Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum þakklát

Verum þakklát

Verum þakklát

„Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar. . . . Verðið þakklátir.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:15.

1. Hvaða munur er á kristna söfnuðinum og heimi Satans?

Í HINUM 94.600 söfnuðum Votta Jehóva út um allan heim ríkir þakklæti. Í upphafi og lok hverrar samkomu er farið með bæn þar sem Jehóva eru tjáðar þakkir. Oft heyrum við orð eins og „takk fyrir“ og „ekkert að þakka“ af vörum ungra sem aldinna og nýrra sem gamalreyndra votta. Þjónar Jehóva eru sameinaðir í tilbeiðslu og njóta félagsskapar hver annars. (Sálmur 133:1) Þetta er í algerri andstöðu við eigingirnina sem ríkir meðal margra sem „þekkja ekki Guð, og . . . hlýða ekki fagnaðarerindinu“. (2. Þessaloníkubréf 1:8) Við búum í vanþakklátum heimi. Það ætti ekki að koma okkur á óvart því að Satan djöfullinn er guð þessa heims. Hann er uppspretta sjálfselskunnar og stolt hans og uppreisnarandi gegnsýrir samfélag manna. — Jóhannes 8:44; 2. Korintubréf 4:4; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

2. Hvaða viðvörun ættum við að taka til okkar og hvaða spurningar skoðum við nánar?

2 Við búum í heimi Satans og verðum að gæta þess að smitast ekki af viðhorfum hans. Á fyrstu öldinni skrifaði Páll postuli til kristinna manna í Efesus: „Þér lifðuð . . . samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa. Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.“ (Efesusbréfið 2:2, 3) Þessi orð eiga líka við um marga nú á tímum. En hvernig getum við tamið okkur þakklæti? Hvernig hjálpar Jehóva okkur? Og hvernig getum við sýnt innilegt þakklæti í verki?

Við höfum ástæðu til að vera þakklát

3. Fyrir hvað erum við Jehóva þakklát?

3 Við ættum að sýna Jehóva Guði, skapara okkar og lífgjafa, þakklæti, sérstaklega í ljósi þess að hann hefur gefið okkur svo margar góðar gjafir. (Jakobsbréfið 1:17) Við þökkum Jehóva daglega fyrir lífið. (Sálmur 36:10) Allt í kringum okkur sjáum við handaverk hans eins og sólina, tunglið og stjörnurnar. Þegar við hugsum um hve jörðin er ríkulega búin lífsnauðsynlegum steinefnum, hve nákvæmlega rétt samsett andrúmsloftið er og hve margbrotnar hringrásir náttúrunnar eru gerum við okkur grein fyrir því að við eigum kærleiksríkum föður okkar á himnum mikið að þakka. „Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa,“ söng Davíð konungur, „ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.“ — Sálmur 40:6.

4. Af hverju ættum við að þakka Jehóva fyrir þann ánægjulega félagsskap sem við njótum í söfnuðinum?

4 Þó að heimurinn nú á dögum eigi ekkert skylt við bókstaflega paradís búa þjónar Jehóva í andlegri paradís. Þegar við mætum á samkomur og mót finnum við að ávöxtur anda Guðs hefur áhrif á trúsystkini okkar. Sumir vottar hafa notað orð Páls í Galatabréfinu þegar þeir prédika fyrir fólki sem hefur fengið lítið sem ekkert trúarlegt uppeldi. Fyrst tala þeir um „holdsins verk“ og spyrja viðmælendur sína hvort þeim finnist slík verk ekki einkenna samfélagið nú á dögum. (Galatabréfið 5:19-23) Flestir taka undir það. En þegar þeir heyra lýsinguna á ávexti anda Guðs og koma í ríkissalinn á svæðinu til að sjá með eigin augum þennan anda að verki segja margir: „Guð er sannarlega hjá yður.“ (1. Korintubréf 14:25) Og þetta á ekki bara við um ríkissalinn í nágrenni þínu. Vottar Jehóva eru rúmlega sex milljónir um heim allan og hvert sem þú ferð finnurðu að gleði og ánægja ríkir meðal þeirra. Við ættum svo sannarlega að þakka Jehóva fyrir að gefa okkur af anda sínum svo að við getum notið uppbyggjandi félagsskapar í söfnuðinum. — Sefanía 3:9; Efesusbréfið 3:20, 21.

