Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu ekki blekkja þig

Láttu ekki blekkja þig

Láttu ekki blekkja þig

„Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með . . . hégómavillu.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 2:8.

1-3. (a) Hvaða dæmi sýna að blekkingar gagnsýra næstum alla þætti hins daglega lífs? (b) Af hverju ættu blekkingar umheimsins ekki að koma okkur á óvart?

„HVE margir ykkar hafa aldrei orðið fyrir því að skjólstæðingur segði ósatt?“ Lagaprófessor bar fram þessa spurningu í könnun sem hann gerði fyrir nokkrum árum. Niðurstaðan var sem hér segir: „Af þúsund lögfræðingum var aðeins einn sem hafði aldrei orðið fyrir því að skjólstæðingur segði ósatt.“ Hvernig stóð á því? „Lögfræðingurinn var nýkominn til starfa hjá stóru fyrirtæki og hafði ekki fengið skjólstæðing enn þá.“ Þetta dæmi er til vitnis um þá dapurlegu staðreynd að lygar og blekkingar eru daglegt brauð í heimi nútímans.

2 Blekkingar taka á sig margar myndir og gagnsýra nánast alla þætti mannlífsins eins og ótal dæmi sanna. Fjölmiðlarnir segja frá stjórnmálamönnum sem ljúga til um gerðir sínar, endurskoðendum og lögfræðingum sem ýkja tekjur fyrirtækja, auglýsendum sem blekkja neytendur og tryggingartökum sem svíkja tryggingafélög. Og ekki má gleyma trúarlegu blekkingunum. Prestastéttin afvegaleiðir fjöldann með því að kenna falskar kenningar, svo sem þær að sálin sé ódauðleg, að til sé logandi helvíti og að Guð sé þríeinn. — 2. Tímóteusarbréf 4:3, 4.

3 Ættu allar þessar blekkingar að koma okkur á óvart? Í rauninni ekki. Biblían segir um hina síðustu daga: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1, 13) Við sem erum kristin þurfum að vera á varðbergi gagnvart villandi hugmyndum sem gætu leitt okkur burt frá sannleikanum. Tvær spurningar vakna eðlilega: Hvers vegna eru blekkingar svona algengar nú á dögum og hvernig getum við varað okkur á þeim svo að við látum ekki blekkjast?

Hvers vegna eru blekkingar svona útbreiddar?

4. Hvernig skýrir Biblían það hve útbreiddar blekkingar eru í heiminum?

4 Biblían varpar skýru ljósi á ástæðuna fyrir því að blekkingar eru svona útbreiddar í heiminum. Jóhannes postuli skrifaði að allur heimurinn væri á valdi hins vonda. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Hinn vondi er Satan djöfullinn. Jesús sagði um hann: „Hann var . . . aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.“ Er nokkuð undarlegt að heimurinn skuli endurspegla anda, gildismat og blekkingar stjórnanda síns? — Jóhannes 8:44; 14:30; Efesusbréfið 2:1-3.

5. Hvernig hefur Satan hert á blekkingarstarfsemi sinni á síðustu dögum og hverjir eru sérstaklega skotspónn hans?

5 Satan hefur hert róðurinn núna á endalokatímanum. Honum hefur verið varpað niður til jarðar. Hann veit að hann hefur nauman tíma og er því „í miklum móð“. Hann „afvegaleiðir alla heimsbyggðina“ af því að hann er staðráðinn í að draga eins marga með sér í fallinu og hann getur. (Opinberunarbókin 12:9, 12) Blekkingartilraunir hans eru ekki handahófskenndar heldur reynir hann linnulaust að leiða mannkynið á villigötur. * Hann beitir öllum tiltækum ráðum, þeirra á meðal svikum og undirferli, til að blinda hugi þeirra sem trúa ekki og halda þeim fjarri Guði. (2. Korintubréf 4:4) Þessum blekkingameistara er mikið í mun að gleypa þá sem tilbiðja Guð „í anda og sannleika“. (Jóhannes 4:24; 1. Pétursbréf 5:8) Gleymum ekki að Satan hefur fullyrt í reynd að hann geti snúið hverjum sem er frá Guði. (Jobsbók 1:9-12) Við skulum nú líta á nokkur af vélabrögðum hans og skoða hvernig við getum varað okkur á þeim. — Efesusbréfið 6:11.

