Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Allir skulu boða dýrð Jehóva

Allir skulu boða dýrð Jehóva

Allir skulu boða dýrð Jehóva

„Tjáið Drottni vegsemd og vald. Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir.“ — SÁLMUR 96:7, 8.

1, 2. Hvernig fær Jehóva lof og hverjir eru hvattir til að taka undir?

DAVÍÐ Ísaíson ólst upp sem fjárhirðir í námunda við Betlehem. Oft hlýtur hann að hafa starað upp í víðáttur næturhiminsins er hann gætti sauða föður síns í kyrrlátum og einmanalegum úthögum. Þess konar minningar hafa án efa komið upp í huga hans þegar heilagur andi Guðs blés honum í brjóst að semja og syngja hin fallegu orð í 19. sálminum: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa. Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims.“ — Sálmur 19:2, 5.

2 Hinn stórfenglegi himinn, sköpunarverk Jehóva, boðar dýrð hans orðalaust dag eftir dag, nótt eftir nótt. Sköpunin lætur aldrei af að boða dýrð Guðs og við erum minnt á smæð okkar þegar þessi þögli vitnisburður fer um „alla jörðina“, og allir íbúar hennar taka eftir því. En hinn þögli vitnisburður sköpunarverksins nægir ekki einn sér. Trúfastir menn eru hvattir til að taka undir með raust sinni. Ónefndur sálmaritari ávarpaði trúfasta tilbiðjendur með þessum innblásnu orðum: „Tjáið Drottni vegsemd og vald. Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir.“ (Sálmur 96:7, 8) Þeim sem eiga náið samband við Jehóva er mikið í mun að bregðast við þessari hvatningu. En hvað er fólgið í því að tjá Guði dýrð?

3. Á hvaða hátt tjá menn Guði dýrð?

3 Orðin ein sér nægja ekki. Ísraelsmenn á dögum Jesaja vegsömuðu Guð með vörunum, en fæstir voru einlægir. Jehóva sagði fyrir munn Jesaja: „Þessi lýður nálgast mig með munni sínum og heiðrar mig með vörum sínum, en fjarlægir hjarta sitt langt í burt frá mér.“ (Jesaja 29:13) Allt lof slíkra manna var til einskis. Til að lof hafi einhverja merkingu verður það að koma frá hjarta sem er fullt kærleika til Jehóva og viðurkennir í einlægni óviðjafnanlega dýrð hans. Jehóva er skapari alls. Hann er hinn alvaldi og hinn réttláti, persónugervingur kærleikans. Hann er höfundur hjálpræðis okkar og réttmætur stjórnandi sem allir, bæði á himni og jörð, eiga að vera undirgefnir. (Opinberunarbókin 4:11; 19:1) Ef við trúum því í raun og veru skulum við vegsama hann af öllu hjarta.

4. Hvernig vegsömum við Guð að sögn Jesú og hvernig getum við farið eftir leiðbeiningum hans?

4 Jesús Kristur sagði okkur hvernig ætti að vegsama Guð: „Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir.“ (Jóhannes 15:8) Hvernig berum við mikinn ávöxt? Í fyrsta lagi með því að taka heilshugar þátt í að boða ,fagnaðarerindið um ríkið‘ og sameinast þannig öllu sköpunarverkinu í að ,kunngjöra‘ ,ósýnilegt eðli Guðs‘. (Matteus 24:14; Rómverjabréfið 1:20) Og það sem meira er, við eigum öll, beint eða óbeint, þátt í að gera menn að lærisveinum sem taka síðan undir með okkur að lofsyngja Jehóva. Í öðru lagi ræktum við með okkur ávöxtinn sem heilagur andi framkallar í okkur og kappkostum að líkja eftir afburðaeiginleikum Jehóva Guðs. (Galatabréfið 5:22, 23; Efesusbréfið 5:1; Kólossubréfið 3:10) Fyrir vikið vegsömum við Guð með hegðun okkar.

