Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir 1. Mósebókar — síðari hluti

Höfuðþættir 1. Mósebókar — síðari hluti

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir 1. Mósebókar — síðari hluti

FYRSTA MÓSEBÓK nær yfir 2369 ár af sögu mannkyns, frá sköpun Adams, fyrsta mannsins, til dauða Jósefs, sonar Jakobs. Fjallað var um fyrstu 10 kaflana og fyrstu 9 vers 11. kaflans í síðasta tölublaði þessa tímarits, en sá hluti bókarinnar nær yfir tímann frá sköpuninni fram til þess er Babelturninn var reistur. * Í þessari grein er farið yfir það sem eftir er af 1. Mósebók og sagt frá samskiptum Guðs við Abraham, Ísak, Jakob og Jósef.

ABRAHAM VERÐUR VINUR GUÐS

(1. Mósebók 11:10–23:20)

Um 350 árum eftir flóðið fæðist maður sem Guði þykir sérlega vænt um. Hann er af ætt Sems Nóasonar. Hann heitir Abram en nafninu er síðar breytt í Abraham. Að boði Guðs tekur Abram sig upp og flytur frá borginni Úr í Kaldeu og býr eftir það í tjöldum í landinu sem Jehóva lofar að gefa honum og afkomendum hans. Vegna trúar sinnar og hlýðni er Abraham síðar kallaður „Guðs vinur“. — Jakobsbréfið 2:23.

Jehóva lætur til skarar skríða gegn óguðlegum íbúum Sódómu og grannborga hennar en Lot og dætrum hans er forðað. Abraham eignast soninn Ísak eins og Guð hafði lofað. Mörgum árum síðar reynir Jehóva trú Abrahams þegar hann segir honum að færa þennan son að fórn. Abraham er reiðubúinn að hlýða en engill stöðvar hann. Enginn vafi leikur á trú Abrahams, og Jehóva lofar honum að allar þjóðir hljóti blessun vegna afkvæmis hans. Abraham syrgir Söru, eiginkonu sína, sárt þegar hún deyr.

Biblíuspurningar og svör:

12:1-3 — Hvenær gekk Abrahamssáttmálinn í gildi og hve lengi stóð hann? Sáttmáli Jehóva við Abram, þess efnis að af honum skyldu „allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta“, mun hafa gengið í gildi þegar Abram hélt yfir Efrat á leið til Kanaanlands. Þetta hlýtur að hafa verið 14. nísan árið 1943 f.o.t. — 430 árum áður en Ísraelsmenn voru frelsaðir frá Egyptalandi. (2. Mósebók 12:2, 6, 7, 40, 41) Sáttmálinn við Abraham er ‚ævinlegur sáttmáli‘. Hann er í gildi uns allar ættkvíslir jarðar hafa hlotið blessun og öllum óvinum Guðs hefur verið eytt. — 1. Mósebók 17:7; 1. Korintubréf 15:23-26.

15:13 — Hvenær rættist það að niðjar Abrams yrðu þjáðir í 400 ár? Þetta tímabil hófst árið 1913 f.o.t. þegar Ísak sonur hans, þá 5 ára, var vaninn af brjósti og Ísmael hálfbróðir hans, sem var 19 ára, „gerði gys“ að honum. (1. Mósebók 21:8-14, NW; Galatabréfið 4:29) Því lauk árið 1513 f.o.t. með frelsun Ísraelsmanna úr ánauðinni í Egyptalandi.