Varaðu þig á blekkingum fráhvarfsmanna

6, 7. (a) Hvað fullyrða margir fráhvarfsmenn? (b) Hvernig bendir Biblían greinilega á hvað fráhvarfsmönnum gengur til?

6 Satan hefur löngum notað fráhvarfsmenn til að reyna að tæla þjóna Guðs. (Matteus 13:36-39) Fráhvarfsmenn segjast kannski tilbiðja Jehóva og trúa Biblíunni en þeir hafna sýnilegum hluta skipulags hans. Sumir snúa sér jafnvel aftur að guðlastandi kenningum Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða. (Opinberunarbókin 17:5; 2. Pétursbréf 2:19-22) Biblíuritararnir töluðu enga tæpitungu þegar Guð innblés þeim að afhjúpa hvatir og aðferðir fráhvarfsmanna.

7 Hvað gengur fráhvarfsmönnunum til? Fæstir þeirra gera sig ánægða með að yfirgefa trúna sem þeir töldu ef til vill einu sinni vera hina sönnu trú. Oft vilja þeir draga aðra með sér. En í stað þess að leita sér að nýjum lærisveinum reyna margir fráhvarfsmenn að „tæla lærisveinana [það er að segja lærisveina Krists] á eftir sér“. (Postulasagan 20:29, 30) Páll postuli var ómyrkur í máli þegar hann varaði við falskennurum og sagði: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður.“ (Kólossubréfið 2:8) Lýsir þetta ekki vel aðferðum margra fráhvarfsmanna? Fráhvarfsmenn sitja fyrir grandalausum safnaðarmönnum, herja á þá og reyna að draga þá burt frá hjörðinni, ekki ósvipað og mannræningi sem ber grunlaust barn burt frá foreldrunum.

8. Hvaða aðferðum beita fráhvarfsmenn til að ná markmiðum sínum?

8 Hvaða aðferðum beita fráhvarfsmenn? Oft rangfæra þeir staðreyndir, segja hálfan sannleikann eða beinlínis ljúga. Jesús vissi að andstæðingar myndu ljúga öllu illu á fylgjendur hans og níðast á þeim. (Matteus 5:11) Illskeyttir andstæðingar myndu fara með rangt mál í þeim tilgangi að blekkja aðra. Pétur postuli varaði við fráhvarfsmönnum sem myndu „með uppspunnum orðum“ útbreiða háskalegar villukenningar og „rangsnúa“ Ritningunni til að ná markmiði sínu. (2. Pétursbréf 2:1, 3; 3:16) Því miður tekst fráhvarfsmönnum að „umhverfa trú sumra manna“. — 2. Tímóteusarbréf 2:18.

9, 10. (a) Hvernig getum við varað okkur á blekkingum fráhvarfsmanna? (b) Hvers vegna látum við það ekki raska ró okkar þó að gefa þurfi nákvæmari skýringar á áformum Guðs?

9 Hvernig getum við varað okkur á blekkingum fráhvarfsmanna? Með því að gera eins og orð Guðs ráðleggur: „Ég áminni yður um . . . að hafa gát á þeim, er vekja sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið. Sneiðið hjá þeim.“ (Rómverjabréfið 16:17) Við sneiðum hjá þeim með því að hafna rökum þeirra með öllu — hvort sem þeir flytja þau í eigin persónu, á prenti eða á Netinu. Hvers vegna tökum við þessa afstöðu? Í fyrsta lagi vegna þess að Biblían segir okkur að gera það og við treystum að Jehóva beri hag okkar alltaf fyrir brjósti. — Jesaja 48:17, 18.

