Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Fullna þjónustu þína“

„Fullna þjónustu þína“

„Fullna þjónustu þína“

„Sinntu þjónustu þinni gaumgæfilega.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:5, Byington.

1, 2. Hvaða kröfur gerir Biblían sérstaklega til öldunga?

ERT þú boðberi fagnaðarerindisins? Ef svo er skaltu þakka Jehóva Guði fyrir heiðurinn sem hann sýnir þér. Ertu safnaðaröldungur? Þá hefurðu enn meira til að þakka honum fyrir. En við megum aldrei gleyma að hvorki menntun né málfimi getur gert okkur hæf til að sinna boðunarstarfinu eða umsjónarstarfi í söfnuðinum. Það er Jehóva sem gerir okkur hæf fyrir boðunarstarfið og þeir sem uppfylla ákveðnar kröfur í Biblíunni fá að þjóna sem umsjónarmenn. — 2. Korintubréf 3:5, 6; 1. Tímóteusarbréf 3:1-7.

2 Allir vígðir kristnir menn gera verk trúboða en umsjónarmenn eða öldungar þurfa sérstaklega að setja gott fordæmi í boðunarstarfinu. Guð og Kristur taka eftir öldungum „sem erfiða í orðinu og í kennslu“ og það gera trúsystkini þeirra einnig. (1. Tímóteusarbréf 5:17; Efesusbréfið 5:23; Hebreabréfið 6:10-12) Kennsla öldunga verður ávallt að vera andlega heilnæm. Páll postuli sagði umsjónarmanninum Tímóteusi: „Þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun. Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum. En ver þú algáður í öllu, þol illt, gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:3-5.

3. Hvað þarf að gera til að andlegri velferð safnaðarins stafi ekki hætta af falskenningum?

3 Til að gæta þess að andlegri velferð safnaðarins stafi ekki hætta af falskenningum verða umsjónarmenn að fara eftir ráðleggingum Páls: „Vertu algáður í öllu, . . . sinntu þjónustu þinni gaumgæfilega.“ (2. Tímóteusarbréf 4:5, Byington) Já, öldungar þurfa að fullna þjónustu sína og sinna henni gaumgæfilega og af heilum huga. Öldungar, sem fullna þjónustu sína, gera öllum ábyrgðarstörfum sínum góð skil og skilja ekkert eftir hálfklárað eða óunnið. Þeir eru trúir jafnvel í því smæsta. — Lúkas 12:48; 16:10.

4. Hvað getur hjálpað okkur að fullna þjónustuna?

4 Við þurfum ekki endilega að hafa meiri tíma aflögu til að geta fullnað þjónustu okkar. Það er hins vegar nauðsynlegt að nýta tímann vel. Reglufesta getur hjálpað öllum kristnum mönnum að gera þjónustunni góð skil. Til að hafa meiri tíma fyrir boðunarstarfið þurfa öldungar að skipuleggja sig vel, vita hvað þeir eiga að fela öðrum og hvernig þeir eiga að gera það. (Hebreabréfið 13:17) Virtir öldungar leggja að sjálfsögðu sitt af mörkum eins og Nehemía sem tók sjálfur þátt í að endurreisa múra Jerúsalem. (Nehemíabók 5:16) Allir þjónar Jehóva ættu að taka reglulega þátt í að boða fagnaðarerindið um Guðsríki. — 1. Korintubréf 9:16-18.

5. Hvernig ættum við að líta á boðunarstarfið?

5 Við höfum það ánægjulega verkefni að prédika stofnsett ríki Guðs á himnum og metum mikils að fá að taka þátt í að boða öllum jarðarbúum fagnaðarerindið áður en endirinn kemur. (Matteus 24:14) Við, ófullkomnir menn, getum sótt styrk í orð Páls: „Þennan fjársjóð [boðunarstarfið] höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.“ (2. Korintubréf 4:7) Já, þjónusta okkar getur verið Jehóva velþóknanleg en hún er það aðeins ef við nýtum okkur þá visku og þann styrk sem hann veitir okkur. — 1. Korintubréf 1:26-31.

