Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Loforð sem þú getur treyst

Loforð sem þú getur treyst

Loforð sem þú getur treyst

MÍKA, spámaður Guðs, vissi að loforð reynast oft óáreiðanleg. Á hans dögum var jafnvel ekki alltaf hægt að treysta því að nánustu vinir héldu orð sín. Míka aðvaraði því: „Trúið eigi kunningja yðar, treystið eigi vini, gæt dyra munns þíns fyrir henni, sem hvílir í faðmi þínum.“ — Míka 7:5.

Leyfði Míka þessu sorglega ástandi að gera sig tortrygginn í garð allra loforða? Nei. Hann lýsti yfir algjöru trausti á loforð Jehóva, Guðs síns. „Ég vil mæna til Drottins, bíða eftir Guði hjálpræðis míns,“ skrifaði hann. — Míka 7:7.

Á hverju byggði Míka traust sitt? Hann vissi að Jehóva stendur alltaf við orð sín. Allt sem Guð hafði lofað forfeðrum hans rættist fullkomlega. (Míka 7:20) Trúfestin, sem Jehóva hafði áður sýnt, gaf Míka góða ástæðu til að treysta því að hann myndi halda áfram að standa við orð sín.

„Ekkert af þeim hefir brugðist“

Míka vissi meðal annars að Jehóva hafði frelsað Ísraelsmenn úr ánauð í Egyptalandi. (Míka 7:15) Jósúa var viðstaddur þessa frelsun og hvatti aðra Ísraelsmenn til að treysta öllum loforðum Guðs. Á hverju áttu þeir að byggja trú sína? Jósúa sagði: „Þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist.“ — Jósúabók 23:14.

Ísraelsmenn vissu vel að Jehóva hafði gert mjög margt gott fyrir þá. Hann hafði staðið við loforðið, sem hann gaf Abraham, guðhræddum forföður þeirra, um að afkomendur hans yrðu sem fjöldi stjarnanna og fengju Kanaanland til eignar. Jehóva sagði Abraham einnig að afkomendur hans yrðu þjáðir í 400 ár en myndu snúa aftur til Kanaanlands ‚í fjórða ættlið‘. Allt þetta rættist. — 1. Mósebók 15:5-16; 2. Mósebók 3:6-8.

Á dögum Jósefs Jakobssonar tóku Egyptar á móti Ísraelsmönnum opnum örmum. Síðar létu Egyptar þá hins vegar vinna þjakandi þrælavinnu. En eins og Guð hafði lofað frelsaði hann afkomendur Abrahams úr ánauðinni í Egyptalandi innan fjögurra æviskeiða frá því að þeir komu þangað. *

Á næstu 40 árum fengu Ísraelsmenn enn frekari sannanir fyrir því að Jehóva stendur alltaf við loforð sín. Þegar Amalekítar gerðu óréttmæta árás á Ísraelsmenn verndaði Guð fólk sitt og barðist fyrir það. Hann fullnægði öllum efnislegum þörfum þeirra á 40 ára eyðimerkurgöngunni og gerði þeim síðan kleift að setjast að í fyrirheitna landinu. Þegar Jósúa leit til baka á samskipti Jehóva við afkomendur Abrahams gat hann sagt með sannfæringu: „Ekkert brást af öllum fyrirheitum þeim, er Drottinn hafði gefið húsi Ísraels. Þau rættust öll.“ — Jósúabók 21:45.

Byggðu upp traust á loforð Guðs

Hvernig getur þú byggt upp traust á loforð Jehóva eins og Míka og Jósúa gerðu? Hugsaðu um það hvernig þú byggir upp traust til annarra. Þú reynir að kynnast þeim eins vel og þú getur. Þú getur til dæmis séð hve áreiðanlegir þeir eru með því að taka eftir því hvort þeir reyna einlæglega að standa við öll loforð sín. Þegar þú kynnist þeim betur byggirðu smám saman upp traust til þeirra. Þú getur farið eins að þegar þú byggir upp traust á loforð Guðs.

Ein leið til þess er að virða fyrir sér sköpunarverkið og náttúrulögmálin sem búa þar að baki. Vísindamenn setja traust sitt á þessi lögmál — eins og þau lögmál sem eru að verki þegar ein fruma skiptir sér og myndar þær billjónir frumna sem mannslíkaminn samanstendur af. Lögmál, sem stjórna eðli efnis og orku í alheiminum, hljóta að hafa komið frá áreiðanlegum löggjafa. Þú getur vissulega treyst loforðum hans alveg eins og þú treystir náttúrulögmálunum í sköpunarverki hans. — Sálmur 139:14-16; Jesaja 40:26; Hebreabréfið 3:4.

