnum fyrir að svara. Það er hægt að gera einslega eftir námið til að einstaklingurinn fari ekki hjá sér og til að stjórnandinn fái tækifæri til að koma með tillögur þegar það á við.

Sá sem hleypir öðrum ekki að í venjulegu samtali takmarkar tjáskipti. Þeim sem hlusta á hann finnst þeir ekki þurfa að leggja orð í belg. Þeir draga sig í hlé og hlusta með hálfum huga, ef þeir þá hlusta á annað borð. Svipuð staða gæti komið upp ef sá sem stýrir umræðunum segir of mikið og hleypir öðrum lítið að. Hann getur hins vegar spurt aukaspurninga við og við til að hvetja áheyrendur til að svara og örva hugsun þeirra um efnið. Þó ætti að stilla slíkum spurningum í hóf.

Sá sem stýrir umræðunum biður ekki endilega þann sem er fyrstur til að rétta upp hönd um að svara. Það gæti virkað letjandi fyrir þá sem þurfa aðeins meiri tíma til að ákveða hvernig þeir ætla að orða hugsanir sínar. Með því að bíða í stutta stund gefur hann þeim sem hafa ekki svarað tækifæri til þess. Hann sýnir líka góða dómgreind með því að biðja ekki ung börn um að svara spurningum sem þau skilja ekki.

En hvað á hann að gera ef svarið er ekki rétt? Hann ætti að reyna að komast hjá því að gera þann sem svaraði vandræðalegan. Þó að svar sé ekki alveg rétt er oft einhver hluti þess réttur. Hann getur leiðrétt svarið án þess að það verði vandræðalegt með því að beina athyglinni lipurlega að einhverju sem var rétt, endurorða spurninguna eða spyrja aukaspurningar.

Til að hvetja aðra til að svara ætti sá sem stýrir umræðunum að forðast almennar spurningar eins og: „Vill einhver bæta einhverju við?“ Spurningin: „Hver á eftir að svara? Þetta er síðasta tækifærið!“ er kannski vel meint en hún hvetur varla fólk til að tjá sig. Það ætti ekki að láta bræður og systur fá samviskubit yfir því að vera ekki búin að svara í náminu heldur ætti að hvetja þau til að segja frá því sem þau vita vegna þess að það er kærleiksmerki að deila vitneskju sinni með öðrum. Það væri líka betra að sá sem stýrir umræðunum segði ekki eftir að hann biður einhvern um að svara: „Á eftir honum skulum við heyra í bróður . . . og síðan systur . . . .“ Hann ætti fyrst að hlusta á svarið og síðan að ákveða hvort gott væri að fá annað svar.

Það eru sérréttindi að svara

Það er nauðsynlegt fyrir andlega velferð okkar að sækja safnaðarsamkomur en sérréttindi að fá að svara á þeim. Með því að nota þessa einstöku leið til að lofa Jehóva „í söfnuðinum“ fylgjum við fordæmi Davíðs og tökum ráðleggingar Páls alvarlega. Þátttaka okkar í samkomum sýnir að við elskum bræður okkar og erum hluti af hinum stóra söfnuði Jehóva. Hvar annars staðar myndir þú vilja vera þegar ,þú sérð að dagurinn færist nær‘? — Hebreabréfið 10:25.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Gefin út af Vottum Jehóva.

[Myndir á blaðsíðu 9]

Það er bæði viðeigandi að hlusta og svara á safnaðarsamkomum.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Sá sem stýrir umræðunum sýnir einlægan áhuga á hverju svari.