Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Margar spurningar en fá viðunandi svör

Margar spurningar en fá viðunandi svör

Margar spurningar en fá viðunandi svör

AÐ MORGNI allraheilagramessu, 1. nóvember árið 1755, reið öflugur jarðskjálfti yfir Lissabon á meðan flestir borgarbúar voru í kirkju. Þúsundir bygginga hrundu og tugþúsundir manna fórust.

Skömmu eftir hörmungarnar orti franski rithöfundurinn Voltaire ljóðið Poème sur le désastre de Lisbonne (Ljóð um Lissabonhörmungarnar). Þar vísaði hann á bug þeirri staðhæfingu að Guð hefði með hamförunum verið að refsa fólkinu fyrir syndir þess. Hann fullyrti að menn væru þess hvorki umkomnir að skilja né skýra slíkar hörmungar. Voltaire skrifaði:

Náttúran er þögul, til einskis við hana spyrjum;

við þurfum Guð sem talar til mannanna barna.

Voltaire var vitanlega ekki sá fyrsti til að varpa fram spurningum um Guð. Ógæfa og hamfarir hafa alla tíð vakið spurningar í hugum fólks. Fyrir þúsundum ára bar ættfaðirinn Job fram spurningu eftir að hafa misst öll börn sín og fengið hræðilegan sjúkdóm. Hann spurði: „Hví gefur Guð ljós hinum þjáðu og líf hinum sorgbitnu?“ (Jobsbók 3:20) Margir velta fyrir sér hvernig góður og ástríkur Guð getur, að því er virðist, horft aðgerðarlaus upp á allar þjáningarnar og óréttlætið.

Margir hafna með öllu hugmyndinni um skapara sem sé annt um mannkynið þegar blákaldur veruleikinn blasir við, hungursneyðir, styrjaldir, veikindi og dauði. Haft er eftir heimspekingi sem afneitar tilvist Guðs: „Ekkert getur mælt því bót að Guð skuli leyfa barni að þjást, . . . nema auðvitað ef hann er ekki til.“ Margir draga svipaða ályktun af stórhörmungum eins og útrýmingarherferð nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Taktu eftir hvað rithöfundur, sem er Gyðingur, segir í fréttabréfi: „Einfaldasta skýringin á Auschwitz-búðunum er sú að það sé enginn Guð til að skerast í mál manna.“ Gerð var könnun árið 1997 í Frakklandi, þar sem langflestir eru kaþólskrar trúar, og í ljós kom að 40 prósent landsmanna drógu tilvist Guðs í efa sökum þjóðarmorða eins og þeirra sem áttu sér stað í Rúanda árið 1994.

Þrándur í götu trúar?

Hvers vegna gerir Guð ekkert til að koma í veg fyrir þjáningar og hörmungar? Kaþólskur annálaritari staðhæfir að þessi spurning sé mörgum „illur þrándur í götu trúar“. Hann spyr: „Er með einhverju móti hægt að trúa á Guð sem horfir hjálparvana upp á saklaust fólk deyja í milljónatali og heilu hópana strádrepna og gerir ekkert til að koma í veg fyrir það?“

Í ritstjórnargrein kaþólska dagblaðsins La Croix er tekið í sama streng: „Hvort sem um er að ræða harmleiki liðinna alda, náttúruhamfarir, skipulagða glæpastarfsemi, dauða ástvinar eða hörmungar sem tækniþróun hefur leitt af sér, mæna skelfingu lostin augu upp til himins. Hvar er Guð? Þau leita svars. Er hann ekki sá hinn mikli skeytingarlausi og fjarlægi Guð?“

Jóhannes Páll páfi annar tók þetta mál fyrir árið 1984 í páfabréfi sínu Salvifici Doloris. Hann skrifaði: „Þó að tilvist heimsins opni augu mannssálarinnar, ef svo má að orði komast, fyrir tilvist Guðs, visku hans, mætti og mikilleik, varpa illska og þjáningar skugga á þessa ímynd, stundum á afgerandi hátt, og þá einkum í hinni daglegu atburðarás svo mikilla og óverðskuldaðra þjáninga og svo margra misgerða sem ekki er hegnt tilhlýðilega fyrir.“

Getur hugmyndin um ástríkan og almáttugan Guð, eins og Biblían lýsir honum, farið saman við hinar útbreiddu þjáningar sem mannkynið hefur mátt þola? Kemur Guð í veg fyrir hörmungar einstaklinga eða hópa? Gerir hann eitthvað fyrir okkur nú á dögum? Er til „Guð sem talar til mannanna barna“, svo vitnað sé í Voltaire, til að fá svör við þessum spurningum? Svarið er að finna í næstu grein.

[Myndir á blaðsíðu 3]

Eftir að Lissabon eyddist árið 1755 fullyrti Voltaire að slíkir atburðir væru ofar mannlegum skilningi.

[Credit line]

Voltaire: Úr bókinni Great Men and Famous Women. Lissabon: J.P. Le Bas, Praça da Patriarcal depois do terramoto de 1755. Mynd: Museu da Cidade/Lisboa.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Margir draga tilvist Guðs í efa sökum skelfilegra afleiðinga þjóðarmorða eins og framið var í Rúanda.

[Credit line]

AFP PHOTO