Fyrir milligöngu spámannsins Jesaja, samtíðarmanns Míka, líkti Jehóva áreiðanleika orða sinna við árstíðaskiptin og hringrás vatnsins. Á hverju ári kom regntíminn. Rigningin vökvaði jörðina og gerði fólki kleift að sá og uppskera. Jehóva sagði: „Eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur, fyrr en það hefir vökvað jörðina, gjört hana frjósama og gróandi og gefið sáðmanninum sæði og brauð þeim er eta, eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ — Jesaja 55:10, 11.

Áreiðanleg loforð um paradís

Þú getur byggt upp traust til skaparans með því að virða fyrir þér sköpunarverkið en það þarf meira til ef þú vilt læra um loforðin sem ,útganga af munni hans‘. Til að læra um þessi loforð og byggja upp traust á þeim þarftu að rannsaka það sem Guð hefur skráð í innblásnu orði sínu um fyrirætlun sína með jörðina og mennina. — 2. Tímóteusarbréf 3:14-17.

Spámaðurinn Míka treysti loforðum Jehóva. Þú hefur aðgang að enn fleiri innblásnum bókum Biblíunnar en hann hafði. Með því að lesa Biblíuna og íhuga það sem þú lest geturðu byggt upp trú á að loforð Guðs muni rætast. Þessi loforð eiga ekki bara við afkomendur Abrahams heldur mannkynið í heild sinni. Jehóva lofaði þessum guðhrædda ættföður: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu.“ (1. Mósebók 22:18) Þegar talað er um afkvæmi Abrahams er fyrst og fremst átt við Messías eða Jesú Krist. — Galatabréfið 3:16.

Jehóva mun sjá til þess fyrir milligöngu Jesú Krists að blessanir streymi yfir hlýðna menn. En hvað hefur Guð lofað að gera á okkar dögum? Spádómurinn í Míka 4:1, 2 svarar því: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu lýðirnir streyma. Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall Drottins og til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘“

Þeir sem læra um vegi Jehóva „smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum“. Allur stríðshugur hverfur. Bráðum verður jörðin full af heiðarlegu fólki og enginn mun hræða það. (Míka 4:3, 4) Já, Jehóva lofar í orði sínu að hann muni nota ríki sitt með Jesú Krist sem stjórnanda til að losa jörðina við allt sem þjakar hana. — Jesaja 11:6-9; Daníel 2:44; Opinberunarbókin 11:18.

Jafnvel þeir sem hafa þjáðst og dáið vegna uppreisnar mannsins gegn Guði verða reistir upp til lífs og fá þá von að lifa að eilífu á jörðinni. (Jóhannes 5:28, 29) Satan og illir andar hans, sem eru uppspretta illskunnar, verða fjarlægðir og lausnarfórn Jesú Krists mun gera að engu áhrif syndar Adams. (Matteus 20:28; Rómverjabréfið 3:23, 24; 5:12; 6:23; Opinberunarbókin 20:1-3) En hvert verður hlutskipti hlýðinna manna? Þeir fá að lifa að eilífu við fullkomna heilsu í paradís á jörð! — Sálmur 37:10, 11; Lúkas 23:43; Opinberunarbókin 21:3-5.

Þetta eru stórkostleg loforð. En getur þú treyst þeim? Já, svo sannarlega. Þetta eru ekki loforð manna sem hafa hugsanlega góðan ásetning en megna ekki að efna þau. Það er hinn alvaldi Guðs sem gefur þessi loforð en hann getur ekki logið og er ekki „seinn á sér með fyrirheitið“. (2. Pétursbréf 3:9; Hebreabréfið 6:13-18) Þú getur treyst algerlega öllum loforðum Biblíunnar vegna þess að þau eru komin frá Jehóva, Guði sannleikans. — 2. Samúelsbók 7:28.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Sjá Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 911-12. Gefin út af Vottum Jehóva.

[Innskot á blaðsíðu 6]

„Ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður.“ — JÓSÚABÓK 23:14.

[Myndir á blaðsíðu 4, 5]

Jehóva stóð við loforðin sem hann gaf Ísraelsmönnum við Rauðahafið og í eyðimörkinni.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Jehóva efndi loforð sitt við Abraham. Afkvæmi hans, Jesús Kristur, mun færa öllu mannkyninu blessun.