Trúarbrögð — eru þau til góðs eða ills?
Trúarbrögð — eru þau til góðs eða ills?
„ÉG STEND í þakkarskuld við kristnina og ég tel að heimurinn, sem við höfum búið í undanfarin 2000 ár, geri það einnig.“ — Úr formála bókarinnar Two Thousand Years — The First Millennium: The Birth of Christianity to the Crusades.
Enski rithöfundurinn og sjónvarpsþáttaframleiðandinn Melvyn Bragg lét þessi jákvæðu orð falla um „kristnina“. Umæli hans endurspegla afstöðu milljóna jarðarbúa sem eru hollir trú sinni og finnst þeir standa í mikilli þakkarskuld við hana. Þeir eru sannfærðir um að trúin hafi haft góð áhrif á líf þeirra. Rithöfundur segir til dæmis að Múhameðstrú „hafi stuðlað að stórbrotinni siðmenningu . . . [sem hafi] auðgað allan heiminn“.
Hlutverk trúarbragða — gott eða slæmt?
Það sem Melvyn Bragg segir í framhaldinu vekur hins vegar þá spurningu hvort trúarbrögð hafi verið til góðs á heildina litið. Hann segir: „En það er líka margt sem mér finnst kristnin þurfa að svara fyrir.“ Fyrir hvað þarf hún að svara? „Fyrir umurðarleysið, illskuna, ómannúðina og hið vísvitandi skeytingarleysi sem hefur einnig sett svip sinn á sögu hennar,“ segir hann.
Margir myndu segja að umburðarleysi, illska, ómannúð og vísvitandi skeytingarleysi hafi einkennt sögu flestra trúarbragða heims. Þeir líta svo á að trúarbrögðin þykist aðeins vera velgerðamaður mannkyns en undir grímu dyggðar og heilagleika búi í raun hræsni og lygar. (Matteus 23:27, 28) „Ekkert er fullyrt oftar í bókmenntum okkar en að trúarbrögðin hafi sérstakt gildi fyrir siðmenninguna,“ segir alfræðiorðabók. „En engin önnur fullyrðing hefur verið afsönnuð jafnótvírætt af staðreyndum mannkynssögunnar.“ — A Rationalist Encyclopædia.
Í dagblöðunum lesum við oft um trúarleiðtoga sem prédika kærleika, frið og umhyggju en kynda undir hatri og ákalla nafn Guðs til að réttlæta grimmileg átök. Það er engin furða að mörgum finnist trúarbrögðin oftar en ekki hafa skaðleg áhrif.
Værum við betur sett án trúarbragða?
Sumir eru jafnvel sömu skoðunar og enski heimspekingurinn Bertrand Russell sem
sagði að gott væri ef „allar trúarhugmyndir [myndu] deyja út“ með tímanum. Þeir líta svo á að eina varanlega lausnin á vandamálum mannkyns sé sú að afnema öll trúarbrögð. Þeir horfa hins vegar fram hjá þeirri staðreynd að trúleysingjar geta sýnt jafnmikið hatur og umburðarleysi og trúað fólk. Karen Armstrong, sem skrifar um trúmál, sagði: „Helförin sýndi í það minnsta að veraldleg hugmyndafræði [getur] verið banvæn, ekki síður en trúarlegar krossferðir.“ — The Battle for God — Fundamentalism in Judaism, Christianity and Islam.Eru trúarbrögð þá af hinu góða eða eru þau í raun undirrót vandamála mannkynsins? Er lausnin sú að afmá öll trúarbrögð? Í næstu grein geturðu lesið hvað Biblían segir um málið. Svörin gætu komið þér á óvart.