Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjálpaðu öðrum að taka við boðskapnum um ríkið

Hjálpaðu öðrum að taka við boðskapnum um ríkið

Hjálpaðu öðrum að taka við boðskapnum um ríkið

„Agrippa sagði við Pál: Lítið vantar á, að þú gjörir mig kristinn.“ — POSTULASAGAN 26:28, Biblían 1912, neðanmáls.

1, 2. Hvernig atvikaðist það að Páll postuli var leiddur fyrir Festus landstjóra og Heródes Agrippu konung annan?

ÞAÐ var árið 58 að Heródes Agrippa konungur annar og Berníke systir hans heimsóttu Porkíus Festus, landstjóra Rómverja, í Sesareu. Í boði Festusar gengu þau „með mikilli viðhöfn . . . ásamt hersveitarforingjum og æðstu mönnum borgarinnar inn í málstofuna“. Páll postuli var síðan leiddur inn að boði Festusar. Hvernig bar það til að þessi fylgjandi Jesú Krists skyldi standa frammi fyrir dómstóli Festusar landstjóra? — Postulasagan 25:13-23.

2 Festus svaraði þessari spurningu þegar hann sagði gestum sínum: „Agrippa konungur og þér menn allir, sem hjá oss eruð staddir. Þarna sjáið þér mann, sem veldur því, að allir Gyðingar, bæði í Jerúsalem og hér, hafa leitað til mín. Þeir heimta hástöfum, að hann sé tekinn af lífi. Mér varð ljóst, að hann hefur ekkert það framið, er dauða sé vert, en sjálfur skaut hann máli sínu til hans hátignar, og þá ákvað ég að senda hann þangað. Nú hef ég ekkert áreiðanlegt að skrifa herra vorum um hann. Þess vegna hef ég leitt hann fram fyrir yður og einkum fyrir þig, Agrippa konungur, svo að ég hafi eitthvað að skrifa að lokinni yfirheyrslu. Því það líst mér fráleitt að senda fanga og tjá eigi um leið sakargiftir gegn honum.“ — Postulasagan 25:24-27.

3. Hvers vegna ákærðu trúarleiðtogar Pál?

3 Orð Festusar bera með sér að Páll hafi ranglega verið sakaður um uppreisnaráróður, en við honum lá dauðarefsing. (Postulasagan 25:11) Páll var hins vegar saklaus. Ákærurnar voru sprottnar af öfund trúarleiðtoga í Jerúsalem. Þeir beittu sér gegn boðunarstarfi Páls og voru honum stórreiðir fyrir að hjálpa öðrum að gerast fylgjendur Jesú Krists. Páll var fluttur í strangri gæslu frá Jerúsalem til hafnarborgarinnar Sesareu þar sem hann skaut máli sínu til keisarans. Þaðan átti svo að flytja hann til Rómar.

4. Með hvaða óvænta yfirlýsingu kom Agrippa konungur?

4 Sjáðu Pál fyrir þér í höll landstjórans þar sem hann stendur frammi fyrir hópi manna, þeirra á meðal stjórnanda mikilvægs hluta Rómaveldis. Agrippa konungur snýr sér að Páli og segir: „Nú er þér leyfilegt að tala.“ En það sem Páll segir hefur óvænt áhrif. Það orkar svo sterkt á konunginn að hann segir: „Lítið vantar á, að þú gjörir mig kristinn.“ — Postulasagan 26:1-28, Biblían 1912, neðanmáls.

5. Af hverju höfðu orð Páls svona sterk áhrif á Agrippu?

5 Hugsaðu þér! Páll varði mál sitt svo snilldarlega að krafturinn í orði Guðs náði að snerta valdhafann. (Hebreabréfið 4:12) Hvers vegna var vörn Páls svona áhrifarík? Og hvað getum við lært af honum sem við getum nýtt okkur þegar við kennum fólki? Tvennt stendur upp úr þegar við brjótum varnarræðu Páls til mergjar: (1) Páll var sannfærandi í málflutningi sínum. (2) Hann beitti þekkingu sinni á orði Guðs fagmannlega, ekki ósvipað og góður handverksmaður beitir verkfærum sínum.

Vertu sannfærandi

6, 7. (a) Hvað merkir sögnin ‚að sannfæra‘ eins og hún er notuð í Biblíunni? (b) Hvað þarf að gera til að hjálpa öðrum að taka við biblíukenningu?

6 Þegar rætt er um starf Páls í Postulasögunni eru oft notuð grísk orð sem merkja ‚að sannfæra‘. Hvað þýðir það varðandi kennslu okkar?

