Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Konur sem glöddu hjarta Jehóva

Konur sem glöddu hjarta Jehóva

Konur sem glöddu hjarta Jehóva

„Drottinn umbuni verk þitt, og laun þín verði fullkomin, er þú hlýtur af Drottni.“ — RUTARBÓK 2:12.

1, 2. Hvaða gagn höfum við af því að hugleiða frásögur í Biblíunni af konum sem glöddu hjarta Jehóva?

TVÆR konur sýndu guðsótta og óhlýðnuðust faraó. Vændiskona hafði svo sterka trú að hún hætti lífi sínu til að vernda tvo ísraelska njósnara. Hyggin kona sýndi auðmýkt og bjargaði lífi margra þegar mikið lá við og hún kom í veg fyrir að smurður þjónn Jehóva bakaði sér blóðskuld. Ekkja og móðir, sýndi gestrisni og trú á Jehóva Guð og gaf spámanni Guðs síðustu matarbirgðir sínar. Þetta eru aðeins nokkur dæmi af mörgum úr Biblíunni um konur sem glöddu hjarta Jehóva.

2 Afstaða Jehóva til slíkra kvenna og blessanirnar, sem hann veitti þeim, sýnir okkur að hann gleðst þegar hann sér andlega eiginleika í fari fólks hvort sem um karla eða konur er að ræða. Það getur verið erfitt í heimi nútímans að leggja rækt við andlega eiginleika því að mikil áhersla er lögð á útlit og efnisleg gæði. En það er hægt eins og milljónir guðhræddra kvenna hafa sannað. Slíkar konur eru stór hluti þjóna Guðs nú á tímum. Þessar kristnu konur líkja eftir trú, skynsemi, gestrisni og öðrum góðum eiginleikum guðhræddra kvenna í Biblíunni. Auðvitað vilja kristnir karlmenn einnig líkja eftir eiginleikum þessara fyrirmyndarkvenna til forna. Við skulum nú athuga hvernig við getum gert það enn betur með því að fara nánar yfir frásögur Biblíunnar af konunum sem nefndar voru hér í byrjun greinarinnar. — Rómverjabréfið 15:4; Jakobsbréfið 4:8.

Þær óhlýðnuðust faraó

3, 4. (a) Hvers vegna óhlýðnuðust Sifra og Púa fyrirskipun faraós? (b) Hvernig launaði Jehóva ljósmæðrunum tveim fyrir hugrekki þeirra og guðsótta?

3 Nürnberg-réttarhöldin voru haldin í Þýskalandi eftir seinni heimsstyrjöldina. Þar reyndu margir, sem sakfelldir voru fyrir fjöldamorð, að nota þá afsökun að þeir hefðu aðeins verið að framfylgja skipunum. Berðu þessa einstaklinga saman við tvær ísraelskar ljósmæður, þær Sifru og Púu. Þær bjuggu í Egyptalandi til forna á tímum ónefnds faraós sem var mikill harðstjóri. Faraó varð hræddur þegar hann sá að Hebreunum fjölgaði ört og fyrirskipaði ljósmæðrunum að sjá til þess að öll nýfædd hebresk sveinbörn yrðu tekin af lífi. En hvernig brugðust konurnar við þessari hræðilegu fyrirskipun? Þær „gjörðu eigi það, sem Egyptalandskonungur bauð þeim, heldur létu sveinbörnin lifa“. Hvers vegna létu þessar konur ekki undan ótta við menn? Vegna þess að þær „óttuðust Guð“. — 2. Mósebók 1:15, 17; 1. Mósebók 9:6.

4 Já, ljósmæðurnar leituðu hælis hjá Jehóva og hann var þeim „skjöldur“ og verndaði þær gegn reiði faraós. (2. Samúelsbók 22:31; 2. Mósebók 1:18-20) En það var ekki eina blessunin sem Jehóva veitti þeim. Hann launaði Sifru og Púu einnig með því að gefa þeim fjölda niðja. Og hann veitti þeim þann heiður að láta rita niður nöfn þeirra og verk í innblásið orð sitt svo að komandi kynslóðir gætu lesið um fordæmi þeirra. Nafn faraósins er hins vegar löngu gleymt og grafið. — 2. Mósebók 1:21; 1. Samúelsbók 2:30b; Orðskviðirnir 10:7.

