Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er mjög kærleiksríkur

Jehóva er mjög kærleiksríkur

Jehóva er mjög kærleiksríkur

„Drottinn [er] . . . mjög gæskuríkur.“ — SÁLMUR 145:8.

1. Hversu langt nær kærleikur Guðs?

„GUÐ er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Þessi hjartnæmu orð eru sönnun fyrir því að Jehóva stjórnar af kærleika. Hugsaðu þér, í kærleika sínum sér hann jafnvel þeim sem hlýða honum ekki fyrir sólarljósi og regni. (Matteus 5:44, 45) Kærleikur Guðs til mannheimsins gerir jafnvel óvinum hans mögulegt að iðrast, snúa sér til hans og öðlast eilíft líf. (Jóhannes 3:16) Bráðlega mun Jehóva hreinsa jörðina af óforbetranlegum syndurum til þess að menn, sem elska hann, geti lifað að eilífu í réttlátum nýjum heimi. — Sálmur 37:9-11, 29; 2. Pétursbréf 3:13.

2. Hvaða einstaka þátt kærleikans sýnir Jehóva þeim sem eru vígðir honum?

2 Kærleikur Jehóva til sannra tilbiðjenda sinna er þeim dýrmætur og hann er varanlegur. Þessum kærleika er lýst með hebresku orði sem þýtt er „ástúðleg umhyggja“ eða „tryggur kærleikur“. Davíð, konungur í Ísrael til forna, mat ástúðlega umhyggju Guðs afar mikils. Hann hafði sjálfur upplifað hana og einnig hugleitt samskipti Guðs við aðra. Hann gat þar af leiðandi sungið af sannfæringu: „Drottinn [er] . . . mjög gæskuríkur [„ríkur að ástúðlegri umhyggju/tryggum kærleika“, NW].“ — Sálmur 145:8.

Á hverju þekkjast trúir þjónar Guðs?

3, 4. (a) Hvernig hjálpar Sálmur 145 okkur að bera kennsl á trúa þjóna Guðs? (b) Hvernig „lofa“ þessir trúu þjónar Guð?

3 Hanna, móðir spámannsins Samúels, sagði um Jehóva Guð: „Fætur sinna guðhræddu [„trúu“, NW] varðveitir hann.“ (1. Samúelsbók 2:9) Hverjir eru þessir „trúu“ menn? Davíð konungur svarar því. Eftir að hafa dásamað stórkostlega eiginleika Jehóva segir hann: „Þeir, sem eru þér trúir, lofa þig.“ (Sálmur 145:10, Biblíurit, ný þýðing 2003) Menn lofa Guð aðallega með því að segja frá honum.

4 Trúir þjónar Jehóva þekkjast á því að þeir nota tunguna til að tala lofsamlega um hann. Um hvað tala þeir oft þegar þeir hittast á samkomum og við önnur tækifæri? Auðvitað um ríki Jehóva. Trúum þjónum Guðs er eins innanbrjósts og Davíð sem söng: „Þeir tala um dýrð konungdóms þíns [Jehóva], segja frá veldi þínu.“ — Sálmur 145:11.

5. Hvernig vitum við að Jehóva veitir því athygli þegar trúir þjónar hans fara lofsamlegum orðum um hann?

5 Tekur Jehóva eftir lofi trúrra þjóna sinna? Já, hann veitir orðum þeirra athygli. Malakí skrifaði í spádómi um sanna tilbeiðslu á okkar dögum: „Þá mæltu þeir hver við annan, sem óttast Drottin, og Drottinn gaf gætur að því og heyrði það, og frammi fyrir augliti hans var rituð minnisbók fyrir þá, sem óttast Drottin og virða hans nafn.“ (Malakí 3:16) Það gleður Jehóva mikið þegar trúir þjónar hans tala lofsamlega um hann og hann minnist þeirra.

6. Hvað gera trúir þjónar Guðs sem hjálpar okkur að bera kennsl á þá?

6 Trúir þjónar hins sanna Guðs, Jehóva, þekkjast líka á hugrekki sínu og frumkvæði í að tala við þá sem eru ekki tilbiðjendur hans. Þeir „kunngjöra mönnum veldi [hans], hina dýrlegu tign konungdóms [hans]“. (Sálmur 145:12) Leitar þú að og nýtir til fulls tækifæri til að tala við ókunnuga um konungdóm Jehóva? Konungdómur hans er eilífur, ólíkt stjórnum manna sem bráðlega heyra sögunni til. (1. Tímóteusarbréf 1:17) Það er brýnt að fólk læri um eilífan konungdóm hans og taki afstöðu með honum. „Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir,“ söng Davíð, „og ríki þitt stendur frá kyni til kyns.“ — Sálmur 145:13.

