Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eiga vandamál mannkyns rætur að rekja til trúarbragða?

Eiga vandamál mannkyns rætur að rekja til trúarbragða?

Eiga vandamál mannkyns rætur að rekja til trúarbragða?

„ÞEGAR trúarbrögðin eru ekki að ýta undir átök virka þau eins og deyfilyf sem sljóvga samvisku manna og fylla huga þeirra af óraunhæfum draumórum. . . . [Þau] gera menn þröngsýna og hjátrúarfulla og fylla þá hatri og ótta,“ skrifaði fyrrverandi meþódistatrúboði og bætti síðan við: „Þessar ásakanir eru sannar. Til eru bæði góð og slæm trúarbrögð.“ — Start Your Own Religion.

„Þetta er nú ósanngjörn gagnrýni,“ myndu sumir segja. En hver getur horft fram hjá staðreyndum sögunnar? Trúarbrögðin, skilgreind sem tilbeiðsla og þjónusta við Guð eða hið yfirnáttúrlega, eiga sér mjög átakanlega sögu á heildina litið. Þau ættu að uppfræða og hvetja til dáða en oftar en ekki er raunin sú að þau ýta undir deilur, átök, umburðarleysi og hatur. Hvers vegna?

Afvegaleiðandi í „ljósengilsmynd“

Biblían gefur mjög einfalt svar. Satan djöfullinn kemur fram í „ljósengilsmynd“ og hefur villt um fyrir milljónum manna svo að þeir fylgja kenningum hans en ekki Guðs. (2. Korintubréf 11:14) Jóhannes postuli sagði að áhrif Satans væru svo mikil að ‚allur heimurinn væri á valdi hins vonda‘. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Hann vissi að Satan ,afvegaleiðir alla heimsbyggðina‘. — Opinberunarbókin 12:9.

Hverjar hafa afleiðingarnar verið? Satan hefur komið á fót trúarbrögðum sem eru heilög að sjá á yfirborðinu. Þau hafa á sér „yfirskin guðhræðslunnar“ en af vondum ávöxtum þeirra sést hvað býr undir yfirborðinu. (2. Tímóteusarbréf 3:5; Matteus 7:15-20) Í stað þess að stuðla að því að leysa vandamál mannkyns eru trúarbrögðin hluti af þeim.

Vertu ekki fljótur að vísa þessu á bug með þeim orðum að þetta sé langsótt eða órökrétt. Mundu að blekkingar eru í eðli sínu þannig að sá sem lætur blekkjast gerir sér ekki grein fyrir því. Páll postuli nefndi dæmi um það þegar hann sagði: „Það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði.“ (1. Korintubréf 10:20) Þessu fólki hefði líklega brugðið við tilhugsunina um að það væri að tilbiðja illa anda. Það hélt sig tilbiðja einhvern góðan guð eða guði. En í rauninni hafði það verið blekkt af ,andaverum vonskunnar í himingeimnum‘ sem styðja Satan í að villa um fyrir mönnunum. — Efesusbréfið 6:12.

Við skulum kanna hvernig Satan tókst að blekkja og afvegaleiða marga sem játuðu kristna trú en hunsuðu viðvörun Jóhannesar um áhrif illra anda. — 1. Korintubréf 10:12.

Það sem Jesús kenndi var frá Guði

„Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig,“ sagði Jesús Kristur. (Jóhannes 7:16) Það sem Jesús kenndi var frá alvöldum Guði. Kennsla hans hafði þess vegna mikil og góð áhrif á áheyrendur hans. Hún hvorki ‚sljóvgaði samvisku manna né fyllti huga þeirra af óraunhæfum draumórum‘. Kennsla hans frelsaði fólk frá trúarlegri villu og heimspeki manna sem runnin var frá heiminum en heimurinn var andlega „blindaður“ vegna blekkinga Satans. — Efesusbréfið 4:18; Matteus 15:14; Jóhannes 8:31, 32.