5. Hvernig sýna margar kristnar konur nú á dögum sama viðhorf og Sifra og Púa, og hvernig mun Jehóva launa þeim?

5 Getum við fundið konur eins og Sifru og Púu nú á dögum? Já, vissulega. Á hverju ári boða þúsundir slíkra kvenna lífgandi boðskap Biblíunnar óttalaust í löndum þar sem „skipun konungsins“ bannar það. Þannig tefla þær frelsi sínu og jafnvel lífi í hættu. (Hebreabréfið 11:23; Postulasagan 5:28, 29) Þessar hugrökku konur eru knúnar áfram af kærleika til Guðs og náungans og láta engan koma í veg fyrir að þær miðli öðrum fagnaðarerindinu um ríki Guðs. Af þessum sökum sæta margar kristnar konur andstöðu og ofsóknum. (Markús 12:30, 31; 13:9-13) En Jehóva þekkir verk þessara duglegu og hugrökku kvenna, eins og hann þekkti verk Sifru og Púu, og hann sýnir kærleika sinn til þeirra með því að geyma nöfn þeirra í „lífsins bók“, ef þær eru staðfastar allt til enda. — Filippíbréfið 4:3; Matteus 24:13.

Fyrrverandi vændiskona gleður hjarta Jehóva

6, 7. (a) Hvað vissi Rahab um Jehóva og fólk hans og hvaða áhrif hafði það á hana? (b) Hvernig er Rahab heiðruð í orði Guðs?

6 Árið 1473 f.o.t. bjó vændiskonan Rahab í kanversku borginni Jeríkó. Rahab var greinilega mjög upplýst kona. Þegar tveir ísraelskir njósnarar leituðu hælis á heimili hennar kom í ljós að hún þekkti sögu Ísraels mjög vel. Hún vissi til dæmis hvernig þjóðinni hafði verið bjargað fyrir kraftaverk út úr Egyptalandi þótt það hefði átt sér stað 40 árum áður. Hún hafði líka heyrt af nýlegum sigrum Ísraels á Amorítakonungunum Síhon og Óg. Taktu eftir því hvaða áhrif þessi þekking hafði á hana. Hún sagði við njósnarana: „Ég veit, að Drottinn hefir gefið yður land þetta . . . því að Drottinn, Guð yðar, er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri.“ (Jósúabók 2:1, 9-11) Já, það sem Rahab vissi um Jehóva og verk hans í þágu Ísraels snerti hjarta hennar og varð til þess að hún trúði á hann. — Rómverjabréfið 10:10.

7 Trú Rahab birtist í verki. Hún tók „vinsamlega“ á móti njósnurunum og þegar Ísraelsmenn réðust á Jeríkó hlýddi hún fyrirmælum þeirra og það varð henni til lífs. (Hebreabréfið 11:31; Jósúabók 2:18-21) Það leikur enginn vafi á því að trúarverk Rahab glöddu hjarta Jehóva. Undir innblæstri ritaði kristni lærisveinninn Jakob nafn hennar niður sem fyrirmynd kristinna manna og setti það við hliðina á nafni Abrahams, vinar Guðs. Jakob skrifaði: „Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum, er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið?“ — Jakobsbréfið 2:25.

8. Hvernig blessaði Jehóva Rahab fyrir trú hennar og hlýðni?

8 Jehóva launaði Rahab á marga vegu. Fyrir kraftaverk þyrmdi hann lífi hennar og allra sem leituðu hælis á heimili hennar, það er að segja „ættliði föður hennar . . . og öllum þeim, er henni heyrðu“. Síðan leyfði hann þeim að búa „meðal Ísraels“ þar sem komið var fram við þau eins og innfædda. (Jósúabók 2:13; 6:22-25; 3. Mósebók 19:33, 34) En það er ekki allt og sumt. Jehóva veitti Rahab einnig þann heiður að verða formóðir Jesú Krists. Þetta er einstakt dæmi um ástúðlega umhyggju hans gagnvart konu sem hafði áður verið kanverskur falsguðadýrkandi. * — Sálmur 130:3, 4.