5, 6. Hvernig getum við sýnt þakklæti fyrir lausnargjaldið?

5 Jehóva gaf okkur son sinn, Jesú Krist, sem lausnarfórn og það er mesta og fullkomnasta gjöf sem hann hefur gefið. „Fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan,“ skrifaði Jóhannes postuli. (1. Jóhannesarbréf 4:11) Já, þakklæti okkar fyrir lausnargjaldið birtist ekki aðeins í því að við tjáum Jehóva kærleika okkar og þakklæti heldur einnig í því hvernig við lifum lífinu. Lífsstefna okkar ætti að einkennast af kærleika til annarra. — Matteus 22:37-39.

6 Við getum lært meira um þakklæti með því að athuga hvernig Jehóva kom fram við Ísraelsmenn til forna. Jehóva kenndi fólkinu margt með lögmálinu sem hann gaf fyrir milligöngu Móse. Við getum notað ‚þekkinguna og sannleikann í lögmálinu‘ til að hjálpa okkur að ‚vera þakklát‘ eins og Páll hvatti til. — Rómverjabréfið 2:20; Kólossubréfið 3:15.

Þrennt sem við lærum af Móselögunum

7. Hvernig gáfu lögin um tíund Ísraelsmönnum tækifæri til að sýna Jehóva þakklæti?

7 Í Móselögunum benti Jehóva Ísraelsmönnum á þrjár leiðir til að sýna innilegt þakklæti fyrir gæsku hans. Í fyrsta lagi voru það lögin um tíund. Tíund af afurðum landsins og „tíund af nautgripum og sauðfé“ átti að vera „helguð Drottni“. (3. Mósebók 27:30-32) Jehóva blessaði Ísraelsmenn ríkulega þegar þeir hlýddu þessum fyrirmælum. „Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að fæðsla sé til í húsi mínu, og reynið mig einu sinni á þennan hátt — segir Drottinn allsherjar —, hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfanlegri blessun.“ — Malakí 3:10.

8. Hver var munurinn á lögunum um sjálfviljagjafir og tíund?

8 Auk þess að setja lögin um tíund sá Jehóva til þess að Ísraelsmenn gætu gefið sjálfviljagjafir. Hann sagði Móse að segja við Ísraelsmenn: „Þegar þér komið í land það, er ég mun leiða yður inn í, þá skuluð þér færa Drottni fórn, er þér etið af brauði landsins.“ Þeir áttu að færa „köku að fórnargjöf“ sem frumgróða af deigi sínu „frá kyni til kyns“. Taktu eftir að ekkert ákveðið magn var tilgreint. (4. Mósebók 15:18-21) Þegar Ísraelsmenn gáfu gjafir til að sýna þakklæti sitt fullvissaði Jehóva þá um blessun sína. Svipað fyrirkomulag mátti sjá í tengslum við musterið í sýn Esekíels. Við lesum: „Hið besta af öllum frumgróða, hvers kyns sem er, og allar fórnir, hvers kyns sem eru af öllu því, er þér færið að fórnargjöf, skal tilheyra prestunum. Þér skuluð og gefa prestunum hið besta af deigi yðar til þess að leiða blessun niður yfir hús yðar.“ — Esekíel 44:30.

9. Hvað kenndi Jehóva með lögunum um eftirtíning?

9 Í þriðja lagi gaf Jehóva fyrirmæli um eftirtíning. Hann sagði: „Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar. Og eigi skalt þú gjörtína víngarð þinn, né heldur tína upp niður fallin ber í víngarði þínum. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar.“ (3. Mósebók 19:9, 10) Hér var ekki heldur neitt ákveðið magn tilgreint. Það var undir hverjum Ísraelsmanni komið hversu mikið hann skildi eftir handa bágstöddum. Hinn vitri konungur Salómon sagði þessi viðeigandi orð: „Sá lánar Drottni, er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans.“ (Orðskviðirnir 19:17) Þannig kenndi Jehóva fólki að sýna þeim sem minna máttu sín umhyggju og tillitssemi.