7, 8. Hvað gerðist árið 1914 og hvað sannar að Guð stjórnar núna fyrir milligöngu ríkis sonar síns?

7 Frá 1914 hefur verið enn ríkari ástæða til að tala um konungdóm Jehóva. Þá stofnsetti hann hið himneska Messíasarríki með Jesú Krist, son Davíðs, sem konung. Þannig efndi Jehóva loforð sitt um að staðfesta konungdóm Davíðs að eilífu. — 2. Samúelsbók 7:12, 13; Lúkas 1:32, 33.

8 Táknið um nærveru Jesú Krists er að uppfyllast núna og er það sönnun þess að Jehóva stjórni fyrir milligöngu ríkis hans. Veigamesti þátturinn í þessu tákni er verkið sem Jesús spáði að allir trúir þjónar Guðs myndu vinna er hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:3-14) Þar eð trúir þjónar Guðs uppfylla þennan spádóm af kappi eru núna yfir sex milljónir karla, kvenna og barna sem taka þátt í þessu mikla og einstæða verki. Bráðlega líða allir andstæðingar konungdóms Jehóva undir lok. — Opinberunarbókin 11:15, 18.

Við njótum góðs af konungdómi Jehóva

9, 10. Hvaða munur er á Jehóva og mennskum stjórnendum?

9 Ef við erum vígðir kristnir menn færir sambandið við Drottin Jehóva okkur margar blessanir. (Sálmur 71:5; 116:12) Við óttumst Guð og ástundum réttlæti þannig að við höfum velþóknun hans og erum nálæg honum. (Postulasagan 10:34, 35; Jakobsbréfið 4:8) Mennskir stjórnendur sjást hins vegar oft með framámönnum eins og herforingjum, auðugum kaupsýslumönnum eða stjörnum í íþróttum og skemmtanaiðnaðinum. Samkvæmt afríska fréttablaðinu Sowetan sagði þekktur stjórnmálamaður eftirfarandi um fátæk svæði í landi sínu: „Ég skil hvers vegna flestir okkar vilja ekki fara á slík svæði. Okkur langar einfaldlega til að gleyma að slíkt ástand fyrirfinnist. Það truflar samvisku okkar og við skömmumst okkar fyrir dýru [bílana] sem við keyrum.“

10 Auðvitað láta sumir mennskir stjórnendur sér einlæglega annt um þegna sína. En jafnvel hinir göfugustu þeirra þekkja ekki þegna sína náið. Við getum því spurt: Er til stjórnandi sem lætur sé svo annt um alla þegna sína að hann kemur þeim fljótt til hjálpar þegar erfiðleikar steðja að? Já, hann er til. Davíð skrifaði: „Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.“ — Sálmur 145:14.

11. Fyrir hvaða raunum verða trúir þjónar Guðs og hvaða hjálp fá þeir?

11 Trúir þjónar Jehóva Guðs lenda í ýmsum raunum og hörmungum, bæði vegna eigin ófullkomleika og vegna þess að þeir lifa í heimi sem er á valdi Satans, „hins vonda“. (1. Jóhannesarbréf 5:19; Sálmur 34:20) Kristnir menn verða fyrir ofsóknum. Sumir þjást af völdum langvinnra veikinda eða ástvinamissis. Og stundum eru trúir þjónar Jehóva ,niðurbeygðir‘ vegna mistaka sem þeir hafa gert. En hverjar svo sem raunir þeirra eru er Jehóva alltaf reiðubúinn að veita hverjum og einum huggun og andlegan styrk. Konungurinn Jesús Kristur hefur sama einlæga áhugann á trúum þegnum sínum. — Sálmur 72:12-14.

Seðjandi fæða á réttum tíma

12, 13. Hversu vel sér Jehóva fyrir þörfum ,alls sem lifir‘?

12 Vegna ástúðlegrar umhyggju sinnar sér Jehóva fyrir öllum þörfum þjóna sinna. Og það felur í sér að seðja hungur þeirra með næringarríkum mat. Davíð konungur skrifaði: „Allra augu vona á þig [Jehóva], og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ (Sálmur 145:15, 16) Jafnvel á hörmungartímum getur Jehóva hagað málum þannig að trúir þjónar sínir fái „daglegt brauð“. — Lúkas 11:3; 12:29, 30.

13 Davíð tók fram að „allt sem lifir“ seðjist, þar með talið dýrin. Ef jörðin væri ekki svona auðug af gróðri, bæði í sjó og á landi, hefðu sjávardýr, fuglar og landdýr enga fæðu og ekkert súrefni til að anda að sér. (Sálmur 104:14) Jehóva sér hins vegar til þess að öllum þörfum þeirra sé fullnægt.