„Út um alla jörðina“

5. Skýrðu hvernig Páll lagði áherslu á ábyrgð kristinna manna að vegsama Guð með því að segja öðrum frá trú sinni.

5 Í bréfi sínu til Rómverja lagði Páll áherslu á ábyrgð kristinna manna að vegsama Guð með því að segja öðrum frá trú sinni. Mikilvægt stef í Rómverjabréfinu er að þeim einum sem iðka trú á Jesú Krist sé björgunar auðið. Í 10. kaflanum benti Páll á að Ísraelsmenn að holdinu reyndu enn að ávinna sér réttláta stöðu með því fylgja Móselögunum, þrátt fyrir að „Kristur [væri] endalok lögmálsins“. Hann segir því: „Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn — og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða.“ Þaðan í frá hefur ekki verið „munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann; því að ,hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða.‘“ — Rómverjabréfið 10:4, 9-13.

6. Hvernig heimfærði Páll Sálm 19:5?

6 Páll spyr síðan rökfastra spurninga: „Hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?“ (Rómverjabréfið 10:14, 15) Páll segir um Ísraelsmenn: „Þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu.“ Hvers vegna hlýddu Ísraelsmenn ekki? Það var ekki af því að þá skorti tækifæri heldur af því að þá skorti trú. Páll sýnir fram á það með því að vitna í Sálm 19:5 og heimfærir versið upp á boðunarstarf kristinna manna en ekki upp á þöglan vitnisburð sköpunarverksins. Hann segir: „Jú, vissulega, ,raust þeirra hefur borist út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar.‘“ (Rómverjabréfið 10:16, 18) Já, rétt eins og lífvana sköpunin vegsamar Jehóva, prédikuðu frumkristnir menn fagnaðarerindi hjálpræðisins hvarvetna og lofuðu þannig Guð um „alla jörðina“. Páll lýsti því einnig í Kólossubréfinu hversu víða boðskapurinn hafði breiðst út. Hann sagði að fagnaðarerindið hefði verið prédikað „fyrir öllu, sem skapað er undir himninum“. — Kólossubréfið 1:23.

Kappsamir vottar

7. Hvaða ábyrgð hvílir á kristnum mönnum af orðum Jesú að dæma?

7 Páll skrifaði bréfið til Kólossumanna að öllum líkindum um 27 árum eftir dauða Jesú Krists. Hvernig gat boðunarstarfið náð alla leið til Kólossu á ekki lengri tíma? Það var vegna þess að frumkristnir menn voru kappsamir og Jehóva blessaði ötult starf þeirra. Jesús spáði því að fylgjendur sínir yrðu duglegir boðberar er hann sagði: „Fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ (Markús 13:10) Auk þessa spádóms gaf Jesús þau fyrirmæli sem skráð eru í lokaversum Matteusarguðspjalls: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Fylgjendur Jesú tóku til óspilltra málanna að uppfylla þessi orð skömmu eftir að hann steig upp til himna.

8, 9. Hvernig brugðust kristnir menn við fyrirmælum Jesú samkvæmt því sem segir í Postulasögunni?

8 Það fyrsta sem fylgjendur Jesú gerðu eftir að heilögum anda hafði verið úthellt á hvítasunnunni árið 33, var að boða mannfjöldanum í Jerúsalem „stórmerki Guðs“. Boðunarstarf þeirra var árangursríkt og „um þrjú þúsund sálir“ voru skírðar. Lærisveinarnir héldu kappsamir áfram að lofa Guð meðal almennings og varð vel ágengt. — Postulasagan 2:4, 11, 41, 46, 47.

9 Trúarleiðtogarnir tóku fljótlega eftir starfi þessara kristnu manna. Djörfung Péturs og Jóhannesar skapraunaði þeim og því fyrirskipuðu þeir postulunum tveim að hætta að prédika. Postularnir svöruðu: „Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt.“ Eftir að Pétri og Jóhannesi hafði verið ógnað og síðan sleppt fóru þeir til bræðra sinna og sameinuðust þeim í bæn til Jehóva. Þeir báðu hugrakkir: „Veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.“ — Postulasagan 4:13, 20, 29.

10. Hvaða andstaða kom upp gegn kristnum mönnum og hvernig brugðust þeir við?

10 Þessi bæn var í samræmi við vilja Jehóva eins og ljóst varð skömmu síðar. Postularnir voru handteknir en síðan frelsaði engill þá á yfirnáttúrlegan hátt. Engillinn sagði þeim: „Farið og gangið fram í helgidóminum og talið til lýðsins öll þessi lífsins orð.“ (Postulasagan 5:18-20) Postularnir hlýddu og þess vegna hélt Jehóva áfram að blessa þá. „Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur.“ (Postulasagan 5:42) Eindregin andstaða gat augljóslega með engu móti aftrað því að fylgjendur Jesú tjáðu Guði dýrð meðal almennings.

