Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stríð hafa breyst

Stríð hafa breyst

Stríð hafa breyst

STRÍÐ hafa alltaf verið grimmileg. Þau hafa alltaf kostað hermenn lífið og alltaf valdið óbreyttum borgurum þjáningum. En á seinni tímum hafa stríð breyst. Að hvaða leyti?

Nú á tímum eru borgarastríð algengustu stríðin — stríð milli andstæðra fylkinga fólks í sama landi. Borgarastríð vara oft lengur en stríð milli þjóða, rista dýpri sár í hjörtu fólks og valda enn meiri eyðileggingu. „Borgarastríð eru blóðug og grimmileg átök þar sem þúsundir falla, konum er nauðgað og fólk hrekst í útlegð. Þegar verst lætur er afleiðingin þjóðarmorð,“ segir spænski sagnfræðingurinn Julián Casanova. Þegar nágrannar fremja grimmdarverk hver gegn öðrum eru sárin oft mjög lengi að gróa.

Eftir að kalda stríðinu lauk hafa tiltölulega fá stríð verið háð milli þjóða. „Öll helstu hernaðarátök, sem skráð voru á árunum 1990-2000, voru innanlandsátök að þrennum undanskildum,“ segir Alþjóðafriðarrannsóknastofnunin í Stokkhólmi.

Þótt innanlandsátök virðist ekki vera jafnógnandi og stríð milli þjóða og fjölmiðlar heimsins fjalli ekki mikið um þau eru sársaukinn og eyðingin, sem þau valda, ekkert síður hrikaleg. Milljónir manna hafa fallið í innanlandsátökum. Síðustu tvo áratugi hafa næstum fimm milljónir manna fallið í hernaðarátökum í aðeins þremur löndum — Afganistan, Súdan og Alþýðulýðveldinu Kongó. Næstum 250.000 manns hafa týnt lífi í grimmilegum átökum á Balkanskaga og 100.000 hafa fallið í valinn í langvarandi skæruhernaði í Kólumbíu.

Borgarastríð koma harðast niður á börnum. Á síðasta áratug dóu rúmlega tvær milljónir barna í borgarastríðum og sex milljónir særðust að sögn flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Æ fleiri börn eru þjálfuð til hermennsku. Drengur nokkur segir: „Þeir þjálfuðu mig. Þeir létu mig hafa byssu. Ég neytti fíkniefna. Ég drap óbreytta borgara — og það marga. Þetta var bara stríð . . . Ég hlýddi bara skipunum. Ég vissi að það var rangt. Mig langaði ekki til þess.“

Mörg börn í löndum þar sem borgarastríð eru daglegt brauð alast upp án þess að hafa nokkurn tíma kynnst friði. Þau lifa í heimi þar sem skólarnir hafa verið eyðilagðir og fólk notar byssur til að tjá sig. Dunja, sem er 14 ára, segir: „Það hafa svo margir verið drepnir . . . Maður heyrir ekki lengur fuglasöng heldur bara grát barna sem hafa misst mömmu sína eða pabba, bróður eða systur.“

Hver er orsökin?

Hvað er það sem kyndir undir grimmilegum borgarastríðum? Þjóðernis- og ættflokkahatur, trúarlegur ágreiningur, óréttlæti og umbrot í stjórnmálum eru algengar orsakir borgarastríða. Önnur meginorsök er græðgi — peninga- og valdagræðgi. Oft fær græðgin stjórnmálaleiðtoga til að kynda undir hatri sem brýst svo út í ófriði. Í skýrslu Alþjóðafriðarrannsóknastofnunarinnar í Stokkhólmi kemur fram að margir, sem taka þátt í vopnuðum bardögum, „láta stjórnast af persónulegum hagsmunum“. Þar stendur einnig: „Græðgi birtist í mörgum myndum, allt frá vopnuðum unglingum, sem ræna þorp, upp í stórfelld demantaviðskipti hernaðar- og stjórnmálaleiðtoga.“

Það gerir illt verra að ódýr og banvæn vopn skuli vera mjög auðfáanleg. Á hverju ári verða skotvopn um 500.000 manns að aldurtila — aðallega konum og börnum. Í einu Afríkulandi kostar AK-47 hríðskotariffill ekki meira en kjúklingur. Því miður eru byssur sums staðar að verða næstum jafnalgengar og kjúklingar. Áætlað er að um 500 milljónir skotvopna séu til í heiminum — eitt á hverja 12 jarðarbúa.

Eiga hörmuleg borgarastríð eftir að einkenna 21. öldina? Er hægt að stöðva borgarastríð í eitt skipti fyrir öll? Hætta menn einhvern tíma að drepa aðra? Fjallað verður um það í næstu grein.

[Rammagrein á blaðsíðu 4]

Hörmulegar afleiðingar borgarastríða

Í hinum grimmilegu borgarastríðum þar sem ekki er beitt háþróuðum vopnum eru 90 prósent fórnarlambanna óbreyttir borgarar en ekki hermenn. „Ljóst er að börn eru í auknum mæli skotmörk í vopnuðum bardögum en falla ekki aðeins af tilviljun,“ segir Graça Machel sem er sérfræðingur framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um áhrif vopnaðra átaka á börn.

Nauðganir eru stundaðar sem úthugsuð hertækni. Á sumum stríðshrjáðum svæðum nauðga uppreisnarmenn næstum öllum unglingsstúlkum í þorpunum sem þeir ráðast á. Það er gert til að eyðileggja fjölskyldubönd og vekja ótta meðal óvina af öðrum þjóðflokki.

Hungursneyðir og sjúkdómar koma í kjölfar stríða. Borgarastríð hefur í för með sér að akuryrkja er í lágmarki, heilbrigðisþjónusta er af skornum skammti og lítil hjálp berst frá öðrum löndum til þeirra sem þurfa á henni að halda. Í rannsókn á borgarastríði í einu Afríkulandi kom fram að 20 prósent fórnarlambanna létust af völdum sjúkdóma og 78 prósent dóu úr hungri. Aðeins 2 prósent létust í sjálfum bardögunum.

Að meðaltali deyr einhver eða missir útlim af völdum jarðsprengna á 22 mínútna fresti. Talið er að 60 til 70 milljónir jarðsprengna sé að finna í rúmlega 60 löndum.

Fólk neyðist til að yfirgefa heimili sín. Núna eru um 50 milljónir flóttamanna í heiminum — og helmingur þeirra er börn.

[Mynd á bls. 2]

FORSÍÐA, drengur: Mynd eftir Chris Hondros/Getty Images

[Mynd á bls. 3]

Ljósmynd: Chris Hondros/Getty Images