Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jörðin verður að paradís

Jörðin verður að paradís

Jörðin verður að paradís

ALLA mannkynssöguna hafa milljónir manna trúað því að þeir muni að lokum yfirgefa jörðina og fara til himna. Sumir hafa trúað því að skaparinn hafi aldrei ætlað jörðinni að vera varanlegur dvalarstaður okkar. Meinlætamenn hafa gengið enn lengra. Í augum margra þeirra eru jörðin og allir efnislegir hlutir af hinu illa — hindrun sem kemur í veg fyrir að menn geti svalað andlegri þörf sinni og nálægt sig Guði.

Þeir sem komu fram með þessar hugmyndir vissu annaðhvort ekki hvað Guð segir um paradís á jörð eða ákváðu að hunsa það. Nú á tímum eru einnig margir sem hafa engan áhuga á því að rannsaka það sem Guð innblés mönnum að skrifa um þetta mál í orði sínu, Biblíunni. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) En væri ekki viturlegt að treysta orði Guðs í stað þess að tileinka sér kenningar manna? (Rómverjabréfið 3:4) Í rauninni er það nauðsynlegt því að Biblían segir okkur að ósýnileg og öflug ill vera hafi blindað fólk andlega og sé nú að ,afvegaleiða alla heimsbyggðina‘. — Opinberunarbókin 12:9; 2. Korintubréf 4:4.

Ólíkar skoðanir

Ósamhljóða hugmyndir um sálina hafa ruglað fólk í ríminu þannig að það veit ekki hver fyrirætlun Guðs er með jörðina. Margir trúa því að við höfum ódauðlega sál sem sé aðskilin frá mannslíkamanum og lifi líkamsdauðann. Aðrir trúa því að sálin hafi verið til áður en mannslíkaminn var skapaður. Samkvæmt heimildarriti trúði gríski heimspekingurinn Platón að sálin „væri fangelsuð í líkamanum í refsingarskyni fyrir þær syndir sem hún framdi þegar hún var á himnum“. Guðfræðingurinn Origenes, sem var uppi á þriðju öld, tók í sama streng þegar hann sagði að „sálir syndguðu [á himnum] áður en þær sameinuðust líkamanum“ og væru „fangelsaðar [í líkamanum á jörðinni] sem refsing fyrir syndirnar“. Milljónir manna trúa því að jörðin sé aðeins einhvers konar reynslustaður á ferðalagi mannsins til himna.

Fólk hefur líka mismunandi hugmyndir um hvað verði um sálina við dauðann. Í bókinni History of Western Philosophy segir að Egyptar hafi komið fram með þá hugmynd að „sálir framliðinna færu niður í undirheimana“. Síðar héldu heimspekingar því fram að sálir framliðinna færu ekki niður í myrka undirheima heldur upp á æðra tilverusvið. Gríski heimspekingurinn Sókrates er sagður hafa trúað því að sálin færi við dauðann „á ósýnilegt svið . . . og væri með guðunum það sem eftir væri“.

Hvað kennir Biblían?

Í innblásnu orði Guðs, Biblíunni, kemur hvergi fram að mennirnir hafi ódauðlega sál. Lestu það sem stendur í 1. Mósebók 2:7. Þar segir: „Þá myndaði Drottinn Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ Þetta er skýrt og greinilegt. Þegar Guð skapaði Adam, fyrsta manninn, lét hann ekki eitthvað óefniskennt í hann. Biblían fullyrðir meira að segja að ,maðurinn hafi orðið lifandi sál‘. Maðurinn hafði ekki sál. Hann var sál.

Þegar Jehóva skapaði jörðina og mannkynið hafði hann aldrei í hyggju að maðurinn skyldi deyja. Guð ætlaði mönnunum að búa að eilífu í paradís á jörð. Adam dó aðeins vegna þess að hann óhlýðnaðist lögum Guðs. (1. Mósebók 2:8, 15-17; 3:1-6; Jesaja 45:18) Fór hann yfir á eitthvert andlegt tilverusvið þegar hann dó? Nei. Hann — það er að segja sálin Adam — varð aftur að lífvana moldinni sem hann var myndaður af. — 1. Mósebók 3:17-19.

Við höfum öll erft synd og dauða frá Adam, forföður okkar. (Rómverjabréfið 5:12) Við dauðann hættir fólk að vera til, rétt eins og Adam. (Sálmur 146:3, 4) Í hinum 66 bókum Biblíunnar eru hugtökin „ódauðlegur“ eða „eilífur“ hvergi tengd við orðið „sál“. Hins vegar segir Biblían skýrt að sálin, það er að segja persónan, sé dauðleg. Sálin deyr. — Prédikarinn 9:5, 10; Esekíel 18:4.

Eru efnislegir hlutir af hinu illa?

Eru jörðin og aðrir efnislegir hlutir af hinu illa eins og sumir halda? Fylgjendur manitrúar aðhylltust þessa hugmynd en sú trúarhreyfing var stofnuð í Persíu á þriðju öld af manni sem hét Mani. Alfræðiorðabókin New Encyclopædia Britannica segir: „Manitrú kom til vegna angistarinnar sem fylgir hinu mannlega ástandi.“ Mani trúði að það væri „óeðlilegt, óbærilegt og algerlega illt“ að vera maður. Hann trúði því einnig að eina leiðin til að losna við þessa angist væri sú að sálin kæmist út úr líkamanum, yfirgæfi jörðina og öðlaðist andlega tilvist í andaheimi.