Endurspeglum dýrð Guðs

6. Hvaða munur var á Ísraelmönnum að holdinu og andlegum Ísraelsmönnum?

6 Páll talar til andasmurðra kristinna manna og segir: „[Guð] hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála.“ Postulinn ber saman nýja sáttmálann, sem gerður var við andlega Ísraelsmenn fyrir milligöngu Jesú Krists, og gamla lagasáttmálann sem gerður var við Ísraelsmenn að holdinu fyrir milligöngu Móse. Páll segir líka að þegar Móse kom niður af Sínaífjalli með töflurnar með boðorðunum tíu hafi andlit hans ljómað svo skært að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í hann. En síðar gerðist nokkuð sem var miklu alvarlegra því að „hugur þeirra varð forhertur“ og skýla hvíldi yfir hjörtum þeirra. Skýlunni er hins vegar svipt burt af hjörtum þeirra sem snúa sér einlæglega til Jehóva. Því næst talar Páll um þjónustuna sem aðilum nýja sáttmálans var falin: „Allir vér . . . með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins.“ (2. Korintubréf 3:6-8, 14-18; 2. Mósebók 34:29-35) ,Aðrir sauðir‘ Jesú fá einnig þann heiður að endurspegla dýrð Jehóva. — Jóhannes 10:16.

7. Hvernig geta menn endurspeglað dýrð Guðs?

7 Hvernig geta syndugir menn endurspeglað dýrð Guðs þó að enginn maður geti séð auglit hans og lífi haldið? (2. Mósebók 33:20) Dýrð Jehóva birtist í persónuleika hans og þeirri fyrirætlun að verja drottinvald sitt fyrir milligöngu Guðsríkis. Sannleikurinn um Guðsríki er hluti af ,stórmerkjum Guðs‘ sem boðuð voru af þeim sem fengu heilagan anda á hvítasunnu árið 33. (Postulasagan 2:11) Með leiðsögn andans gátu þeir fullnað þjónustuna sem þeim var falin. — Postulasagan 1:8.

8. Hvað var Páll staðráðinn í að gera?

8 Páll var staðráðinn í að láta ekkert koma í veg fyrir að hann fullnaði þjónustu sína. Hann skrifaði: „Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast. Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.“ (2. Korintubréf 4:1, 2) Þjónustan, sem Páll talar um, kemur því til leiðar að sannleikurinn er kunngerður og andlegu ljósi er dreift víða.

9, 10. Hvernig getum við endurspeglað dýrð Jehóva?

9 Páll skrifar um uppsprettu bókstaflegs og andlegs ljóss: „Guð, sem sagði: ‚Ljós skal skína fram úr myrkri!‘ — hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.“ (2. Korintubréf 4:6; 1. Mósebók 1:2-5) Þar sem við höfum fengið þann ómetanlega heiður að vera þjónar Jehóva skulum við halda okkur hreinum svo að við getum endurspeglað dýrð hans.

10 Þeir sem eru í andlegu myrkri geta hvorki séð dýrð Jehóva né hvernig hún endurspeglast í Jesú Kristi, hinum meiri Móse. En við, þjónar Jehóva, tökum við dýrlegu ljósi frá Biblíunni og endurköstum því til annarra. Þeir sem búa í andlegu myrkri þurfa ljós frá Guði til að komast undan eyðingu. Þess vegna hlýðum við fúslega boði Jehóva um að láta ljós lýsa í myrkrinu, honum til dýrðar.

Láttu ljós þitt lýsa á biblíunámskeiðum

11. Hvað sagði Jesús um það að láta ljós okkar lýsa og hvernig getum við gert það í boðunarstarfinu?

11 Jesús sagði fylgjendum sínum: „Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ (Matteus 5:14-16) Góð framkoma okkar getur fengið aðra til að vegsama Guð. (1. Pétursbréf 2:12) Við fáum einnig mörg tækifæri til að láta ljós okkar lýsa í ýmsum greinum boðunarstarfsins. Eitt helsta markmið okkar er að endurspegla andlegu ljósi frá orði Guðs með því að halda árangursrík biblíunámskeið í heimahúsum. Þetta er mjög mikilvæg leið til að fullna þjónustu okkar. Hvað getur hjálpað okkur að stjórna biblíunámskeiðum þannig að það snerti hjörtu sannleiksleitandi manna?

12. Hvernig tengist bænin biblíunámsstarfinu?

12 Við sýnum að okkur langar innilega til að halda biblíunámskeið með því að nefna það í bæn til Jehóva. Þannig sýnum við líka að við gerum okkur grein fyrir hve mikilvægt er að hjálpa öðrum að afla sér þekkingar á Guði. (Esekíel 33:7-9) Við megum vera viss um að Jehóva svarar bænum okkar og blessar einlæga viðleitni okkar í boðunarstarfinu. (1. Jóhannesarbréf 5:14, 15) En við biðjum ekki aðeins um að finna einhvern sem vill biblíunámskeið. Eftir að við höfum stofnað biblíunámskeið þurfum við að hugsa um þarfir nemandans og gera þær að bænarefni okkar svo að hver námsstund verði árangursrík. — Rómverjabréfið 12:12.