7 Í orðabók kemur fram að frummálsorðin, sem þýdd eru ‚sannfæra‘, merki „að fá á sitt band“ eða „valda hugarfarsbreytingu með rökræðu eða siðferðilegri hvatningu“. (Vine’s Expository Dictionary of New Testament Words) Grunnmerking orðsins gefur til kynna traust. Ef þú sannfærir aðra manneskju svo að hún tekur við biblíukenningu ertu búinn að ávinna traust hennar þannig að hún trúir að kenningin sé sönn. Það er greinilega ekki nóg að segja einhverjum hvað standi í Biblíunni til að hann trúi því og fari eftir því. Áheyrandinn, hvort sem hann er barn, nágranni, vinnufélagi, skólafélagi eða ættingi, þarf að sannfærast um að það sé satt sem þú segir. — 2. Tímóteusarbréf 3:14, 15.

8. Hvað er fólgið í því að sannfæra aðra manneskju um biblíuleg sannindi?

8 Hvernig geturðu sannfært aðra um að þú sért að boða sannleikann í orði Guðs? Páll reyndi að telja viðmælendum sínum hughvarf með gildum röksemdum, góðri rökfærslu og einlægri hvatningu. * Það er ekki nóg að lýsa yfir að eitthvað sé satt heldur þarf að leggja fram fullnægjandi rök fyrir því. Hvernig má gera það? Gættu þess að byggja orð þín tryggilega á orði Guðs en ekki eigin skoðunum. Bentu á viðbótarrök til að styðja það sem Biblían segir. (Orðskviðirnir 16:23) Ef þú nefnir til dæmis að hlýðið mannkyn fái að búa í paradís á jörð gætirðu stutt það með því að vísa í Biblíuna, til dæmis í Jesaja 65:21-25. Hvernig geturðu rökstutt þetta nánar? Þú gætir nefnt dæmi sem áheyrandinn þekkir, svo sem ánægjuna af því að horfa á sólarlagið, teyga sætan ilm blómanna, gæða þér á gómsætum ávexti eða horfa á fugl mata unga sína. Sýndu honum fram á að þessi ánægja sé merki þess að skaparinn vilji að við njótum þess að lifa hér á jörð. — Prédikarinn 3:11, 12.

9. Hvernig getum við sýnt sanngirni í boðunarstarfinu?

9 Gættu þess að vera ekki svo ákafur að þú virkir kreddufastur þegar þú reynir að sannfæra einhvern annan um ákveðna biblíukenningu. Ella gæti viðmælandinn lokað huganum og hjartanu fyrir þér. Boðunarskólabókin segir í varnaðarskyni: „Það er hætt við því að viðbrögðin verði heldur neikvæð ef við afhjúpum umbúðalaust ranga trúarskoðun sem öðrum er kær, og gildir þá einu þótt við styðjum sannleikann með langri runu af ritningarstöðum. Það er óvíst að okkur takist að breyta afstöðu annarra til vinsælla hátíða með því að fordæma þær einfaldlega á þeirri forsendu að þær séu af heiðnum uppruna. Oftast skilar það betri árangri að vera sanngjarn og rökræða málið í rólegheitum.“ Hvers vegna ættum við að leggja okkur sérstaklega fram um að vera sanngjörn? Bókin segir: „Með því að rökræða við fólk hveturðu til umræðna og hugleiðinga og stuðlar að því að hægt sé að halda umræðunum áfram síðar. Þessi aðferð getur verið mjög sannfærandi.“ — Kólossubréfið 4:6.

Að sannfæra hjartað

10. Hvernig byrjar Páll vörn sína frammi fyrir Agrippu?

10 Rýnum betur í varnarræðu Páls í 26. kafla Postulasögunnar. Taktu eftir hvernig hann byrjar málflutning sinn. Hann kemur inn á viðfangsefnið með því að finna viðeigandi tilefni til að hrósa Agrippu, þó svo að konungur stundi sifjaspell með Berníke systur sinni. Páll segir: „Lánsamur þykist ég, Agrippa konungur, að eiga í dag í þinni áheyrn að verja mig gegn öllu því, sem Gyðingar saka mig um, því heldur sem þú þekkir alla siðu Gyðinga og ágreiningsmál. Því bið ég þig að hlýða þolinmóður á mig.“ — Postulasagan 26:2, 3.

