Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þjónn“ sem er bæði trúr og hygginn

„Þjónn“ sem er bæði trúr og hygginn

„Þjónn“ sem er bæði trúr og hygginn

„Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma?“ — MATTEUS 24:45.

1, 2. Hvers vegna er okkur nauðsynlegt að fá andlega fæðu reglulega nú á dögum?

ÞRIÐJUDAGINN 11. nísan árið 33 komu lærisveinar Jesú með spurningu sem hefur djúpstæða merkingu fyrir okkur sem nú lifum. Þeir spurðu hann: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ Jesús svaraði þeim með merkum spádómi. Hann talaði um róstusama tíma styrjalda, hungursneyða, jarðskjálfta og sjúkdóma. Og það yrði aðeins „upphaf fæðingarhríðanna“. Tímarnir myndu versna. Uggvænlegar horfur það. — Matteus 24:3, 7, 8, 15-22; Lúkas 21:10, 11.

2 Frá 1914 hefur spádómur Jesú ræst að flestu leyti. Mannkynið má nú þola harðar ,fæðingarhríðir‘. Sannkristnir menn þurfa samt ekki að hræðast. Jesús lofaði því að hann myndi halda þeim uppi með næringarríkri andlegri fæðu. Hvaða leið notar Jesús til að sjá okkur fyrir andlegri fæðu þar sem hann er núna á himnum?

3. Hvaða leið notar Jesús til að sjá okkur fyrir „mat á réttum tíma“?

3 Jesús benti sjálfur á svarið við þeirri spurningu. Þegar hann var að flytja þennan mikla spádóm spurði hann: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma?“ Síðan sagði hann: „Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ (Matteus 24:45-47) Já, „þjónn“ yrði útnefndur til að útbýta andlegri fæðu og þessi „þjónn“ yrði bæði trúr og hygginn. Var þessi þjónn einhver ákveðinn einstaklingur, óslitin röð manna eða eitthvað annað? Það er okkur í hag að fá svar við því þar sem hinn trúi þjónn sér okkur fyrir bráðnauðsynlegri andlegri fæðu.

Einstaklingur eða hópur?

4. Hvernig vitum við að hinn „trúi og hyggni þjónn“ getur ekki verið einn maður?

4 Hinn „trúi og hyggni þjónn“ getur ekki verið einn maður. Hvers vegna ekki? Vegna þess að þjónninn hóf að framreiða andlega fæðu á fyrstu öldinni og átti, samkvæmt orðum Jesú, að vera enn að þegar húsbóndinn kæmi árið 1914. Það myndi samsvara 1900 ára trúfastri þjónustu eins manns. Metúsala lifði ekki einu sinni svo lengi. — 1. Mósebók 5:27.

5. Útskýrðu hvers vegna orðalagið „sá trúi og hyggni þjónn“ eigi ekki við hvern og einn kristinn mann.

5 En gæti þá orðalagið „sá trúi og hyggni þjónn“ átt við hvern og einn kristinn mann í almennum skilningi? Auðvitað verða allir kristnir menn að vera trúir og hyggnir, en Jesús hafði greinilega eitthvað meira í huga þegar hann talaði um hinn trúa og hyggna þjón. Hvernig vitum við það? Hann sagði að húsbóndinn myndi setja þjóninn „yfir allar eigur sínar“ þegar hann kæmi. Hvernig væri hægt að setja hvern og einn kristinn mann yfir allt — yfir „allar“ eigur Drottins? Það væri óhugsandi.

6. Hvernig átti Ísrael að vera „þjónn“ Guðs?

6 Eina rökrétta niðurstaðan er því sú að Jesús hafi átt við hóp kristinna manna þegar hann talaði um trúa og hyggna þjóninn. Er hægt að tala um hóp manna sem þjón? Já, því að sjö hundruð árum fyrir Krist kallaði Jehóva alla Ísraelsþjóðina ,sína votta‘ og ,sinn þjón sem hann hefði útvalið‘. (Jesaja 43:10) Hver einasti Ísraelsmaður var hluti af þessum þjónshópi allt frá 1513 f.o.t., þegar Móselögmálið kom til sögunnar, og fram til hvítasunnu árið 33. Fæstir Ísraelsmenn tóku beinan þátt í að stjórna þjóðinni eða hafa umsjón með andlegri uppfræðslu hennar. Jehóva notaði konungana, dómarana, spámennina, prestana og levítana til að sinna þeim verkefnum. Þrátt fyrir það átti Ísrael sem þjóð að vera fulltrúi drottinvalds Jehóva og lofa hann meðal þjóðanna. Hver einasti Ísraelsmaður átti að vera vottur Jehóva. — 5. Mósebók 26:19; Jesaja 43:21; Malakí 2:7; Rómverjabréfið 3:1, 2.

