Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Gjör verk trúboða“

„Gjör verk trúboða“

„Gjör verk trúboða“

„Ver þú algáður í öllu, . . . gjör verk trúboða.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:5.

1. Hvaða verkefni fól Jesús fylgjendum sínum?

NAFN JEHÓVA og fyrirætlun hans er kunngert um alla jörðina. Það er gert vegna þess að vígðir þjónar Guðs hafa tekið alvarlega verkefnið sem Jesús Kristur fól fylgjendum sínum þegar hann sagði: „Farið . . . og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ — Matteus 28:19, 20.

2. Hvaða leiðbeiningar fékk öldungurinn Tímóteus og hvernig geta kristnir öldungar fullnað þjónustu sína?

2 Lærisveinar Jesú á fyrstu öldinni tóku þetta verkefni alvarlega. Páll postuli hvatti Tímóteus, samöldung sinn: „Gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.“ (2. Tímóteusarbréf 4:5) Ein leið fyrir öldunga nú á dögum til að fullna þjónustu sína er að vera kappsamir boðberar fagnaðarerindisins og fara reglulega út í boðunarstarfið. Bóknámsumsjónarmaðurinn hefur það gefandi starf að fara með forystuna í prédikunarstarfinu og þjálfa aðra. Páll sinnti þeirri ábyrgð sinni að boða fagnaðarerindið og þjálfaði aðra í boðunarstarfinu. — Postulasagan 20:20; 1. Korintubréf 9:16, 17.

Ötulir trúboðar fyrr á tímum

3, 4. Nefndu sumt af því sem Filippus gerði í trúboðsstarfinu.

3 Frumkristnir menn voru þekktir sem kappsamir trúboðar. Tökum trúboðann Filippus sem dæmi. Hann var einn hinna ,sjö vel kynntu manna sem voru fullir anda og visku‘ og höfðu fengið það verkefni að sjá um að daglega væri mat úthlutað jafnt til hebresku- og grískumælandi kristinna ekkna í Jerúsalem. (Postulasagan 6:1-6) Þegar þessu sérstaka verkefni var lokið og allir nema postularnir höfðu dreifst vegna ofsókna fór Filippus til Samaríu. Þar flutti hann fagnaðarerindið og í krafti heilags anda læknaði hann lamaða og raka út illa anda. Margir Samverjar tóku við fagnaðarerindinu og létu skírast. Þegar postularnir í Jerúsalem fréttu af þessu sendu þeir þá Pétur og Jóhannes til Samaríu til þess að hinir nýskírðu gætu fengið heilagan anda. — Postulasagan 8:4-17.

4 Andi Guðs leiddi Filippus síðan til eþíópíska hirðmannsins sem var staddur á veginum til Gasa. Þegar Filippus hafði útskýrt spádóm Jesaja vandlega fyrir þessum ‚höfðingja hjá Kandake, drottningu Eþíópa‘, tók hann trú á Jesú Krist og lét skírast. (Postulasagan 8:26-38) Því næst fór Filippus til Asdód og „flutti fagnaðarerindið í hverri borg, uns hann kom til Sesareu“. (Postulasagan 8:39, 40) Hann var svo sannarlega góð fyrirmynd í að gera verk trúboða.

5. Fyrir hvað voru dætur Filippusar aðallega þekktar?

5 Tveimur áratugum síðar var Filippus enn virkur í boðunarstarfinu í Sesareu. Þegar Páll og Lúkas gistu hjá honum átti hann „fjórar ógiftar dætur, gæddar spádómsgáfu“. (Postulasagan 21:8-10) Þær höfðu greinilega fengið góða andlega leiðsögn, voru duglegar í boðunarstarfinu og höfðu jafnvel fengið þann heiður að vera gæddar spádómsgáfu. Kostgæfni foreldra í boðunarstarfinu getur haft góð áhrif á syni og dætur og hvatt þau til að gera boðunarstarfið að ævistarfi sínu.

