Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir 1. Mósebókar — fyrri hluti

Höfuðþættir 1. Mósebókar — fyrri hluti

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir 1. Mósebókar — fyrri hluti

FYRSTA MÓSEBÓK segir frá tilurð alheimsins, lýsir hvernig jörðin var búin undir ábúð mannsins og greinir frá hvernig maðurinn byggði hana. Nafnið Genesis, sem bókinni er gefið í grísku Sjötíumannaþýðingunni, er því viðeigandi enda merkir það „uppruni“ eða „fæðing“. Móse skrifaði bókina í Sínaíeyðimörk og lauk henni hugsanlega árið 1513 f.o.t.

Fyrsta Mósebók segir frá heiminum fyrir flóðið, lýsir nýju söguskeiði sem rann upp eftir flóðið og greinir frá samskiptum Jehóva Guðs við Abraham, Ísak, Jakob og Jósef. Í þessari grein er fjallað um meginþætti 1. Mósebókar 1:1–11:9 eða fram að þeim tíma er samskipti Jehóva við ættföðurinn Abraham hófust.

HEIMURINN FYRIR FLÓÐIÐ

(1. Mósebók 1:1–7:24)

Fyrsta Mósebók hefst með orðunum „í upphafi“ og er þar horft milljarða ára aftur í tímann. Atburðum hinna sex sköpunardaga, tímabilanna sem hvert um sig afmarkaðist af sérstöku sköpunarstarfi, er lýst eins og þeir hefðu horft við mönnum á jörðu niðri, ef þeir hefðu verið sjónarvottar að þeim. Guð skapaði síðan manninn í lok sjötta sköpunardagsins. Maðurinn óhlýðnast skömmu síðar og er rekinn úr paradís en Jehóva veitir engu að síður von. Fyrsti spádómur Biblíunnar talar um ‚sæði‘ sem á að ónýta áhrif syndarinnar og kremja Satan.

Næstu 16 aldirnar tekst Satan að snúa langflestum mönnum frá Guði nema fáeinum trúmönnum, svo sem Abel, Enok og Nóa. Kain myrðir bróður sinn, hinn réttláta Abel. Síðar „hófu menn að ákalla nafn Drottins“ Jehóva — með óvirðingu að því er best verður séð. Lamek endurómar ofbeldi umheimsins er hann lýsir því í kvæði hvernig hann drap ungan mann, í sjálfsvörn að eigin sögn. Ástandið hríðversnar þegar óhlýðnir englasynir Guðs taka sér eiginkonur og eignast með þeim ofbeldisfulla risa. En hinn trúfasti Nói smíðar örk og varar fólk óttalaust við flóðinu. Sjálfur kemst hann lífs af ásamt fjölskyldu sinni er flóðið gengur yfir.

Biblíuspurningar og svör:

1:16 — Nú voru lýsandi himintungl ekki gerð fyrr en á fjórða degi. Hvernig gat Guð þá myndað ljós á fyrsta degi? Hebreska orðið, sem er þýtt „gjörði“ í 16. versi, er ekki það sama og þýtt er „skapaði“ í 1., 21. og 27. versi. ‚Himinninn‘, þar á meðal lýsandi himintungl, var skapaður löngu áður en „hinn fyrsti dagur“ hófst. En ljósið frá himintunglunum náði ekki niður á yfirborð jarðar fyrr en það „varð ljós“ á fyrsta degi þegar dreifð birta braust gegnum skýjaþykknið og barst niður til jarðar. Nú fóru að sjást dægraskipti á jörðinni er hún snerist um möndul sinn. (1. Mósebók 1:1-3, 5) Ljósgjafarnir voru enn þá ósýnilegir frá jörðu séð. En á fjórða sköpunartímabilinu varð breyting á þegar sól, tungl og stjörnur tóku að „lýsa jörðinni“. (1. Mósebók 1:17) „Guð gjörði“ þau í þeirri merkingu að nú sáust þau frá jörðu.

3:8 — Talaði Jehóva milliliðalaust við Adam? Af Biblíunni sést að Guð talaði oft við mennina fyrir milligöngu engla. (1. Mósebók 16:7-11; 18:1-3, 22-26; 19:1; Dómarabókin 2:1-4; 6:11-16, 22; 13:15-22) Eingetinn sonur hans, nefndur „Orðið“, var helsti talsmaður hans. (Jóhannes 1:1) Mjög líklegt er að Guð hafi talað við Adam og Evu fyrir milligöngu ‚Orðsins‘. — 1. Mósebók 1:26-28; 2:16; 3:8-13.

3:17 — Í hvaða skilningi var jörðin bölvuð og hve lengi? Þegar Guð bölvaði jörðinni merkti það að eftirleiðis yrði mjög erfitt að yrkja hana. Afkomendur Adams fundu sterklega fyrir bölvun jarðar, þyrnum hennar og þistlum, svo sterklega að Lamek, faðir Nóa, talaði um ‚strit handa vorra er jörðin, sem Drottinn bölvaði, bakaði þeim‘. (1. Mósebók 5:29) Jehóva blessaði Nóa og syni hans eftir flóðið og lýsti yfir þeim vilja sínum að þeir uppfylltu jörðina. (1. Mósebók 9:1) Svo er að sjá að bölvuninni hafi þá verið létt af jörðinni. — 1. Mósebók 13:10.