9. Af hverju getur verið uppörvandi fyrir sumar konur að hugleiða hvernig Jehóva kom fram við Rahab og vissar kristnar konur á fyrstu öldinni?

9 Eins og Rahab hafa sumar kristnar konur frá fyrstu öldinni og allt fram á okkar daga snúið baki við siðlausri lífsstefnu til að þóknast Guði. (1. Korintubréf 6:9-11) Margar þeirra ólust eflaust upp í umhverfi sem líkja má við Kanaan til forna þar sem siðleysi var útbreitt og jafnvel talið eðlilegt. En þær höfðu trú sem byggðist á nákvæmri þekkingu á Ritningunni og þess vegna breyttu þær hátterni sínu. (Rómverjabréfið 10:17) Það mætti segja um slíkar konur að ‚Guð hafi ekki blygðast sín fyrir þær, að kallast Guð þeirra‘. (Hebreabréfið 11:16) Hvílíkur heiður!

Hún hlaut blessun fyrir hyggindi sín

10, 11. Hvað varð til þess að Abígail sendi vistir til Davíðs og fór á fund hans?

10 Margar trúfastar konur forðum voru dýrmætar í augum fólks Jehóva vegna þess að þær sýndu mikil hyggindi. Ein þessara kvenna var Abígail kona Nabals sem var auðugur landeigandi í Ísrael. Hyggindi hennar björguðu mannslífum og komu í veg fyrir að Davíð, verðandi konungur Ísraels, bakaði sér blóðskuld. Við getum lesið frásöguna af Abígail í 25. kafla 1. Samúelsbókar.

11 Þegar hér er komið sögu hafa Davíð og fylgjendur hans slegið upp tjöldum í námunda við hjarðir Nabals. Vegna góðvildar í garð Nabals, samlanda síns, gæta Davíð og menn hans hjarða hans dag og nótt án þess að þiggja nokkra borgun fyrir. Þegar Davíð fer að skorta vistir sendir hann tíu sveina til Nabals til að biðja um mat. Nabal fær nú tækifæri til að sýna þakklæti sitt í garð Davíðs og heiðra hann sem smurðan þjón Jehóva. En það gerir hann ekki heldur missir stjórn á skapi sínu, móðgar Davíð og sendir sveinana tómhenta til baka. Þegar Davíð fréttir þetta safnar hann saman 400 vopnuðum mönnum og ætlar að leita hefnda. Abígail heyrir af hörðum viðbrögðum eiginmanns síns og bregst skjótt og skynsamlega við. Án þess að mikið beri á sendir hún vænar birgðir af vistum til Davíðs til að friða hann. Síðan fer hún á fund hans. — Vers 2-20.

12, 13. (a) Hvernig sjáum við að Abígail var hyggin og sýndi Jehóva og smurðum þjóni hans hollustu? (b) Hvað gerði Abígail þegar hún kom heim og hvernig farnaðist henni?

12 Þegar Abígail hittir Davíð biðst hún auðmjúklega miskunnar. Þannig sýnir hún djúpa virðingu fyrir honum sem smurðum þjóni Jehóva. „Veita mun Drottinn herra mínum staðfast hús, af því að herra minn heyir bardaga Drottins,“ segir hún og bætir svo við að Jehóva muni skipa Davíð höfðingja yfir Ísrael. (Vers 28-30) Hún sýnir einnig mikið hugrekki þegar hún minnir Davíð á að ef hann gæti sín ekki geti hefndarför hans leitt til blóðskuldar. (Vers 26, 31) Davíð lætur sér segjast þegar hann sér auðmýkt Abígail, djúpa virðingu hennar og skýra hugsun. Hann segir: „Lofaður veri Drottinn, Ísraels Guð, sem sendi þig í dag á minn fund. Og blessuð séu hyggindi þín og blessuð sért þú sjálf, sem aftrað hefir mér í dag frá að baka mér blóðskuld.“ — Vers 32, 33.