11. Hvernig sýnir Páll Agrippu virðingu og með hvaða árangri?

11 Tekurðu eftir að Páll byrjar á því að viðurkenna háa stöðu Agrippu með því að ávarpa hann konung? Hann sýnir konungi virðingu og heiðrar hann með viturlegu orðavali sínu. (1. Pétursbréf 2:17) Hann veit að Agrippa er gagnkunnugur hinum margbrotnu siðum og lögum Gyðinga og fagnar því að mega flytja vörn sína frammi fyrir þessum upplýsta þjóðhöfðingja. Agrippa var ekki kristinn en Páll lét samt ekki eins og hann væri yfir konung hafinn heldur biður hann konung að hlýða þolinmóður á mál sitt. (Filippíbréfið 2:3) Þannig skapar Páll jákvætt andrúmsloft fyrir Agrippu og aðra áheyrendur til að taka mark á því sem hann segir. Hann var að leggja sameiginlegan grundvöll til að byggja rökfærslu sína á.

12. Hvernig getum við höfðað til hjartans þegar við boðum Guðsríki?

12 Þegar við boðum Guðsríki skulum við höfða til hjartans, allt frá inngangsorðum til niðurlags, eins og Páll gerði þegar hann ávarpaði Agrippu. Við getum gert þetta með því að sýna einlæga virðingu fyrir viðmælanda okkar og með því að láta í ljós ósvikinn áhuga á skoðunum hans og uppruna. — 1. Korintubréf 9:20-23.

Farðu fagmannlega með orð Guðs

13. Hvernig geturðu vakið áhuga og löngun hjá áheyrendum þínum til að fara eftir fagnaðarerindinu?

13 Páll vildi vekja löngun hjá áheyrendum sínum til að fara eftir fagnaðarerindinu. (1. Þessaloníkubréf 1:5-7) Þess vegna höfðaði hann til hins táknræna hjarta sem er setur hvata og áhuga. Þegar við höldum áfram að rýna í vörn Páls frammi fyrir Agrippu tökum við eftir hvernig hann vísaði í orð Móse og spámannanna og fór þannig rétt með orð Guðs. — 2. Tímóteusarbréf 2:15.

14. Hvernig beitti Páll sannfæringarkrafti sínum frammi fyrir Agrippu?

14 Páll vissi að Agrippa var Gyðingur að nafninu til. Hann skírskotaði því til þekkingar Agrippu á gyðingdómnum og benti síðan á að sjálfur prédikaði hann ekkert annað en það sem bæði spámennirnir og Móse hefðu sagt að verða mundi í sambandi við dauða og upprisu Messíasar. (Postulasagan 26:22, 23) Síðan ávarpar hann Agrippu beint og spyr: „Trúir þú, Agrippa konungur, spámönnunum?“ Nú var Agrippa í vanda staddur. Ef hann svaraði því til að hann hafnaði spámönnunum væri orðstír hans sem trúaður Gyðingur í hættu. En ef hann tæki undir með Páli væri hann að lýsa opinberlega yfir stuðningi við postulann og átti þá á hættu að vera kallaður kristinn. Páll sýndi þá visku að svara spurningunni sjálfur og sagði: „Eg veit, að þú trúir.“ Hvernig brást Agrippa við? „Lítið vantar á, að þú gjörir mig kristinn,“ svaraði hann. (Postulasagan 26:27, 28, Biblían 1912, neðanmáls) Agrippa gerðist ekki kristinn en ljóst er að Páll náði að snerta hjarta hans að einhverju marki með boðskapnum. — Hebreabréfið 4:12.

15. Hvernig tókst Páli að stofna söfnuð í Þessaloníku?

15 Hefurðu tekið eftir að Páll flutti fagnaðarerindið bæði með því að boða það og færa fram sannfærandi rök? Þar sem hann fór rétt með orð Guðs tóku sumir af áheyrendum hans trú. Þetta gerðist í Þessaloníku þar sem Páll hafði uppi á Gyðingum og guðhræddu fólki af öðru þjóðerni í samkundunni. Frásagan í Postulasögunni 17:2-4 segir: „Eftir venju sinni gekk Páll inn til þeirra, og þrjá hvíldardaga ræddi hann við þá og lagði út af ritningunum, lauk þeim upp fyrir þeim og setti þeim fyrir sjónir, að Kristur átti að líða og rísa upp frá dauðum. . . . Nokkrir þeirra létu sannfærast.“ Páll var sannfærandi. Hann rökræddi, útskýrði og sannaði með vísunum í Ritninguna að Jesús væri hinn langþráði Messías. Árangurinn varð sá að myndaður var nýr söfnuður trúaðra í Þessaloníku.