Ötulir trúboðar nú á tímum

6. Hvaða árangri náðu trúboðar á fyrstu öldinni?

6 Jesús Kristur sagði í hinum mikla spádómi sínum um tíma endalokanna og okkar daga: „Fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ (Markús 13:10) Endirinn myndi koma eftir að fagnaðarerindið hefði verið prédikað „um alla heimsbyggðina“. (Matteus 24:14) Þegar Páll og aðrir frumkristnir trúboðar boðuðu fagnaðarerindið tóku margir trú og söfnuðir voru stofnaðir víðs vegar í Rómaveldi. Útnefndir öldungar í þessum söfnuðum tóku þátt í boðunarstarfinu með trúsystkinum sínum og boðuðu fagnaðarerindið víða. Orð Jehóva efldist og breiddist út á þeim dögum alveg eins og það gerir núna, vegna þess að milljónir vottar Jehóva gera verk trúboða með gleði. (Postulasagan 19:20) Hefur þú tekið afstöðu með þeim sem lofa Jehóva?

7. Hvað verk vinna boðberar Guðsríkis nú á tímum?

7 Margir boðberar Guðsríkis nýta sér tækifæri sem þeir fá til að færa út kvíarnar í boðunarstarfinu. Þúsundir hafa gerst trúboðar og hundruð þúsunda boða trúna í fullu starfi sem brautryðjendur eða aðstoðarbrautryðjendur. Einnig vinna karlar, konur og börn gott starf sem kappsamir boðberar Guðsríkis. Já, allir þjónar Jehóva njóta ríkulegrar blessunar hans fyrir að boða fagnaðarerindið einhuga. — Sefanía 3:9.

8. Að hvaða merkingu er unnið núna og hverjir sinna því?

8 Guð hefur falið andasmurðum fylgjendum Jesú þá ábyrgð að boða fagnaðarerindið um alla jörðina. Ört vaxandi hópur ,annarra sauða‘ Krists styður þá í þessu trúboðsstarfi. (Jóhannes 10:16) Í spádómi er þessu björgunarstarfi líkt við það að setja merki á enni þeirra sem andvarpa og kveina yfir þeim svívirðingum sem eiga sér stað. Bráðum verða hinir illu afmáðir. En þangað til er svo sannarlega mikill heiður að fá að flytja jarðarbúum sannleikann sem getur bjargað lífi þeirra. — Esekíel 9:4-6, 11.

9. Hvernig er hægt að hjálpa nýjum í boðunarstarfinu?

9 Ef við höfum tekið þátt í boðunarstarfinu um þó nokkurn tíma getum við að öllum líkindum lagt okkar af mörkum til að hjálpa nýjum í söfnuðinum. Við gætum til dæmis boðið þeim að fara með okkur í boðunarstarfið. Öldungar ættu að leggja sig alla fram um að styrkja trúsystkini sín andlega. Auðmjúkir öldungar geta gert mikið til að stuðla að því að aðrir verði iðnir boðberar og nái góðum árangri í boðunarstarfinu. — 2. Pétursbréf 1:5-8.

Vitnað hús úr húsi

10. Hvernig gáfu Jesús og postularnir gott fordæmi í boðunarstarfinu?

10 Jesús Kristur var fylgjendum sínum frábær fyrirmynd sem trúboði. Orð Guðs segir um boðunarstarf Jesú og postulanna: „Fór hann um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf.“ (Lúkas 8:1) En hvað gerðu postularnir? Eftir að heilögum anda var úthellt á hvítasunnu árið 33 „létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur“. — Postulasagan 5:42.

11. Hvernig boðaði Páll fagnaðarerindið samkvæmt Postulasögunni 20:20, 21?

11 Páll postuli var kostgæfinn í trúboðsstarfinu og gat því sagt við kristnu öldungana í Efesus: „Ég dró ekkert undan, sem yður mátti að gagni verða, heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum.“ Er hér verið að tala um að Páll hafi farið í hirðisheimsóknir til trúsystkina? Nei, því hann segir í framhaldinu: „[Ég] vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.“ (Postulasagan 20:20, 21) Þeir sem voru þegar vígðir Jehóva hefðu almennt ekki þurft að fá fræðslu um „afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú“. Páll þjálfaði kristna öldunga frá Efesus í boðunarstarfinu hús úr húsi um leið og hann fræddi vantrúaða um iðrun og trú. Þannig tileinkaði hann sér aðferðina sem Jesús notaði.

12, 13. Hvað hafa þjónar Jehóva gert í samræmi við Filippíbréfið 1:7 til að tryggja rétt sinn til að prédika?