„Þjónn“ er rekinn

7. Hvers vegna voru Ísraelsmenn til forna óhæfir til að vera „þjónn“ Guðs?

7 Nú var Ísrael „þjónn“ Guðs fyrir alda öðli. Átti Jesús þá við Ísrael þegar hann talaði um þjóninn? Nei, því að Forn-Ísrael reyndist því miður hvorki vera trúr né hygginn. Páll lýsir ástandinu í hnotskurn þegar hann vitnar í orð Jehóva til þjóðarinnar: „Nafn Guðs verður yðar vegna fyrir lasti meðal heiðingjanna.“ (Rómverjabréfið 2:24) Ísraelsmenn áttu langa uppreisnarsögu að baki og náðu hátindi hennar þegar þeir höfnuðu Jesú. Fyrir vikið hafnaði Jehóva þeim. — Matteus 21:42, 43.

8. Hvenær var „þjónn“ skipaður í stað Ísraelsþjóðarinnar og við hvaða aðstæður?

8 Þessi ótrúmennska af hálfu ,þjónsins‘, Ísraels, þýddi samt ekki að trúfastir tilbiðjendur myndu aldrei framar fá andlega fæðu. Á hvítasunnu árið 33, 50 dögum eftir upprisu Jesú, var heilögum anda úthellt yfir um 120 af lærisveinum hans í loftstofu í Jerúsalem. Ný þjóð fæddist á þeirri stundu. Það var vel við hæfi að fæðing hennar var gerð kunnug þegar þeir sem tilheyrðu henni hófu að segja Jerúsalembúum frá ,stórmerkjum Guðs‘. (Postulasagan 2:11) Þessi nýja þjóð, sem var andleg, varð ,þjónninn‘ sem myndi kunngera þjóðunum dýrð Jehóva og veita fæðu á réttum tíma. (1. Pétursbréf 2:9) Síðar var hún kölluð „Ísrael Guðs“ og átti það vel við. — Galatabréfið 6:16.

9. (a) Hverjir mynda ,hinn trúa og hyggna þjón‘? (b) Hverjir eru ,hjúin‘?

9 Allir sem tilheyra „Ísrael Guðs“ eru vígðir og skírðir kristnir menn, smurðir með heilögum anda og hafa himneska von. Heitið ,trúr og hygginn þjónn‘ er því notað um allan hóp hinna andasmurðu sem eru á jörðinni á hverjum tíma allt frá árinu 33 e.o.t. fram á okkar dag, rétt eins og allir Ísraelsmenn, sem voru samtíða einhvern tíma á árabilinu 1513 f.o.t. til ársins 33 e.o.t., tilheyrðu þjónshópi þess tíma. En hver eru ,hjúin‘ sem fá andlega næringu frá þjóninum? Á fyrstu öldinni höfðu allir kristnir menn himneska von. Þar af leiðandi voru hjúin líka smurðir kristnir menn sem einstaklingar en ekki sem hópur. Allir í söfnuðinum, þar á meðal þeir sem voru í ábyrgðarstöðum, þurftu á andlegri fæðu að halda frá þjóninum. — 1. Korintubréf 12:12, 19-27; Hebreabréfið 5:11-13; 2. Pétursbréf 3:15, 16.

„Hverjum sitt verk“

10, 11. Hvernig vitum við að meðlimir þjónshópsins hafa ekki allir sama verkefnið?

10 Enda þótt „Ísrael Guðs“ sé trúi og hyggni þjónshópurinn og hafi ákveðið verkefni hefur hver og einn innan þess hóps sínar skyldur. Orð Jesú í Markúsi 13:34 taka af allan vafa um það. Hann sagði: „Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka.“ Hver einasti meðlimur þessa þjónshóps hefur því fengið verkefni — að ávaxta jarðneskar eigur Krists. Hann sinnir því í samræmi við hæfni sína og tækifæri. — Matteus 25:14, 15.

11 Pétur postuli sagði andasmurðum kristnum samtíðarmönnum sínum: „Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs.“ (1. Pétursbréf 4:10) Hinir smurðu hafa sem sagt það verkefni að nota náðargáfurnar, sem Guð gaf þeim, til að þjóna hver öðrum. Orð Péturs gefa líka til kynna að kristnir menn myndu ekki allir hafa sömu hæfileika, ábyrgð eða hlutverk. Hver einasti meðlimur þjónshópsins gat hins vegar lagt sitt af mörkum til að stuðla að vexti andlegu þjóðarinnar. Hvernig þá?

