Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nú er enn þýðingarmeira að vaka

Nú er enn þýðingarmeira að vaka

Nú er enn þýðingarmeira að vaka

„Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ — MATTEUS 24:42.

1, 2. Hvað bendir til þess að við lifum við endalok heimskerfisins?

„TUTTUGASTA öldin hefur fyrst og fremst mótast af styrjöldum,“ segir rithöfundurinn Bill Emmott. Hann gerir sér vissulega grein fyrir að mannkynið hefur alla tíð mátt þola styrjaldir og ofbeldi en bætir við: „Það var ekki eðlismunur heldur stigsmunur sem gerði 20. öldina ólíka fyrri öldum. Aldrei áður höfðu verið hernaðarátök á heimsvísu. . . . Og rétt eins og til að leggja áherslu á það var ekki aðeins ein heimsstyrjöld heldur tvær.“

2 Jesús Kristur hafði spáð styrjöldum þar sem ,þjóð myndi rísa gegn þjóð‘. En það er aðeins einn þáttur í ,tákninu um komu Krists og endalok veraldar‘. Jesús minntist einnig á hungur, drepsóttir og jarðskjálfta í mikilfenglegum spádómi sínum. (Matteus 24:3, 7, 8; Lúkas 21:6, 7, 10, 11) Slíkar hörmungar hafa á margan hátt orðið umfangsmeiri og alvarlegri. Illska mannsins er mikil eins og sést á viðhorfi hans til Guðs og náungans. Það er augljóst að siðferði hefur hrakað stórlega og glæpir og ofbeldisverk hafa færst í aukana. Menn eru farnir að elska peninga í stað þess að elska Guð — þeir lifa fyrir nautnina. Þetta er allt til vitnis um að við lifum „örðugar tíðir“. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

3. Hvaða áhrif ættu „tákn tímanna“ að hafa á okkur?

3 Hvernig lítur þú á þessa slæmu framvindu? Mörgum stendur á sama um atburði líðandi stundar og eru jafnvel með öllu tilfinningalausir gagnvart þeim. Áhrifa- og menntamenn heimsins gera sér enga grein fyrir hvað „tákn tímanna“ merkir, og ekki hafa trúarleiðtogar gefið viðeigandi leiðsögn hvað það varðar. (Matteus 16:1-3) Jesús hvatti fylgjendur sína á hinn bóginn: „Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ (Matteus 24:42) Jesús var að hvetja fylgjendur sína til að halda vöku sinni stöðuglega, og til þess verðum við að vera árvökur og aðgætin. Og það felur meira í sér en að gera sér grein fyrir að við lifum á síðustu dögum og að ástandið sé slæmt. Það verður að vera bjargföst sannfæring okkar að ,endir allra hluta sé í nánd‘. (1. Pétursbréf 4:7) Fyrst þá verðum við árvökur fyrir alvöru. Við verðum þess vegna að velta fyrir okkur spurningunni: ,Hvernig getum við styrkt sannfæringu okkar að endirinn sé nálægur?‘

4, 5. (a) Hvað gerir okkur enn sannfærðari um að endir þessa illa heimskerfis sé nálægur og hvers vegna? (b) Nefndu eitt sem er líkt með dögum Nóa og nærveru Mannsonarins?

4 Hugsaðu um ástandið fyrir flóðið mikla á dögum Nóa sem var einstæður atburður í sögu mannkyns. Jehóva ‚sárnaði í hjarta sínu‘ hversu slæmt fólkið var orðið. Hann lýsti yfir: „Ég vil afmá af jörðinni mennina, sem ég skapaði.“ (1. Mósebók 6:6, 7) Og það var einmitt það sem hann gerði. Jesús lýsti hliðstæðunum við okkar daga er hann sagði: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins.“ — Matteus 24:37.

5 Það er rökrétt að álykta sem svo að Jehóva líti heim nútímans sömu augum og heiminn fyrir flóðið. Þar sem hann eyddi óguðlegum heimi á dögum Nóa mun hann án efa tortíma óguðlegum heimi okkar tíma. Þegar við skiljum þessar hliðstæður ætti það að gera okkur enn sannfærðari um að endir núverandi heims er nálægur. Hverjar eru hliðstæðurnar? Þær eru að minnsta kosti fimm. Sú fyrsta er ótvíræð viðvörun um komandi eyðingu.

Varaðir við því ,sem enn þá var ekki auðið að sjá‘

6. Hvaða viðvörun gaf Jehóva greinilega á dögum Nóa?

6 Jehóva lýsti yfir á dögum Nóa: „Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann einnig er hold. Veri dagar hans nú hundrað og tuttugu ár.“ (1. Mósebók 6:3) Þegar Guð gaf út þennan úrskurð árið 2490 f.o.t. var það upphafið að endalokum hins óguðlega heims sem þá var. Hugsaðu þér hvað það þýddi fyrir þálifandi menn. Eftir aðeins 120 ár myndi Jehóva láta „vatnsflóð koma yfir jörðina til að tortíma öllu holdi undir himninum, sem lífsandi er í“. — 1. Mósebók 6:17.