4:15 — Hvernig ‚setti Drottinn Kain merki‘? Biblían segir ekki að það hafi beinlínis verið sett sérstakt merki á Kain sjálfan. Líklega fólst merkið í háalvarlegri tilskipun sem aðrir þekktu og hlýddu og átti að koma í veg fyrir að hann væri drepinn í hefndarskyni.

4:17 — Hvar náði Kain sér í konu? Adam „gat sonu og dætur“. (1. Mósebók 5:4) Kain tók því eina af systrum sínum fyrir konu, eða þá bróður- eða systurdóttur. Systkinahjónabönd voru aftur á móti bönnuð í lögmálinu sem Guð gaf Ísraelsmönnum síðar. — 3. Mósebók 18:9.

5:24 — Hvernig ‚nam Guð Enok burt‘? Enok virðist hafa verið í lífshættu en Guð sá til þess að hann þjáðist ekki af hendi óvina sinna. Enok var „burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta“, skrifaði Páll postuli. (Hebreabréfið 11:5) Þetta merkir ekki að Guð hafi tekið hann upp til himna og að hann hafi lifað þar áfram. Jesús var fyrstur manna til að stíga upp til himins. (Jóhannes 3:13; Hebreabréfið 6:19, 20) Þegar sagt er að Enok hafi verið „burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta“, er hugsanlega átt við að Guð hafi komið honum í spámannlegt leiðsluástand og síðan slökkt líf hans meðan hann var í leiðslu. Enok þjáðist því ekki; hann ‚leit ekki dauðann‘ af hendi óvina sinna.

6:6 — Í hvaða skilningi „iðraðist“ Jehóva þess að hafa skapað mennina? Hebreska orðið, sem hér er þýtt „iðraðist“, lýsir breytingu á afstöðu eða ætlun. Jehóva er fullkominn þannig að hann gerði engin mistök þegar hann skapaði manninn. Hins vegar breyttist afstaða hans til hinnar óguðlegu kynslóðar sem var uppi fyrir flóðið. Jehóva hafði vanþóknun á vonsku mannanna þannig að hann breytti um afstöðu frá því að vera skapari mannsins til þess að vera eyðandi. Að hann skyldi varðveita suma sýnir að ‚iðrun‘ hans sneri aðeins að þeim sem höfðu spillst. — 2. Pétursbréf 2:5, 9.

7:2 — Á hvaða grundvelli var gerður greinarmunur á hreinum dýrum og óhreinum? Greinarmunurinn virðist fyrst og fremst hafa miðast við það hvaða dýr voru hæf til fórnar í tilbeiðsluskyni en ekki við það hvaða dýr mætti hafa til matar. Það var ekki fyrr en eftir flóðið sem menn fóru að borða kjöt af dýrum. Skiptingin í „hrein“ dýr og „óhrein“ til matar kom ekki til skjalanna fyrr en með Móselögunum og henni var síðan hætt þegar Móselögin féllu úr gildi. (Postulasagan 10:9-16; Efesusbréfið 2:15) Nói virðist hafa vitað hvaða dýrum var viðeigandi að fórna í tilbeiðslunni á Jehóva. Jafnskjótt og hann yfirgaf örkina reisti hann Jehóva altari og „tók af öllum hreinum dýrum og hreinum fuglum og fórnaði brennifórn á altarinu“. — 1. Mósebók 8:20.

7:11 — Hvaðan kom allt vatnið í heimsflóðinu? Á öðrum ‚degi‘ eða sköpunartímabili myndaðist „víðátta“ lofthjúpsins er skildi að vötnin sem voru undir og yfir henni. (1. Mósebók 1:6, 7, NW) Vötnin „undir“ víðáttunni voru þá þegar niðri á jörðinni en vötnin „yfir“ henni voru gríðarleg vatnsgufa sem myndaði ‚mikið undirdjúp‘ hátt yfir jörðinni. Það var þetta vatn sem féll til jarðar í flóðinu.

Lærdómur:

1:26. Mennirnir eru skapaðir í Guðs mynd og eru þar af leiðandi færir um að endurspegla eiginleika hans. Við ættum auðvitað að líkja eftir skapara okkar með því að reyna að þroska með okkur kærleika, miskunnsemi, góðvild, gæsku og þolinmæði.

2:22-24. Hjónabandið er fyrirkomulag Guðs. Hjónabandið er varanlegt og heilagt og eiginmaðurinn er höfuð fjölskyldunnar.

3:1-5, 16-23. Hamingjan er undir því komin að viðurkenna drottinvald Jehóva í einkalífi okkar.

3:18, 19; 5:5; 6:7; 7:23. Orð Jehóva rætist alltaf.