16. Hvernig geturðu haft meiri ánægju af því að boða ríki Guðs?

16 Geturðu orðið færari í að skýra orð Guðs og sannfæra fólk? Ef þú gerir það geturðu haft meiri ánægju af því að boða ríki Guðs og kenna fólki. Þetta er reynsla þúsunda boðbera fagnaðarerindisins sem hafa reynt að nota Biblíuna meira í boðunarstarfinu eins og hvatt er til.

17. Segðu frá eigin reynslu eða notaðu dæmið í greininni til að sýna fram á að það sé gagnlegt að nota Biblíuna í boðunarstarfinu.

17 Einn af farandumsjónarmönnum Votta Jehóva skrifar til dæmis: „Margir boðberar eru með Biblíuna í hendinni þegar þeir vitna hús úr húsi. Þetta hefur auðveldað þeim að lesa upp ritningarstað fyrir mörgum sem þeir hitta, og það hefur þau áhrif að bæði húsráðandinn og boðberinn tengja boðunarstarf okkar við Biblíuna en ekki aðeins við blöð og bækur.“ Það ræðst auðvitað af ýmsu hvort við höfum Biblíuna uppi við eða ekki þegar við erum í boðunarstarfinu, meðal annars af siðvenjum á hverjum stað. En hvað sem því líður ættum við að vera þekkt fyrir að nota orð Guðs fagmannlega og sannfæra fólk svo að það taki við boðskapnum um ríkið.

Líttu boðunarstarfið sömu augum og Guð

18, 19. (a) Hvernig lítur Guð á boðunarstarf okkar og af hverju ættum við að reyna að tileinka okkur sjónarmið hans? (b) Hvernig getum við gert endurheimsóknir árangursríkar? (Sjá rammagreinina „Að ná árangri í endurheimsóknum“ á bls. 16.)

18 Önnur leið til að ná til hjartans hjá fólki er að líta boðunarstarfið sömu augum og Guð og vera þolinmóð. Það er vilji hans að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Langar okkur ekki til þess líka? Jehóva er þolinmóður sem gefur mörgum tækifæri til að iðrast. (2. Pétursbréf 3:9) Þegar við finnum einhvern sem vill hlusta á boðskapinn um ríkið er oft nauðsynlegt að heimsækja hann reglulega til að örva áhugann. Það kostar bæði tíma og þolinmæði að sjá sæði sannleikans bera ávöxt. (1. Korintubréf 3:6) Í rammagreininni „Að ná árangri í endurheimsóknum“ er að finna ábendingar um hvernig hægt sé að örva áhugann. Mundu að líf fólks, vandamál þess og aðstæður er háð sífelldum breytingum. Þú getur þurft að reyna margoft áður en þú finnur fólk heima, en það er vinnunnar virði. Við viljum gefa öðrum tækifæri til að heyra boðskap hjálpræðisins. Þess vegna skaltu biðja Jehóva Guð að gefa þér visku til að verða enn færari í að sannfæra fólk svo að það taki við boðskapnum um ríkið.

19 Hvað getum við svo gert eftir að hafa fundið manneskju sem langar til að kynna sér boðskapinn um ríkið betur? Næsta grein fjallar um það.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Í 48. og 49. kafla bókarinnar Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum er að finna ítarefni um listina að sannfæra aðra. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.

Manstu?

• Hvers vegna var vörn Páls frammi fyrir Agrippu áhrifarík?

• Hvernig getum við látið boðskapinn ná til hjartans?

• Hvað hjálpar okkur að nota orð Guðs á áhrifaríkan hátt til að ná til hjartans?

• Hvernig getum við litið boðunarstarfið sömu augum og Guð?

[Spurningar]

[Rammi/myndir á blaðsíðu 16]

Að ná árangri í endurheimsóknum

• Sýndu fólki einlægan áhuga.

• Veldu áhugavert efni úr Biblíunni til að ræða um.

• Búðu viðmælandann undir næstu heimsókn.

• Haltu áfram að hugsa um viðmælanda þinn eftir að heimsókninni lýkur.

• Farðu fljótt aftur, kannski eftir einn eða tvo daga, til að fylgja áhuganum eftir.

• Hafðu hugfast að markmiðið er að hefja biblíunámskeið.

• Biddu Jehóva að láta áhugann vaxa.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Páll var sannfærandi þegar hann stóð frammi fyrir Festusi landstjóra og Agrippu konungi.