12 Það getur verið erfitt að fara í boðunarstarfið hús úr húsi. Sumir geta verið ergilegir þegar við bönkum upp á til að flytja þeim boðskap Biblíunnar. Auðvitað langar okkur ekki til að ergja neinn. En boðunarstarfið hús úr húsi er biblíulegt fyrirkomulag og kærleikur til Guðs og náungans vekur með okkur löngun til að vitna fyrir öðrum á þennan hátt. (Markús 12:28-31) Til að ‚verja og staðfesta‘ lagalegan rétt okkar til að prédika hús úr húsi höfum við sótt mál fyrir dómstólum. (Filippíbréfið 1:7) Einn þeirra er Hæstiréttur Bandaríkjanna en hann hefur næstum alltaf dæmt okkur í vil. Eftirfarandi úrskurður er gott dæmi um það:

13 „Dreifing trúarlegra rita er aldagömul trúboðsaðferð — jafngömul prentlistinni. Hún hefur árum saman verið áhrifamikið verkfæri ýmissa trúarhreyfinga. Þessi trúboðsaðferð er mikið notuð núna af ýmsum sértrúarsöfnuðum sem senda farandbóksala til að flytja mörg þúsund heimilum fagnaðarerindið og vinna fólk til liðs við trú sína með því að heimsækja það persónulega. . . . Samkvæmt fyrsta breytingarákvæði [bandarísku stjórnarskrárinnar] á þessi trúarstarfsemi jafnmikinn rétt á sér og tilbeiðsla í kirkjum og prédikun úr pontu.“ — Murdock gegn Pennsylvaníu, 1943.

Hvers vegna höldum við áfram að prédika?

14. Hvaða áhrif getur boðunarstarf okkar haft?

14 Við höfum margar ástæður til að vitna hús úr húsi. Í hvert sinn sem við förum til húsráðanda reynum við að sá sannleiksfræjum. Síðan reynum við að vökva þau með því að fara í endurheimsóknir. Þetta getur smám saman haft góð áhrif á húsráðandann því Páll sagði: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.“ (1. Korintubréf 3:6) Við skulum því halda áfram að gróðursetja og vökva, vitandi að Guð gefur vöxtinn.

15, 16. Hvers vegna heimsækjum við fólk aftur og aftur?

15 Við gerum verk trúboða af því að við vitum að mannslíf eru í húfi. Með því að prédika getum við gert sjálf okkur hólpin og áheyrendur okkar. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Myndum við aðeins gera eina slaka tilraun til að bjarga þeim sem við vissum að væri í lífshættu? Auðvitað ekki. Við heimsækjum fólk aftur og aftur af því að við vitum að hjálpræði þeirra er undir því komið. Aðstæður eru sífellt að breytast. Sá sem er of upptekinn til að hlusta við eitt tækifæri gæti verið tilbúinn til að hlusta á boðskap Biblíunnar seinna. Einhver annar í fjölskyldunni gæti líka komið til dyra og þá gæti gefist tækifæri til að ræða við hann um Biblíuna.

16 Það eru ekki aðeins aðstæður húsráðanda sem geta breyst heldur einnig viðhorf hans. Sársaukafullur ástvinarmissir gæti til dæmis fengið hann til að hlusta á boðskapinn um Guðsríki. Við vonumst til að geta hughreyst hann, gert honum grein fyrir andlegri þörf sinni og bent honum á hvernig hægt sé að svala henni. — Matteus 5:3, 4, NW.

17. Hver er helsta ástæðan fyrir því að við prédikum?

17 Við vitnum hús úr húsi og sinnum öðrum þáttum boðunarstarfsins fyrst og fremst vegna þess að okkur langar að taka þátt í að kunngera nafn Jehóva. (2. Mósebók 9:16; Sálmur 83:19) Það er svo sannarlega gefandi að geta með boðunarstarfi okkar hjálpað þeim sem elska sannleika og réttlæti að gerast tilbiðjendur Jehóva. Sálmaritarinn söng: „Bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar! Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.“ — Sálmur 148:12, 13.