14, 15. Hvernig er séð fyrir andlegri fæðu nú á dögum?

14 Menn hafa andlega þörf, ólíkt dýrunum. Jehóva fullnægir andlegum þörfum trúrra þjóna sinna á frábæran hátt. Áður en Jesús dó lofaði hann því að hinn „trúi og hyggni þjónn“ myndi veita fylgjendum sínum andlegan „mat á réttum tíma“. (Matteus 24:45) Leifar hinna 144.000 smurðra manna mynda þennan þjónshóp nú á dögum. Jehóva hefur svo sannarlega notað þá til að veita gnægð andlegrar fæðu.

15 Til dæmis njóta flestir þjóna Jehóva góðs af nýrri og nákvæmri biblíuþýðingu á sínu eigin máli, Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar, og er hún mikil blessun. Þar að auki koma út milljónir biblíunámsrita á yfir 300 tungumálum. Þessi mikla andlega fæða hefur verið sönnum tilbiðjendum um alla jörðina til blessunar. Hver á heiður skilinn fyrir allt þetta? Jehóva Guð. Í sinni miklu ástúðlegu umhyggju hefur hann gert þjónshópnum kleift að sjá fyrir ,fæðu á réttum tíma‘. Með þess konar gjöfum seður hann „allt sem lifir“ í hinni andlegu paradís nútímans. Og þjónar Jehóva gleðjast yfir þeirri von að fá bráðlega að sjá jörðina breytast í bókstaflega paradís. — Lúkas 23:42, 43.

16, 17. (a) Hvaða dæmi eru um að andleg fæða hafi komið á réttum tíma? (b) Hvernig lýsir Sálmur 145 tilfinningum trúrra þjóna Guðs varðandi deilumálið mikla sem Satan vakti upp?

16 Skoðum áberandi dæmi um andlega fæðu á réttum tíma. Síðari heimsstyrjöldin hófst í Evrópu árið 1939. Það ár birtist grein í Varðturninum 1. nóvember sem fjallaði um hlutleysi. Þær greinagóðu upplýsingar, sem þar komu fram, sýndu vottum Jehóva víðs vegar um heiminn fram á mikilvægi þess að vera algerlega hlutlaus í málefnum stríðandi þjóða. Þetta vakti reiði ríkisstjórna báðum megin víglínunnar í þessu stríði sem stóð í sex ár. Þrátt fyrir bönn og ofsóknir héldu trúir þjónar Guðs áfram að prédika fagnaðarerindið um ríkið. Á árunum 1939 til 1946 urðu þeir þeirrar gleði aðnjótandi að sjá 157 prósenta fjölgun. Og algert hlutleysi þeirra meðan á stríðinu stóð hjálpar fólki enn í dag að koma auga á hin sönnu trúarbrögð. — Jesaja 2:2-4.

17 Andlega fæðan, sem Jehóva sér okkur fyrir, er ekki aðeins tímabær heldur er hún líka einkar seðjandi. Á meðan þjóðirnar börðust af krafti í síðari heimsstyrjöldinni hjálpaði Jehóva fólki sínu að einbeita sér að mun mikilvægara máli en eigin hjálpræði. Hann kom því í skilning um að stóra málið, sem varðar allan alheim, snerist um réttmætt drottinvald hans. Það er ánægjulegt að vita til þess að hver einasti vottur Jehóva átti örlítinn þátt í að upphefja drottinvald Jehóva og sanna djöfulinn lygara. (Orðskviðirnir 27:11) Ólíkt Satan, sem rægir Jehóva og stjórnarhætti hans, halda trúir þjónar Jehóva áfram að lýsa opinberlega yfir: „Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum.“ — Sálmur 145:17.

18. Hvaða nýleg dæmi eru um andlega fæðu sem er bæði tímabær og seðjandi?

18 Annað dæmi um tímabæra og seðjandi andlega fæðu er bókin Nálægðu þig Jehóva. Hún var gefin út á umdæmismótinu „Kostgæfir boðberar Guðsríkis“ sem haldið var á hundruðum staða víðs vegar um heiminn árið 2002-3. Bókin var samin af hinum ,trúa og hyggna þjóni‘ og gefin út af Vottum Jehóva. Hún beinir athyglinni að stórkostlegum eiginleikum Jehóva Guðs, þar á meðal þeim sem nefndir eru í Sálmi 145. Þessi góða bók mun vafalaust eiga stóran þátt í að hjálpa trúum þjónum Guðs að nálægja sig honum enn frekar.