16:2 — Var það rétt af Saraí að bjóða Abram ambáttina Hagar fyrir eiginkonu? Boð Saraí var í takt við þá siðvenju samtímans að konu, sem gat ekki alið manni sínum barn, væri skylt að láta honum í té hjákonu til að eignast erfingja. Fjölkvæni kom fyrst til í ættlegg Kains og sumir tilbiðjendur Jehóva virðast hafa tekið það upp þegar tímar liðu. (1. Mósebók 4:17-19; 16:1-3; 29:21-28) En Jehóva sagði aldrei skilið við hina upphaflegu einkvænisreglu. (1. Mósebók 2:21, 22) Nói og synir hans, sem áttu að ‚vera frjósamir og uppfylla jörðina‘, virðast allir hafa verið einkvænismenn. (1. Mósebók 7:7; 9:1; 2. Pétursbréf 2:5) Og Jesús Kristur staðfesti einkvænisregluna. — Matteus 19:4-8; 1. Tímóteusarbréf 3:2, 12.

19:8 — Var rangt af Lot að bjóða Sódómubúum dætur sínar? Samkvæmt siðfræði Austurlanda var gestgjafa skylt að vernda gesti sína, jafnvel þótt hann stofnaði sér í bráða lífshættu með því. Lot var tilbúinn til þess. Hann sýndi það hugrekki að fara út til fundar við mannfjöldann, loka á eftir sér og standa einn á móti fjöldanum. Þegar hann bauð skrílnum dætur sínar var hann líklega búinn að gera sér grein fyrir því að gestirnir væru sendiboðar Guðs, og hann hugsaði kannski sem svo að Guð gæti verndað dætur hans, rétt eins og hann verndaði Söru frænku hans í Egyptalandi. (1. Mósebók 12:17-20) Það fór þó svo að dætrunum var borgið.

19:30-38 — Sá Jehóva í gegnum fingur við Lot fyrir að verða ölvaður og eignast syni með báðum dætrum sínum? Jehóva umber hvorki sifjaspell né drykkjuskap. (3. Mósebók 18:6, 7, 29; 1. Korintubréf 6:9, 10) Sjálfur harmaði Lot ‚ólögleg verk‘ Sódómubúa. (2. Pétursbréf 2:6-8) Sú staðreynd að dætur hans skyldu bera í hann vín svo að hann varð ölvaður bendir sterklega til þess að þær hafi vitað að hann myndi ekki eiga kynmök við þær, væri hann allsgáður. En þau voru útlendingar í landinu og dæturnar hugðu að þetta væri eina leiðin til að koma í veg fyrir að ætt þeirra dæi út. Frásagan er sögð í Biblíunni til að vekja athygli á skyldleika Móabíta (komnir af Móab) og Ammóníta (komnir af Ben-Ammí) við Ísraelsmenn sem voru afkomendur Abrahams.

Lærdómur:

13:8, 9. Abraham er skínandi dæmi um það hvernig hægt er að setja niður ágreining. Við ættum aldrei að fórna friðsamlegu sambandi við aðra fyrir fjárhagslegan ávinning, smekk eða stolt.

15:5, 6. Þegar Abraham var orðinn aldraður og hafði enn ekki eignast son lagði hann málið fyrir Jehóva Guð. Jehóva svaraði honum og hughreysti hann svo að „Abram trúði Drottni“. Við styrkjum trúna með því að ljúka upp hjarta okkar fyrir Jehóva í bæn, taka við loforðum hans í Biblíunni og hlýða honum.

15:16. Jehóva dró það í fjóra ættliði að fullnægja dómi sínum á Amorítum (öðru nafni Kanaanítum). Hvers vegna? Vegna þess að hann er þolinmóður Guð. Hann beið uns útséð var um að þeir bættu ráð sitt. Við þurfum að vera þolinmóð líkt og Jehóva.

18:23-33. Jehóva tortímir ekki fólki af handahófi heldur varðveitir réttláta.

19:16. Lot „hikaði við“ og englarnir urðu næstum að draga hann og fjölskyldu hans út úr Sódómu. Við ættum alltaf að vera okkur meðvituð um tímann meðan við bíðum eftir að þessi illi heimur líði undir lok.

19:26. Það væri heimskulegt að horfa með eftirsjá til þess sem við höfum sagt skilið við í heiminum eða láta það draga til sín athygli okkar.