11. Hvernig litu frumkristnir menn á boðunarstarfið?

11 Áður en langt um leið var Stefán handtekinn og grýttur til dauða. Morðið á honum var kveikjan að hatrömmum ofsóknum í Jerúsalem og allir lærisveinarnir, að postulunum frátöldum, neyddust til að yfirgefa borgina og dreifast. Misstu þeir kjarkinn vegna ofsóknanna? Engan veginn. Við lesum: „Þeir sem dreifst höfðu, fóru víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið.“ (Postulasagan 8:1, 4) Það sýndi sig hvað eftir annað hve kappsamir þeir voru að kunngera dýrð Guðs. Í 9. kafla Postulasögunnar segir frá faríseanum Sál frá Tarsus. Þegar hann var á leið til Damaskus að hrinda af stað ofsóknum á hendur lærisveinum Jesú sá hann Jesú í sýn og var sleginn blindu. Í Damaskus var maður að nafni Ananías sem læknaði Sál af blindunni með kraftaverki. Hvert var fyrsta verk Sáls, síðar þekktur sem Páll postuli? Frásagan segir: „[Hann] tók þegar að prédika í samkunduhúsunum, að Jesús væri sonur Guðs.“ — Postulasagan 9:20.

Allir tóku þátt í boðunarstarfinu

12, 13. (a) Hvað segja sagnfræðingar að hafi verið einstakt við frumkristna söfnuðinn? (b) Hvernig samræmast Postulasagan og orð Páls vitnisburði sagnfræðinga?

12 Það er almennt viðurkennt að allir í frumkristna söfnuðinum tóku þátt í boðunarstarfinu. Philip Schaff skrifar um kristna menn í þá daga: „Hver einasti söfnuður var trúboðsfélag og allir kristnir menn voru trúboðar.“ (History of the Christian Church) Í bók sinni The Glorious Ministry of the Laity segir W. S. Williams: „Almennt er álitið að allir kristnir menn í frumkirkjunni, einkum þeir sem höfðu náðargáfurnar, hafi boðað fagnaðarerindið.“ Hann heldur því líka fram að ,það hafi aldrei verið ætlun Jesú að boðunin yrði einkaréttur ákveðinnar kennimannastéttar‘. Jafnvel Celsus, sem var óvinur kristninnar til forna, skrifaði: „Ullariðnaðarmenn, skósmiðir, sútarar, ólærður almúginn, voru ákafir prédikarar fagnaðarboðskaparins.“

13 Postulasagan staðfestir sannleiksgildi þessara ummæla. Eftir að heilögum anda hafði verið úthellt á hvítasunnunni árið 33 boðuðu allir lærisveinarnir, karlar sem konur, stórmerki Guðs meðal almennings. Þeir sem höfðu dreifst vegna ofsóknanna í kjölfar morðsins á Stefáni boðuðu fagnaðarerindið vítt og breitt. Um 28 árum síðar skrifaði Páll öllum hebreskum kristnum mönnum en ekki fámennri klerkastétt: „Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ (Hebreabréfið 13:15) Páll lýsti eigin viðhorfi til prédikunarstarfsins er hann sagði: „Þótt ég sé að boða fagnaðarerindið, þá er það mér ekki neitt hrósunarefni, því að skyldukvöð hvílir á mér. Já, vei mér, ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.“ (1. Korintubréf 9:16) Allir trúfastir kristnir menn á fyrstu öldinni voru greinilega á sama máli.

14. Hvernig er trú tengd prédikun?

14 Já, sannkristinn maður verður að taka þátt í boðunarstarfinu því að það er óaðskiljanlegur þáttur trúarinnar. Páll sagði: „Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.“ (Rómverjabréfið 10:10) Er aðeins fámennur hópur innan kristna safnaðarins — eins konar klerkastétt — sem ástundar trú og ber þar af leiðandi þá ábyrgð að prédika? * Auðvitað ekki! Allir sannkristnir menn rækta með sér lifandi trú á Drottin Jesú Krist og finnst þeir knúnir til að játa trú sína meðal almennings. Að öðrum kosti væri trú þeirra dauð. (Jakobsbréfið 2:26) Nafn Jehóva var lofað alls staðar vegna þess að drottinhollir kristnir menn á fyrstu öldinni létu trú sína í ljós á þennan hátt.