Sannkristnir menn voru ekki bara guðræknir á yfirborðinu heldur einkenndust af trú sem endurspeglaði aðlaðandi eiginleika sem heilagur andi Guðs kallaði fram í þeim. (Galatabréfið 5:22, 23; Jakobsbréfið 1:22; 2:26) Af þessum eiginleikum skarar kærleikurinn fram úr og einkennir sanna kristni. — Jóhannes 13:34, 35.

En taktu eftir einu mikilvægu atriði: Hvorki Jesús né postularnir væntu þess að kristni söfnuðurinn héldi áfram að vera eins og hann var við stofnun hans. Þeir vissu að mikið fráhvarf var fram undan og sönn trú yrði hulin um tíma.

Sönn trú hulin um tíma

Jesús brá upp líkingu af hveiti og illgresi til að lýsa hvernig sönn trú yrði næstum óþekkjanleg um tíma. Lestu frásöguna í Matteusi 13:24-30, 36-43. Jesús sáði hveiti eða „góðu sæði“ í akur en það táknaði trúfasta lærisveina hans sem mynduðu frumkristna söfnuðinn. Hann varaði við því að „óvinur“, það er að segja Satan djöfullinn, myndi síðar sá í hveitiakurinn „illgresi“ — fólki sem segðist fylgja Jesú Kristi en hafnaði í raun kennslu hans.

Skömmu eftir dauða postulanna komu fram menn sem reyndust vera „illgresi“ og tóku rangsnúnar kenningar manna fram yfir ,orð Drottins‘. (Jeremía 8:8, 9; Postulasagan 20:29, 30) Fyrir vikið kom afbökuð og fölsk kristni fram á sjónarsviðið. Biblían kallar forystumenn hennar ,lögleysingjann‘ en það var spillt klerkastétt sem var gagnsýrð af „alls konar ranglætisvélum, sem blekkja“. (2. Þessaloníkubréf 2:6-10) Jesús spáði því að þetta ástand myndi breytast „við endi veraldar“. Kristnum mönnum, sem líkt var við hveiti, yrði þá safnað saman í einingu og „illgresinu“ yrði að lokum eytt.

Það er þessi falskristni sem ber ábyrgð á því andlega myrkri og þeirri „aldalöngu, taumlausu villimennsku“ sem hefur einkennt kristindóminn í aldanna rás. Pétur postuli sá þetta fyrir og öll þau siðspilltu og ofbeldisfullu verk sem framin yrðu í nafni trúarinnar eftir að falskristnin kæmi til skjalanna. Hann reyndist sannspár þegar hann sagði: „Sakir þeirra [sem kalla sig kristna] mun vegi sannleikans verða hallmælt.“ — 2. Pétursbréf 2:1, 2.

„Guðfræði reiði og haturs“

Það er vissulega ekki aðeins kristindómurinn sem hefur komið óorði á trúarbrögðin. Sem dæmi má nefna bókstafstrúarhópa sem „tjá guðrækni sína með ofbeldi“ og hafa sprottið af „öllum helstu trúarbrögðum heims“, að sögn Karenar Armstrong en hún er fyrrverandi nunna. Hún segir að mikilvægur prófsteinn á sérhverja trú sé sá að hún hvetji til „samúðar í verki“. Hvernig hefur bókstafstrúarhópum tekist til að þessu leyti? Karen Armstrong svarar: „Bókstafstrú, hvort sem hún er kristin, múslímsk eða gyðingleg, fellur á þessu mikilvæga prófi ef hún verður guðfræði reiði og haturs.“ (The Battle for God — Fundamentalism in Judaism, Christianity and Islam) En er það bara „bókstafstrú“ sem hefur fallið á þessu prófi og orðið „guðfræði reiði og haturs“? Sagan sýnir að svo er ekki.

Satan hefur meira að segja byggt upp heimsveldi falskra trúarbragða sem einkennist af reiði, hatri og næstum takmarkalausum blóðsúthellingum. Biblían kallar þetta heimsveldi ‚Babýlon hina miklu, móður viðurstyggða jarðarinnar‘ og því er lýst sem vændiskonu sem situr á baki dýrslegu stjórnmálakerfi. Það er athyglisvert að hún er sögð bera ábyrgð á ,blóði allra þeirra sem hafa drepnir verið á jörðinni‘. — Opinberunarbókin 17:4-6; 18:24.