JAKOB EIGNAST 12 SYNI

(1. Mósebók 24:1–36:43)

Abraham kemur því í kring að Ísak gangi að eiga Rebekku, konu sem trúir á Jehóva. Rebekka elur honum tvíburana Esaú og Jakob. Esaú fyrirlítur frumburðarréttinn og selur hann Jakobi sem hlýtur síðan blessun föður síns. Jakob flýr til Paddan-aram þar sem hann kvænist Leu og Rakel og gætir sauða föður þeirra í um það bil 20 ár áður en hann leggur land undir fót með fjölskyldu sinni. Hann eignast 12 syni og nokkrar dætur með Leu, Rakel og tveim ambáttum þeirra. Hann glímir við engil, hlýtur blessun og nafni hans er breytt í Ísrael.

Biblíuspurningar og svör:

28:12, 13 — Hvað þýddi draumur Jakobs um ‚stigann‘? Þessi „stigi“, hugsanlega úr steini, táknaði að það ættu sér stað samskipti milli himins og jarðar. Að englar Guðs skyldu ganga upp og niður stigann merkti að englar gegni mikilvægri þjónustu í samskiptum Jehóva og manna sem hann hefur velþóknun á. — Jóhannes 1:51.

30:14, 15 — Hvers vegna skipti Rakel á nokkrum ‚ástareplum‘ og tækifæri til að verða barnshafandi? Hér er átt við ávöxt jurtar, sem nefnd er alrúna, og var hann notaður sem deyfilyf og til að stilla eða koma í veg fyrir krampa. Ávöxturinn var einnig talinn geta örvað kynhvöt fólks, aukið frjósemi eða stuðlað að getnaði. (Ljóðaljóðin 7:13) Biblían lætur ósagt hvað Rakel gekk til með þessum skiptum en hún kann að hafa hugsað með sér að „ástareplin“ auðvelduðu sér að verða barnshafandi, og myndu þar með binda enda á þá smán hennar að geta ekki eignast barn. En það liðu nokkur ár þangað til Jehóva „opnaði móðurlíf hennar“. — 1. Mósebók 30:22-24.

Lærdómur:

25:23. Jehóva getur séð arfgerð ófæddra barna og beitt þeirri vitneskju til að ákveða hvern hann velur til að þjóna tilgangi sínum. Hann ákveður þó ekki örlög einstakra manna fyrir fram. — Hósea 12:4; Rómverjabréfið 9:10 -12.

25:32, 33; 32:24-29. Jakob mat mikils það sem heilagt var eins og sést af því að hann lét sér annt um að fá frumburðarréttinn og glímdi næturlangt við engil til að hljóta blessun. Jehóva hefur trúað okkur fyrir mörgu sem er heilagt, til dæmis því að eiga samband við sig og skipulag sitt. Hann hefur trúað okkur fyrir lausnargjaldinu, Biblíunni og voninni um Guðsríki. Líkjum eftir Jakobi og sýnum að við kunnum að meta þetta.

34:1, 30. Erfiðleikarnir, sem ‚stofnuðu Jakobi í ógæfu‘, hófust með því að Dína vingaðist við fólk sem elskaði ekki Jehóva. Við verðum að vanda val vina okkar.

JEHÓVA BLESSAR JÓSEF Í EGYPTALANDI

(1. Mósebók 37:1–50:26)

Synir Jakobs öfunda Jósef, bróður sinn, og selja hann í þrælkun. Jósef er varpað í fangelsi í Egyptalandi vegna þess að hann er trúr og sýnir það hugrekki að fylgja siðferðiskröfum Guðs. Að lokum er hann sóttur í fangelsið til að túlka drauma faraós en þeir boða sjö nægtaár og sjö ára hungursneyð í kjölfarið. Jósef er þá gerður að matvælaráðherra Egyptalands. Bræður hans koma til Egyptalands til að afla matvæla eftir að hungursneyðin skellur á. Fjölskyldan sameinast á ný og sest að í hinu frjósama Gósenlandi. Jakob blessar syni sína á dánarbeðinu og ber fram spádóm sem boðar mikla og örugga blessun á ókomnum öldum. Jarðneskar leifar Jakobs eru fluttar til Kanaanlands og greftraðar þar. Þegar Jósef deyr 110 ára að aldri er líkami hans smurður og síðar fluttur til fyrirheitna landsins. — 2. Mósebók 13:19.