13 Þegar Abígail kemur heim ákveður hún hugrökk að segja eiginmanni sínum frá gjöfunum sem hún gaf Davíð. En þegar hún kemur að honum er hann „drukkinn mjög“. Hún bíður þangað til víman er runnin af honum og segir honum þá fréttirnar. Hver eru viðbrögð Nabals? Hann verður svo agndofa að það virðist sem hann lamist að einhverju leyti. Tíu dögum seinna deyr hann fyrir hendi Guðs. Þegar Davíð fréttir að Nabal sé dáinn biður hann Abígail að kvænast sér en hann dáist greinilega að henni og virðir hana mikils. Abígail tekur bónorði Davíðs. — Vers 34-42.

Getur þú verið eins og Abígail?

14. Hverja af eiginleikum Abígail gætum við viljað sýna í ríkara mæli?

14 Sérð þú einhverja eiginleika í fari Abígail sem þú — hvort sem þú ert karl eða kona — myndir vilja sýna í ríkara mæli? Kannski vilt þú sýna meiri hyggindi þegar vandamál koma upp eða halda ró þinni og tala af skynsemi þegar andrúmsloftið er tilfinningaþrungið. Það væri tilvalið að gera þetta að bænarefni. Jehóva lofar að veita öllum sem ‚biðja í trú‘ visku, hyggindi og skynsemi. — Jakobsbréfið 1:5, 6; Orðskviðirnir 2:1-6, 10, 11.

15. Hvenær er sérstaklega mikilvægt fyrir kristnar konur að sýna sams konar eiginleika og Abígail?

15 Það er sérstaklega mikilvægt fyrir konu að sýna þessa góðu eiginleika ef hún á vantrúaðan eiginmann sem virðir meginreglur Biblíunnar lítið sem ekkert. Hann gæti til dæmis drukkið of mikið. Vonandi breyta þess konar menn hátterni sínu. Margir hafa gert það — oft vegna þess að eiginkonur þeirra sýna mildi, djúpa virðingu og lifa hreinu líferni. — 1. Pétursbréf 3:1, 2, 4.

16. Hvernig sýnir kristin systir, óháð heimilisaðstæðum, að hún metur samband sitt við Jehóva meir en allt annað?

16 Mundu að Jehóva er alltaf reiðubúinn að hjálpa þér sama hvaða erfiðleika þú þarft að þola heima fyrir. (1. Pétursbréf 3:12) Leggðu þig því fram um að styrkja þig andlega. Biddu um visku og rósamt hjarta. Já, nálægðu þig Jehóva með reglulegu biblíunámi, bænum, hugleiðingu og samkomusókn. Þó að eiginmaður Abígail hafi ekki verið andlega sinnaður lét hún það ekki hafa áhrif á kærleika sinn til Guðs og viðhorf sitt til hins smurða þjóns hans. Hún breytti eftir réttlátum meginreglum. Á heimilum þar sem eiginmaðurinn er fyrirmyndarþjónn Guðs þarf kristin eiginkona einnig að muna að hún verður að leggja hart að sér til að byggja upp andlegt hugarfar sitt og viðhalda því. Samkvæmt Biblíunni eiga eiginmenn að annast eiginkonur sínar andlega og efnislega en að lokum eru það hins vegar þær sjálfar sem þurfa að ‚vinna að sáluhjálp sinni með ugg og ótta‘.— Filippíbréfið 2:12; 1. Tímóteusarbréf 5:8.

Hún hlaut „spámanns laun“

17, 18. (a) Hvernig reyndi á trú ekkjunnar í Sarefta? (b) Hvernig brást ekkjan við bón Elía og hvernig launaði Jehóva henni fyrir það?