15, 16. Sýndu með dæmum hvernig boðunarstarfið hélt áfram þrátt fyrir vandamál.

15 Jehóva blessaði þjóna sína á fyrstu öldinni með aukningu þrátt fyrir vandamál innan sem utan safnaðarins. Í 6. kafla Postulasögunnar er sagt frá misklíð milli hebreskumælandi og grískumælandi trúskiptinga. Postularnir leystu málið. Við lesum um árangurinn: „Orð Guðs breiddist út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi, einnig snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna.“ — Postulasagan 6:7.

16 Nokkru seinna myndaðist stjórnmálaspenna milli konungsins í Júdeu, Heródesar Agrippu, annars vegar, og Týrverja og Sídóninga hins vegar. Íbúar þessara borga reyndu með skjalli að semja frið við Heródes og flutti hann þá ræðu. Múgurinn hrópaði: „Guðs rödd er þetta, en eigi manns.“ Þegar í stað laust engill Guðs Heródes Agrippu og hann dó „sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina“. (Postulasagan 12:20-23) Hvílíkt áfall fyrir þá sem lögðu traust sitt á mennska leiðtoga. (Sálmur 146:3, 4) Kristnir menn héldu hins vegar áfram að vegsama Jehóva. Þar af leiðandi ,efldist orð Guðs og breiddist út‘ þrátt fyrir óvissu í stjórnmálum. — Postulasagan 12:24.

Þá og nú

17. Undir hvað tóku þeir sem bættust við söfnuðinn á fyrstu öldinni?

17 Já, kristni söfnuðurinn á fyrstu öldinni samanstóð af kappsömum og virkum tilbiðjendum sem lofuðu Jehóva Guð. Allir drottinhollir kristnir menn tóku þátt í því að útbreiða fagnaðarerindið um víða veröld. Sumir hittu móttækilega einstaklinga, eins og Jesús sagði, og kenndu þeim að halda allt það sem hann hafði boðið. (Matteus 28:19) Fyrir vikið óx söfnuðurinn og fleiri og fleiri tóku undir með Davíð konungi og tjáðu Jehóva lof. Allir endurómuðu innblásin orð hans: „Ég vil lofa þig, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu, því að miskunn þín er mikil við mig.“ — Sálmur 86:12, 13.

18. (a) Hvaða munur er á frumkristnum mönnum og kristna heiminum nú á dögum? (b) Um hvað verður rætt í næstu grein?

18 Orð guðfræðiprófessorsins Allisonar A. Trites eru umhugsunarverð með hliðsjón af þessu. Hún ber saman kristna heiminn nú á dögum og kristnina á fyrstu öldinni er hún segir: „Nú á dögum fjölgar yfirleitt í kirkjufélögum með barnsfæðingum (þegar börn fólks innan kirkjunnar taka afstöðu með trúnni) eða með flutningi (þegar fólk skráir sig úr einni kirkju í aðra). Í Postulasögunni stafaði vöxturinn hins vegar af því að fólk tók trú, því að starfsemi kirkjunnar var nýhafin.“ Merkir það að sönn kristni vaxi ekki lengur á þann hátt sem Jesús sagði að hún ætti að gera? Auðvitað ekki. Sannkristnir menn á okkar tímum tjá Guði lof af jafnmiklu kappi og frumkristnir menn. Við ræðum um þetta í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Íslensku orðin „klerkastétt“ og „klerkur“ eru upphaflega dregin af gríska orðinu kleros sem merkir bókstaflega ,hlutkesti‘ eða ,arfleifð‘. Í 1. Pétursbréfi 5:2, 3 vísar orðið kleros til allrar ,hjarðar Guðs‘ sem arfleifðar hans.

Geturðu útskýrt?

• Á hvaða hátt vegsömum við Guð?

• Hvernig heimfærði Páll Sálm 19:5?

• Hvert er sambandið milli trúar og prédikunar?

• Hvað var eftirtektarvert við frumkristna söfnuðinn?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 8, 9]

Himnarnir vitna stöðugt um dýrð Jehóva.

[Rétthafi]

Með góðfúslegu leyfi Anglo-Australian Observatory, ljósmynd eftir David Malin.

[Myndir á blaðsíðu 10]

Boðunarstarfið er nátengt bæninni.