10 Í öðru lagi er okkur annt um skipulagið sem hefur kennt okkur hin dýrmætu sannindi sem mynda svo skörp skil milli okkar og Babýlonar hinnar miklu. Við gerum okkur jafnframt grein fyrir því að við höfum ekki fullkomna þekkingu á áformum Guðs, enda höfum við fengið nákvæmari skýringar á ýmsu með árunum. Trúir kristnir menn bíða fúslega eftir því að Jehóva skýri málin nánar. (Orðskviðirnir 4:18) En við snúum ekki baki við skipulaginu sem Guð notar því að við sjáum greinilega að hann blessar það. — Postulasagan 6:7; 1. Korintubréf 3:6.

Blekktu ekki sjálfan þig

11. Hvers vegna hafa ófullkomnir menn tilhneigingu til að blekkja sjálfa sig?

11 Ófullkomnir menn hafa tilhneigingu til að blekkja sjálfa sig og Satan er fljótur að notfæra sér það. „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það,“ segir Jeremía 17:9. Og Jakob skrifaði: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.“ (Jakobsbréfið 1:14) Ef hjartað lætur tælast getur það veifað syndinni lokkandi fyrir augum okkar og klætt hana í sakleysislegan og aðlaðandi búning. En búningurinn er blekkjandi því að syndin er stórskaðleg ef við látum undan henni. — Rómverjabréfið 8:6.

12. Hvernig getum við blekkt sjálf okkur?

12 Við getum hæglega blekkt sjálf okkur. Hið svikula hjarta getur afsakað slæman skapgerðargalla eða alvarlega synd. (1. Samúelsbók 15:13-15, 20, 21) Hjartað er spillt svo að það getur reynt að réttlæta vafasama hegðun. Tökum skemmtiefni sem dæmi. Sumt skemmtiefni er heilnæmt og ánægjulegt. En það sem heimurinn býður upp á í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og á Netinu er að stórum hluta klúrt og siðlaust. Það er hægðarleikur að telja sér trú um að maður geti horft á klúrt skemmtiefni sér að meinalausu. Sumir segja jafnvel við sjálfa sig að það sem komi ekki við samvisku þeirra hljóti að vera í lagi. En þeir sem hugsa þannig eru að blekkja sjálfa sig. — Jakobsbréfið 1:22.

13, 14. (a) Hvaða dæmi í Biblíunni sýnir að samviskan er ekki alltaf öruggur leiðarvísir? (b) Hvernig getum við varast sjálfsblekkingu?

13 Hvernig getum við verið á verði gagnvart sjálfsblekkingu? Í fyrsta lagi þurfum við að hafa hugfast að samviskan er ekki alltaf öruggur leiðarvísir. Páll postuli er dæmi um það. Hann ofsótti fylgjendur Krists áður en hann gerðist kristinn. (Postulasagan 9:1, 2) Ef til vill angraði það ekki samvisku hans á þeim tíma en hún var augljóslega á villigötum, enda segir hann: „Ég gjörði það í vantrú án þess að vita, hvað ég gjörði.“ (1. Tímóteusarbréf 1:13) Það eitt að ákveðið skemmtiefni angrar ekki samvisku manns er engin trygging fyrir því að við séum á réttri braut. Eini öruggi leiðarvísirinn er heilbrigð, biblíufrædd samviska.

14 Við þurfum að hafa nokkur góð ráð í huga til að forðast sjálfsblekkingu. Grannskoðaðu sjálfan þig í bænarhug. (Sálmur 26:2; 2. Korintubréf 13:5) Heiðarleg sjálfsrannsókn getur opnað augu þín fyrir því að þú þurfir að breyta sjónarmiðum þínum eða hátterni. Hlustaðu á aðra. (Jakobsbréfið 1:19) Þar sem fólk er sjaldan hlutlaust þegar það lítur í eigin barm er skynsamlegt að hlusta á hlutlægt mat þroskaðra trúsystkina. Ef þú uppgötvar að reyndum og yfirveguðum trúsystkinum þykja ákvarðanir þínar eða hátterni vafasamt gætirðu spurt þig: Getur verið að samviska mín sé ekki rétt uppfrædd eða að hjartað sé að leiða mig afvega? Nærðu þig jafnt og þétt af Biblíunni og biblíutengdum ritum. (Sálmur 1:2) Það auðveldar þér að halda hugsunum þínum, viðhorfum og tilfinningum í samræmi við meginreglur Guðs.