Við njótum sjálf góðs af boðunarstarfinu

18. Hvaða gagn höfum við af boðunarstarfinu?

18 Við höfum að mörgu leyti sjálf gagn af því að gera verk trúboða. Þegar við boðum fagnaðarerindið hús úr húsi höfum við tækifæri til að temja okkur auðmýkt, sérstaklega þegar ekki er tekið vel á móti okkur. Til að ná árangri í boðunarstarfinu þurfum við að líkja eftir Páli sem ‚varð öllum allt, til þess að hann gæti frelsað nokkra‘. (1. Korintubréf 9:19-23) Þegar við öðlumst reynslu í boðunarstarfinu verðum við nærgætin. Með því að treysta á Jehóva og vanda orðaval okkar getum við farið eftir orðum Páls: „Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ — Kólossubréfið 4:6.

19. Hvernig hjálpar heilagur andi boðberum fagnaðarerindisins?

19 Boðunarstarfið fær okkur einnig til að treysta á heilagan anda Guðs. (Sakaría 4:6) Fyrir vikið sýnum við ávöxt hans þegar við prédikum, það er að segja ‚kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og bindindi‘. (Galatabréfið 5:22, 23) Heilagur andi hefur áhrif á samskipti okkar við aðra því að ef við lútum leiðsögn hans þegar við boðum fagnaðarerindið hjálpar hann okkur að sýna kærleika, vera glöð og friðsöm, auðsýna gæsku og góðvild, vera hógvær og langlynd og temja okkur trúmennsku og sjálfstjórn.

20, 21. Hvaða gagn höfum við af því að vera upptekin af boðunarstarfinu?

20 Önnur blessun, sem boðberar hljóta, er sú að þeir verða hluttekningarsamari. Þegar fólk segir okkur frá vandamálum eins og atvinnuleysi, veikindum eða erfiðleikum á heimilinu setjum við okkur ekki í stellingar ráðgjafa heldur sýnum því hughreystandi og uppörvandi ritningarstaði. Okkur er umhugað um fólk sem hefur verið blindað andlega en virðist elska réttlætið. (2. Korintubréf 4:4) Það er svo sannarlega ánægjulegt að fá að hjálpa hjartahreinum mönnum.

21 Regluleg þátttaka í boðunarstarfinu auðveldar okkur að einbeita okkur að andlegum málum. (Lúkas 11:34) Þetta er mjög mikilvægt því annars gætum við freistast til að láta undan efnishyggjunni sem er ríkjandi í heiminum. Jóhannes postuli hvatti kristna menn: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum. Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Ef við erum upptekin af boðunarstarfinu og síauðug í verki Drottins er minni hætta á að við förum að elska heiminn. — 1. Korintubréf 15:58.

Safnið fjársjóðum á himni

22, 23. (a) Hvaða fjársjóðum safna kristnir boðberar? (b) Um hvað verður fjallað í næstu grein?

22 Það hefur varanlegt gildi að boða Guðsríki af kostgæfni. Jesús lagði áherslu á þetta þegar hann sagði: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“ — Matteus 6:19-21.

23 Höldum áfram að safna okkur fjársjóðum á himni. Við vitum að það er ekki til meiri heiður en sá að vera vottar og fulltrúar Jehóva, alvalds Drottins okkar. (Jesaja 43:10-12) Þegar við sem þjónar Guðs sinnum verkefni okkar gæti okkur verið innanbrjósts eins og kristinni konu á tíræðisaldri sem sagði eftir langa ævi í þjónustu Guðs: „Ég þakka Jehóva fyrir að umbera mig öll þessi ár og bið þess heitt að hann verði kærleiksríkur faðir minn að eilífu.“ Eins viljum við gera verk trúboða kostgæfilega af því að okkur er innilega annt um samband okkar við Guð. Í næstu grein verður fjallað um hvernig við getum fullnað þjónustu okkar.

Hvert er svarið?

• Hvers vegna ættum við að gera verk trúboða?

• Hvað geturðu sagt um starf boðbera núna og fyrr á tímum?

• Hvers vegna prédikum við hús úr húsi?

• Hvernig nýtur þú góðs af því að gera verk trúboða?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 18]

Trúboðar eins og Filippus og dætur hans eiga sér hliðstæðu nú á dögum.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Hvernig nýtur þú góðs af því að segja öðrum frá fagnaðarerindinu?