13. Hvað getur hjálpað okkur að stjórna biblíunámskeiði með góðum árangri?

13 Við þurfum einnig að undirbúa okkur vel í hvert skipti til að geta stjórnað biblíunámskeiði með góðum árangri. Ef okkur finnst við ekki vera nógu fær að einhverju leyti gætum við haft gagn af því að taka eftir hvernig bóknámsumsjónarmaðurinn fer yfir efni vikunnar. Stundum gætum við fengið að starfa með boðbera sem hefur náð góðum árangri í biblíunámsstarfinu. Við ættum auðvitað líka að gefa sérstaklega gaum að viðhorfi og kennsluaðferðum Jesú Krists.

14. Hvernig getum við náð til hjarta biblíunemandans?

14 Jesús hafði yndi af því að gera vilja föður síns á himnum og segja öðrum frá honum. (Sálmur 40:9) Hann var hógvær og náði vel til hjartna áheyrenda sinna. (Matteus 11:28-30) Leggjum okkur því fram um að ná til hjartna biblíunemenda okkar. Til þess þurfum við að undirbúa okkur fyrir hverja námsstund með aðstæður nemandans í huga. Ef hann kemur úr menningarsamfélagi sem almennt viðurkennir ekki Biblíuna verðum við að sannfæra hann um að hún sé sönn. Þá þurfum við augljóslega að lesa og útskýra marga ritningarstaði.

Hjálpaðu nemendum að skilja líkingar

15, 16. (a) Hvernig getum við hjálpað nemanda sem skilur ekki einhverja líkingu í Biblíunni? (b) Hvað getum við gert ef biblíunemandi á erfitt með að skilja líkingu sem er í riti okkar?

15 Biblíunemandi kannast kannski ekki við ákveðna líkingu sem er notuð í Biblíunni. Hann gæti ef til vill átt erfitt með að skilja hvað Jesús átti við þegar hann talaði um að setja ljós á ljósastiku. (Markús 4:21, 22) Jesús var að tala um gamaldags olíulampa með kveik. Þessir lampar voru settir á sérstakan stand til að lýsa upp ákveðið svæði hússins. Við gætum þurft að rannsaka efni í ritum okkar til að útskýra líkingu Jesú. Það er mjög gefandi að geta komið með útskýringu sem nemandinn skilur og kann að meta.

16 Í biblíunámsriti gæti verið líking sem nemandinn á erfitt með að skilja. Taktu þér tíma til að útskýra hana eða notaðu aðra líkingu sem kemur sömu hugmynd til skila. Segjum sem svo að í riti komi fram að í hjónabandi sé mikilvægt að eiga góðan maka og að hjónin séu samstillt. Brugðið er upp líkingu þar sem loftfimleikamaður sveiflar sér úr rólu og treystir því að félagi hans grípi hann. Önnur leið til að sýna fram á mikilvægi þess að eiga góðan félaga og sýna samstillt átak væri sú að tala um samvinnu þeirra sem afferma bát með því að handlanga kassa sín á milli.

17. Hvað getum við lært af Jesú um líkingar?

17 Ef við ætlum að nota aðra líkingu gætum við þurft að undirbúa okkur fyrir fram. Þannig sýnum við biblíunemandanum persónulegan áhuga. Jesús notaði einfaldar líkingar til að útskýra flókin mál. Í fjallræðunni eru góð dæmi um það og af Biblíunni sést að kennsla hans hafði góð áhrif á áheyrendurna. (Matteus 5:1–7:29) Jesús sýndi þolinmæði þegar hann útskýrði hluti vegna þess að hann hafði einlægan áhuga á öðrum. — Matteus 16:5-12.

18. Hvað er gott að gera þegar vísað er í ritningarstaði í ritum okkar?

18 Ef við höfum áhuga á öðrum langar okkur til að ,leggja út af ritningunum‘. (Postulasagan 17:2, 3) Til þess þurfum við að biðja og rannsaka vel ritin sem hinn „trúi og hyggni ráðsmaður“ veitir okkur. (Lúkas 12:42-44) Í bókum eins og Þekking sem leiðir til eilífs lífs er vitnað í marga ritningarstaði. * Vegna plássleysis eru sumir þeirra ekki útskrifaðir heldur aðeins vísað í þá. Mikilvægt er að lesa og útskýra að minnsta kosti suma ritningarstaðina fyrir biblíunemandanum af því að kennsla okkar byggist á orði Guðs og það er kröftugt. (Hebreabréfið 4:12) Vísaðu oft í Biblíuna í hverri námsstund og hikaðu ekki við að nota ritningarstaðina í efnisgreinunum. Beindu athygli nemandans að því sem Biblían segir um ákveðið mál eða ákveðna breytni. Leitastu við að sýna honum hvernig hann nýtur góðs af því að hlýða Guði. — Jesaja 48:17, 18.