Nú er brýnt að nálægja sig Jehóva

19. Hvaða erfiði tími fer bráðlega í hönd og hvað getum við gert þá?

19 Nú nálgast örlagaríkur áfangi í því að útkljá deilumálið um drottinvald Jehóva. Satan mun bráðlega ljúka hlutverki sínu sem „Góg í Magóglandi“ eins og spáð var í 38. kafla Esekíelsbókar. Það felur í sér árás á fólk Jehóva um heim allan. Satan gerir þá sitt ýtrasta til að brjóta ráðvendni trúrra þjóna Guðs á bak aftur. Tilbiðjendur Jehóva þurfa þá meira en nokkru sinni fyrr að ákalla hann í einlægni og jafnvel að sárbæna hann um hjálp. Verður þá til einskis fyrir þá að hafa elskað Guð og sýnt honum óttablandna lotningu? Nei, engan veginn, því að Sálmur 145 segir: „Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni. Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim. Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.“ — Sálmur 145:18-20.

20. Hvernig eiga orðin í Sálmi 145:18-20 eftir að reynast sönn í náinni framtíð?

20 Það verður stórfenglegt að finna fyrir nálægð Jehóva og björgunarmætti hans þegar hann útrýmir óguðlegum mönnum. Á þeirri örlagaríku stundu, sem nú er svo nálæg, hlustar Jehóva aðeins á þá sem „ákalla hann í einlægni“. Hann hlustar ekki á hræsnara. Orð Guðs sýnir berlega fram á að það hefur alltaf verið til einskis fyrir hina óguðlegu að ákalla nafn hans á síðustu stundu. — Orðskviðirnir 1:28, 29; Míka 3:4; Lúkas 13:24, 25.

21. Hvernig sýna trúir þjónar Jehóva að þeir hafa yndi af því að nota nafn hans?

21 Þeir sem óttast Jehóva verða nú meira en nokkru sinni fyrr að „ákalla hann í einlægni“. Trúir þjónar hans hafa yndi af því að nota nafn hans í bænum sínum og í svörum sínum á samkomum. Þeir nota nafn hans í samræðum sín á milli. Og þeir kunngera nafn Jehóva hugrakkir í boðunarstarfinu meðal almennings. — Rómverjabréfið 10:10, 13-15.

22. Hvers vegna er mikilvægt að standa stöðugt á móti veraldlegum viðhorfum og löngunum?

22 Til að halda áfram að njóta góðs af nánu sambandi okkar við Jehóva Guð er einnig mikilvægt að standa gegn því sem er andlega skemmandi eins og efnishyggju, óheilnæmri skemmtun, að vera ófús að fyrirgefa eða vera áhugalaus um hina þurfandi. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17; 3:15-17) Ef við leiðréttum ekki slíkt getur það leitt til þess að við förum að iðka alvarlega synd og missum að lokum velþóknun Jehóva. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2; 3:6) Það er viturlegt að hafa hugfast að Jehóva heldur aðeins áfram að sýna okkur ástúðlega umhyggju, eða tryggan kærleika, ef við erum honum trúföst. — 2. Samúelsbók 22:26.

23. Hvaða stórkostlega framtíð bíður allra trúrra þjóna Guðs?

23 Festum því hugann við þá stórkostlegu framtíð sem bíður allra trúrra þjóna Jehóva. Með því að gera það höfum við þær dásamlegu framtíðarhorfur að vera meðal þeirra sem lofa og upphefja Jehóva „á hverjum degi“ „um aldur og ævi“. (Sálmur 145:1, 2) Við skulum þess vegna ,varðveita sjálf okkur í kærleika Guðs til eilífs lífs‘. (Júdasarbréfið 20, 21) Njótum áfram góðs af frábærum eiginleikum föður okkar á himnum, þar á meðal ástúðlegri umhyggju hans fyrir þeim sem elska hann. Megi okkur ávallt vera innanbrjósts eins og Davíð sem lauk Sálmi 145 með eftirfarandi orðum: „Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.“

Hvernig svarar þú?

• Hvernig hjálpar Sálmur 145 okkur að bera kennsl á trúa þjóna Guðs?

• Hvernig ,seður Jehóva allt sem lifir með blessun‘?

• Hvers vegna verðum við að nálægja okkur Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Trúir þjónar Guðs hafa yndi af því að tala um veldi hans.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Hugrakkir hjálpa þjónar Jehóva ókunnugum að læra um tign konungdóms hans.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Jehóva sér ,öllu sem lifir‘ fyrir fæðu.

[Credit line]

Dýr: Parque de la Naturaleza de Cabárceno

[Mynd á blaðsíðu 27]

Jehóva gefur trúum þjónum sínum, sem leita hjálpar hans í bæn, styrk og leiðsögn.