Biblíuspurningar og svör:

43:32 — Hvers vegna höfðu Egyptar andstyggð á því að matast með Hebreum? Ástæðan kann að hafa verið trúarfordómar eða kynþáttahroki. Auk þess fyrirlitu Egyptar hjarðmenn. (1. Mósebók 46:34) Hvers vegna? Hugsanlegt er að hjarðmenn hafi verið ein af lægstu stéttunum í þjóðskipulagi Egypta. Einnig má vera að ræktanlegt land hafi verið af skornum skammti og Egyptar hafi þess vegna fyrirlitið þá sem vildu fá beitiland fyrir búpening.

44:5 — Notaði Jósef í raun og veru bikar til að spá í? Silfurbikarinn og það sem sagt var um hann var sennilega liður í dulargervi Jósefs sem var trúfastur tilbiðjandi Jehóva. Hann notaði ekki bikarinn til að spá í frekar en Benjamín stal honum.

49:10 — Hvað merkja „veldissprotinn“ og „ríkisvöndurinn“? Veldissproti er stafur sem valdhafi notar til tákns um konunglegt vald sitt. Ríkisvöndurinn er langur stafur sem táknar vald hans til að skipa fyrir. Með því að nefna hvort tveggja virðist Jakob vera að segja að verulegt vald og máttur muni fylgja ættkvísl Júda uns sá komi sem valdið hefur. Þessi afkomandi Júda er Jesús Kristur en Jehóva hefur fengið honum konungsvald á himni. Kristur fer með konungsvaldið og skipunarvaldið. — Sálmur 2:8, 9; Jesaja 55:4; Daníel 7:13, 14.

Lærdómur:

38:26. Júda fór rangt að í samskiptum við ekkjuna Tamar, tengdadóttur sína. En þegar það var borið á hann að hann ætti barnið, sem hún gekk með, játaði hann synd sína auðmjúklega. Við ættum sömuleiðis að játa mistök okkar greiðlega.

39:9. Viðbrögð Jósefs við umleitunum eiginkonu Pótífars sýna að hann hugsaði í samræmi við vilja Guðs í siðferðismálum og að meginreglur Guðs stjórnuðu samvisku hans. Ættum við ekki líka að leggja okkur fram um það, jafnhliða því sem við byggjum upp nákvæma þekkingu á sannleikanum?

41:14-16, 39, 40. Jehóva getur snúið aðstæðum þeim í hag sem óttast hann. Þegar ógæfu ber að garði er viturlegt að treysta á hann og vera honum trú.

Þeir voru stöðugir í trúnni

Abraham, Ísak, Jakob og Jósef voru guðhræddir trúmenn. Frásaga 1. Mósebókar af ævi þeirra er einkar lærdómsrík og styrkir trú okkar.

Þú getur haft gagn af frásögunni þegar þú lest hinn vikulega biblíulestur í Boðunarskólanum, og þú getur notfært þér efni þessarar greinar til að gæða hana lífi.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Sjá greinina „Höfuðþættir 1. Mósebókar — fyrri hluti“ í Varðturninum, 1. janúar 2004.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Abraham var trúaður maður.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Jehóva blessar Jósef.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Hinn réttláti Lot bjargaðist ásamt dætrum sínum.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Jakob kunni að meta það sem heilagt var. Hvað um þig?