12. Hvernig stuðlaði hver meðlimur þjónshópsins, hvort sem hann var karl eða kona, að vexti þjónsins?

12 Í fyrsta lagi hafði hver og einn þá ábyrgð að vera vottur Jehóva og prédika fagnaðarerindið um ríkið. (Jesaja 43:10-12; Matteus 24:14) Rétt áður en Jesús steig upp til himna fyrirskipaði hann öllum trúföstum lærisveinum sínum, bæði konum og körlum, að vera kennarar. Hann sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — Matteus 28:19, 20.

13. Hvaða verkefni fengu allir smurðir kristnir menn?

13 Þegar nýir lærisveinar fyndust átti að kenna þeim vandlega að halda allt það sem Jesús hafði boðið lærisveinum sínum. Með tímanum urðu áhugasamir menn hæfir til að kenna öðrum. Væntanlegum meðlimum þjónshópsins víða um lönd var séð fyrir næringarríkri andlegri fæðu. Allir andasmurðir kristnir menn, bæði karlar og konur, áttu þátt í að vinna það verk, sem þeim hafði verið falið, að gera menn að lærisveinum. (Postulasagan 2:17, 18) Og þetta verk átti að vinna frá þeim tíma er þjónninn hóf að starfa og fram að endalokum þessa heimskerfis.

14. Hverjir einir áttu að kenna í söfnuðinum og hvað fannst trúföstum andasmurðum systrum um það?

14 Þeir sem nýlega höfðu verið skírðir og andasmurðir urðu hluti af þjóninum. Óháð því hverjir kenndu þeim í byrjun fengu þeir í framhaldinu kennslu frá þeim safnaðarmönnum sem stóðust hæfniskröfur Ritningarinnar til að þjóna sem öldungar. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; Títusarbréfið 1:6-9) Þessir útnefndu menn gátu því stuðlað að vexti þjóðarinnar með sérstökum hætti. Trúföstum andasmurðum systrum gramdist það ekki að kristnum karlmönnum var einum falið að kenna í söfnuðinum. (1. Korintubréf 14:34, 35) Þær voru öllu heldur ánægðar að fá að njóta góðs af ötulu starfi karlmannanna í söfnuðinum og voru þakklátar fyrir þau tækifæri sem konum stóðu til boða, meðal annars að færa öðrum fagnaðarerindið. Kostgæfar andasmurðar systur nú á dögum láta í ljós sama auðmjúka hugarfarið, hvort sem hinir útnefndu öldungar eru andasmurðir eða ekki.

15. Hvaðan kom megnið af andlegu fæðunni á fyrstu öldinni og hverjir tóku forystuna í að úthluta henni?

15 Andlega undirstöðufæðan á fyrstu öldinni kom beint úr penna postulanna og annarra lærisveina sem tóku forystuna. Bréfin, sem þeir skrifuðu, gengu á milli safnaðanna og öldungarnir á hverjum stað hafa eflaust notað þau sem grundvöll að kennslu sinni. Einkum hafa þeir haft gagn af þeim bréfum sem er að finna meðal hinna 27 innblásnu bóka kristnu Grísku ritninganna. Með þessum hætti dreifðu fulltrúar þjónsins megnri andlegri fæðu dyggilega til einlægra kristinna manna. Þjónshópurinn á fyrstu öldinni reyndist trúr verkefni sínu.

,Þjónninn‘ 19 öldum síðar

16, 17. Hvernig innti þjónshópurinn verkefni sitt trúfastlega af hendi fram til ársins 1914?

16 Hvað um okkar daga? Fann Jesús hóp smurðra kristinna manna í upphafi nærveru sinnar árið 1914 sem úthlutaði fæðu á réttum tíma? Svo sannarlega. Þessi hópur var auðþekkjanlegur af ávöxtunum sem hann bar. (Matteus 7:20) Sagan hefur staðfest þetta.