7. (a) Hvernig brást Nói við viðvöruninni um flóðið? (b) Hvernig ættum við að bregðast við viðvörunum um endi núverandi heimskerfis?

7 Nói fékk þessa viðvörun áratugum áður en hörmungarnar gengu yfir og hann notaði tímann viturlega til að vinna að björgun sinni. Páll postuli segir: „Nói [fékk] bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu.“ (Hebreabréfið 11:7) Hvað um okkur? Um 90 ár eru liðin síðan síðustu dagar núverandi heimskerfis hófust árið 1914. Það fer ekki á milli mála að við lifum við ,endalokin‘. (Daníel 12:4) Hvernig ættum við að bregðast við viðvörunum sem gefnar hafa verið? „Sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu,“ segir Biblían. (1. Jóhannesarbréf 2:17) Nú er þess vegna rétti tíminn til að leggja kapp á að gera vilja Jehóva.

8, 9. Hvaða viðvaranir hafa verið gefnar á okkar tímum og hvernig eru þær boðaðar?

8 Af námi sínu hafa einlægir biblíunemendur nú á tímum komist að raun um að þetta heimskerfi sé dæmt til eyðingar. Trúum við þessu? Taktu eftir afdráttarlausum orðum Jesú Krists: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.“ (Matteus 24:21) Jesús sagði einnig að hann kæmi sem skipaður dómari Guðs og myndi aðgreina fólk líkt og fjárhirðir aðgreinir sauði frá höfrum. Hinir óverðugu myndu „fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs“. — Matteus 25:31-33, 46.

9 Jehóva hefur minnt fólk sitt á þessar viðvaranir með því að láta hinn ,trúa og hyggna þjón‘ útbýta andlegri fæðu á réttum tíma. (Matteus 24:45-47) Jafnframt er öllum þjóðum, kynkvíslum, tungum og lýðum sagt að ,óttast Guð og gefa honum dýrð, því að komin er stund dóms hans‘. (Opinberunarbókin 14:6, 7) Viðvörunin um að Guðsríki muni bráðlega þurrka út stjórnir manna er óaðskiljanlegur þáttur í boðskapnum um ríkið sem vottar Jehóva prédika. (Daníel 2:44) Það á ekki að gera lítið úr þessari viðvörun. Alvaldur Guð stendur alltaf við loforð sín. (Jesaja 55:10, 11) Hann gerði það á dögum Nóa og hann mun líka gera það núna. — 2. Pétursbréf 3:3-7.

Hömlulaus siðspilling

10. Hvað er hægt að segja um siðspillinguna á dögum Nóa?

10 Það er annað sem er líkt með okkar dögum og Nóa. Jehóva sagði fyrsta manninum og fyrstu konunni að ,uppfylla jörðina‘ mönnum með því að nota getnaðarmáttinn, sem hann gaf þeim, á heiðvirðan hátt innan hjónabandsins. (1. Mósebók 1:28) Óhlýðnir englar á dögum Nóa spilltu mannkyninu með óeðlilegu kynlífi. Þeir komu niður til jarðarinnar, holdguðust og bjuggu með fallegum konum sem síðan gátu af sér ,risana‘ sem voru að hálfu menn og að hálfu illir andar. (1. Mósebók 6:2, 4) Syndum þessara lostafullu engla er líkt við spillinguna í Sódómu og Gómorru. (Júdasarbréfið 6, 7) Þar af leiðandi varð siðspilling útbreidd í þá daga.

11. Hvernig er ástandið í siðferðismálum líkt því sem var á dögum Nóa?

11 En hvað um siðferðisástandið á okkar tímum? Núna á síðustu dögum snýst líf margra um kynlíf. Páll talar um að slíkir menn hafi „glatað allri siðferðisvitund“. Margir hafa „ofurselt sig lausung til að fremja alls konar óhreinleika af græðgi“. (Efesusbréfið 4:19, NW) Klám, samkynhneigð, kynlíf fyrir hjónaband og kynferðisofbeldi gagnvart börnum er daglegt brauð. Sumir fá nú þegar „makleg málagjöld“ í formi kynsjúkdóma, sundrungar í fjölskyldulífinu og annarra samfélagsvandamála. — Rómverjabréfið 1:26, 27.