Varaðu þig á lygum Satans

15, 16. (a) Hvaða lygar notar Satan til að reyna að blekkja okkur? (b) Hvað getum við gert til að láta ekki blekkjast af slíkum lygum?

15 Satan beitir margs konar lygum til að reyna að blekkja okkur. Hann reynir að sannfæra okkur um að efnislegar eigur veiti okkur hamingju og lífsfyllingu þó að raunin sé oft önnur. (Prédikarinn 5:10-12) Hann reynir að telja okkur trú um að þessi illi heimur standi til frambúðar þó að það sé deginum ljósara að við lifum á „síðustu dögum“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Satan hampar því að það sé algerlega skaðlaust að lifa siðlausu lífi, jafnvel þó að nautnagleðin hafi oft slæmar afleiðingar. (Galatabréfið 6:7) Hvernig getum við varað okkur á slíkum lygum?

16 Lærðu af fásögum Biblíunnar. Biblían inniheldur mörg dæmi til viðvörunar, frásögur af fólki sem lét blekkjast af lygum Satans. Þetta var fólk sem lifði fyrir efnislega hluti, missti sjónar á því á hvaða tímum það var uppi eða gaf sig siðleysi á vald. Afleiðingarnar voru alltaf slæmar. (Matteus 19:16-22; 24:36-42; Lúkas 16:14; 1. Korintubréf 10:8-11) Lærðu af nútímadæmum. Því miður gerist það stundum að einstaka kristinn maður missir sjónar á því á hvaða tímum við lifum og telur sér trú um að hann fari á mis við eitthvað gott með því að þjóna Guði. Sumir yfirgefa sannleikann til að njóta lífsins, eins og það er kallað. En þeir sem gera það standa á ‚sleipri jörð‘ því að óguðlegt líferni þeirra kemur þeim í koll fyrr eða síðar. (Sálmur 73:18, 19) Það er viturlegt að læra af mistökum annarra. — Orðskviðirnir 22:3.

17. Hvers vegna elur Satan á þeirri lygi að Jehóva hvorki elski okkur né meti nokkurs?

17 Önnur lygi hefur reynst Satan notadrjúg — sú að Jehóva hvorki elski okkur né meti okkur nokkurs. Satan hefur haft þúsundir ára til að rannsaka eðli ófullkominna manna. Hann veit fullvel hve þróttlítil við getum orðið ef við verðum niðurdregin. (Orðskviðirnir 24:10) Þess vegna elur hann á þeirri lygi að við séum einskis virði í augum Guðs. Það gæti verið freistandi að gefast upp ef við erum ‚felld til jarðar‘ og erum sannfærð um að Jehóva sé ekki annt um okkur. (2. Korintubréf 4:9) Það er einmitt það sem blekkingameistarinn vill! Hvað getum við þá gert til að láta ekki blekkjast af þessari lygi Satans?

18. Hvernig fullvissar Biblían okkur um kærleika Jehóva?

18 Hugleiddu hvernig Biblían lýsir kærleika Guðs til okkar. Í orði Guðs eru dregnar upp ýmsar hjartnæmar myndir til að fullvissa okkur um að Jehóva gefi okkur gaum og elski okkur hvert og eitt. Hann safnar tárum okkar „í sjóð“ í þeirri merkingu að hann sér og man eftir tárunum sem við fellum þegar við erum að berjast við að vera honum trú. (Sálmur 56:9) Hann veit hvenær við erum með „sundurmarið hjarta“ og er okkur nálægur þegar svo er. (Sálmur 34:19) Hann þekkir þig í smáatriðum, meira að segja hve mörg hár eru á höfði þér. (Matteus 10:29-31) Síðast en ekki síst gaf Guð „son sinn eingetinn“ fyrir þig. (Jóhannes 3:16; Galatabréfið 2:20) Stundum finnst þér kannski erfitt að trúa að þessir ritningarstaðir eigi við þig persónulega. En við verðum að taka Jehóva trúanlegan. Hann vill að við trúum að hann elski okkur, ekki aðeins sem hóp heldur líka sem einstaklinga.