17 Við lærum mikið af því að athuga hvernig Jehóva annaðist fátæka ekkju á dögum Elía spámanns. Við sjáum til dæmis að hann kann innilega að meta þá sem styðja sanna tilbeiðslu og gefa af sjálfum sér og því sem þeir eiga. Eftir langvarandi þurrka á tímum Elía blasti hungursneyð við mörgum, þar á meðal ekkju og ungum syni hennar sem bjuggu í Sarefta. Þegar þau áttu aðeins eftir til einnar máltíðar kom spámaðurinn Elía í heimsókn. Hann bað mjög sérstakrar bónar. Hann vissi að konan átti lítið en bað hana samt um að nota það síðasta sem hún átti af mjöli og viðsmjöri til að baka „litla köku“ handa sér. Hann bætti síðan við: „Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölskjólan skal eigi tóm verða og viðsmjörið í krúsinni ekki þrjóta, allt til þess dags, er Drottinn gefur regn á jörð.“ — 1. Konungabók 17:8-14.

18 Hvernig hefðir þú brugðist við þessari óvenjulegu bón? Ekkjan í Sarefta gerði sér greinilega ljóst að Elía var spámaður Jehóva og því „gjörði [hún] eins og Elía hafði sagt“. Hvernig sýndi Jehóva að hann kunni að meta gestrisni hennar? Hann vann það kraftaverk að sjá konunni, syni hennar og Elía fyrir mat á þurrkatímanum. (1. Konungabók 17:15, 16) Já, Jehóva veitti ekkjunni í Sarefta „spámanns laun“ þó að hún væri ekki einu sinni ísraelsk. (Matteus 10:41) Sonur Guðs hrósaði líka þessari ekkju þegar hann benti trúlausu fólki í heimabæ sínum Nasaret á gott fordæmi hennar. — Lúkas 4:24-26.

19. Hvernig sýna margar kristnar systur sama viðhorf og ekkjan í Sarefta og hvernig lítur Jehóva á slíkar konur?

19 Nú á dögum hafa margar kristnar konur sama viðhorf og ekkjan í Sarefta. Í hverri viku sýna óeigingjarnar kristnar systur farandumsjónarmönnum og konum þeirra gestrisni þótt þær séu margar hverjar fátækar og eigi fjölskyldur sem þær þurfi að annast. Aðrar bjóða þjónum í fullu starfi í mat, hjálpa þeim sem eru þurfandi eða gefa með öðru móti af sjálfum sér og því sem þær eiga til að styðja boðun Guðsríkis. (Lúkas 21:4) Tekur Jehóva eftir fórnum þeirra? Já, það er alveg öruggt. „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.“ — Hebreabréfið 6:10.

20. Um hvað verður rætt í næstu grein?

20 Á fyrstu öldinni fengu margar guðhræddar konur að þjóna Jesú og postulunum. Í næstu grein ræðum við um hvernig þessar konur glöddu hjarta Jehóva og við skoðum einnig fordæmi kvenna sem þjóna Jehóva af öllu hjarta nú á dögum, jafnvel við erfiðar aðstæður.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Í ættartölu Jesú, eins og hún er skráð í Matteusi, eru fjórar konur nafngreindar — Tamar, Rahab, Rut og María. Allar eru þær hafðar í hávegum í orði Guðs. — Matteus 1:3, 5, 16.

Upprifjun

• Hvernig glöddu þessar konur hjarta Jehóva?

• Sifra og Púa

• Rahab

• Abígail

• Ekkjan í Sarefta

• Hvað getum við lært af því að hugleiða fordæmi þessara kvenna? Nefndu dæmi.

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 18]

Margar trúfastar konur hafa þjónað Guði þrátt fyrir „skipun konungsins“.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Af hverju er trú Rahab til fyrirmyndar?

[Mynd á blaðsíðu 20]

Hvaða eiginleikum í fari Abígail vilt þú líkja eftir?

[Mynd á blaðsíðu 21]

Margar kristnar konur nú á dögum sýna sama viðhorf og ekkjan í Sarefta.