4:3-7. Jehóva hafði velþóknun á fórn Abels af því að hann var réttlátur trúmaður. (Hebreabréfið 11:4) Kain var hins vegar trúlítill eins og sést af vondum verkum hans. Hann var öfundsjúkur, hataði bróður sinn og myrti hann að lokum. (1. Jóhannesarbréf 3:12) Og sennilega hugsaði hann harla lítið um fórn sína heldur færði hana rétt til málamynda. Ættum við ekki að færa Jehóva lofgerðarfórnir okkar af heilu hjarta, samfara réttri breytni og réttu hugarfari?

6:22. Nói var mörg ár að smíða örkina en gerði engu að síður eins og Guð hafði mælt fyrir. Þar af leiðandi komst hann lífs af í flóðinu ásamt fjölskyldu sinni. Jehóva talar til okkar í skráðu orði sínu og leiðbeinir okkur fyrir milligöngu skipulagsins. Það er okkur til góðs að hlusta og hlýða.

7:21-24. Jehóva eyðir ekki réttlátum með óguðlegum.

NÝTT SÖGUSKEIÐ RENNUR UPP

(1. Mósebók 8:1–11:9)

Nýtt söguskeið rennur upp hjá mannkyninu eftir flóðið. Mönnum er leyft að borða kjöt en fyrirskipað að forðast blóð. Jehóva heimilar dauðarefsingu fyrir morð og gerir regnbogasáttmálann þar sem hann heitir því að valda aldrei framar heimsflóði. Allt mannkynið kemur af þrem sonum Nóa. Nimrod, sonarsonarsonur hans, gerist „mikill veiðimaður fyrir Drottni“ í andstöðu við hann. Í stað þess að dreifa sér út um jörðina ákveða menn að reisa borg sem nefnd er Babel og byggja turn sem minnismerki um sjálfa sig. Jehóva hindrar þetta með því að rugla tungumál þeirra og tvístra þeim út um alla jörðina.

Biblíuspurningar og svör:

8:11 — Hvar náði dúfan í olíuviðarblaðið ef trén eyðilögðust í flóðinu? Möguleikarnir eru tveir. Annar er sá að olíutré hafi lifað undir vatni í nokkra mánuði meðan flóðið stóð yfir, enda er tréð mjög harðgert. Þegar flóðið sjatnaði stóð olíutréð aftur á þurru landi og gat laufgast á ný. Hinn möguleikinn er sá að olíuviðarblaðið, sem dúfan færði Nóa, hafi verið af ungum sprota sem kom upp eftir að vatnið sjatnaði.

9:20-25 — Hvers vegna bölvaði Nói Kanaan? Að öllum líkindum hafði Kanaan gerst sekur um einhverja svívirðingu gagnvart Nóa, afa sínum. Kam, faðir Kanaans, varð vitni að því en reyndi ekkert til að hindra það heldur slúðraði um það. Hinir synir Nóa, þeir Sem og Jafet, breiddu yfir föður sinn. Hann blessaði þá fyrir það, en Kanaan hlaut bölvun og Kam leið fyrir niðurlægingu sonar síns.

10:25 — Hvernig „greindist fólkið“ á dögum Pelegs? Peleg var uppi á árabilinu 2269 til 2030 f.o.t. „Á hans dögum“ olli Jehóva því að fólkið greindist sundur þegar hann ruglaði tungumál þess og tvístraði því um alla jörðina. (1. Mósebók 11:9) Þannig „greindist fólkið á jörðinni“ á dögum Pelegs.

Lærdómur:

9:1; 11:9. Enginn mannlegur máttur getur ónýtt fyrirætlun Jehóva.

10:1-32. Niðjatal sona Nóa í 10. kafla og ættartalan í 5. kafla, sem er á undan sögunni af flóðinu, tengja allt mannkynið við fyrsta manninn Adam. Assýringar, Kaldear, Hebrear, Sýrlendingar og sumar ættkvíslir Araba eru komnar af Sem. Eþíópar, Egyptar, Kanverjar og sumar ættkvíslir Araba og Afríkumanna eru komnar af Kam. Indó-evrópski kynstofninn á ætt sína að rekja til Jafets. Allir menn eru skyldir og allir eru bornir jafnir fyrir Guði. (Postulasagan 17:26) Þessi staðreynd á að hafa áhrif á framkomu okkar við aðra og álit okkar á þeim.

Orð Guðs er kröftugt

Fyrsti hluti 1. Mósebókar er eina áreiðanlega heimildin um fyrstu aldir mannkynssögunnar. Þar fáum við innsýn í tilgang Guðs með sköpun mannsins. Það er hughreystandi til þess að vita að enginn mannlegur máttur getur hindrað að tilgangur Guðs nái fram að ganga, eins og Nimrod reyndi að gera.

Þú getur notað kaflann „Biblíuspurningar og svör“ til að glöggva þig á sumum torskildum ritningargreinum þegar þú lest vikulega biblíulesturinn fyrir Boðunarskólann. Í ábendingum undir fyrirsögninni „Lærdómur“ kemur fram hvaða gagn sé hægt að hafa af lesefni vikunnar. Eftir því sem við á mætti einnig nota efnið þegar fjallað er um staðbundnar þarfir á þjónustusamkomum. Orð Jehóva er svo sannarlega lifandi og getur haft sterk áhrif á líf okkar. — Hebreabréfið 4:12.