17 Þegar Jesús kom voru um 5000 hjú upptekin af því að útbreiða biblíusannindi. Verkamennirnir voru fáir en þjónninn notaði ýmsar hugvitsamlegar aðferðir til að útbreiða fagnaðarerindið. (Matteus 9:38) Til dæmis fengust biblíuerindi birt í allt að 2000 dagblöðum. Með þessum hætti náði sannleikurinn í orði Guðs samtímis til tugþúsunda lesenda. Auk þessa var undirbúin átta klukkustunda dagskrá sem samanstóð af litskyggnum og hreyfimyndum. Það var þessari nýstárlegu sýningu að þakka að boðskapur Biblíunnar um tímann frá upphafi sköpunarinnar og fram að lokum þúsundáraríkis Krists var fluttur meira en níu milljónum manna í þremur heimsálfum. Prentað mál var einnig notað í þessum tilgangi. Svo dæmi sé tekið voru um 50.000 eintök af þessu tímariti gefin út árið 1914.

18. Hvenær setti Jesús þjóninn yfir allar eigur sínar og hvers vegna?

18 Já, þegar húsbóndinn kom var trúr þjónn hans önnum kafinn við að gefa hjúunum mat og við að prédika fagnaðarerindið. Nú átti þjónninn að fá meiri ábyrgð. Jesús sagði: „Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.“ (Matteus 24:47) Jesús gerði þetta árið 1919 eftir að þjónninn hafði staðist reynslutíma. En hvers vegna fékk hinn „trúi og hyggni þjónn“ meiri ábyrgð? Vegna þess að eigur húsbóndans höfðu vaxið. Jesús hafði fengið konungdóminn árið 1914.

19. Útskýrðu hvernig séð hefur verið fyrir andlegum þörfum hins mikla múgs.

19 Yfir hvaða eigur setti hinn nýkrýndi húsbóndi trúan þjón sinn? Allar andlegar eigur sínar hér á jörð. Tveimur áratugum eftir að Kristur var settur í hásæti árið 1914 kom til dæmis „mikill múgur“ ,annarra sauða‘ fram á sjónarsviðið. (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16) Þetta voru ekki andasmurðir meðlimir ,Ísraels Guðs‘ heldur einlægir karlar og konur með jarðneska von sem elskuðu Jehóva og langaði, ekkert síður en hina andasmurðu, til að þjóna honum. Í raun sögðu þeir við trúa og hyggna þjóninn: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.“ (Sakaría 8:23) Þessir kristnu menn, sem nýlega höfðu verið skírðir, neyttu sömu andlegu fæðunnar og andasmurðu hjúin, og hóparnir tveir hafa báðir setið að þessu andlega borði síðan þá. Þetta hefur verið til mikillar blessunar fyrir hinn mikla múg.

20. Hvaða hlutverki hefur múgurinn mikli gegnt í því að auka eigur Drottins?

20 Múgurinn mikli sameinaðist glaður hinum smurða þjónshópi í að prédika fagnaðarerindið. Eftir því sem prédikuninni vatt fram jukust jarðneskar eigur húsbóndans og þar með varð ábyrgð hins trúa og hyggna þjóns meiri. Sannleiksleitandi mönnum fór ört fjölgandi og því var aukin þörf á nýjum og stærri prentsmiðjum til að anna eftirspurninni eftir biblíuritum. Komið var á fót deildarskrifstofum Votta Jehóva í einu landinu á fætur öðru. Trúboðar voru sendir „til endimarka jarðarinnar“. (Postulasagan 1:8) Árið 1914 voru hinir andasmurðu um fimm þúsund en núna eru tilbiðjendur Guðs fleiri en sex milljónir talsins og eru flestir þeirra af múginum mikla. Já, eigur konungsins hafa margfaldast síðan hann var krýndur árið 1914.

21. Hvaða tvær dæmisögur skoðum við í næstu grein?

21 Allt er þetta til merkis um að þjónninn hefur bæði verið trúr og hygginn. Rétt eftir að Jesús hafði talað um trúa og hyggna þjóninn sagði hann tvær dæmisögur sem leggja áherslu á þessa eiginleika. Þetta er dæmisagan um hyggnu og fávísu meyjarnar og dæmisagan um talenturnar. (Matteus 25:1-30) Forvitni okkar er vakin. Hvaða þýðingu hafa þessar dæmisögur fyrir okkur? Við munum fjalla um þessa spurningu í næstu grein.

Hvað hefurðu lært?

• Hverjir mynda ,hinn trúa og hyggna þjón‘?

• Hverjir eru ,hjúin‘?

• Hvenær var hinn trúi þjónn settur yfir allar eigur Drottins og hvers vegna þá?

• Hverjir hafa hjálpað til við að auka eigur Drottins á undanförnum áratugum og hvernig?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 10]

Þjónshópurinn á fyrstu öldinni reyndist trúr verkefni sínu.