Spyrðu viðhorfsspurninga

19, 20. (a) Hvers vegna er gott að spyrja biblíunemendur viðhorfsspurninga? (b) Hvað getum við gert ef við þurfum að ræða eitthvað betur?

19 Jesús var leikinn í að nota spurningar til að hjálpa fólki að rökhugsa. (Matteus 17:24-27) Ef við spyrjum viðhorfsspurninga án þess þó að gera biblíunemandann vandræðalegan geta svör hans leitt í ljós hvað honum finnst um málið. Við gætum komist að því að hann hefur enn óbiblíuleg viðhorf. Hann gæti til dæmis trúað á þrenningarkenninguna. Í 3. kafla Þekkingarbókarinnar er bent á að orðið „þrenning“ kemur hvergi fram í Biblíunni. Í bókinni er vísað og vitnað í ritningarstaði sem sýna að Jehóva og Jesús eru tvær aðskildar persónur og að heilagur andi er starfskraftur Guðs en ekki persóna. Hugsanlega nægir að lesa þessi vers og ræða um þau. En hvað ef meira þarf til? Þá gæti verið gott að taka frá tíma eftir næstu biblíunámsstund til að ræða um málið með hliðsjón af öðru riti Votta Jehóva eins og bæklingnum Ættum við að trúa á þrenninguna? Síðan getum við haldið náminu áfram í Þekkingarbókinni.

20 Setjum sem svo að svar biblíunemandans komi okkur á óvart eða valdi okkur jafnvel vonbrigðum. Þegar um reykingar eða önnur viðkvæm mál er að ræða gætum við lagt til að halda áfram að fara yfir námsefnið en ræða málið seinna. Ef við vitum að nemandinn reykir enn þá getum við fundið upplýsingar í ritum okkar sem geta hjálpað honum að taka framförum í trúnni. Ásamt því að leggja okkur fram um að ná til hjarta nemandans getum við beðið Jehóva að hjálpa honum að vaxa í trúnni.

21. Hver getur árangurinn orðið ef við lögum kennsluaðferðir okkar að þörfum biblíunemandans?

21 Með góðum undirbúningi og hjálp frá Jehóva getum við örugglega lagað kennsluaðferðir okkar að þörfum biblíunemandans. Með tímanum náum við hugsanlega að hjálpa honum að bindast Guði sterkum kærleiksböndum. Okkur gæti einnig tekist að vekja með honum þakklæti og virðingu fyrir skipulagi Jehóva. Það er einkar ánægjulegt þegar biblíunemendur viðurkenna að ‚Guð er sannarlega hjá okkur‘. (1. Korintubréf 14:24, 25) Við skulum því leggja okkur fram um að halda árangursrík biblíunámskeið og gera allt sem við getum til að hjálpa öðrum að verða lærisveinar Jesú.

Fjársjóður sem við metum mikils

22, 23. Hvað þurfum við til að fullna þjónustu okkar?

22 Til að fullna þjónustu okkar verðum við að treysta á kraft Guðs. Páll skrifaði andasmurðum kristnum mönnum í sambandi við þjónustuna: „Þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.“ — 2. Korintubréf 4:7.

23 Hvort sem við tilheyrum hinum andasmurðu eða ‚öðrum sauðum‘ erum við eins og viðkvæm leirker. (Jóhannes 10:16) En Jehóva getur gefið okkur þann kraft sem við þurfum til að sinna verkefnum okkar þrátt fyrir mótlæti. (Jóhannes 16:13; Filippíbréfið 4:13) Við skulum því treysta algerlega á Jehóva, fullna þjónustu okkar og meta hana mikils.

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Gefin út af Vottum Jehóva.

Hverju svarar þú?

• Hvað geta öldungar gert til að fullna þjónustu sína?

• Hvernig getum við gert biblíunámskeið okkar árangursríkari?

• Hvað myndir þú gera ef biblíunemandi þinn skilur ekki ákveðna líkingu eða vill fá frekari upplýsingar um ákveðið mál?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Kristnir öldungar kenna í söfnuðinum og þjálfa aðra í þjónustunni.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Ein leið til að láta ljós okkar lýsa er að halda árangursrík biblíunámskeið.