10. Hvaða afleiðingar hafði vanþakklæti Ísraelsmanna?

10 Jehóva blessaði Ísraelsmenn þegar þeir hlýddu lögunum um tíund, sjálfviljagjafir og eftirtíning. Þegar þeir sýndu ekki þakklæti misstu þeir hins vegar velþóknun hans. Afleiðingin var hörmuleg og þetta leiddi að lokum til þess að þeir voru sendir í útlegð. (2. Kroníkubók 36:17-21) En hvað getum við lært af þessu?

Látum í ljós þakklæti

11. Hver er helsta leiðin til að sýna Jehóva þakklæti?

11 Helsta leiðin til að veita Jehóva lof og sýna honum þakklæti er að færa „fórnir“. Kristnir menn eru auðvitað ekki undir Móselögunum og þurfa því ekki að færa dýrafórnir eða fórnir af afurðum landsins. (Kólossubréfið 2:14) Páll postuli hvatti kristna Hebrea samt til að „bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans“. (Hebreabréfið 13:15) Við getum tjáð Jehóva Guði, kærleiksríkum föður okkar á himnum, innilegt þakklæti með því að nota hæfileika okkar og eigur til að færa honum lofgerðarfórn, hvort sem það er í boðunarstarfinu eða „söfnuðunum“. (Sálmur 26:12) En hvað getum við lært af þeim leiðum sem Ísraelsmenn höfðu til að sýna þakklæti sitt til Jehóva?

12. Hvað lærum við af lögunum um tíund?

12 Í fyrsta lagi höfum við séð að öllum Ísraelsmönnum bar skylda til að gefa tíund. Kristnir menn hafa þá ábyrgð að taka þátt í boðunarstarfinu og sækja safnaðarsamkomur. Þetta er krafa, ekki valkostur. Jesús sagði í hinum mikla spádómi sínum um tíma endalokanna: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14; 28:19, 20) Páli postula var innblásið að skrifa um safnaðarsamkomur: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Við sýnum Jehóva þakklæti með því að þiggja fúslega þá ábyrgð að prédika og kenna og koma reglulega saman með trúsystkinum okkar á safnaðarsamkomum. Við ættum að líta á þetta sem heiður.

13. Hvað getum við lært af fyrirkomulaginu um sjálfviljagjafir og eftirtíning?

13 Það er líka gott að skoða hinar leiðirnar sem Ísraelsmenn höfðu til að sýna þakklæti — sjálfviljagjafir og eftirtíning. Tíundin var krafa sem Ísraelsmenn voru skuldbundnir til að uppfylla en þeir réðu hins vegar hversu miklar sjálfviljagjafir þeir gáfu eða hversu mikið þeir skildu eftir fyrir bágstadda. Þannig fengu þeir tækifæri til að sýna hve innilega þakklátir þeir væru. Það er svipað núna, við vitum að það er grundvallarábyrgð allra þjóna Jehóva að taka þátt í boðunarstarfinu og sækja kristnar samkomur. En gerum við það af öllu hjarta og með glöðu geði? Lítum við á það sem tækifæri til að tjá Jehóva innilegar þakkir fyrir allt sem hann hefur gert fyrir okkur? Eigum við ríkan þátt í þessum verkum og gerum við eins mikið og aðstæður okkar leyfa? Eða lítum við á þetta sem skyldu, eitthvað sem við verðum að gera? Þetta eru auðvitað spurningar sem hvert og eitt okkar verður að svara. Páll postuli orðaði þetta svona: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra.“ — Galatabréfið 6:4.

14. Til hvers ætlast Jehóva af okkur í þjónustunni við sig?

14 Jehóva þekkir aðstæður okkar og takmörk vel. Hann kann að meta fórnir sem þjónar hans færa fúslega, hvort sem þær eru smáar eða stórar. Hann ætlast ekki til að allir gefi jafnmikið enda gætum við það ekki. Þegar Páll postuli ræddi um efnislegar gjafir sagði hann kristnum mönnum í Korintu: „Ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til.“ (2. Korintubréf 8:12) Þessi meginregla á líka við í þjónustunni við Guð. Það sem ræður því hvort þjónusta okkar er Jehóva þóknanleg er ekki hversu mikið við gerum heldur hvort við gerum það með gleði og af heilu hjarta. — Sálmur 100:1-5; Kólossubréfið 3:23.