12. Hvers vegna ættum við að læra að hata hið vonda?

12 Jehóva lét flóðið mikla koma yfir kynóðan heim á dögum Nóa. Við megum aldrei missa sjónar á þeirri staðreynd að okkar dagar eru ekkert frábrugðnir dögum Nóa. Í ,þrengingunni miklu‘ verður jörðin hreinsuð af ,saurlífismönnum, hórkörlum og kynvillingum‘. (Matteus 24:21; 1. Korintubréf 6:9, 10; Opinberunarbókin 21:8) Það er brýnt að við lærum að hata hið vonda og höldum okkur frá aðstæðum sem gætu leitt til saurlifnaðar. — Sálmur 97:10; 1. Korintubréf 6:18.

Jörðin ,fyllist glæpaverkum‘

13. Hvers vegna var jörðin full af ofbeldi á dögum Nóa?

13 Biblían segir um þriðja einkenni daga Nóa: „Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum“ og ofbeldi. (1. Mósebók 6:11) Ofbeldi var ekki nýtt af nálinni. Kain, sonur Adams, myrti réttlátan bróður sinn. (1. Mósebók 4:8) Lamek endurspeglaði ofbeldisanda samtíðarinnar þegar hann gortaði af því að hafa drepið ungan mann, í sjálfsvörn að því er hann sagði. (1. Mósebók 4:23, 24) Það sem var nýtt á dögum Nóa var hve útbreitt ofbeldið var. Þegar óhlýðnir englar giftust konum og gátu af sér afkvæmi, risana, komst ofbeldið á áður óþekkt stig. Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar bendir á að hebreska orðið, sem notað er um þessa ofbeldisfullu risa, merki „fellendurnir“, „þeir sem valda öðrum falli“. (1. Mósebók 6:4, NW, neðanmáls) Fyrir vikið var jörðin „full af glæpaverkum“. (1. Mósebók 6:13) Hugsaðu þér hversu erfitt það hefur verið fyrir Nóa að ala upp börn sín í slíku umhverfi. Nói reyndist samt ,réttlátur fyrir augliti Jehóva í þessari kynslóð‘. — 1. Mósebók 7:1.

14. Hvernig hefur heimurinn fyllst ofbeldi?

14 Ofbeldi hefur fylgt mannkyninu frá ómunatíð. En líkt og á dögum Nóa hefur það aldrei verið útbreiddara en nú. Við heyrum hvað eftir annað um heimilisofbeldi, hryðjuverk, þjóðarmorð og menn sem skjóta fjölda fólks til bana án nokkurs sýnilegs tilefnis. Við allt þetta bætast svo blóðsúthellingar styrjaldanna. Jörðin er aftur orðin full af ofbeldi. Hvers vegna? Hvað hefur stuðlað að þessu aukna ofbeldi? Svarið leiðir í ljós aðra hliðstæðu við daga Nóa.

15. (a) Hvað hefur stuðlað að auknu ofbeldi á síðustu dögum? (b) Hvaða úrslita getum við vænst?

15 Þegar Messíasarríki Guðs var stofnsett á himnum árið 1914 vann hinn krýndi konungur, Jesús Kristur, tímamótaverk. Hann varpaði Satan djöflinum og illum öndum hans niður af himnum til nágrennis jarðarinnar. (Opinberunarbókin 12:9-12) Fyrir flóðið yfirgáfu þeir himneska stöðu sína að eigin frumkvæði en nú var þeim kastað þaðan með valdi. Auk þess geta þeir ekki holdgast núna sem menn til að njóta ólöglegra lystisemda. Í gremju sinni, reiði og ótta við komandi dóm fá þeir menn og stofnanir til að fremja enn hrottalegri glæpi og ofbeldisverk en voru framin á dögum Nóa. Jehóva afmáði heiminn fyrir flóðið þegar óhlýðnir englar og afkvæmi þeirra höfðu fyllt hann vonsku. Þú getur verið viss um að Jehóva tekur einnig í taumana á okkar dögum. (Sálmur 37:10) En þeir sem halda vöku sinni vita að frelsun þeirra er í nánd.

Boðskapurinn prédikaður

16, 17. Hvað er það fjórða sem er líkt með dögum Nóa og okkar?

16 Það fjórða sem er líkt með dögunum fyrir flóðið og okkar dögum er verkið sem Nóa var sagt að vinna. Nói smíðaði gríðarstóra örk en hann var líka ,prédikari‘. (2. Pétursbréf 2:5) Hvaða boðskap prédikaði hann? Prédikun Nóa fól greinilega í sér að hvetja fólk til iðrunar og vara við nálægri eyðingu. Jesús sagði að samtíðarmenn Nóa hafi ,ekki vitað fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt‘. — Matteus 24:38, 39.

17 Vottar Jehóva eru kappsfullir og ötulir í boðunarstarfinu. Fyrir vikið er boðskapurinn um Guðsríki kunngerður um allan heim. Fólk getur heyrt og lesið boðskapinn um ríkið á sínu eigin tungumáli næstum hvar sem er í heiminum. Tímaritið Varðturninn kunngerir ríki Jehóva og er prentað í meira en 25.000.000 eintaka á yfir 140 tungumálum. Já, fagnaðarerindið um Guðsríki er prédikað „um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar“. Og endirinn mun koma þegar þessu verki er lokið að því marki sem Guð vill. — Matteus 24:14.