19, 20. (a) Hvers vegna er mikilvægt að hafna þeirri lygi Satans að Jehóva elski þig ekki? (b) Hvernig hefur farandumsjónarmaður hjálpað niðurdregnum?

19 Berðu kennsl á lygina og hafnaðu henni. Þú getur varað þig á blekkingum ef þú veist að það er verið að ljúga. Þú veist að Satan reynir að ljúga því að þér að Jehóva elski þig ekki og þessi vitneskja getur hjálpað þér mikið. Eftir að birst hafði grein í Varðturninum, þar sem varað var við kænskubrögðum Satans, sagði kristin kona: „Ég gerði mér ekki grein fyrir að Satan reynir að notfæra sér tilfinningar mínar til að gera mig niðurdregna. Þessi vitneskja er mér hvatning til að sigrast á þessum tilfinningum.“

20 Farandumsjónarmaður í landi í Suður-Ameríku segist oft spyrja niðurdregin trúsystkini sín hvort þau trúi á þrenninguna. Hinn niðurdregni segist auðvitað ekki gera það því að hann veit að þessi kenning er ein af lygum Satans. Þá spyr farandumsjónarmaðurinn hinn niðurdregna hvort hann trúi að til sé logandi helvíti og fær sama svar: Auðvitað ekki! Þá segir farandumsjónarmaðurinn að Satan hafi líka komið af stað lygi sem fólk átti sig yfirleitt ekki á. Hann bendir svo á 21. grein á blaðsíðu 249 í bókinni Nálægðu þig Jehóva * en þar er flett ofan af þeirri lygi að Jehóva elski okkur ekki sem einstaklinga. Farandumsjónarmaðurinn segir að það hafi haft jákvæð áhrif að vekja athygli niðurdreginna trúsystkina á þessari lygi Satans svo að þau geti hafnað henni.

Varaðu þig á blekkingum

21, 22. Hvers vegna koma blekkingaraðferðir Satans okkur ekki á óvart og hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

21 Það er við því að búast að Satan haldi áfram að ryðja frá sér lygum og blekkingum núna undir lok hinna síðustu daga. Sem betur fer hefur Jehóva upplýst okkur vel um blekkingar hans. Biblían og biblíutengd rit ‚trúa og hyggna þjónsins‘ afhjúpa illgjarnar aðferðir hans. (Matteus 24:45) „Ei má illt varast nema viti,“ segir máltækið en þar sem við erum vel uppfrædd getum við varað okkur. — 2. Korintubréf 2:11.

22 Við skulum því vera á varðbergi gagnvart röksemdum fráhvarfsmanna. Verum staðráðin í að gæta okkar á lúmskum sjálfsblekkingum. Og verum vakandi fyrir öllum lygum Satans og höfnum þeim. Þá getum við varðveitt samband okkar við Guð sannleikans sem hefur andstyggð á öllum blekkingum. — 2. Samúelsbók 7:28; Orðskviðirnir 3:32.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Orðabók segir að beyging sagnarinnar, sem þýdd er „afvegaleiðir“ í Opinberunarbókinni 12:9, „lýsi látlausum verknaði sem er orðinn eðlislægur“.

^ gr. 20 Gefin út af Vottum Jehóva.

Manstu?

• Hvers vegna eru svona miklar blekkingar í heiminum núna?

• Hvernig getum við varast blekkingar fráhvarfsmanna?

• Hvernig getum við varast sérhverja tilhneigingu til þess að blekkja sjálf okkur?

• Hvernig getum við varast að láta blekkjast af lygum Satans?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 31]

Blekktu ekki sjálfan þig varðandi skemmtiefni.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Til að forðast sjálfsblekkingu þarftu að grannskoða þig í bænarhug, hlusta á aðra og næra þig jafnt og þétt af orði Guðs.