Sýndu brautryðjandaanda

15, 16. (a) Hvernig tengist þakklæti brautryðjandastarfinu? (b) Hvernig er hægt að sýna brautryðjandaanda þótt maður geti ekki verið brautryðjandi?

15 Ein góð leið til að sýna þakklæti okkar til Jehóva er að hefja þjónustu í fullu starfi. Margir dyggir þjónar Jehóva hafa gert miklar breytingar á lífi sínu til að geta notað meiri tíma í þjónustu hans. Þeir gera það af því að þeir elska hann og eru innilega þakklátir fyrir óverðskuldaða góðvild hans. Sumir geta þjónað sem reglulegir brautryðjendur og nota að meðaltali 70 klukkustundir á mánuði til að prédika fagnaðarerindið og kenna fólki sannleikann. Aðrir geta ekki gert eins mikið aðstæðna sinna vegna en gerast stundum aðstoðarbrautryðjendur og nota þá 50 klukkustundir á mánuði til að prédika.

16 En hvað um þá mörgu þjóna Jehóva sem geta hvorki verið brautryðjendur né aðstoðarbrautryðjendur? Þeir geta sýnt þakklæti með því að tileinka sér brautryðjandaanda. Hvernig gera þeir það? Með því að prédika eins mikið og aðstæður leyfa, hvetja þá sem geta verið brautryðjendur til að láta verða af því og vekja löngun með börnum sínum til að gera þjónustu í fullu starfi að ævistarfi sínu. Það sem við gerum í þjónustunni er að miklu leyti undir því komið hversu þakklát við erum Jehóva fyrir það sem hann hefur gert, er að gera og mun gera fyrir okkur í framtíðinni.

Sýndu þakklæti „með eigum þínum“

17, 18. (a) Hvernig getum við sýnt þakklæti ‚með eigum okkar‘? (b) Hvernig mat Jesús framlag ekkjunnar og hvers vegna?

17 „Tigna Drottin með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar,“ segja Orðskviðirnir 3:9. Þjónar Jehóva þurfa ekki lengur að gefa tíund. Páll skrifaði söfnuðinum í Korintu: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ (2. Korintubréf 9:7) Við sýnum þakklæti okkar með því að gefa frjáls framlög til styrktar alþjóðlega prédikunarstarfinu. Ef við erum innilega þakklát gerum við það reglulega og setjum jafnvel eitthvað til hliðar í hverri viku eins og hinir fumkristnu. — 1. Korintubréf 16:1, 2.

18 Þakklæti okkar til Jehóva sést ekki á upphæðinni sem við gefum heldur á hugarfarinu sem býr að baki. Þessu tók Jesús eftir þegar hann horfði á fólkið leggja gjafir í fjárhirslu musterisins. Þegar hann sá fátæka ekkju „leggja þar tvo smápeninga“ sagði hann: „Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir. Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína.“ — Lúkas 21:1-4.

19. Af hverju er gott að endurskoða hvernig við sýnum þakklæti okkar?

19 Við höfum nú séð hvernig við getum sýnt þakklæti og það ætti að hvetja okkur til að rannsaka hugarfar okkar. Gætum við kannski aukið lofgerðarfórn okkar til Jehóva eða stutt alþjóðastarfið enn frekar með efnislegum eigum? Ef við sýnum þakklæti okkar með þessum hætti getum við verið viss um að við gleðjum örlátan og kærleiksríkan föður okkar, Jehóva.

Manstu?

• Fyrir hvað ættum við að vera Jehóva þakklát?

• Hvað lærum við af lögunum um tíund, sjálfviljagjafir og eftirtíning?

• Hvernig tileinkum við okkur brautryðjandaanda?

• Hvernig getum við notað eigur okkar til að sýna Jehóva þakklæti?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 15]

„Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að.“

[Myndir á blaðsíðu 16]

Hvað þrennt getum við lært af lögmálinu?

[Myndir á blaðsíðu 17]

Hvaða fórnir getum við fært?