Biblían segir okkur hins vegar að þegar Guð skapaði jörðina og mannkynið hafi honum fundist ‚allt sem hann gerði vera harla gott‘. (1. Mósebók 1:31) Á þeim tíma var ekkert sem hindraði samband Guðs og manna. Adam og Eva áttu náið samband við Jehóva alveg eins og hinn fullkomni maður Jesús Kristur. — Matteus 3:17.

Ef fyrstu foreldrar okkar, Adam og Eva, hefðu ekki syndgað hefðu þau átt gott samband við Jehóva Guð að eilífu í paradís á jörð. Þau hófu lífið í paradís eins og fram kemur í Biblíunni: „Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað.“ (1. Mósebók 2:8) Það var í þessum paradísargarði sem Eva var sköpuð. Ef Adam og Eva hefðu ekki syndgað hefðu þau og fullkomin börn þeirra getað unnið glöð saman þangað til öll jörðin hefði orðið að paradís. (1. Mósebók 2:21; 3:23, 24) Jarðneska paradísin hefði verið heimili mannsins að eilífu.

Hvers vegna fara sumir til himna?

En talar Biblían ekki um að fólk fari til himna? Jú, eftir að Adam syndgaði ákvað Jehóva að stofna himneskt ríki þar sem sumir afkomendur Adams myndu „ríkja sem konungar yfir jörðinni“ ásamt Jesú Kristi. (Opinberunarbókin 5:10, NW; Rómverjabréfið 8:17) Þeir yrðu reistir upp til eilífs lífs á himnum. Heildarfjöldi þeirra er 144.000 og fyrstir af þeim voru trúfastir lærisveinar Jesú á fyrstu öldinni. — Lúkas 12:32; 1. Korintubréf 15:42-44; Opinberunarbókin 14:1-5.

Það var hins vegar ekki upphafleg fyrirætlun Guðs að trúfastir menn yfirgæfu jörðina og færu til himna. Þegar Jesús var á jörðinni fullyrti hann jafnvel: „Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn.“ (Jóhannes 3:13) Guð greiddi lausnargjald fyrir milligöngu ,Mannssonarins‘, Jesú Krists, og það gerir þeim sem trúa á fórn Jesú kleift að öðlast eilíft líf. (Rómverjabréfið 5:8) En hvar eiga milljónir þessara manna eftir að búa að eilífu?

Upphafleg fyrirætlun Guðs verður að veruleika

Þó svo að Guð hafi ákveðið að láta suma menn ríkja með Jesú Kristi í himnesku ríki sínu er ekki þar með sagt að allt gott fólk fari til himna. Jehóva skapaði jörðina til að vera paradísarheimili mannanna. Hann mun mjög bráðlega láta þá upphaflegu fyrirætlun verða að veruleika. — Matteus 6:9, 10.

Undir stjórn Jesú Krists og himneskra meðstjórnenda hans munu friður og hamingja ríkja á allri jörðinni. (Sálmur 37:9-11) Þeir sem eru í minni Guðs verða reistir upp til lífs á ný og munu búa við fullkomna heilsu. (Postulasagan 24:15) Menn, sem sýna Guði trúfesti og hlýðni, fá það sem fyrstu foreldrar mannkyns glötuðu — eilíft líf sem fullkomnir menn í paradís á jörð. — Opinberunarbókin 21:3, 4.

Það sem Jehóva Guð hefur ákveðið að framkvæma verður alltaf að veruleika. Hann sagði fyrir milligöngu spámannsins Jesaja: „Eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur, fyrr en það hefir vökvað jörðina, gjört hana frjósama og gróandi og gefið sáðmanninum sæði og brauð þeim er eta, eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ — Jesaja 55:10, 11.

Jesajabók veitir okkur innsýn í hvernig lífið verður í paradís á jörð. Í paradís mun enginn segja: „Ég er sjúkur.“ (Jesaja 33:24) Mönnum mun ekki stafa nein hætta af dýrunum. (Jesaja 11:6-9) Fólk mun reisa falleg hús og búa í þeim og það mun rækta jörðina og borða fylli sína. (Jesaja 65:21-25) Þar að auki mun Guð „afmá dauðann að eilífu, og . . . þerra tárin af hverri ásjónu“. — Jesaja 25:8.

Bráðum mun hlýðið mannkyn búa við þessar unaðslegu aðstæður. Það verður „leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna“. (Rómverjabréfið 8:21) Það verður dásamlegt að lifa að eilífu í þessari fyrirheitnu jarðnesku paradís. (Lúkas 23:43) Þú getur fengið að búa í þessari paradís ef þú tileinkar þér nákvæma þekkingu á Biblíunni og sýnir trú á Jehóva Guð og Jesú Krist. Og þú mátt vera viss um að það er rökrétt að trúa því að jörðin verði að paradís.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Adam og Eva voru sköpuð til að lifa að eilífu í paradís á jörð

[Myndir á blaðsíðu 7]

Í paradís á jörð . . .

munu þeir reisa hús

munu þeir planta víngarða

mun Jehóva blessa þá

[Mynd rétthafi á blaðsíðu 4]

U.S. Fish & Wildlife Service, Washington, D.C./NASA.