18. Hvað er líkt með viðbrögðum margra við boðunarstarfi okkar og viðbrögðum flestra samtíðarmanna Nóa?

18 Þegar litið er til þess hve alvarlegt ástand ríkti í andlegum sem siðferðilegum málum fyrir flóðið er ekki erfitt að ímynda sér hvernig fjölskylda Nóa varð aðhlátursefni vantrúaðra nágranna og mátti sæta svívirðingum og spotti. Endirinn kom engu að síður. Á svipaðan hátt eru margir „spottarar“ á síðustu dögum. „En dagur Drottins mun koma sem þjófur,“ segir Biblían. (2. Pétursbréf 3:3, 4, 10) Hann kemur á tilsettum tíma, á því leikur enginn vafi. Honum seinkar ekki. (Habakkuk 2:3) Það er viturlegt að halda vöku sinni.

Fáeinir lifa af

19, 20. Hvað er líkt með flóðinu og eyðingu núverandi heimskerfis?

19 Það er fleira líkt með okkar dögum og dögum Nóa en vonska mannanna og eyðing þeirra. Rétt eins og sumir lifðu flóðið af munu einhverjir lifa af þegar núverandi heimskerfi líður undir lok. Þeir sem lifðu flóðið af voru auðmjúkir og þeir höguðu sér ekki eins og fólk almennt gerði. Þeir hlýddu viðvörun Guðs og héldu sér aðgreindum frá óguðlegum heimi þess tíma. „Nói fann náð í augum Drottins,“ segir Biblían. „[Hann var] vandaður á sinni öld.“ (1. Mósebók 6:8, 9) Af öllum mönnum, sem uppi voru þá, var aðeins ein fjölskylda sem ,frelsaðist — það er átta sálir‘. (1. Pétursbréf 3:20) Og Jehóva fyrirskipaði þeim: „Verið frjósamir, margfaldist og uppfyllið jörðina.“ — 1. Mósebók 9:1.

20 Við erum fullvissuð um það í orði Guðs að „mikill múgur“ muni ,koma úr þrengingunni miklu‘. (Opinberunarbókin 7:9, 14) En hve stór er þessi hópur? Jesús sagði: „Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.“ (Matteus 7:13, 14) Þeir sem komast lífs af úr þrengingunni miklu verða fáir miðað við þá milljarða manna sem nú lifa. En þeir fá kannski um tíma sömu sérréttindi og þeir sem lifðu flóðið af, að eignast börn sem verða hluti af nýju jarðnesku samfélagi. — Jesaja 65:23.

„Vakið“

21, 22. (a) Hvernig hefur umfjöllunin um flóðið gagnast þér? (b) Hver er árstextinn fyrir 2004 og hvers vegna ættum við að fara eftir því sem hann segir okkur?

21 Þó að langt sé um liðið síðan flóðið átti sér stað er það okkur skýr viðvörun sem við megum alls ekki hunsa. (Rómverjabréfið 15:4) Það er augljóst að margt er líkt með dögum Nóa og okkar og það ætti að gera okkur glaðvakandi fyrir mikilvægi þess sem er að gerast og búa okkur undir að Jesús komi eins og þjófur til að fullnægja dómi yfir óguðlegum mönnum.

22 Jesús Kristur hefur nú umsjón með gríðarmiklu andlegu uppbyggingarstarfi. Sannir tilbiðjendur njóta öryggis andlegrar paradísar sem á vissan hátt líkist örkinni. (2. Korintubréf 12:3, 4) Og til að komast lifandi úr þrengingunni miklu verðum við að halda okkur í þessari paradís. Umhverfis hana er heimur Satans sem er viðbúinn að taka við hverjum þeim sem er orðinn andlega syfjaður. Nú er aðkallandi að ,vaka‘ og vera viðbúin degi Jehóva. — Matteus 24:42, 44.

Manstu?

• Hvaða viðvörun gaf Jesús varðandi komu sína?

• Við hvað líkir Jesús nærverutíma sínum?

• Hvað er líkt með dögum Nóa og okkar?

• Hvaða áhrif ætti það að hafa á árvekni okkar að hugleiða það sem er líkt með dögum Nóa og okkar?

[Spurningar]

[Innskot á blaðsíðu 26?

Árstextinn fyrir 2004 verður: ,Vakið, verið viðbúnir.‘ — Matteus 24:42, 44.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Nói tók mark á viðvörun Guðs. Gerum við það líka?

[Myndir á blaðsíðu 24]

„Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins.“