Ekki hafa allir látið blekkjast

Mannkynssagan sýnir hins vegar fram á að það hafa ekki allir látið blekkjast. Melvyn Bragg vekur athygli á því að jafnvel á myrkustu tímum mannkynssögunnar hafi „margir góðir menn gert gott þegar flestir aðrir hafi verið illir“. Sannkristnir menn héldu áfram að „tilbiðja [Guð] í anda og sannleika“. (Jóhannes 4:21-24) Þeir aðgreindu sig frá trúarbrögðum heims sem drýgt höfðu saurlifnað með því að „styðja hernaðaröfl“. Þeir létu ekki draga sig inn í samstarf ríkis og kirkju sem sagan sýnir að var „frekar samkomulag gert af Satan en Jesú frá Nasaret“. — Two Thousand Years — The Second Millennium: From Medieval Christendom to Global Christianity

Vottar Jehóva eru þekktir fyrir góð áhrif sín. Þeir hafa haldið sig algerlega frá falstrú með því að byggja trú sína og verk eingöngu á Biblíunni, innblásnu orði Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Þeir hafa einnig farið eftir fyrirmælum Jesú um að vera „ekki af heiminum“, og líkjast þar með kristnum mönnum á fyrstu öld. (Jóhannes 15:17-19; 17:14-16) Á valdatíma nasista í Þýskalandi neituðu þeir til dæmis að víkja frá kristnum meginreglum og þess vegna samrýmdust þeir ekki hugmyndafræði nasista. Hitler hataði þá vegna afstöðu þeirra. Kennslubók segir: „Vottar Jehóva . . . fóru eftir fyrirmælum Biblíunnar um að taka sér ekki vopn í hönd fyrir nokkurn málstað. Þeir neituðu þar af leiðandi að ganga í herinn eða tengjast nasistum á nokkurn hátt. Fyrir vikið fangelsuðu SS-menn heilar fjölskyldur votta Jehóva.“ (Germany — 1918-45) Hundruð votta Jehóva í Þýskalandi létu lífið vegna ofsókna nasista.

Auðvitað þjáðust aðrir hugrakkir einstaklingar úr ýmsum trúarhópum fyrir trú sína. En vottar Jehóva gerðu það sem sameinað trúfélag. Yfirgnæfandi meiri hluti þeirra hélt sig fast við grundvallarreglu Biblíunnar: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:29; Markús 12:17.

Undirrót vandans

Það er því aðeins að hluta til rétt að vandamál mankyns eigi rætur að rekja til trúarbragðanna. Þau eiga rætur að rekja til falskra trúarbragða. En Guð ætlar mjög bráðlega að fjarlægja öll fölsk trúarbrögð. (Opinberunarbókin 17:16, 17; 18:21) Hann hvetur alla sem elska réttlæti: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni [það er að segja Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða], svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar. Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar.“ (Opinberunarbókin 18:4, 5) Já, Guði mislíkar stórlega trúarbrögð sem ‚ýta undir átök, sljóvga samvisku manna, fylla huga þeirra af óraunhæfum draumórum, gera menn þröngsýna og hjátrúarfulla og fylla þá hatri og ótta‘.

Núna er Guð að safna saman fólki, sem elskar sannleikann, til hinnar sönnu trúar. Þessi trú heldur fast við leiðsögn og lög skaparans sem er kærleiksríkur, réttlátur og umhyggjusamur. (Míka 4:1, 2; Sefanía 3:8, 9; Matteus 13:30) Þú getur fundið hina sönnu trú. Ef þú vilt vita meira um hvernig bera má kennsl á hana geturðu skrifað útgefendum þessa blaðs eða beðið einhvern af vottum Jehóva um aðstoð.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Fólk af ólíkum uppruna hefur fundið gleði í sannri trú.